Tengt Siglufirði
Haförninn var á leið frá Siglufirði með viðkomu á Seyðisfirði. Skipið var fullfermt af lýsi frá verksmiðjum SR. Ferðinni var heitið til Rotterdam í Hollandi. Við höfðum tekið á Seyðisfirði, svartolíu fyrir aðalvélina, en þar vildi svo illa til að olía sprautaðist vegna mistaka út um allt dekk og fauk um stóran hluta skipsins stjórnborðsmegin að aftanverðu.
Ekki var gefinn tími til að þrífa þetta en vonast var eftir því, að sjór og vindar á leiðinni út, mundu skola olíuna burt. Það rættist ekki að sinni því rjómablíða var yfir hafið, allan fyrrihluta leiðarinnar.
Skipstjórinn Sigurður Þorsteinsson lét skipið nú sigla eins og svo oft áður, framhjá og á milli eyjanna vestan við Skotland og síðan smákrók inn um sund sem heitir Sound of Islay, og þaðan út á Írlandshaf og á leið sem liggur til Frakklands.
Þessi leið meðfram Skotlandi er ákaflega skemmtileg sigling. Sigling um sundið Sound of Islay, sem er ekki nema 200-400 metra breitt. Þar er ákaflega fallegt um að litast. Margar whisky verksmiðjur eru þar austantil við sundið. Í logni eða austan golu, angar loftið þarna af whisky lykt. Þetta var nokkur krókur að fara en skipverjar nutu þess, jafnvel að kvöldi þess dags sem nú verður lýst.
Við vorum margir uppi í brú þegar siglt var í gegn um sundið, þar á meðal ég sem átti næturvakt við stýrið fyrir höndum, á vakt með Pálma Pálssyni 2. stýrimanni, en við vorum báðir mættir vel tímalega á vakt okkar, til að njóta siglingarinnar um sundið.
Þegar stefnan hafði verið tekin út á Írlandshafið,
hafði skipstjórinn Sigurður Þorsteinsson farið til koju. Allir sem þar voru fyrir höfðu yfirgefið brúna nema fráfarandi vak. Ægir Björnsson 3. stýrimaður og Sigurður Jónsson
bátsmaður höfðu verið á vakt. Við Pálmi tókum svo við í brúnni um miðnættið eins og til stóð.
Ægir Björns hafði á orði, að það
væri varla hægt að fara í koju í svona dásamlega góð veðri. Það var glampandi tunglskin og nánast logn, mig minnir að þeir félagar Siggi og Ægir hafi fengið sér
í pípu, á öðrum hvorum brúarvængnum.
Ég slappaði af í stólnum aftan við stýrið eftir að hafa sett sjálfstýringuna á að fyrirmælum Pálma.
Pálmi leit hljóður fram fyrir skipið, skoðaði í radarinn og leit svo aftur fram fyrir skipið. Nokkru seinna, vel eftir miðnættið kemur skipstjórinn upp í brú á slopp, greinilega
ný vaknaður af föstum svefni.
Hann snýr sér áhyggjufullur á svip að Pálma og spyr. "Hvar erum við staddir?" Við Pálmi litum undrandi hvor á annan. Pálmi elti karlinn,
sem kominn var inn í kortaklefa og gaf Pálmi þar upp nákvæma staðsetningu.
Karlinn rauk svo fram í brú með Pálma á eftir sér, hann skoðaði í radarinn, tók svo upp sjónauka, fór út á brúarvæng þar sem Ægir og Siggi voru, og skimaði í allar áttir.
Við vissum ekki hvað var í gangi hjá skipstjóranum og litum furðulostnir á hvern annan. Svona hegðun skipstjórans, sem öllu jöfnu var rólyndis maður, var frekar óvenjuleg, vægt til orða tekið. Skipstjórinn snéri sér að Pálma og sagði ákveðinni röddu. Segðu Ægir og Sigga að undirbúa sig til farar fram á bakka og gera bæði akkerin klár, og vera vel klæddir. Snúðu svo skipinu við Pálmi, og taktu stefnuna á Sound of Islay, við vörpum þar akkeri, ég sýni þér hvar nákvæmlega.
Enn litum við hver á annan félagarnir og hver hugsaði sitt. Ekki var maðurinn fullur, því áfengi smakkaði hann ekki og ekki var betur séð en hann vissi hvað hann væri að gera, skipstjóranum bar að hlýða.
Ég snéri stýrinu á þá stefnu sem Pálmi gaf mér. Pálmi og skipstjórinn fóru inn í kortaklefa. Ægir og Siggi fóru niður og náðu sér í peysu og komu svo upp aftur til að fá frekari fyrirmæli og ekki hvað síst að reyna að átta sig á því hvað væri í gangi. Við vorum búnir að sigla á hinni nýju stefnu í tæpan hálftíma, þegar skýringin kom. Það er aðdragandi ástæðurnar um að breyta um stefnu, þó svo að margt vantaði að sinni, til að fylla upp í eyðurnar. Hvernig vissi skipstjórinn þetta?
Það var eins og hendi væri veifað, komið var hávaða rok af austan og fór vaxandi. Áður en langt um leið fór að gefa yfir skipið frá krappri vindbáru og útsýni að minnka vegna hellirigningar sem fylgdi, ásamt sjóstrókum. Pálmi var fastur við radarinn, karlinn við vélsímann. Hann hafði samband við vélstjórann á vakt og bað hann að standa kláran við stjórnbúnað í vél, ekki víkja þaðan.
Eftir drjúga stund var Ægir og Sigga gefin fyrirmæli um að fara fram á bakka og gera akkerin klár. "Farið varlega og klæðið ykkur betur" hrópaði skipstjórinn á eftir þeim. Öldugangurinn hafði minnkað eftir því sem komið var nær landi, en vindurinn kom frá landi. Pálmi hafði reglulega gefið upp vegalengdir, og breytingar á stefnu sem ég framfylgdi.
Vindurinn og rigning virtist haf aukist umtalsvert og það rétt grillti í aftasta mastrið á dekkinu, svo þétt var rigningin sem buldi eins haglél á brúargluggunum. Og af þeim félögum Ægir og Sigga er það að segja að þeir fikruðu sig fram á bakkann og létu vita af því þegar þangað var komið, þeir biðu þar svo frekri fyrirmæla eftir að akkerið var klárt til að falla.
Þegar undir land var komið var beygt á bakborða inn á Sound of Islay. þar var slegið af, en sett var á fulla ferð aftur þar sem skipið lét ekki að stjórn. Vindurinn kom nú á stjórnborða, en hafði áður verið nánast á móti.
Þegar skipið var komið vel inn á sundið var skipunin "Hart á stjór" gefin og mjög skammt frá landi var akker látið falla, og vélin sett á hægagang. Það kom í ljós að ankerið hélt ekki, vindurinn var það mikill að aftur var keyrt til lands og skipun gefin um að undirbúa hitt akkerið einnig.
Á meðan setti skipstjórinn sem stóð við vélsímann ýmist á fulla ferð eða hæga ferð, en í vindkviðunum dugði ekki hæg ferð, því þá snérist skipið flatt undan vindinum og dró ankerin. Það var einmeitt í einni slíkri vindkviðu sem Sigurður Jónsson lét frá sér fara setningu sem Ægir mun aldrei gleyma, né þeir sem fréttu af síðar.
Ægir var framan við spilið við annað klussið að losa um keðjuklemmuna, en Siggi var aftan við spilið tilbúinn að láta falla þegar skipunin kæmi, öflugt gjallarhorn var fremst í bakkanum þaðan sem skipanirnar frá brúnni komu. Áður en Ægir vissi af, þá missir hann handfestu og tekst á loft og fýkur án viðkomu yfir spilið í átt til Sigga, sem réttir út aðra höndina og nær taki á Ægir og keyrir hann niður á bakkadekkið aftan við spilið þar sem hann var, og heldur sér og Ægi niðri á meðan kviðan gekk yfir. Þá muldraði Siggi, þó nógu hátt til að Ægir heyrði "Þú ættir að éta meir helvítið þitt, þá mundirðu ekki fjúka."
Ægi var ekki hlátur í hug á þessu augnabliki en sagði eftir á, að þarna hefði Siggi án vafa bjargað lífi sínu. Hann fékk nokkra marbletti eftir þetta flug. Akkerið var látið falla en það dugði ekki heldur, þannig að alla nóttina fram undir morgun var ýmist sett á fulla ferð eða slegið af.
það var svo rétt fyrir klukkan 06:00 um vaktaskipti sem Guðmundur Arason 1. stýrimaður kom öskuvondur upp í brú, til að skammast yfir því að hafa ekki verið ræstur. Hann róaðist þó þegar hann og fékk fregnir af því sem hafði skeð á vaktinni, og að vart hefði verið tími eða hugur til að ræsa.
Stuttu síðar gaf skipstjóri fyrirmæli um að ankerin yrðu dregin upp.
Fréttir frá BBC hefðu sagt að vísir á vindmælum í landi væru farinn að sýna minna en 12 vindstig, (35m/s) en það var hæsti skali viðkomandi mæla sem á þessum tímum voru almennt notaðir, þeir hefðu farið „í botn“ um nóttina. Einnig kom fram í BBC fréttum að þessi veðurhamur hafi verið sá mesti síðan „mælingar“ hófust á þessu svæði. Bílar fuku í umvörpum, meðal annars ein Wolkswagen bifreið sem hefði fokið upp í stórt tré, og önnur tré brotnað eða rifnað upp með rótum, auk ýmissa skemmda á mannvirkjum.
Við héldum út frá Sound of Islay og tókum stefnuna út á Írlandshaf á ný og þeir sem vakað höfðu um nóttina fóru til koju.
Síðar kom fram í fréttum á BBC um að 12-14 þúsund lesta skip hefði farist með manni og mús, vestur af svæði sem við hefðum væntanlega verið á, hefði skipstjórinn ekki vaknað með andfælum rétt eftir miðnættið. Aldrei heyrðum við neitt neyðarkall, né vissum af fyrr en í fréttunum nokkru síðar.
Seinna sagði Sigurður Skipstjóri okkur frá því, að hann hefði væntanlega verið nýsofnaður þegar hann dreymdi ömmu sína sem hefði sagt honum að gera það sem hann gerði. Ekki legg ég mat á þau meintu öfl sem þar voru á sveimi, en þetta sagði karlinn og bætti því við að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem amma hans hefði vakið hann með viðvaranir.
Ekki þurftum við að þrífa svartolíuna sem Seyðfirðingar úðuðu á skipið okkar, þegar við tókum þar brennsluolíu (svartolíu) þegar tankur yfirfylltist. Skipið leit nú út eins og nýmálað eftir stórrigninguna og rokið. Það eina sem þurfti, var að þrífa laufblöð og greinar sem höfðu skorðast á stöku stöðum um borð.
Við losuðum svo lýsisfarminn í Rotterdam, og tókum þar svo í sömu höfn um borð, fullfermi af matarolíu sem siglt var með til Algerborgar í Alger í Afríku.
Löngu eftir þennan atburð, þegar skipið lá aðgerðalaust við Hafnarbryggjuna á Siglufirði árið 1970, var undirritaður á næturvakt um borð. Þá kom Bjartur skipstjóri á Drang um borð. Við drukkum kaffi saman uppi í brúnni. Hann bað um leyfi til að líta í skipsdagbókina. Hann var þar nokkra stund að fletta, en kom svo með dagbókina fram í brú og spurði.
"Ert þetta þú Steingrímur, sem nefndur er hér í dagbókinni um óveðrið við Skotland?"
Ég jánkaði því, og hann sagði eitthvað á þá leið að þetta hlyti að hafa verið hrikaleg lífsreynsla.
Ég sagði eins og var að það hefði verið svo mikið að gera og hugsa á meðan á þessu stóð, því í hvert sinn sem slegið var af þá breytti vindurinn stefnu skipsins svo það þurfti að vera vakandi. Taka við fyrirmælum um stefnubreytingu og festa augun á gírókompásnum. Svo hefði ég verið svo þreyttur þegar vaktinni var lokið og ég kominn í koju, að ég hefði steinsofnað strax.
Jú víst var þetta mikil lífsreynsla.