Félagsstörf ofl

Ekki vil ég telja mig neinn atorkumann hvað félagsstörf varðar, en ég hefi oftast verið í einhverju félagi.

Trúfélag !

Fyrsta "félagið" sem ég var skráður í, þangað skráður að mér forspurðum var það sem kallað er "kirkjusamfélagið, þjóðkirkjan."  Nokkuð sem hendir allflesta Íslendinga. Þar hefi ég þó aldrei starfað og mun aldrei gera. Það er aðeins fyrir ósk konu minnar, sem ég er þar enn skráður (2015)  sem "kristinn borgari"  Nánar um "trú" mína má lesa í kaflanum "Trúarskoðanir". Árið 2016 minnir mig að ég hafi skráð mig úr söfnuðinum.

Fylkir.

Fyrsti félagsskapurinn sem ég gekk til liðs við, var Skátafélagið Fylkir á Siglufirði, þá var ég 10 ára og var þar af miklum áhuga til 16 ára aldurs, aðallega undir góðri stjórn Hauks Jónassonar bólstrara. 

Skemmtiatriði frá einni af mörgum árshátíðum SRinga.  Þarna á Egilsstöðum 1987.
Á myndinni eru: Hilmar Elefsen þáverandi vélsmíðanemi hjá SR-Vélaverkstæði á Siglufirði, nú verkstjóri þar. Kristinn Bogi Antonsson, Jóhann Ragnarsson (Kambi), Þórhallur Jónasson efnafræðingur SR og Elvar Elefsen rennismiður - Starfsmannafélag SRinga, ljósmynd: Steingrímur Kristinsson

Skemmtiatriði frá einni af mörgum árshátíðum SRinga. Þarna á Egilsstöðum 1987.
Á myndinni eru: Hilmar Elefsen þáverandi vélsmíðanemi hjá SR-Vélaverkstæði á Siglufirði, nú verkstjóri þar. Kristinn Bogi Antonsson, Jóhann Ragnarsson (Kambi), Þórhallur Jónasson efnafræðingur SR og Elvar Elefsen rennismiður - Starfsmannafélag SRinga, ljósmynd: Steingrímur Kristinsson

Eyrarrós.

Á svipuðum tíma gekk ég til liðs við Barnastúkuna Eyrarrós eins og flest börn þess tíma á Siglufirði. Ég hafði þó ekki mikinn áhuga á hinu raunverulega tilgangi félagsins. Það er hinum öfgafulla (að mér fannst) áróðri á móti víndrykkju. Snobbi og múnderingum sem stjórnendurnir báru með sér, sem virkuðu á mig eins og að þeir teldu sig yfir aðra hafna þegar þeir höfðu brugðið um hálsinn fyrirferðarmiklu tákni um valdið !

En stúkan hafði upp á margt áhugavert að bjóða sem krakkar sóttust eftir. Fyrir utan hinar leiðinlegu predikanir sem fluttar voru áður en komið var að ýmsum uppákomum sem krakkar höfðu áhuga á. Það var eitt af tækjunum til að lokka til sín börnin, þó án vafa í góðum tilgangi og góðu hugarfari.

Ég var þó með annan fótinn þarna innan félagsins allt til 17 ára aldurs ásamt vini mínum Þorfinni Jóhannssyni sem var sonur Aðalbjargar Björnsdóttur sem var einn af forkólfum stúkustarfsins á Siglufirði.

Orsök skilnaðarstundarinnar átti sér stað á dansleik sem stúkan hélt af einhverju tilefni. þangað mættum við Þorfinnur Jóhannsson (Bússi Jó) og Hafliði Sigurðsson, (Diddi Hafliða) stuttu eftir að ballið var byrjað.

Við vorum í mjög góðu skapi og lékum á alls oddi, dönsuðum við stelpurnar og komum talsverðu lífi í hópinn.  þessi hegðun okkar vakti grunsemdir hinna háttsettu templara þar sem Jóhann Þorvaldsson kennari var í fararbroddi. Hann kallaði okkur afsíðis og þefaði af okkur eins og hundur og fullyrti að við værum allir undir áhrifum áfengis og okkur var "fleygt út".  Við mótmæltum harðlega, en valdið naut sýn til fullnustu hjá hinum kragaprýdda.

Bússi hafði að vísu á þeim tíma smakkað áfengi nokkrum sinnum, en alls ekki þennan dag eða kvöld og ég enn síður þar ég sem þá hafði aldrei smakkað áfengi. (ef frá er skilið við snafsinn sem ég fékk við ferminguna)

Bússi var tekinn fyrir hjá móður sinni daginn eftir. Hún trúði á sakleysi sonar síns eftir að hann hafði skýrt málið frá okkar sjónarhorni.

Hvorugur okkar kom nálægt stúkustarfi eftir þetta atvik en móðir Bússa hafði ávítað hina aðgangshörðu templara fyrir fljótfærni og framkvæmdir án rökstuðnings.

Pólitíkin, Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég var ungur að árum, þegar ég fór að hlusta á og lesa um pólitík og meta skoðanir manna. Ég las reglulega allt það sem vakti áhuga minn í fyrirsögnum blaðanna, samanber Morgunblaðsins, Þjóðviljans, Tímans og Alþýðublaðsins.  Blöð sem voru málgögn pólitískara flokka í Reykjavík og pabbi var áskrifandi að eða voru a.m.k. jafnan til taks á heimili okkar.

Þá einnig heimablöðin, vikublöðin Mjölnir, Siglfirðing, Einherja og Neista.

Ég fékk fljótlega á tilfinninguna að kommúnismi væri ekki allt sem sýndist. Þeir sem þann flokk aðhylltust, væru þar frekar sem trúardýrkendur en af raunverulegri vitneskju um hið kommúníska kerfi annarsstaðar en frá en frá forustunni sem hafði verið hvítþveginn, meðal annars í Rússlandi.

Þeir trúðu því í blindni því að Stalín og Lenín væru almáttugir, eins konar guðir. Enda þekkti ég að eigin raun að á minnsta kosti á einu heimili hékk mynd af Stalín og Lenín yfir höfðagafli hjónarúmsins auk mynda tengdum kommúnismanum á veggjum ganga og stofu. (foreldrahús eins vina minna)

Annað dæmi sá ég einnig um mynd af Lenín á áberandi stað inni í stofu. Einn sonur viðkomandi heimilisföður  (vinur minn) tjáði mér raunar fyrir nokkrum árum, að hann hefði alltaf haldið að viðkomandi mynd væri af afa sínum.

Og allir áttu þessir kommar það sameiginlegt, að hata Bandaríkin, eftir seinni heimsstyrjöldina og að allt hið góða væri komið frá U.S.S.R., en hið illa frá U.S.A. 

Allir í dag ættu að vita hverjir og hvernig kommaguðirnir voru í raun eftir að Sovétríkin hrundu um sjálft sig.

Allir vita einnig að allt of margir forkólfanna á sama tíma í Bandaríkjunum ættu að skammast sín þó svo að þeir hafi ekki svo vitað sé myrt og fangelsað, (?) eða gert þegna sína að þrælum eins og gerðist í Sovétríkjunum.

Ég var 16 ára þegar ég gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, foreldrum mínum til angurs þar sem þau höfðu oftast kosið Framsóknarflokkinn og töldu þann flokk vænlegri en hina flokkana, sagði mamma mér.

Síðar gekk þó mamma í kvenfélag Sjálfstæðisflokksins. Ég vil meina að þar hafi "áróður" minn ráðið mestu.

Pabbi hafði aldrei haft sig í frammi hvað pólitík snerti og lét lítið uppi. Nema þegar ég tók að mér sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og náði þar sæti varamannabekk í bæjarstjórn, þar sem ég sat nokkra fundi. Hann sagðist hafa kosið flokkinn þá, mín vegna. 

Ég sagði mig úr flokknum í ágúst 2000, vegna óánægju með loforð og vanefndir flokksins um lífeyrismál aldraðra.

Verkalýðsbaráttan !

Strax 16 ára, varð ég sjálfkrafa félagi í Verkalýðsfélaginu Þrótti á Siglufirði þar sem enginn mátti, samkvæmt skilyrtu samkomulagi milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekanda ráða verkafólk til vinnu nema taka af þeim félagsgjöld sem einhliða voru ákveðin af viðkomandi verkalýðsfélagi.

Fast árgjald sem verkafólk varð að greiða án tillits til tekna eða hvort viðkomandi hafði vinnu allt árið eða ekki.

Það var nokkuð snemma sem ég fór að flækjast fyrir hörðustu kommum og krötum innan félagsins. Ég hafði ýmislegt út á skoðanir og ákvarðanir sumra þeirra að setja. Einnig veru sumra þeirra innan félagsins og lét það óspart í ljós bæði á fundum og á vinnustað.

Ég var í fyrstu mjög tregur til að koma mér á framfæri og taka til máls á fundum þar sem slíkt hafði ég aldrei gert þó svo að mér hafi verið "laus tungan" í þröngum hópum á vinnustað.

Umræða hafði verið um óskir eins félaga um að það þyrfti að bæta kjör og aðstæður verkamanna sem sáu um þróar inntakið hjá SR46, hann vildi að þeir nytu sömu kjara og þróarmenn sem höfðu nokkurra aura hærri laun á tímann.

Ég þekkti að vísu lítið til þessarar vinnu en fannst viðbrögð ekki vera í samræmi við aðstæður, það var eins og vettvangur SR væri ekki tilefni til aðgerða.

Þá fannst mér ég tilneyddan til að standa upp og biðja um orðið.

Innan félagsins voru margir afburða ræðumenn, bæði af yngri og eldri kynslóðinni. þar má nefna af yngri kynslóðinni; Hannes Baldvinsson og Kolbein Friðbjarnarson báðir að eigin sögn kommúnistar á þeim tíma.

Og kommúnistinn og atvinnurekandinn Þóroddur Guðmundsson, Einar Albertsson, svo og kratarnir Kristján Sigurðsson trésmíðameistari og atvinnurekandi, Jóhann G Möller ofl.

Ég stóð upp og opnaði munninn og tjáði mig hikandi, en kom þó erindi mínu á framfæri, erindi sem var langt frá því að falla kommum og krötum sem fundinn sátu í geð.

Ekki stóð á svarinu. það kom frá Hannesi Baldvinssyni, það er hann gagnrýndi mig persónulega sem ekkert átti skylt við erindi mitt, heldur voru pólitískar skoðanir mína rifnar niður, jafnvel ýjað að uppeldisvandræðum foreldra minna hvað mig snerti. Þessari orðaflóru skrifaði ég niður í dagbók mína heima eftir fundinn svo hún er mér minnisstæð.

Næsti ræðumaður kom mér verulega á óvart. Það var Kolbeinn Friðbjarnarson. Hann byrjaði á því að svara minni gagnrýni sem hann taldi ekki sanngjarna eða á rökum reistar og fleira sem hann setti fram sínum skoðunum til málsbótar.

Hann talaði af stillingu og lauk síðan máli sínu á því að hvetja fundarmenn til að gera ekki lítið úr ungum mönnum sem í fyrsta sinn tjáðu sig á fundum og sem vildu koma skoðunum sínum á framfæri. (þá var ég ný orðinn 17 ára)

Hann sagði svo, að málflutningur Hannesar (sem hafði skammað mig) hefði ekki verið til fyrirmyndar hvað það varðaði, ekki síst þar sem Hannes hefði farið langt út fyrir umræðuefnið.

Ekki ætla ég að fara frekar út í það hverju Hannes svaraði þessari gagnrýni Kolbeins en hann fór þar á eftir yfir það sem ég hafði sagt og fór létt með það af sinni kunnu málsnilld að rífa það allt niður og náði að sannfæra flokkssystkini sín um villu mína sem réðist af pólitískum skoðunum mínum. Ekki treysti ég mér að þessu sinni til að taka aftur til máls og svara.

En smátt og smátt í sögu Þróttar og síðar í sögu Verkalýðsfélaginu Vöku tókst mér að nálgast "metorðastigann". Það er áhrifum innan Þróttar fyrst og síðar Vöku. Þrátt fyrir andstöðu kommana var ég nokkur ár í stöðu innan trúnaðarmannaráðs og einhverjum nefndum, stöður sem voru áhrifamiklar innan verkalýðsfélaganna á þeim tímum.

Eins og fram kom hér fyrr þá voru ekki aðeins verkamenn sem voru fullgildir félagar í Þrótti. Þar var að vísu til Sjómannadeild, Stúaradeild og Bílstjóradeild.

Ég hafði oft á fundum gert grín af því hvers vegna ekki væri stofnað til fleiri deilda innan félagsins, til dæmis kennaradeild, póstmannadeild, lögreglumannadeild, verkstjóradeild og ekki hvað síst atvinnurekandadeild.

Orð mín voru talinn áróður og féllu að sjálfsögðu hvorki kommum né krötum í geð.

Innan félagsins voru fullgildir félagar skráðir, menn eins og Þóroddur Guðmundsson atvinnurekandi yfir sumartímann og kommúnistaleiðtogi að atvinnu, Kristján Sigurðsson atvinnurekandi yfir sumartímann og krataleiðtogi allt árið, Einar Albertsson kommi og póstfulltrúi í fullu starfi, Kristján Sturlaugsson krati og kennari í fullu starfi og verkstjóri yfir sumartímann. Hlöðver Sigurðsson kommi og skólastjóri, Benedikt Sigurðsson kennari, og fleiri mætti nefna.

Bók Benedikts Sigurðssonar "Brauðstrit og barátta" gefur góða mynd af tilveru sumra þeirra innan verkalýðshreyfingarinnar. Og það eitt að fletta upp á til dæmis, nafninu "Þóroddur Guðmundsson" á www.timarit.is  þá er hægt að ná góðri lýsingu á skoðunum, eða öllu heldur trúarskoðunum þessa hóps sem kenndi sig við kommúnista.  Flestir þeirra sem enn lifa, hafa nú reynt að gleyma trúgirni sinni sem átti hug þeirra allan forðum daga.

Þessir menn voru flestir ef ekki allir á einhverjum tíma í stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins og atvinnurekendurnir oft í raun stundum beggja vegna borðsins þegar samið var um laun síldarfólksins á sumrin.

Hinn almenni félagi gat engin afskipti haft af málefnum deildanna, en sérdeildarmenn höfðu fullan aðgang og tillögurétt um málefni okkar hinna utan deilda.

Og fyrir kom að atkvæði "deildarmanna" höfðu ráðið úrslitum í launa og samningsbaráttu, til dæmis þeirra sem unnu hjá SR, þar sem það hafði á einhvern óbeinan hátt áhrif á "deildirnar"

Deildirnar sem í raun og veru voru í valdastöðu, það er sterkir menn innan þeirra raða og réðu öllu innan félaganna, þó sérstaklega innan Þróttar.

Eina umtalsverða "afrekið" sem ég tók þátt í veru minni í verkalýðsfélaginu Þrótti á Siglufirði var þegar mér með kænsku tókst að útiloka þá félaga Þórodd og Kristján frá setu í áhrifastöðum innan stjórnar félagsins.

Við það aðstoðaði mig Eggert Theódórsson. það var á aðalfundi Þróttar.  Ég hafði frétt að bæði Þóroddur og Kristján væru saman á einhverjum atvinnurekanda þingi suður í Reykjavík og gátu því ekki mætt á viðkomandi aðalfund Þróttar.

Ég fékk Eggert til að vera meðflutningsmann að tillögu um að gera þá félaga Þórodd og Kristján að heiðursfélögum í Þrótti.

Eggert horfði á mig með glettnum svip og hélt greinlega að ég væri að gera grín því hann vissi vel hug minn til þessara manna sem félaga innan Þróttar.

En hann var fljótur að átta sig og samþykkti að vera meðflutningsmaður og tillagan var síðan borin upp á fundinum stuttu áður en tillaga uppstillinganefndar um stjórnarkjör var borin upp.

Tillagan kom nokkuð á óvart, sérstaklega þar sem ég var annar flutningsmanna, sennileg hafa sumir haldið að Eggert hafi átt hugmyndina en hafi haft mig með svo tillagan fengi afgerandi samþykki.  (raunar kom það í ljós síðar, að svo var um einhverja) 

Tillagan var samþykkt einróma og færð væntanlega (?) til bókar eins og lög félagsins sögðu til um. Væntanlegum formanni og stjórn félagsins falið að láta útbúa viðeigandi skjöl og færa hinum tignu mönnum við fyrsta tækifæri.

Það var svo ekki  fyrr en uppstillinganefnd las upp tillögur sínar um menn til trúnaðarmannaráðs, að Eggert rétti upp hendi og gerði athugasemd.

Eggert benti á að samkvæmt reglum, þá gætu heiðursfélagar ekki setið í stjórnarstöðum félagsins. Þeir hefðu raunar ekki atkvæðisrétt heldur.

það varð uppi "fótur og fit" við stjórnarborðið og mikið stungið saman nefjum. Þar mun hafa komið upp "þögul" tillaga um að afturkalla heiðursnafnbótina á þeirri forsendu að nafnbótin væri andstæð vilja heiðursfélaganna. 

En að loknu hvíslinu sem átti sér stað við stjórnarborðið kom upp tillaga um önnur nöfn í trúnaðarmannaráð í stað heiðursfélaganna.

Tillaga uppstillingarnefndar var svo samþykkt nánast einróma.

Eggert fékk síðar skammir frá heiðursfélögunum og sagðist Eggert hafa sagt þeim að þetta hefði verið sameiginleg hugmynd okkar.

Þeir aftur á móti töluðu aldrei við mig um þetta mál en Kristján Sigurðsson náði þó að hefna sín á mér nokkrum árum síðar. En frá því var greint hér framar, undir kaflanum „Vitavörður.“ 

Þegar Þróttur og Brynja verkalýðsfélag kvenna sameinuðust undir nafninu Verkalýðsfélagið Vaka, þá fékk aðeins verkafólk inngöngu í félagið, þrátt fyrir tilraunir komanna til undanþága vegna "sinna manna"

Einnig sú langþráða ósk mín og fleiri um að tekið yrði ákveðin prósenta af launum en ekki fast árgjald eins og áður.

Ég hafði nokkrum sinnum áður í félagi með fleirum, lagt fram árangurslausar tillögur þess efnis.

Eitt má þó einn komminn eiga, raunar margt annað gott. Það var Óskar Garibaldason. Ég var í tvö ár ásamt Þorleifi Halldórssyni kjörinn í ólaunað starf sem endurskoðandi ársreikninga félagsins. Við sáum þar meðal annars hve smánarleg laun formannsins Óskars Garibaldason voru.

Hann tók sér laun sem samsvaraði dagvinnu, lægsta texta Vöku og greiddi sér enga yfirvinnu þrátt fyrir mikla vinnu hans fyrir Vöku utan hefðbundins vinnutíma. 

Í framhaldi af þessar í vitneskju fluttum við Þorleifur tillögu á næsta aðalfundi þess efnis að Óskar þægi laun samkvæmt hæsta texta Vöku og reiknaði sér laun fyrir alla aukavinnu því Vaka átti á þessum tíma drjúga sjóði.

Tillagan var samþykkt samhljóða en þrátt fyrir það sáum við, við endurskoðun reikninga næsta ár að hann var enn á lægsta texta og engin yfirvinna.

Hann var í senn bæði formaður og gjaldkeri og réði þessu sjálfur sagði hann.

En eitt gerði þó Óskar í félagi með Kolbeini Friðbjarnar sem síðar varð formaður. Nokkuð sem ég get ekki fyrirgefið þeim.

Öllum fastráðnum starfsmönnum SR á Siglufirði var boðið af hálfu verksmiðjustjórnar að taka þátt í lífeyrissparnaði. Það er að greiða í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna.

Mat verksmiðjustjórnar var það að fastráðnir starfsmenn SR væru sjálfkrafa opinberir starfsmenn, eins og skrifstofuliðið var.

Þessu tilboði held ég allir hafi tekið, þar á meðal ég.

En þegar Óskar og Kolbein fréttu af þessu, þá varð allt vitlaust á kommadeildinni. Þetta mátti ekki ske. Því við það að greiða í áðurnefndan lífeyrissjóð urðum við sjálfkrafa komnir í Starfsmannafélag ríkisins og um leið ekki lengur félagar í Vöku.

Eftir fundarhöld milli framkvæmdastjóra S.R., Óskars og Kolbeins, án umboðs félagsfundar, eða skráðrar fundagerðar stjórnar.  Voru settar fram verkfallshótanir. Vegna þeirra hótana voru tilboðin til okkar dregin til baka um lífeyrissparnaðinn. Þessi mál voru aldrei borin undir félagsfund, sennilega ekki heldur lögð fyrir stjórn Vöku (?) þar sem ekkert fannst þar í fundargerðarbók.

Á þessum tíma voru engir aðrir möguleikar í boði til lífeyrissparnaðar. Nema svikamilla Tryggingarstofnunar, sem tók af okkur gjöldin en skilaði ekki nema hluta til baka, af því sem lofað var í upphafi og í lögum, þeim sem náðu að komast á ellilaunaaldur.

Það voru ekki hagsmunir félaganna sem þeir Óskar og Kolbeinn höfðu að leiðarljósi varðandi þetta mál, heldur valdið yfir félagsgjöldunum.

Eitt má nefna til viðbótar, tengt verkalýðsbaráttunni.

Eins og allir vita, þá eru margir hinna svokölluð helgidagar þjóðkirkjunnar oft inni í miðri viku sem og aðrir frídagar sem falla á fimmtudaga, 1. maí, sumardagurinn fyrsti ofl. Þessir dagar eru frídagar og margir notfæra sér að sleppa einnig því að koma til vinnu á föstudegi sem og oft olli atvinnurekendum skaða.

Það mun hafa verið um 1962 eða 1963 sem ég stakk upp á því við Palla meistara minn að Pálsmenn  höguðu vinnutíma sínum þannig, að í stað fastra 8 tíma vinnudags bættum við, við dagvinnutímann (ynnum lengur) fjóra daga vikunnar, þannig að starfsmenn gætu hætt um hádegið á hverjum föstudegi.

Pálsmenn höfðu rætt þennan möguleika áður og verið sammála um að láta reyna á. Páli leist mjög vel á hugmyndina en sagðist þurfa ræða þetta við framkvæmdastjórana. Það gerði hann og fékk leyfi til að prófa þetta fyrirkomulag með því skilyrði það skaðaði ekki rekstur verksmiðjanna.

Allir voru ánægðir og endaði með því að starfsmenn vélaverkstæðis tóku þetta fyrirkomulag einnig upp.

Í framhaldi af þessu kom fljótlega upp umræða um að þegar helgidaga bæri upp á fimmtudaga þá mundum við vinna fram að hádegi þá daga á dagvinnukaupi og sleppa við að mæta á föstudegi í staðinn og þannig ná óslitnum frítíma frá föstudegi til mánudags.

Þetta fékkst einnig í gegn og notfært annarstaðar á lóð S.R. þegar hægt var og tíðkast enn í dag hjá SR-Vélaverkstæði og raunar á fleiri stöðum á Siglufirði.

(án þess að um það sé getið í samningum)

Það var nokkuð kómísk uppákoma í fyrsta sinn er þetta var notað af Pálsmönnum, en það var á skírdegi. Um klukkan ellefu um morguninn, er sóknarpresturinn birtist og kallaði á Pál þar sem hann var að fylgjast með nokkrum okkar við vinnu á hinum „helga“ degi.

Heyirðu Páll, veistu ekki að það er bannað að vinna á þessum helga degi?  Ég get ekki séð að þetta verk sem þið eruð að vinna við sé ekki svo nauðsynlegt  að það geti ekki beðið til morguns. Því í ósköpunum gerir þú svona? Sagði prestur. Eitthvað á þessa leið.

Páll horfir á prest smá stund og segir svo: Ég er nokkuð viss um að þú hefur ekki hundsvit á því sem við erum að gera, farðu og sinntu einhverju sem þú hefur vit á.

Síðan snéri hann sér frá presti og fór að aðstoða einn manna sinna. Prestur fór af vettvangi án þess að segja meira.

Ekki urðu Pálsmenn né aðrir varir við slíkar prestaheimsóknir síðar, en aftur á móti flugu svívirðingar frá verkalýðsforkólfunum tveim Kolla Friðbjarnar og Óskari Garibalda þegar þeim heimtuðu að við legðum niður vinnu snemma að morgni 1. maí er sá dagur bar í fyrsta sinn upp á fimmtudag  eftir samkomulagið, og við mættir til vinnu þann dag til að vinna til hádegis og eiga svo frí á föstudeginum.

Fyrst tóku þeir okkur fyrir þar sem við vorum að vinna við netabryggjuna hjá SR. Þeir kölluðu okkur verkalýðsbrjóta, svikara við hinn helga frídag verkamanna og eitthvað fleira sem þeir romsuðu út úr sér.

Við höfðum séð þá úr fjarlægð og einnig Pál sem var á hraðri leið til að vernda menn sína fyrir þessum kommúnistum sem hann kallaði  þá félaga í lok rimmunnar á eftir, sem þeir  þrír lentu í, þar sem enn harðara var tekist á með orðum og síðan hótunum af hálfu verkalýðskólfanna, verkfalli á alla starfsmenn SR ofl. ef hann skipaði ekki okkur að hætta vinnu.

Við höfðum ekki sagt eitt einasta orð, við bara glottum og héldum okkar striki við vinnu okkar.

Páll endaði sína ræðu eitthvað á þá leið að þeir þessir kommadurgar skyldu draga sig út af SR lóðinni, hér væru menn að vinna og mættu ekki vara að því að hlusta á neitt kommarugl.

Þeir félagar kærðu Pál fyrir Sigurði Jónssyni framkvæmdastjóra sem sagði einfaldlega að Páll væri þarna við vinnu með sínu leyfi og þar við sæti.

Ekkert var svo gert meir í málinu og álíka vinnufyrirkomulag margendurtekið síðar af SR mönnum og er í gangi enn í dag hjá SR-Vélaverkstæði sem enn lifir, nú í einkaeign, frá árinu 2004 +/-.

Rótarý-klúbburinn.

Það mun hafa verið um 1965 sem Kjartan Bjarnason sparisjóðsstjóri kom að máli við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að gerast félagi í Rótarýklúbbi  Siglufjarðar. Ég var forvitinn um hvað þar færi fram á fundum og fleira sem mér hafði áður verið sagt vera eitthvað dularfullt.

Ég þáði boðið.

Vissulega voru þarna ýmis formlegheit en ekkert dularfullt eins og ég hafði heyrt talað um.

Nema ef væri ákveðin leiðinda hegðun sumra félaganna sem ekkert átti skylt við neinn félagsskap heldur persónulegt atgervi viðkomandi

Fundir voru haldnir klukkan 7 á fimmtudagskvöldum, (minnir mig) og voru jafnan haldnir í innri salnum á Hótel Höfn.

Annan hvorn fundardag var góður kvöldverður á borðum en hinn var aðeins drukkið kaffi, maltöl, pilsner eða gosdrykkir.

Ýmis félagsleg störf fóru og fram og sitthvað fleira umræðuefni sem ég man ekki eftir hvað var. Nokkuð sem ég var ekki spenntur fyrir en lét mig hafa það og mætti á alla fundi. "Sekt" sem gekk til góðgerðamála þurfti að greiða ef forföll urðu, vegna gleymsku eða vanrækslu.

Oft vildi svo til að mikil vinna var hjá mér sérstaklega á vorin, ég mætti ávalt stundvíslega klukkan sjö á kvöldin. Nokkrir félaganna voru vanir að mæta seint, sumir mjög seint á fundi, jafnvel rétt fyrir klukkan átta og ekki var borið á borð fyrr en allir voru mættir. 

Þar voru fremstir í flokki slæpingjanna, Sigurjón Sæmundsson og Skúli Jónasson. Svo voru aðrir eins og til dæmis  þáverandi bæjarfógeti sem voru of stórir með sig til að geta tekið undir kveðju félaga sinna úti á götu og virtust yfir það hafnir að ansa kveðju á fundum osfv.

Ég gafst upp á þessum félagsskap eftir eitt ár eða svo.

Ég hafði átt að mæta til vinnu klukkan 20:00 eins og oft áður vegna mikillar yfirvinnu. Félagarnir Skúli og Sigurjón mættu á fundinn klukkan 19:50 og hafði ég því í raun innan við 10 mínútna til að njóta matarins sem beðið hafði verið eftir að bera fram, þar til "allir voru mættir" og komast til vinnu minnar á réttum tíma.   

Ég kvaddi mér hljóðs þegar þeir voru sestir. Ég sagðist ekki vera vanur óstundvísi. Ég þyrfti að mæta til vinnu eftir 9 mínútur. Þess vegna teldi ég mig ekki eiga samleið í félagsskap þar sem óstundvísi teldist eðlileg.  Ég sagði mig þar með úr klúbbnum og yfirgaf salinn.

Áðurnefndir Skúli og Sigurjón voru fyrritaks náungar að mínu mati en með þann galla að "þeim þótti" sjálfsagt að láta bíða eftir sér. þarna voru einnig einstakir persónuleikar og fyrirmyndar borgarar eins og til dæmis Kjartan Bjarnason, Ólafur Þ Þorsteinsson læknir og fleiri, en nokkrir samber fógetinn, voru of stórir með sig til að eiga samneyti við verkamann.  (mitt mat)

Kiwanis-klúbburinn.

Ekki löngu eftir brottförina frá Rótarý var mér boðið til liðs við Kiwanis, sem ég þáði. Þar var allt annar andi, kátína og fjör sem einkenndi klúbbinn og enginn taldi sig yfir aðra hafinn. Starfsemin var mjög fjölbreytt og uppbyggjandi á ýmsa vegu. þar var m.a. stofnaður sönghópur sem gerði garðinn frægan.

Meðal annars var gefin út 33ja snúninga hljómplata. Ég var að sjálfsögðu ekki í þeim hópi sem tók lagið, þar sem ég er laglaus, en ég tók þó þátt í að koma plötunum í umslög til dreifingar og einnig sölu til einstaklinga sem og við allir unnum við með þokkalegum árangri.

En fyrrihluta ársins 1979 fór ég til sjós og var fjarri Íslandsströnd meirihluta þá níu mánuði sem ég var á sjónum um borð í flutningaskipinu Hvalvík.

Ég hafði fengið óljósar fregnir af því úti á sjó að eitthvað hefði ekki gengið upp varðandi plötuútgáfuna. Ég hafði heyrt misvísandi sögur af því máli. Sögur sem mögnuðust í mín eyru eftir að ég kom heim til Siglufjarðar á ný.

Á fyrsta fundi hjá Kiwanis eftir heimkomuna. Kvaddi ég mér hljóðs og sagði í sakleysi mínu að ég hefði í fjarveru minni heyrt fjölmargar furðusögur varðandi plötuútgáfuna, sögusagnir sem þeir hefðu væntanlega einnig orðið varir við.

Ég bað um að fá að vita um hina raunverulegu sögu svona í grófu máli svo ég gæti útilokað gróusögurnar.

Einn varð til svars. Svar sem var einfalt og ákveðið. Mér kæmi þetta ekki við, þetta væri mál sönghópsins en ekki klúbbsins.

Ég í þessu samhengi var minnugur þess að allir klúbbfélagar höfðu tekið þátt í að koma plötunni í markaðshæft form, það er að koma plötunni í umbúðir og sölu. Á þessari stundu hreyfði enginn andmælum, um það að mér kæmi málið ekkert við.

Í lok fundarins kvaddi ég mér aftur hljóðs varðandi svarið sem ég hefði fengið við spurningu minni fyrr á fundinum. Ég sagðist ekki hafa vitað að það væri sérhagsmunaklúbbur innan Kiwanisklúbbsins, ég taldi mig ekki af þeim sökum eiga samleið með þeim á þessum vettvangi og sagði mig þar með úr klúbbnum, með þeim orðum og yfirgaf ég klúbbinn. (eins og annarstaðar hefur verið getið, þá á ég það til að vera svolítið þver stundum, og læt ekki bjóða mér hvað sem er án ansvara)

Nokkrir félaga minna hvöttu mig til að koma aftur í klúbbinn þar sem viðkomandi hefði greinilega verið of fljótur til svars og án umhugsunar.

Ég svaraði á móti að þar sem enginn hefði mótmælt honum á þeirri stundu væri vera mín í klúbbnum liðin tíð og svo varð.

Allir þessir fyrrverandi félagar eru þó bæði vinir og kunningjar í dag utan þeirra sem eru látnir.

Lion-klúbbur

Nokkru síðar var mér boðið af Óla Blöndal að gerast félagi í Lionsklúbb Siglufjarðar en því boði hafnaði ég góðfúslega.

Starfsmannafélag SR

Starfsmenn SR stofnuðu með sér félag á seinni hluta síðustu aldar. Allir starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, síðar SR-MJÖL HF og enn síðar Síldarvinnslunni sem síðast varð eigandi fyrirtækisins, gátu gerst félagar. Um 99% þeirra notuðu þann rétt.

Þó svo að engin mjöl eða lýsisvinnsla fari lengur fram á Siglufirði lifir þó enn í gömlum glæðum á SR lóðinni eins og svæði verksmiðjanna hefur ávalt verið kallað því þar starfar enn SR-Vélaverkstæði sem nú er í einkaeigu. (frá 2004 +/-)

Ekki veit ég hversu blómlegt starfsmannafélagið er í dag eða hvort þeir fáu starfsmenn sem þar vinna 15-20 greiði enn vikulega í félagssjóð eins og gert var hér áður fyrr. 

Sjóðurinn stóð fyrir mörgum utanlandsferðum í félagi við starfsmenn annarra deilda S.R. á landinu, félaga og maka þeirra, auk margra ferða innanlands sem farið var í þann tíma sem ég var þarna félagi.

Margar ánægjustundir í frábærum félagsskap. Að auki var félagið um tíma með pöntunarþjónustu á vörum til heimilisþarfa eins og framar er getið. Starfsemi sem lifði í nokkur ár. Eða þar til að heildsölunum sem selt höfðu til félaga í Kaupmannafélaginu á Siglufirði, var settur stóllinn fyrir dyrnar.

Annað hvort hættið þið að selja vörur til starfsmannafélaga á Siglufirði eða við hættum viðskiptum við ykkur. Það voru amk. tvö starfsmannafélög utan okkar með svona viðskipti.

Heildsalarnir lokuðu að sjálfsögðu upp úr því á viðskiptin við starfsmannafélögin

Félag talstöðvanotenda á Siglufirði og í Fljótum

Ég er stoltur af því að vera einn af hvatamönum við stofnun þessa félags sem fljótlega varð aðili að Félagi Norðlenskra talstöðvareiganda á Akureyri o.n. nágrennis, og síðan í Reykjavík.

Þetta varð öflugur félagsskapur með um 150 félaga. Við gáfum út bæklinga með nafnaskrá, kallmerkjum og númerum annarra talstöðvanotenda, skrá sem náði víða til um Norðurland.

Við gáfum einnig út sérstakt félagatal með nöfnum okkar ásamt landakorti af Siglufirði og nágrenni á Tröllaskaga.

Einnig almennar leiðbeiningar varðandi talstöðvanotkun, allt prentað hjá Siglufjarðarprentsmiðju. Við skráðum bæði "dauða" og lifandi staði þaðan þar sem ná mátti sambandi við aðra. Til dæmis voru nokkur góð sambönd á þröngum svæðum í Skriðum og víða í Fljótum þar sem ná mátti sambandi við Siglufjörð og Fljótin.

En blettirnir sem ekki náðist samband frá voru þó margfalt fleiri á þeirri tíðni sem þessar litlu CB talstöðvar (og Walkie-talkie) náðu til.

Það var misjafnt eftir veðurfari og stöðu lægða og hæðagangi í háloftunum hvernig samband var svo og styrkleika talstöðvanna og loftnetsbúnaði

Björgunarsveitin Strákar

Á tímum talstöðvavæðingarinnar var mér boðin þátttaka í Björgunarsveitinni Strákum sem ég þáði. Mér hafði áður mörgum árum áður verið hafnað af þáverandi formanni á þeirri forsendu að "það væri engin þörf fyrir mig"  -  En formanni var eitthvað í nöp við mig eftir að ég hafði gagnrýnt hann persónulega á öðrum vettvangi. Ég starfaði með sveitinni í nokkur ár eða þar til ég fór á sjóinn aftur árið 1979.  

Félag eldri borgara á Siglufirði og í Fljótum.

Í dag er ég af siðferðilegum ástæðum félagi í Félagi eldri borgara á Siglufirði og í Fljótum. En þar sem ég á litla samleið í félagsstörfum þeirra þá mæti ég nánast aldrei á félagsfundi.

Ég er ekki nógu gamall, eða er sérvitur að eigin mati til að taka þar þátt í .... !!!!!  Ég kann því illa þegar óbeðið, koma heilu sjúkrasögurnar um eymsli hér og þar, eru til umræðu við borð þar sem maður fyrir tilviljun lendir á, á fundum.

Ég reyndi Boccia með eldri borgurum, en það gekk ekki upp svo ég hætti þar. Þrátt fyrir að hafa farið á Norðurlandsmót á Akureyri. Komist þar í annað sæti ásamt samspilara, vini mínum Sveini Þorsteinssyni.

Svo höfum við Sveinn Þorsteinsson skipst á um að sýna sem varamenn, ljósmyndir með myndvarpa  á tjald uppi á Skálarhlíð, einu sinni í viku. Það hófst eftir að SKSigló ehf. fór í sumarfrí  í júlí, ágúst 2011-

Fyrirtækið Sigló ehf. (Ljósmyndasafn Siglufjarðar) sá fyrst um að sýna gamlar ljósmyndir vikulega, frá árinu 2009 í Skálarhlíð. Þar sem við Sveinn mætum einnig oftast nær. - En eftir að SKSigló ehf var lagt niður, og við eigendurnir; Rauðka hf (60%) og Steingrímur Kristinsson (40 %) gáfum Síldarminjasafninu Ljósmyndasafnið, þá hafa starfsmenn þess tekið við sýningunum.

Þar komast sjúkrasögur ekki á dagskrá, vegna spennu við áhorf. Heldur fer umræðan um hvar og hvenær myndirnar viðkomandi ljósmyndir voru teknar, í hvaða fötum fólkið er og hvernig hárið á því sé litinn í það skiptið. Og ekki hvað síst nöfn fólksins, sem jafnóðum eru skrifuð niður af starfsmanni Síldarminjasafnsins.

Ath: Þann 20. Maí 2016 færði SKSigló ehf. (Rauðka, Róbert og Steingrímur) Síldarminjasafninu, Ljósmyndasafn Siglufjarðar að gjöf til varðveislu. - Samhliða var fyrirtækið SKSiglo ehf. lagt niður.