Fjölskylda mín og.............

Hér koma ýmsar minningar og upplýsingar um fjölskyldu mína, skráðar eftir minni og frá völdum dagbókarfærslum, sendibréfum og frásögnum frá segulbandsupptökum þar sem talað var inn á, á "rauntímum"

Faðir minn hóf snemma að vinna fyrir sér og strax á unga aldri hóf hann störf hjá Hinrik Thorarensen og komst þar fljótt til metorða. (Nýja Bíó)

þegar faðir minn var tæplega 19 ára ákvað hann að byggja hús á lóð sem í upphafi var merkt Hvanneyrarbraut 25b, og stofna þar fjölskyldu. (síðar Mjóstræti 1)

Hann fékk í lið með sér hálfbróðir sinn Garðar Hannesson og hóf verkið sem lauk á rétt fokheldu stíllausu tveggja hæða steinsteyptu húsi, vorið 1933. En þá voru allir peningarnir búnir.

Væntingar föður míns til bróður síns um þátttöku, brugðust að því leiti að hann gat ekki staðið í skilum með sinn hlut lánagreiðslna.
Garðar var trillusjómaður og starfaði við síldarverksmiðjuna Gránu sem pressumaður og hafði drjúgar tekjur yfir sumarmánuðina. En peningar Garðars fóru að mestu í drykkju og svall og gat hann því ekki staðið við þær skuldbindingar sem hann tók á sig í upphafi.

Garðar var góður og traustur maður, en félagi hans Bakkus náði yfirhöndinni.

Hann bjó þó síðar til margra ára í einu herbergi hússins sem leigjandi. Þannig fékk Garðar til baka andvirði peninganna sem hann hafði áður lagt í byggingu hússins í upphafi.

Faðir minn var orðinn peningalaus eins og áður segir, ný trúlofaður móður minni með mig undir belti og engir peningar fáanlegir til að gera neðri hæðina íbúðarhæfa.

Þar hafði verið ákveðið að ég skyldi fæðast, sem og rættist þó árið eftir, þann  21. Febrúar 1934.

En úr rættist. Hinrik Thorarensen, vinnuveitandi föður míns bauðst til að kaupa efri hæðina. Það gerði hann og flutti þar inn síðar eftir að hafa látið innrétta íbúðina.

Faðir minn fékk við það peninga sem dugðu til að innrétta neðri hæðina og fluttu foreldrar mínir þar inn rétt fyrir jólin 1933. Árið eftir fæddist svo garpurinn ég, þann 21. febrúar í sama herbergi og ég svo dvaldi þar til ég stofnaði eigið heimili. Nafni lóðar og húss var síðar breytt úr Hvanneyrarbraut 25b, í Mjóstræti 1.

Löngu eftir að foreldrar mínir seldu húsið um 25 árum síðar og höfðu keypt íbúð við Hvefisgötu 1, var húsið við Mjóstræti 1 brennt af brennuvargi, allt sem var úr timbri, innan steinveggjanna, brann og í kjölfarið var húsið brotið niður.

Móðir mín, Valborg Steingrímsdóttir fæddist á Þverá í Öxnadal. Móðir hennar var Guðný Jóhannsdóttir var frá Sauðárkróki, en eiginmaður hennar var bóndi á Þverá í Öxnadal. Hann hét Steingrímur Stefánsson

Hún hafði verið á Sauðárkrók í heimsókn hjá ættingja, þá ófrísk af móður minni. - Þegar tími fæðingar nálgaðist hélt hún af stað til Eyjafjarðar til bónda síns sem hafði legið þar veikur um tíma.

Hún fékk far með hestasleða til Varmahlíðar, þaðan hélt hún ein af stað gangandi á skíðum áleiðis til Þverár í Öxnadal þann 31. janúar 1914 . Þangað náði hún seint um kvöldið frekar köld og hrakin. Úrkomulaust var en frostnepja á leiðinni yfir Öxnadalsheiðina.

Hún hresstist þó fljótt. Daginn eftir, 1. febrúar 1914 fæddi hún móður mína aðeins fyrr en áætlað hafði verið. Fyrir áttu þau afi og amma, þau Steingrímur Stefánsson og Guðný Jóhannsdóttir einn son, Baldur Steingrímsson, síðar rafvirkjameistara.

Nýja Bíó á Siglufirði.

Frá árinu 1926 starfaði pabbi, þá 12 ára við Nýja Bíó og stundaði þar ýmis störf, allt frá sendilstörfum, mótorvörslu, dyravörslu, aðgöngumiðasölu og afgreiðslu jafnhliða í skóbúð Thorarensen, síðar í tóbakseinkasölunni við afgreiðslu og bókhaldið, en Thorarensen var með þann rekstur fyrir Tóbakseinkasölu ríkisins.

Kona mín og börnin okkar þrjú

Kona mín og börnin okkar þrjú

(faðir minn hafði, mjög vel læsilega og fallega rithönd, strax sem unglingur)

Frá árinu 1928 starfaði hann einnig sem sýningarmaður í hjáverkum.

Síðar fór pabbi til náms í útvarpsvirkjun, fyrst við norskan bréfaskóla og útskrifaðist síðar í Reykjavík hjá Landsíma Íslands sem fullgildur útvarpsvirki.

Eftir heimkomuna tók hann alfarið við sýningunum og stundaði þær ásamt útvarpsvinnustofu sinni til dauðadags árið 1980.

Jonna systir giftist ung, Birgi Gestsyni rafvirkjameistara. Hann lést fyrir aldur fram vegna veikinda. Þau eignuðust eina dóttur, Valborgu. Jonna flutti suður til Reykjavíkur og vann lengi þar hjá Hampiðjunni. Síðar við ýmis störf tengt verslun.

Hulda systir, skrapp ung á vertíð í Eyjum. Þar kynntist hún ungum bóndasyni frá bæ við Dyrhólaey, og giftist honum nokkrum mánuðum síðar. Hún missti mann sinn sem lést af völdum voðaskots. Hulda átti með honum fimm börn. Hulda hefur lengst af starfað sem dagmóðir á heimili sínu í Kópavogi. og unnið ýmis störf á skrifstofu bæjarins

Uppeldisárin.

Ég held ég megi fullyrða að ég hafi notið hlýju og ástar á heimili mínu, svona eins og ætla má, að hafi verið á flestum heimilum. Það voru auðvitað boð og bönn á heimili pabba og mömmu, eins og gengur, boð og bönn sem einnig voru brotin stundum.

Ég varð fljótt frekar baldinn og óhlýðinn, sennilega það sem síðar var kallað af "nútíma sérfræðingunum" (?) "ofvirkur" það er ég var ekki alltaf sáttur við það sem mér þótti óþarfa stjórnsemi, td. að verða að hætta við að lesa spennandi sögu klukkan þetta og hitt af því að ég þyrfti að vakna snemma í skólann að morgni.

Einnig var ég oft skammaður fyrir að taka hin ýmsu heimilistæki til rannsóknar, skrúfa þau í sundur og setja aftur saman, jafnvel útvarpstækið á heimilinu var grandskoðað föður mínum til hrellingar þar sem viðkomandi útvarpstæki hafði verið sveinstykkið hans til útvarpsvirkja.

Ég var mikill bókahákur og las nánast allt sem ég komst yfir nema skólabækurnar. Þær voru lítið spennandi að mínu mati og allt of margt þar sem taldi, ekkert gagn vara af að læra.

Enda varð raunin sú að skólaganga mín og einkunnir voru oft fyrir neðan meðallag og stundum langt þar fyrir neðan, þó mun betri í barnaskólanum, heldur í 1. bekk Gagnfræðaskólans, þar fékk ég falleinkunn, ásamt 13 öðrum nemendum.

Ég var stundum argur yfir öllum skömmunum vegna þessarar lærdómsleti minnar, bæði frá kennurum og ekki síður frá foreldrum. Móðir mín byrjaði snemma á því að kenna mér stafrófið og síðan lestur. Þar gerði ég mér grein fyrir, að var bæði gagn og gaman.

Ég var sem barn mjög blæstur á máli, ég var þvoglumæltur sem breyttist þó mikið til batnaðar eftir að ég lærði að lesa. Fyrst hjá mömmu 4-5 ára og síðan í einkatíma, þá 6 ára hjá Guðmundi Sigurðssyni, (síðar verkstjóri hjá SR.) Og þar á eftir í Barnaskólanum 7 ára, eins og lög gerðu ráð fyrir.

Á þessum tímum, var mikið gert af því að láta börnin lesa upphátt í tíma. Meira þá en nú til dags má ætla ef marka má árangurinn þar sem allt of mörg börn og unglingar eru vart talandi á alvöru íslenska tungu. Raunar á það einnig við marga aðra þó komnir séu á aldur fullorðinna, samber fulltrúar félagasamtaka, embættismenn og allt of margir alþingismenn + viðmælendur ýmsir sem fram koma í fjölmiðlum.

Ég var mjög blæstur á máli framan af eins og áður er nefnt. Ég talaði óskýrt. Ég varð fyrir miklu einelti þess vegna og var mikið strítt af eldri krökkum, jafnvel fullorðnu fólki sem var í nöp við mig og var kallaður ýmsum „hrekkinöfnum“ sem ég man ekki hver voru nema eitt þeirra sem er mér minnistætt.

Það er uppnefnið „Untfifnanafna“ (ekki illa meint) sem vinur minn Haraldur Árnason, (Shell) gaf mér. Hann var nokkrum árum eldri en ég og hafði reynst mér góður. Nafnið festist um tíma við mig, sérstaklega þegar drengir mér eldri töldu ástæðu til að hegna mér.

Tildrög þessarar nafngiftar voru þau að ég var að leik, slábolta ásamt fleirum í hverfinu og var spurður af ókunnum manni eftir ábendingu frá Halla, hvar Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki ætti heima. Ég benti á húsið Mjóstræti 1 og sagði þvoglumæltur sem heyra mátti framborið sem „untfifnanafna“ og benti. Ég ætlaði auðvitað að segja; „húsinu þarna“

Halli var fljótur að ná þessu og fór eins og áður segir að kalla mig þessu „untfifnanafna“ nafni, og var mikið hlegið af.

En hún var hörð skelin í kollinum á mér og ég tók þetta ekki inn á mig. Enda gerði ég mér grein fyrir því, að þetta var ekki beint illa meint hjá Halla. Það sannaði vinátta okkar allt þar til þess er hann lést.

Í barnaskólanum var ég ekki í miklu uppáhaldi hjá kennurum vegna óhlýðni, eftirtektarleysi, hrekkjum og óþægilegu orðahreti þegar ég taldi mig órétti beittan.

Þó voru þarna nokkrir starfsmenn barnaskólans sem „kunnu lagið á mér.“ það var Helgi Sveinsson íþróttakennari, ég bar ávalt mikla virðingu fyrir honum og gerði ávalt eins og hann bað um.

Hjúkrunarkonurnar Ragna Bachman og Katrín Pálsdóttir sem mér fannst koma fram við mig af skilningi þó svo að þær ættu það til að skamma mig stundum, en þær gerðu það með vinsamlegra viðmóti en flestir aðrir kennararnir í skólanum.

Arnfinna og Bodil Juul, Kristján og nokkrir fleiri kennarar voru ekki í miklu uppáhaldi hjá nokkrum strákanna og alls ekki hjá mér sem sennilega hefði í dag, verið sagður alvarlega ofvirkur, hvað samband mitt við þau varðar.

Tryggvi Kristinsson var þarna á meðal góðra manna í hugskoti þess ofvirka. Þrátt fyrir að hann hafi neyðst til að vísa mér alfarið úr söngtímum og þátttöku í barnakór skólans.

Ég hafði mikla ánægja af því að syngja og var ófeiminn á þeim nótunum og söng td. hástöfum í baðinu heima og lét vel í mér heyra í leikfimi hjá Helga Sveins þegar sungið var lagið „Öxar við ána“ við inngöngu í leikfimisalinn.

það var eftir annan tíma minn við söngæfingar barnakórs skólans hjá Tryggva kennara.

Í barnakórinn, bættist árlega við einn nýr árgangur. Komið var að mínum árgangi til að syngja og troða síðan upp við skólaslit og önnur tækifæri. Tryggvi kom þá til mín og settist hjá mér, klappaði góðlátlega á öxl mína og sagði blíðum rómi.

„Steingrímur minn, nú er ekki nema um tvennt að velja, annað hvort verður þú að hætta að syngja eða við öll hin“

Ég horfði um stund í augu hans án þess að átta mig á meiningu þessarar orða hans.

(eitt af því sem sumir kennarar þoldu ekki eða pirruðu þá, var að ég horfði alltaf hvasst í augu þeirra þegar þeir skömmuðu mig)

En vingjarnlegt andlit hans sagði mér að bíða frekari upplýsinga, án þess að tjá mig sjálfur vegna þessa ummæla.

Skýringin kom hægt og greinilega frá munni hans. Hann skírði fyrir mér hlýlega og á vel skiljanlegan máta að ég væri greinilega laglaus með öllu. Ég væri ófeiminn að syngja og léti vel í mér heyra og krakkarnir fylgdu mér eftir. Gallinn væri bara sá að ég færi með rangar laglínur, það er söngur minn væri falskur.

Þetta voru mér mikil vonbrigði, ég sannfærðist um það að Tryggvi vissi hvað hann var að segja mér. Ég fór einnig að skilja hvernig hafi staðið á því að mamma mín hafi oft spurt mig hvort hún mætti ekki halla hurðinni þegar ég var að syngja heima. Og af hverju Helgi Sveins hefði svo oft beðið mig að syngja ekki svona hátt, í byrjun leikfimitíma.

Við Tryggvi vorum sáttir og vinir þrátt fyrir þetta. Ég var með þeim fáu sem fóru vel yfir meðaleinkunn í leikfimi hjá Helga Sveins, en neðan við meðaltalið í flestum öðrum greinum.

Talsverðu einelti og stríðni varð ég fyrir vegna þessa „brottrekstrar“ úr söngtímum. Það náði þó ekki djúpt í huga mér frekar en annað mótlæti sem mér fannst ég vera beittur, ég bölvaði bara í hljóði eða svaraði fullum hálsi þegar við átti.

Ég fór fljótlega að velja mér leikfélaga sem voru svona 1-3 árum yngri en ég, bæði vegna eineltis frá sumum sem ég hefði gjarnan viljað vera með í hópi. Og ef til vill var þroski minn ekki kominn á sama stig og jafnaldranna. Þetta fannst mér innst inni.

Á þessu voru þó nokkrar undantekningar, en ég eignaðist nokkra góða vini á yngri árum sem voru ýmist jafn gamlir eða aðeins eldri. Þar má nefna fremstan í flokki Valbjörn Þorláksson, Henning Bjarnason og Einar Helga Indriðason.

Þá var einn talsvert eldri en ég sem ég laðaðist að, það var þó meira að hans frumkvæði miðað við það sem ég átti að venjast.

Eins og áður segir fæddist ég þann 21. febrúar 1934 - Ég giftist konu minni Guðnýju Ósk Friðriksdóttur (060632) er ég var 20 ára, og þurfti til þess skriflegt leyfi forseta, en þá var "löggiltur" aldur til giftingar 21 ár. Kona mín lést þann 26. september 2015 eftir um 63ja ára samveru. (gift í 62 ár)

Börnin okkar Guðnýjar eru þrjú. (myndir hér fyrir ofan) Hellingur af barna og barnabörnum hafa skotið út kollinum, fjöldi sem ég hefi ekki tölu á frekar en öllum afmælisdögunum. Það er ekki mín deild sagði ég konu minni og brosi. Það var hennar deild að fylgjast með! Hún hafði alla tíð séð um að kaupa gjafir og halda utan um afmælisdagana og öllu slíku tilheyrandi.

Einu undantekningarnar voru þó þegar ég var á sjónum á Haferninum og Hvalvík, þá kom ég stundum með eða sendi heim til Íslands, ýmislegt glingur og góðgæti.

Myndir tengdar ofanrituðu eru hér á tenglinum Upphafið, myndir 

Foreldrar mínir Valborg Steingrímsdóttir fædd, 1. febrúar 1914 í bænum Þverá í Öxnadal og Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki, fæddur á Siglufirði 24. desember 1914. - Þau þurftu konungsleyfi til að fá að giftast vegna ungs aldurs, hjónaband sem entist þeim til dauðadags

Foreldrar mínir Valborg Steingrímsdóttir fædd, 1. febrúar 1914 í bænum Þverá í Öxnadal og Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki, fæddur á Siglufirði 24. desember 1914. - Þau þurftu konungsleyfi til að fá að giftast vegna ungs aldurs, hjónaband sem entist þeim til dauðadags

Frá islendingabok.is

Frá islendingabok.is

Frá islendingabok.is