Vinnan um borð í Haferninum var með margvíslegum hætti.

Skipstjórinn var sá sem réði og orð hans voru lög í bókstaflegri merkingu, þó með takmarkaðri undantekningu hvað vélarrúm og eldhús snerti, þar réðu 1.vélstjórinn annarsvegar og brytinn hinsvegar. Sigurður Þorsteinsson skipstjóri var þó langt því frá að vera neinn harðstjóri, heldur mildur og góðlátur og blandaði geði við alla undirmenn sína, og bárum við allir mikla virðingu fyrir honum.

Ef skipstjórinn ákvað að einhver fyrirmæli yrðu gefin, þá var það vakthafandi stýrimaður sem fékk boðin, sem svo kom þeim áleiðis til viðkomandi skipverja, eða til bátsmanns sem lét svo framkvæma verkefnin.

Þó kom fyrir að skipstjórinn færði fram ósk sína beint til annarra undirmanna, þó þannig að hann breytti ekki tilskipunum annarra, heldur lét viðkomandi yfirmann eða bátsmann vita um að hann hefð beðið um þetta eða hitt.

Haförninn lesta  síld frá veiðiskipum á síldarmiðunum norður af Jan Mayen

Haförninn lesta síld frá veiðiskipum á síldarmiðunum norður af Jan Mayen

Bátsmaðurinn eins og fyrr segir, sá um alla verklega vinnu um borð hvað varðar viðhald og annað álíka. Hann gat gefið hásetum fyrirmæli beint, sem varð að hlíða. Þó með þeirri undantekningu að hann réði ekki yfir timburmanninum, fyrr en stýrimaður hafði gefið honum leyfi til að taka mig frá þeirri vinnu sem ég stundaði nánast sjálfstætt eða eftir fyrirmælum stýrimanna, eða það sem ég sá að þurfti að sinna vegna "trésmíða" verkefna og fleiru.

Allir um borð gátu beðið mig að vinna fyrir sig prívat, allt frá því að lagfæra hurðir, skápa, handföng, festa eitthvað og setja upp hillur og fleira.  Ég þurfti þó oft að standa vakt í brú á siglingu með stýrimanni, og ávalt kallaður í enda eins og aðrir undirmenn með vakthafandi stýrimanni frammi á bakka. Það er þegar skip kom eða fór úr höfn, ýmist bundið fast eða endum sleppt.

Oft var ég kallaður til aðstoðar bátsmanni og félögum til málningarvinnu, þvotta á dekki og fleira.

Mjög gott samband var á milli okkar Ægis Björnssonar bátsmanns, sem og Sigurðar Jónssonar þegar hann var bátsmaður. Ég tók eftir því á andlitsdráttum Sigga við bátsmannsstörfin, að það sveif einskonar sæluvíma yfir honum þegar hann fékk tækifæri til að gefa timburmanninum fyrirmæli sem honum bar að hlíða, sem ég auðvitað gerði í hvívetna.