Guðný Ósk - Óvænt kokkur

Kona mín Guðný Ósk Friðriksdóttir, hafði á árunum 1967-1969, verið þrisvar sinnum um borð í Haferninum, þegar siglt var til erlendra hafna, hjá mér mismargar vikur í einu.

Auk þess hafði dóttir mín Margrét skroppið með mér einn túr eftir síld til  Jan Mayen miða. -

Guðný fór einnig einn túr í siglingu sem kokkur. Það atvikaðist á broslegan máta, án hennar vitundar í fyrstu. Ég hafði fengið leyfi til að taka konu mína með í siglingu, með lýsisfarm til Liverpool. Síðan átti að taka olíufarm í Rotterdam og fara með heim til baka, þetta varð rúmlega þriggja vikna túr.

Oft kom fyrir að eiginkonur og jafnvel börn fengu að koma með í svona ferðir Hafarnarins, og voru að mig minnir mig þrjár konur með í þeirri ferð sem hér verður sagt frá. Við hjónin höfðum komið snemma um borð um kvöldið, kona mín fór snemma til hvílu. Hún þekkti vel til þarna, en þetta var önnur ferð hennar með mér. Ég hafði farið til vinnu úti á dekki, og fram á bakka, eins og venjulega þegar lagt var úr höfn, og gengið síðan frá endunum með strákunum, og fór eftir það til konu minnar og sofnaði stuttu síðar.

Einn nýr afleysingaháseti var með í þessari för, hann lenti á næturvakt með Pálma. Hásetinn var svo að venju, sendur til að ræsa kokkinn klukkan 07:00 um morguninn. Hann sá skiltið ofan við dyr kokksins, bankaði og kallaði ræs, (við bankið vaknaði ég, í nálægu herbergi) hann beið um stund, en fékk ekkert svar.

Guðný Ósk Friðriksdóttir, kokkur

Guðný Ósk Friðriksdóttir, kokkur

Hann opnaði rifu á dyrnar á kokks herberginu, og endurtók "ræs." Ekki svaraði kokkurinn, svo hásetinn kveikti ljós og sá að engin sængurver voru í kojunni. Hann leit vandræðalega í kringum sig og sá þá Pálma stýrimann við enda gangsins og hrópaði. "Hvar er kokkurinn?" 

Pálmi stýrimaður mun hafa brosað og sagði blá alvarlegur: "Hann sefur hjá timburmanninum"
Ég sem hafði heyrt orðaskipti, opnaði augun og hugsaði með mér, hvað er Pálmi nú að bralla?

„Svona bankaðu hjá timburmanninum, kokkurinn sefur þar“. Endurtók Pálmi, og hafði greinlega nálgast. Það er bankað á dyrnar hjá mér, ég vind mér fram úr. (kona mín sem svaf fyrir ofan mig í tvíbreiðri kojunni, og bærði ekki á sér)

"Ert þú kokkurinn?" stamaði hásetinn.  Nei ég er timburmaðurinn, svaraði ég hálf pirraður og spurði hvað væri í gangi? Farðu upp strákur, ég skal sjá um þetta, heyrði ég Pálma segja, sem nú var kominn að dyrunum.
Þá sagði Pálmi mér, að gleymst hefð að segja mér frá því, að þegar ég var í endum fram á bakka og við fórum úr höfn um kvöldið. Að þegar kokkurinn Jón Rögnvaldsson hefði frétt að Guðný kona mín mundi fara með okkur, þá hefði hann spurt Sverri bryta og skipstjórann, sem höfðu verið niðri í messa, hvort ekki væri hægt að biðja Guðný að taka að sér kokkamennskuna og hann fengi frí.

Guðný hefði verið svo dugleg að hjálpa til við eldhúsverkin þegar hún hefði verið með í fyrri skiptin, og þekkti því vel til allra hluta. Sverri og skipstjóra leist vel á þetta, töldu þetta í fínu lagi ef Guðný samþykkti. Ég skal tala við hana sagði Sigurður skipstjóri.
Hann gerði ráð fyrir því að Guðný væri í klefa mínum, bankaði þar laust og opnaði dyrnar.

Við ljósglætuna sá hann og taldi að Guðný væri sofnuð, enda komið vel fram yfir miðnætti, en ég fram á dekki að vinna. Hann tók þá ákvörðun um að segja Jóni að allt væri í lagi, hann ætlaði svo að tala við mig þegar búið væri að ganga frá og skipið á leið út fjörðinn. Hann taldi sig þekkja nóg til Guðnýjar, og að hún mundi samþykkja ráðahaginn. 

Jón fór í land ánægður, en hann hafði prívat leitað eftir stagengli sínum, en ekki fengið neinn af þeim sem hann treysti og gerði ráð fyrir að brytinn mundi samþykkja.  - Skipstjórinn aftur á móti gleymdi að tala við mig, svo hvorki ég né Guðný vissu neitt um málið.

Sigurður skipstjóri vaknaði svo fyrr en venjulega um morguninn og mundi þá eftir öllu saman. Hann fór upp í brú og bað Pálma, sem þá var nýbúinn að senda hásetann áðurnefnda, sem var með honum á vakt, niður til að ræsa. Sigurður bað Pálma að fara á eftir hásetanum til segja okkur frá atburðarásinni, hann mundi sjá um brúna á meðan.

Sigurður skipstjóri var svo stuttu síðar, hálf vandræðalegur þegar hann kom niður í eldhús til að afsaka sig, en Guðný hló bara af honum og sagði að það væri bara fínt að vera á launum í þetta sinn. Sigurður hjálpaði henni svo óbeðinn, svona til málamynda að þurrka upp eftir morgunverðinn.

Það var mikið hlegið af þessu atviki, ekki síst Sverrir bryti sem vissi ekki annað en að Sigurður hefði rætt við Guðný kvöldið áður. Ekki þarf að taka það fram, að Guðný leysti sitt verkefni með prýði.