Síldarmiðin, og úti á síldarmiðum

Ferðirnar sem farnar voru til austfjarðarmiða, og allt norður til Jan Mayen og Svalbarða, voru hreinar ævintýraferðir.

Ýmsir byrjunarörðuleikar urðu á vegi okkar fyrsta árið 1966. En á vertíðinni 1967 hafði því öllu verið kippt í lag. Meðal annars höfðu möstrin þrjú verið lengd (hækkuð) um 1,5 metri. En þau höfðu reynst of lág vegna löndunar í landi. Spilbúnaðurinn efst í möstrunum var notaður til að hífa sérstaka tóra og færa á milli tanka, tórunum var sökkt niður til botns í þeim, og skóflað þaðan upp í snigil sem færði síldina til rennu og síðan til lands.

Margir héldu að Haförninn mundi verða óstöðugri og velta meira eftir að möstrin voru hækkuð. En annað kom á daginn, það fann ég meðal annars vel, sjóveikur maðurinn. Skipið gjörbreyttist til hins betra. Allar hreyfingar skipsins urðu hægari og mýkri í hliðarveltingi.

Til losunar á afla bátanna yfir í Haförninn voru notaðar öflugar sogdælur og tíu tommu sver gúmmíbarki, frá dælu. Dælurnar voru af skóflugerð. Öflugar loftpressur (vagúmdælur) voru inni í dekkhúsi. Þaðan voru þriggja tommu lagnir tengdar fram í þrjár dælur með búnaði sem myndaði undirþrýstin (vagúm) og myndaði nægan sogkraft til skófludælanna, til að ná afköstum allt að 400 tonnum á klukkustund. En sum skipin voru vart með það mikinn afla að slíkt væri hægt, og tók því lengri tíma en svo til að losa skipin. Það var tímafrekt þegar fór að minnka í lestinni, fyrir sjómennina að lempa síldinni að dælustúti.

Það fór svo eftir stærð bátanna, hvort hægt var að losa tvo stjórnborðs megin, þar sem dælurnar voru tvær. En oftar en ekki voru tveir bátar losaðir á sama tíma, þó hægt væri að losa þrjá samtímis.

Mín fyrsta vakt á dekki við lestun, (við kölluðum það þó yfirleitt LÖNDUN eins og í landi) var mér minnisstæð vegna atviks sem mig snerti í bókstaflegri merkingu.

Þegar ég vann í landi, var ég oftast með öryggishjálm á höfðinu þegar unnið var á svæði þar sem hætta gat verið á verkfæramissi eða öðru frá starfsmönnum sem unnu á vinnupalli eða við þröngar aðstæður. Nokkrir SRingar, þar á meðal ég höfðu tekið þennan hátt upp, en ekki allir, þar sem þetta var ekki krafa á þeim tíma. Hjálminn minn hafði ég tekið með um borð, og kom með hann til vinnu úti á dekki þegar fyrsta vaktin mín vegna lestunar átti sér stað. Félagar mínir litu til mín með glott á vör.  Einn spurði hverskonar jólaskraut ég væri kominn með á hausinn. (hjálmurinn var rauður)

Enginn annar var með hjálm. Ég svaraði litlu, og fór til þeirra verka sem mér hafði verið lagt fyrir.
Mig minnir að við höfum verið að undirbúa móttöku á þriðja bátnum til losunar. Við slíka vinu er ma. notuð bómuvinda til að færa til löndunarbarkann yfir í veiðiskipin. Skyndilega heyrðist smellur. Bóman féll niður á lunningu skipsins. Sem betur fór lenti hún ekki á neinum, heldur á milli tveggja skipverja.

En ég fékk þungt högg á höfuðið. Mig hnikaði fótur við höggið. 25mm skrúflás, sem haldið hafði í blökk þá sem stýrði legu bómunnar hverju sinni, hafði opnast. Lásboltinn hafði ekki verið nógu vel hertur þegar gengið var frá í upphafi ? Ég ásamt félögum mínum, sluppum með skrekkinn. Ekki var talað um jólaskraut á höfði mér eftir þetta. Hjálmurinn eyðilagðist að vísu, en ég fékk mér nýjan næst er við komum að landi.