Sigurður Jónsson, háseti, bátsmaður

Sigurður Jónsson, háseti, bátsmaður

Nokkrir skipverjanna eru sterkari í minni mínu en aðrir, aðallega vegna mislangrar samveru um borð og eftir að í land var komið. Sumir þeirra eru látnir og frá öðrum hefur maður ekki heyrt mikið frá, eða ekkert. Svo og aðrir sem hafa látið annað slagið í sér heyra er þeir heimsækja ævintýrabæinn sinn, Siglufjörð.

Svo má ekki gleyma nokkrum þeirra sem enn eru í fullu fjöri hér heima á Siglufirði.

Hér á síðunum hafa koma mismargar línur um þá sem best hafa náð til sérvisku tauga minna og eru og voru vinir mínir, þó misjöfn hafi þau bönd verið, eins og eðlilegt má telja.

Sá skipverji á Haferninum sem lengst var um borð, og er sá sem að fæst tók sér fríin frá sjómennskunni, var Sigurður Jónsson, frá Eyri.

Siggi var um borð nánast allt upphafi til loka, frá því að skipið sigldi frá Bremerhaven til Íslands eftir umtalsverðar breytinga vegna nýs hlutverks, það er til síldarflutninga frá fjarlægum miðum til verksmiðja Síldarverksmiðja ríkisins, aðallega þó til verksmiðjunnar á Siglufirði.

Ég kynntist Sigga mjög vel á þessum tíma, sem og skapaði góða vinátta okkar á milli, og erum við enn góðir vinir, enda Siggi einstakur tryggur og góður félagi.

Enn í dag hittumst við annað slagið, stundum til að rabba saman, ásamt fleiri félögum, og oft koma til söguatvik frá sjónum forðum, inn í umræðuna. Siggi stundar enn sjóinn á minni bátum, gerðum út frá Siglufirði. (2012)

Við áttum ófáar samverustundir þegar komið var til erlendra hafna og fórum oft saman í land, stundum til að versla, og eða það sem var einginlega föst regla. Við leituðum uppi girnilega veitingastaði, alt frá venjulegum sjoppum til flottra og rándýra veitingastaða þar sem þjónar voru á báða bóga.

Sigurður Jónsson, háseti, bátsmaður

Sigurður Jónsson, háseti, bátsmaður

Og svo rúsínan í pylsuendanum, á kvöldin þegar farið í bíó og svo gjarnan á einhverja búlluna þar á eftir áður en farið var um borð, eftir einn bjór eða svo. Drykkja eða fyllirí var þó aldrei á okkar dagskrá.

Hvorugur okkar talaði ensku, ég skildi ritað mál svona þokkalega og átti stundum auðvelt með að gera mig skiljanlegan þegar á reyndi, en fyrir koma að ákaflega erfitt var fyrir mig að skilja og eða koma til skila erindum við sumt fólk.

Fólk sem annað hvort var of vel menntað, eða talaði með einhverri málísku sem gerði samskipti erfið.

Hér fyrir neðan eru þrjár broslegar frásagnir tengdar vankunnáttu okkar félaga á enska tungu. þar með eru tvær bíóferðir með Sigga sem eru mér nokkuð minnisstæðar, þó raunar séu allar samverustundir með þessum einlæga vini mínum minnisstæðar.

Við komum til borgarinnar Liverpool í Englandi, þangað sem við höfðum nokkrum sinnum komið áður með olíufarma. Við Siggi vorum komnir í hjarta borgarinnar og sáum auglýsingu í dagblaði þar sem verið var að auglýsa "frumsýningu" á nýjustu James Bond myndinni You Only Live Twice. Ekki könnuðumst við, við nafn kvikmyndahússins, né áttuðum okkur á hvar það væri niðurkomið, en tókum staðfesta ákvörðum um að sjá þessa frumsýningu.

Við gáfum leigubíl merki og settumst inn. Ensku kunnátta okkar var ekki alveg upp á það besta eins og fyrr segir, svona rétt "mellufærir" eins og sumir sjómenn eru sagðir hafa lýst sinni tungumálakunnáttu. Við réttum bílstjóranum blaðið með auglýsingunni um James Bond og gerðum bílstjóranum skiljanlegt að við ætluðum í bíó. Við sáum á bílstjóranum að hann var ekki með það alveg á hreinu hvort hann ætti að verða við þeirri beiðni. Með handabendingum og orðaflaumi bílstjórans áttuðum við okkur á því að hann vildi vita hvort við ættum fyrir farinu.

Ég opnaði veskið mitt og sýndu honum að við værum ekki neinir fátæklingar, enda vorum við Siggi báðir með helling af seðlum. Okkur fannst þetta nokkuð óvenjuleg beiðni, en létum okkur hafa það.

Bílstjórinn talaði og talaði heilmikið, sem fór að mestu inn og út hjá okkur Sigga, og án þess að við næðum því í heild hvað maðurinn var að segja, en þóttumst þó skilja að við mundum ekki ná fyrri sýningunni sem hefjast átti klukkan 19:30 en við mundum örugglega ná seinni sýningunni.

Við vorum þó ekki vissir hvort það væri réttur skilningur, og fórum að tala um það okkar á milli að við hlytum að hafa misskilið bílstjórann, en ákváðum að láta slag standa, hver sem niðurstaðan yrði. Ekið var af stað og við Siggi sátum afslappaðir aftur í.

Þegar liðinn var um stundarfjórðungur í akstri, fórum við að ókyrrast. Borgarljósin horfin og aðeins götuljós á stangli. Ekið var á 100 km. hraða, sem síðan var aukinn upp í 140 km., og enn fækkaði ljósum sem við sáum. Við vorum á báðum áttum, hvort við ættum að ræða við bílstjórann sem ók eins og alvönum bílstjóra er lagið, afslappaður og yfirvegaður.

Svo hægði bifreiðarstjórinn verulega á ferðinni, og við önduðum léttara, nú værum við að nálgast bíóið. Það var öðru nær, ekið var út af hraðbrautinni inn á hliðarveg. Til hliðar beggja vegna sást í ljós á bændabílum. Við litum á hvor annan félagarnir, en hvorugur sagði neitt.

Allt í einu er við komum upp á smá hæð birtist ljósadýrð, sem kom frá byggðarlagi sem gæti hafa verið af svipaðri stærð og Akureyri. Inn í bæinn var haldið á löglegum hraða, keyrt í gegn um byggðina og stoppað svo í útjaðri bæjarins hinum megin, framan við stórt og glæsilegt kvikmyndahús. þar blasti við stór 007 auglýsingaskilti mjög áberandi upplýst ljósum, við vorum loksins komnir.

Við gerðum upp við brosandi bílstjórann, sem nælt hafði sér í góðan og óvæntan túr, sem tók tæplega þrjá stundarfjórðunga. Það var drjúgur tími þangað til sýningin byrjaði (22:00) en við gátum slappað af í anddyri í þessu glæsilega húsi sem greinilega var splunkunýtt.

þegar hleypt var út úr salnum sem sennilega hefur verið troðfullur, var okkur og nokkrum til viðbótar hleypt inn. Bretarnir í þessu bæ (ég man ekki hvað hann heitir) voru sennilega kvöldsvæfir, þar sem mjög fáir voru á þessari seinni sýningu. Við félagarnir nutum myndarinnar eins og vænst var, en vandræðum okkar vegna lélegrar ensku kunnáttu okkar var ekki lokið.

 Þegar sýningu lauk rétt um miðnættið, var enga leigubíla að sjá, bíóið í úthverfi eins og fyrr segir og nokkur spölur til kjarnans. Einn bretinn, sem við reyndum að ná sambandi við, flýtti sér í burt með úldinn svip og vildi greinilega ekki ræða við þessa tvo útlendinga.

 Við gengjum í áttina að bænum án þess að mæta einni einustu sál, gangandi né akandi. Sennilega hefur klukkan verið farin að nálgast eitt um nóttina er við komum að bensínstöð, þar inni var ljós, en þar var lokað.  Við sáum þar inni konu sem var að skúra gólf, og við bönkuðum. Hún mældi okkur gaumgæfilega út og hefur sennilega séð aulasvipinn á okkur og opnaði lúgu og spurði hvað okkur vantaði. Eftir nokkrar handabendinga og svitadropa gátum við komið henni í skilning um það að okkur vantaði leigubíl til að komast til Liverpool.

Hún gerði okkur skiljanlegt að engir leigubílar væru lengur á vakt í þessi bæjarfélagi, en frændi hennar ætti bíl og hún skildi biðja hann að keyra okkur ef við vildum borga honum umsamið verð, en hann stundaði stundum akstur fyrir gjald án þess að vera leigubílstjóri. Þessi frændi konunnar var greinilega nýsofnaður þegar ræstikonan náði við hann sambandi og þurfti hún að ganga eftir honum til að sinna þessu verki.

Hann nefndi síðan upphæð í sterlingspundum, og sagðist fara fyrir þá upphæð.  

Við samþykktum strax, ekki síst þar sem það var lægri upphæð en það sem við greiddum hinum löglega leigubílstjóra fyrr um kvöldið. Við vorum þreyttir, en þó ánægðir þegar að skipshlið var komið, og létum bílstjóra okkar fá aukaþóknun að skilnaði, sem hann tók við brosandi út að eyrum.

The Cameraman  

Við Siggi eins og svo oft áður keyptum eitthvað dagblað og skoðuðum það í leit af ákjósanlegri kvikmynd til að horfa á. Við vorum að þessu sinni staddir á góðum veitingastað við Piccadilly Circus í London.  Ég sá auglýsta mynd í kvikmyndahúsi. Þar sem kom fram að þar væru eingöngu sýndar perlur kvikmynda frá tímum þöglu kvikmyndanna.  

Þarna var auglýst mynd sem ég hafði séð sem krakki heima á Sigló, þar hét myndin Kanon fotograferen. Ég kannaðist þarna við myndina undir enska nafninu, The Cameraman með Buster Keaton í aðalhlutverki. Leikari sem margir eldri kynslóðar, vilja telja konung þöglu myndanna, vinsælli en sjálfur Chaplin sem kom fram í sviðsljósið síðar. Buster Keaton var í miklu uppáhaldi hjá mér sem krakka. 

Kynnast má Buster Keaton frekar á þessum tengli hér : http://www.imdb.com/title/tt0018742/

Siggi var tilbúinn í það að sjá myndina, eftir að ég hafði lýst því hvernig mynd þetta væri, en við þurftum að hafa hraðan á þar sem sýningartími nálgaðist. Við gerðum upp reikninginn fyrir matnum og gengum út á gangstéttina. Við höfðum séð á auglýsingunni að bíóið átti að vera á svæði Piccadilly Circus, og gengum um stund upp og niður svæðið báðum megin götunnar en sáum ekki nafn bíósins innan um allan skara ljósaskilta sem þarna voru.

Sýningartíminn nálgaðist óðfluga og við ákváðum að taka okkur leigubíl sem þarna var krökkt af. Við fórum inn í einn leigubílanna sem voru á stæði rétt hjá, réttum bílstjóranum dagblaðið áðurnefnda og bentum á auglýsinguna og báðum um akstur þangað. Bílstjórinn horfði alvarlegur á okkur til skiptis, og spurði hvort við værum alveg vissir. það fór að renna á okkur tvær grímur.

Vorum við á leið í svipað ævintýri og það sem við lentum í þegar við vorum í Liverpool forðum. Hvað hafði ég misskilið í auglýsingunni ? Nei við vorum aðeins klárari í ensku en þá, það getur ekki verið. Jú okkur var alvara, og við gerðum bílstjóranaum grein fyrir því. Bílstjórinn setti í gang og bifreið sína í gír, sveigði aðeins út á götuna og hugði að umferðinni, fór síðan þvert yfir götuna og lagði bílnum þar við gangstéttina beint á móti. Hann setti ekki einu sinni mælirinn í gang. Hann sagði svo á ensku, gjörið svo vel drengir, þið eruð komnir.

Við litum út, og við okkur blasti stórt auglýsinga upplýst plakat sem á stóð The Camerman.

Bílstjórinn skellihló, kátínu hlátri sem við svo tókum þátt í þrátt fyrir blendnar tilfinningar. Siggi rétti bílstjóranum 5 punda seðil og sagði eitthvað á þessa leið hlæjandi, og glotti "Mange mange takk"  Bílstjórinn tók við seðlinum, þrátt fyrir að hann hafði ætlað sér að láta ánægjuna yfir þessari uppákomu nægja sem fargjald, en spurði okkur svo um þjóðerni. Hann hefur örugglega deilt sögu af þessu atviki með starfsbræðrum sínum.

Við fórum svo í bíó, þar sem um var að ræða sýningarsal sem ætla mætti að hafi verið byggður í húsasundi og var ekki breiðari en um það bil 3 metrar, en vegna fáfræði okkar, þá leituðum við af "venjulegu" útliti kvikmyndahúss. Við nutum myndarinnar eins og til stóð með mikilli upplifun beggja, Sigga sem aldrei hafði séð mynd í líkingu við þessar þöglu myndir, hvað þá séð Buster Keaton, og ég upprifjun frá barnæsku. 

Eigum við ekki bara að tala íslensku? 

Haförninn hafði verið til viðhalds í skipasmíðastöð í úthverfi í Grimsby á Bretlandi. Skipið var komið á flot og lá við festar við bryggju í Grimsby. Það var sunnudagur að vori til, glampandi sól og 25 C° hiti.

Við Siggi ákváðum að fara í land fyrir hádegið og stefnan var tekin á gamla bæjarhlutann í Grimsby. þangað fórum við í leigubíl, og ákváðum að skoða okkur um gangandi í gamla bæjarhlutanum. Margir höfðu talað um að það væri þess virði að eyða tíma í að skoða þetta svæði.

En þær voru marga svipaðar ferðir okkar Sigga um hinar ýmsu borga í svipuðum erindum, flakka um og skoða byggingar, söfn og önnur áhugaverð svæði sem okkur hafði verið sagt frá eða lesið um. Við vorum búnir að ganga all lengi þarna í úthverfinu, er við rákumst á litla verslunarmiðstöð. Þar keyptum við smávegis, þó svo að það hefði alls ekki verið tilgangurinn að fara í verslunarleiðangur. Stuttu síðar komum við að veitingastað sem bar hið virðulega nafn LEE & WONG RESTAURANT. Þetta þótti okkur skondið þar sem messinn okkar var kallaður Lee Wong (Jónas Björnsson).

Það var komið að hádegi svo við fórum þar inn og settumst við borð. Staðurinn var mjög látlaus og laus við allan íburð. Frekar fámennt var þarna inni, allir aðrir en við voru af austurlanda uppruna. Þjónn kom til okkar, greinilega undrandi á heimsókn okkar en rétti okkur matseðil og fór svo að sinna öðrum gestum. Okkur brá er við litum á matseðilinn, Við höfðum vegna góðra æfinga til þessa, farið létt með að velja rétti af matseðlum sem skrifaðir voru á enska tungu.

En það eina á þessum matseðli sem við skildum greinilega voru tölustafirnir, framan við hvern rétt sem í boði var, svo og tilgreint verð réttanna aftan við, tilgreint í sterlingspundum. "Hvað ætlar þú að velja?" sagði Siggi og glotti lymskulega eftir að við höfðum skoðað matseðlinum um stund. Ég hafði reiknað út að miðað við það verð það sem tilgreint var aftan við letrið á matseðlinum, sem ætla mætti að hafi verið kínverskt letur, mætti áætla að upphæðir í hærri kantinum væru einhverjar máltíðir. Ég sagði án þess að hika, Sigga til undrunar að ég ætlaði að fá mér rétt númer 21. Þjónninn kom þögull sem fyrr og leit á okkur til skiptis.

Ég benti honum á töluna 21 og það sama gerði Siggi.  Eftir um 15 mínútur kom þjónninn, nú brosandi með þær bestu fiskréttamáltíðir sem ég hefi nokkru sinn smakkað, fyrr eða síðar. Þetta reyndust vera margar tegundir skelfiska, og krabbadýra sem var komið fyrir í deigi og djúpsteikt. Meðlætið var nokkrar tegundir af sósum og ávöxtum.  

Eftir máltíðina fórum við vel mettir út . Það var eins og að koma inn í bakaraofn eftir veruna inni á svölum og notalegu veitingastaðnum, hitinn að líkindum kominn vel yfir 25°C sem hafði verið um morguninn, en nú sást ekki til sólar. Ekki sást sála, frekar en leigubílar. En við höfðum ákveðið að koma okkur um borð. Við gengum til baka í þá átt sem við töldum okkur hafa komið frá, en eftir langan gang áttuðum við okkur á að við vorum rammvilltir.

Við höfðum engum mætt til að biðja um að vísa okkur til vegar. Ekki fannst okkur árennilegt að banka upp hjá einhverjum íbúanum, og allar sjoppur og verslanir virtust hafa lokað um hádegið. Við komum loks að strætisvagnaskýli, þar kom í ljós að þaðan hafði vagn farið "eitthvað" fyrir 15 mínútum, og næsti mundi ekki koma fyrr en eftir klukkutíma og 45 mínútur. Við bölvuðum upphátt og í hljóði. En allt í einu hinum megin við götuna, birtist gamall maður haltrandi með staf. Hann hafði komið út úr nálægu húsi.

Við fórum á móts við þann gamla sem sennilega var kominn nálægt áttræðu, eða jafnvel eldri. Ég reyndi að gera honum skiljanlegt með minni lélegu ensku og handapati, hvort hann hefði tök á því að hringja fyrir okkur í leigubíl. Hann horfir á okkur rannsakandi til skiptis án þess að svara, og áfram bablaði ég á "internationalskandinavísku" sambland af ensku, íslensku og dönsku". Þá brosir hann breitt og segir hátt og skírt á góðri íslensku:  "Eigum við ekki bara að tala íslensku?  

Þessi gamli maður reyndist hafa verið í Háskóla Íslands á sínum yngri árum sem skiptinemi, og þar lært íslensku, og okkar vandamál voru leyst. Hann fór til baka inn til sín, og hringdi fyrir okkur í leigubíl og við síðan um borð í Haförninn. 

ES. vegna réttarins á matseðli númer 21, nefnt hér framar.
Okkur grunaði óljóst, að þjónninn hefði valið þennan rétt fyrir okkur, ekki númer 21. En um haustið sama ár vorum við aftur staddir í Grimsby og fengum okkur leigubíl til sama staðar, og pöntuðum án þess að hika, þjóninum (ekki sá sami og áður) til mikillar undrunar, rétt númer 21, rétt sem reyndist samsvarandi eða sami, og jafn bragðgóður réttur og áður, svo tilviljun hafði ráðið í fyrra skiptið, um góða máltíð.

Nafngiftin "Siggi drumbur"

Smá fróðleikur um Sigurð Jónsson vinn minn frá Eyri, ofl. Sigurður hefur fengið ótal viðurnefni, sum eru gleymd og grafin en önnur lifa, þar með talið hið lífseiga gælunafn „Siggi drumbur“

Tvennum sögum fer um uppruna og tilefni nafngiftarinnar, sú fyrri mun hafa fæðst um borð í togaranum Hafliða (eða Elliða)   Seinna tilefnið kom til þar sem viðkomandi aðilum var ókunnugt um að hann hefi áður fengið þessa nafnbót. Það var eftir að Siggi ásamt nokkrum skipsfélögum hans á Haferninum höfðu lent í smá hrakningum á Jan Mayen árið 1968. Haförninn, hafði legið í vari fyrir norðanátt vegna brælu, í vík að nafni Sörbugten við Jan Mayen.

Þar voru einnig nokkur íslensk síldveiðiskip, en lygnt var í víkinni. Nokkrum skipverjum var gefið leyfi til að skreppa í land á öðrum bjargbátnum, sjór þarna var nánast lágdauður og allt leit vel út. Þegar komið var nærri því að landi, reis skyndilega ein af mörgum fleirum þar á eftir, risastór alda sem hreif bátinn og sendi þversum langt upp í sandfjöruna sem þarna var. Engum varð meint af þessu utan þess að flestir fengu á sig skvettur.

Mönnum var nokkuð brugðið sem von var, sérlega þeim um borð í Haferninum sem fylgst höfðu með úr fjarlægð, með sjónauka. Þarna var nóg af rekaviði, og hafin var leit af hentugri vogarstöng, til að nota til að breyta með legu bátsins, svo koma mætti honum til sjós aftur. En eftir að öldurótinu lægði aftur, voru um 10 metrar til sjávar. Hentugt tré sem vogarstöng fannst fljótlega, en það vantaði eitthvað þykkt og nógu létt til flytja nær, og nota sem vogarundirstöðu.

Rúmlega 100 metum fjær, fundu þeir Guðmundur Björnsson og Sigurjón Kjartansson sem báðir voru vel að manni og hraustir, drumb mikinn eða rótarhnyðju sem þeir tóku á milli sín og hófu flutning á áleiðis að bjargbátnum.  Þegar leiðin var um það bil hálfnuð misstu þeir drumbinn og ákváðu að hvíla sig.  Þá kom Sigurður Jónsson aðvífandi og sagði eitthvað á þessa leið: „Hverslags aumingjar eruð þið, ætlið þið að gefast upp?" Siggi tók upp drumbinn, sem sennilega hefur verið nálægt 100 kg. í fangið og bar hann einn alla leiðina sem eftir var. Vel gekk að breyta legu bátsins, en síðan var farið í skoðunarferð um eyna og svo sett á flot að því loknu og haldið til skips. Eftir þetta fékk Siggi um borð í Haferninum, nafnið Siggi drumbur.

Siggi hafði raunar þar áður, einnig borið nafngiftina „Siggi poki“ um borð frá árinu 1966, en það er önnur saga. Stuttu eftir að komið var út á sjóinn, var komin talsverð undiralda, það gekk þó slysalaust að koma öllum um borð í Haförninn, nema mér og Sigga sem eftir urðu um borð í bjargbátnum. Siggi sem var við vél og stýri, en ég átti að ná taki, samhliða á krókunum tveim sem voru á vindvírunum sem hífa átti bátinn með um borð aftur upp í bátagálgana. Það var ekki auðvelt verk vegna veltings sem kominn var á skipið, Siggi þurfti að stjórna vél og stýri með návæmni, og sæta lagi þegar krókarnir sem öðru hvoru slengdust í skipið í veltingnum. 

Ná þurfti krókunum báðum í einu og vera fljótur að krækja nær samtímis, því annars gat undiraldan valdið því að báturinn steyptist með annan endann niðri í sjó nokkuð sem gæti fyllt bátinn, og kastað okkur í sjóinn. Siggi var enginn venjulegur sjóari og ég snöggur, svo þetta tókst í fyrstu atrennu þó svo að einir þrír metrar væru á milli tveggja krókfestinga bátsins.

Vindurnar voru settar á fullt og Siggi drap á vélinni og við héldum okkur dauðahaldi, enda ekki vanþörf á þar sem hnykkurinn sem kom þegar sjórinn hvarf undan bátnum í veltingnum og aldan náði svo aftur upp í botninn sem gerði slaka á vinduvírinn auk þess sem báturinn skall með miklum krafti ýmist í skipssíðuna með miklu afli eða langt úr frá síðunni. Skipstjórinn og raunar öll áhöfnin horfðu á með skelfingu.

Lánið var að það var "Ægir" einn, sem kom skipstjóranum á óvart en ekki "Kári" sem lét ekki á sér kræla, ella hefði skipstjórinn aldrei leyft þessa för. 
(Ægir og Kári: tákn um sjó og vind)

Með í áðurnefndri landgöngu á Jan Majen voru:  

  • Sigurður Jónsson,
  • Steingrímur Kristinsson,
  • Guðmundur Björnsson,
  • Sigurður Ásgrímsson,
  • Guðbrandur Sigþórsson,
  • Bergsveinn Gíslason,
  • Sigurjón Kjartansson, og
  • Birgir Þórbjarnarson.

Seinna þegar allt var afstaðið, komu nokkrir Norðmenn að skipshlið og var þeim boðið um borð, en þeir höfðu orðið varir mannaferða, þó svo að bækistöðvar þeirra væru hinum megin á eyjunni. Við Sörbugten var bátastöð eyjaskeggja. þar sem bátar þeirra voru sjósettir, og teknir á land á vagni, með jarðýtu. Það var slegið upp smá veislu þeim til heiðurs. Um borð að þessu sinni var sonur þáverandi skipstjóra Guðmundar Arasonar og dóttir mín Margrét Marsibil.

Það þótti Norðmönnunum athyglivert og stungu meðal annars upp á því að þeir fengju að skreppa með Margréti og fleirum í land, þó sérstaklega Margréti, þar sem á land á eynni hefði kvenmaður ekki fengið að koma í marga áratugi vegna hjátrúar. Allir tóku vel í hugmyndina, þar til einn Norðmannanna nefndi það að spyrja þyrftir kónginn um leyfi. En þann titil bar æðsti yfirmaðurinn á eynni. Haft var samband við kónginn sem þvertók fyrir að slíkt leyfi fengist og þar við sat.

 Svo má benda á að fjöldi smáfrétta í myndformi og fleiri ljósmyndir má sjá á tenglinum:> Haförninn, myndir - Tæplega 400 myndir sk

 Að auki hér frá Síldarmiðunum:>> Og meira hér, myndir um borð Og myndir af skipsfélögum hér

Bond og Buster Keaton - The Cameraman