Glefsur úr dagbók - Ýmis minnisstæð atvik

1. desember 1968.  
Siglt var inn í mikinn flóa, framhjá Liverpool lagst við bryggju í Quin Elisabeth II Dock í Eastham: Þar var steinolíufarmur losaður. Ekki var margt að sjá þarna og lítill áhugi á að skoða sig um þar. Ég, Siggi Jóns, Guðmundur Ara og Sigurður Ásgrímsson ákváðum að skreppa til Liverpool og fórum við þangað með leigubíl. Þetta er drjúg vegalengd, og þar var farið meðal annars undir flóann um tilkomumikil fjögurra akreina jarðgöng, þar sem hátt var til lofts og vítt til veggja. 

Við sáum þrjár bíómyndir í ferðinni, og farið til baka með járnbraut. Komið var um borð rétt fyrir miðnættið, rétt mátulega til að ég mætti á vakt sem ég átti fyrir höndum um miðnættið.  

Í Eastham kom agentinn með sjónvarpstæki um borð, sem gert var fyrir enska kerfið.

Áhöfnin hafði skotið saman fyrir tækinu, en tæki skipsins var aðeins gert fyrir hið almenna „evrópska kerfi“ sem dugði ekki til að sjá útsendingar enska kerfisins sem byggt var fyrir „400 línur.“

6. desember 1968:
Við erum á leið til Skagen í Noregi, rólegur dagur og þokkalegt í sjóinn (sjóveikur þó eins og oftast) Ég bað Pálma stýrimann að taka myndir af okkur í dekkliðinu, þar sem við vorum uppi í mastursstiga aftast stjórnborðsmegin. Það tókst vel eins og vænta mátti, síðan framkallaði ég filmu og stækkaði myndirnar um kvöldið og fæði fyrirsætunum stækkaða mynd, sem sjá má hér til hliðar.

Í desember 1968:
Víða hafði verið mikið frost í Evrópu, sem meðal annars olli því að hvergi var hægt að fá það vatnsmagn til neyslu, matargerð, þvotta o.s.f.v. það er það magn sem beðið var um í nokkrum höfnum. Skipið var orðið frekar fátækt af vatni og við beðnir að fresta baðferðum okkar sem kostur væri. Við höfðum ekki fengið umbeðið vatn í Englandi og vonuðumst til að við gætum fyllt vatnstankana í Noregi, en það brást einnig, þar fengum við aðeins 10-12 tonn.  Vatnsskorturinn endaði með því að ekki kom dropi úr krönunum, og frosið vatn um 120 lítrar voru sóttir í bjargbátanna. Það vatn var eingöngu notað til matargerðar.

Broslegt atvik hvað mig varðar átti sér stað þessu tengt. Ég hafði verið að vinna fram í bakka, og hafði óhreinkað hendur mína óvart er ég fékk yfir hendurnar gusu af kolryðguðum og fúlum sjó, sem leynst hafði á bak við skilrúm sem ég var að lagfæra. Ég sótti mér sjó í fötu og reyndi að þvo af mér óhreinindin, sem tókst að mestu og hélt síðan áfram vinnu minni. En þegar þeirri vinnu var lokið og komið að matartíma, áttaði ég mig á að enn var megn ýldufýla af höndum mínum. Ég náði mér í viskí flösku inn í ísskáp minn og þvoði hendur mínar með þessum drottinsveigum ásamt  sápu, og skolað síðan hendur mínar vandlega með viskíinu á eftir.

Tandurhreinn en lyktaði eins og alki þegar ég mætti til matar míns.  Þar þurfti ég að „svara til saka“ vegna hinnar ljúfu lyktar sem af mér angaði. Þar áður hafði ég notað sódavatn (selt í flöskum, og gott í blandið) til að bursta í mér tennurnar.

29. desember 1968, sunnudagur:
Haförninn lá við Löngutöng í Kaupmannahöfn. Ég nennti ekki í land og ákvað að dunda við myndir af fjölskyldunni, klippa niður og líma á spjald. Var megnið af deginum að dunda við þetta. Spjaldið var svo hengt uppi á vegg.

1. janúar 1969.
Enn erum við bryggju við Löngutöng

Það hafði slegið aðeins út, fyrir flestum skipsfélaga minna um áramóta kvöld og nótt. Ég var á vakt og mátti hafa mig allan fram til að passa upp á að sumir færu út fyrir takmörk sín og tókst misjafnlega. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma, enda vart tilhlítandi að festa það á blað. En við matarborðið í hádeginu á nýársdag voru á borðum leifar frá deginum áður, kokkarnir boðuðu forföll við matreiðslu, en annar þeirra kom mat frá fyrri degi á borðin, nóg handa öllum, sérstaklega þeim sem höfðu fengið sér um of af veigunum sterku og höfðu því litla matarlist.

Mikið var talað um það sem skeð hefði um nóttina, það er af hálfu þeirra sem eitthvað mundu, og þegar smá hlé verð á umræðunni, þá kom eitt af gullkornum hans Sigga Jóns, sem sagði drjúgri röddu: „Maður byrjar gamla árið þokkalega“ Sumir föttuðu ekki strax mismælin, en aðrir hlógu dátt.

Mánudagur 13. Desember 1969.
Haförninn hafði legið við bryggjuna Langalínu við Kaupmannahöfn í 10 daga (skammt frá þar sem hafmeyjan frægar er staðsett) Skipið hafði ekki fengið neinn verkefni. Ég hafði verið á næturvakt til klukkan 08:00- Ég mætti í mat í hádeginu eftir góðan svefn um morguninn. Klukkan 13:00 fór ég einn í land og ákvað að skreppa "Danmarks akvarium" sem er sjóminjasafn, eftir það fór ég aftur um borð, en ákvað svo að skreppa í bíó og sá tvær myndir önnur þeirra var Coogans bluff með Eastwood, hin The Party, með Peter Sellers. Eftir bíó, um klukkan 8 um kvöldið, fékk ég mér góðan göngutúr og skoðaði í búðarglugga ofl. Síðan fór ég með sporvagni áleiðis til skips míns.

Frá stoppistöð sporvagnsins var um þriggja km. gangur, ég orðinn þreyttur í fótunum, aðallega þeim vinstri, vegna meiðsla sem ég hafði orðið fyrir um tveim árum. Ég gaf því leigubílstjóra merki og lét hann keyra mig til hafnarinnar þar sem Haförninn átti að liggja við Löngutöng. En hvergi sá ég skipið mitt við nálægar bryggjur, þeir hafa þurft að færa sig hugsaði ég.  En svo var mér litið út á höfnina, þar þekkti ég þrátt fyrir myrkrið sem komið var, skip mitt sem sigldi á fullri ferð úti á ytri höfninni. 
Ég bað bílstjórann að aka mér til hafnarskrifstofunnar, þar fékk ég að vita að skipið væri skráð með áfangastað í Kalundborg, meira vissu þeir ekki.

Ég bað nú bílstjórann sem ekki hafði yfirgefið mig, um að keyra mig á járnbrautarstöðina (beint á móti Tivoli)- Þar gerði ég upp við bílstjórann. Hringdi svo í heildsalann Palle, sem áður er nefndur og vonaði að hann gæti leiðbeint mér, en hann talaði ágæta íslensku. Það hafði tekið mig langan tíma að finna nafn hans í símaskránni, þar sem ég vissi ekki föðurnafnið hans, og varð að giska á rétt nafn úr mörgum tugi nafna hans, en ég rataði á rétt eftir tvær tilraunir, þegar ég rambaði á nafnið „Oskar Rolf“ aftan við eitt Palle nafnið og mundi eftir að hafa séð það nafn á nótum sem ég hafði fengið hjá Palle eftir viðskipti við hann, en þar vann hann. Palle sagði mér að Haförninn hefði farið frá bryggju um klukkan 21:00 og hefði brottför hans borið mjög brátt að og að ég væri ekki sá eini sem orðið hefði eftir, en þeir hefðu ekki ennþá haft samband við sig svo hann vissi ekkert um þá.

Ég keypti mér lestarmiða til Kalundborgar, lestin lagði af stað klukkan 22:45, aðeins 15 mínútum eftir að ég hafði lokið símtalinu við Palle. Ekki hafði ég hugmynd um hve langan tíma ferðin tæki þvert yfir þetta landsvæði Danmerkur, frá Kaupmannahöfn til Kalundborgar. Ég sá á stóru korti hvar Kalundaborg var staðsett, og giskaði á að Haförninn yrði amk. 6-7 tíma að sigla umhverfir svæðið, og var nokkuð viss um að lestin yrði kominn um svipað leiti. Svo fór ég að velta því fyrir mér hvort ég hefði nú tekið rétta lest, því margar lestir fóru frá Kaupmannahöfn um sama leiti, ég gat hafa villst?

Ég settist inn í klefa þar sem sátu tvær konur um 70-80 ára giskaði ég á. Ég gat gert mig skiljanlegan þegar ég spurði hvort Kalundborg væri ekki áfangastaðurinn, og létti mikið þegar þær staðfestu það í einum kór og sögðu mér að þær væru einmitt einnig á leið þangað. Þær sögðu einnig að við yrðum komin þangað eftir um tvær stundir. Ekki vissu þær hve skip mitt yrði lengi, ég spurð þær að því, eftir að ég hafði gert þeim skiljanlegt að ég hefði orðið strandaglópur. Þetta voru fínar kerlinga sem vildu allt fyrir mig gera, gáfu mér meðal annars af nesti sínu.

Klukkan 00:10 var komið á brautarstöðina sem var endastöð og síðasta ferðin þessa nótt til Kalundaborgar. Ég kvaddi kerlurnar tvær með brosi og vinki og náði mér í leigubíl sem keyrði mig til hafnarskrifstofunnar. Þar var mér sagt að Haförninn væri væntanlegur á milli klukkan 6 og 7 um morguninn. Bílstjórinn keyrði mig til gistiheimilis, þar sem ég sofnaði fljótlega, en hafði áður beðið næturvörðinn að vekja mig klukkan 06:00, sem hann gerði. - Leigubílstjóri ók mér svo til hafnarinnar rétt fyrir klukkan 6:30, þar sem ég tók við endum frá undrandi félögum mínum, vegna móttöku minnar.

Hinir skipsfélagar mínir sem eftir urðu í Kaupmannahöfn, komu svo um borð um hádegið, eftir ferð með járnbrautarlest. Útgerðin borgaði útlagðan kostnað okkar vegna óvæntrar brottfarar skipsins, minn kostnaður var um helmingi minni en félaga minna pr. mann. Þeir höfði fengið gistingu á góðu hóteli í Kaupmannahöfn, ofl. sem þeir höfðu eitt í umfram mig.

Mánudagurinn 27. Janúar 1969,
Uddevalla Svíþjóð: Það var ekki óalgegnt að skipverjar Hafarnarins reyndu stundum að drýgja tekjur sínar með því að selja hafnar starfsmönnum,  eina og eina vínflösku og tóbak. Flestir gerðu þetta einhvern tíma, þar á meðal ég nokkrum sinnum, en þó þannig að viðkomandi hafnarstarfsmaður varð sjálfur að koma flösku eða tóbaki frá borði, og sá vissi ekki hvar í skipinu ég bjó. Sumir, sérstaklega nokkrir yfirmanna voru stórtækari (ekki 1. Stýrimaðurinn, G.A.)

Um klukkan 10 um morguninn, nokkru eftir að tollverðir höfðu eftir lauslega leita í skipinu, gengið frá pappírum og yfirgefið skipið, þá burðuðust tveir úr vélaliðinu með tvær ferðatöskur niður landganginn. Þeir voru rétt komnir af landganginum niður á bryggjuna þegar sírenuvæl heyrðist og að kom vælandi, blikkljósum prýdd tollgæslubifreið á fullu í átt til þeirra.

Annar skipverjinn tók til fótanna aftur um borð, en hinn lét sig hafa það og beið þess sem verða vildi. Tollararnir höfði verið í leyni í nokkurri fjarlægð og fylgst með skipinu. Herfangið reyndist vera 18 flöskur af sterku víni og tæplega 300 sígarettukarton. Þegar tollararnir ætluðu að hlaupa um borð til að elta flóttamanninn, stöðvaði sá „hugrakki“ þá og sagði að sá væri saklaus, hann hefði aðeins verið að aðstoða sig við burðinn niður landganginn og vissi ekkert um hvað væri í töskunum, hann væri einn sekur, og eftirförinni var hætt. Þeir félagar höfðu þó átt varninginn saman, en sá eldri tók á sig alla sökina.  Leigubifreiðin sem þeir félagar höfðu pantað áður og var að bíða eftir þeim, forðaði sér er bílstjórinn sá hvað var að ske.

Smyglgóssinu var komið fyrir í bifreiðinni og sökudólgurinn handjárnaður og fluttur burt. Vörður var settur við landganginn og stuttu síðar komu 12-15 tollverðir og skipinu var nánast snúið við vegna leitar. Enginn raunverulegur smyglvarningur fannst þó eftir rúmlega fjögurra tíma leit, en í hálfgerðri reiði þess vegna (?) þá tóku þeir til þeirra ráða að skrá sem væntanlegan smyglvarning, einkabirgðir nokkurra skipverja og tóku þær traustataki. Varning eins og áteknar píputóbaksbox 1/2kg., einnig eina óátekna slíka dós, átekin sígarettukarton, þar með talið 9 pakkar af sígarettum sem höfðu verið uppi í hillu hjá mér í margar vikur, hafði einhvern tíma opnað karton til að lána bátsmanninum pakka. þessi varningur hafði að vísu aldrei verið skráður, enda sýnilegur í viðkomandi herbergjum, en tollverðirnir hengdu sig á lagabókstafinn, sem sagði að þetta hefði átt að skrá, það var rétt.

En þetta var ekki allt. „sökudólgarnir“ voru kallaðir upp í Salon (Salon er stórt herbergi sem gjarnan er notað til móttöku tollvarða eða annarra sem erindi áttu við skipstjórann í höfnum) til skipstjóra, þar sem fyrir var vel borðalagður tollvörður og annar óeinkennisklæddur fulltrúi hans. Þar vorum við hvattir til að skrifa undir skjal vegna þessa máls og voru jafnframt krafðir um samkvæmt því sem stóð í skjalinu, um allt að 100kr. sænskar í sekt þeirra sem höfðu haft óáteknar umbúðir tóbaks í fórum sínum, hinir voru þar sem fundust áteknar umbúðir tóbaks, krafðir um 50 krónur, þetta var tilboð til okkar til að losna við að mál okkar færu fyrir dóm.

Okkur var sagt að ef við ekki samþykktum með undirskrift okkar þá skilmála sem skjalið hljómaði uppá, þá yrðum við færðir til fangageymslu í landi og málinu lokið fyrir dómi, það gæti tekið tíma.
Allir skrifuð undir, sumir án þess að lesa það sem þar stóð, aðrir litu aðeins yfir það sem þeir voru að skrifa undir.

Þegar röðin kom að mér þá hallaði ég mér aftur í stólinn sem ég sat í og ég reyndi skilja það sem þarna stóð. Ég var ekkert að flýta mér. Þarna voru sýndist mér upptalningar á skilmálum og sakargiftunum, (greinilega staðlað skjal) en þegar kom að síðasta liðnum staldraði ég við og var ekki viss.

Ég stóð upp og fór til skipstjórans og spurði hann hvort það væri rétt skilið hjá mér að þarna stæði að ég undirritaður viðurkenni ofanritaða skilmála og jafnframt að ég viðurkenni að hafa gert tilraun til að smygla tóbaki inn í sænska ríkið. Þannig skildi ég síðustu málsgreinina. Sigurður skipstjóri sagði þetta rétt skilið hjá mér. Ég bað hann að segja tollverðinum að undir þetta skjal skrifaði ég ekki, þar sem ég hefði EKKI gert tilraun til að smygla tóbaki inn í sænska ríkið.

Það varð uppi smá órói meðal félaga minna þegar þeir áttuðu sig á því hvað þeir hefðu skrifað undir, og Svíarnir órólegir og vildi vita hvað væri í gangi.  Sigurður sagði þeim, að ég mundi ekki skrifa undir á meðan neðsta tilvitnunin væri á skjalinu, því ég neitaði því að hafa gert tilraun til að smygla þessum 9 pökkum af sígrettum sem mér hefði láðst að skráð á tollupplýsinga skjal við komu skipsins.

Ég væri fús til að viðurkenna að mér hefði láðst að skrá nefnda pakka og að þeir hefðu verið fyrir allra augum uppi í herbergi mínu og borga viðkomandi sekt, annað ekki. En ég hafði sagt Sigurði þetta í aðal atriðum eftir að hann hafði staðfest réttan skilning minn á áðurnefndri málsgrein. Sigurður fór fram á að fá hin undirrituðu skjölin til baka, þar sem hann hefði ekki tekið eftir nefndu atriði, en því neitaði tollvörðurinn sem hafði stungið skjölunum ofan í tösku sína, þeir yrðu að afturkalla undirskrift sína með formlegum hætti í landi, hann hefði ekki vald til að afhenda þau.

Tollarinn beindi síðan orðum sínum (á sænsku) til mín og sagði eitthvað á þá leið að ég mundi heyra frekar frá yfirvöldum vegna neitunar minnar, og sagði svo við skipstjórann að skipið mætti ekki fara úr höfn fyrr en ég yrði sóttur. Þegar Svíarnir voru farnir, sagði Siggi glottandi eitthvað á þessa leið. „Þú átt líklega eftir allt saman eftir að vera settur inn í sama klefa og n.n. sem kom þessu öllu af stað.“ En hann bætti síðan við brosandi, „Haförninn fer ekki úr höfn án ykkar.“ Þú getur stólað á það. Svo að auki, þá er yfirmaðurinn ekki með það á hreinu hvað gera skuli við þig, þó hann hafi gefið annað í skin, því annars hefði hann tekið þig með sér.

Það var svo af þessum að segja sem þegar var kominn í fangelsi, að hann var yfirheyrður rækilega, þar sem hann var spurður spjörurnar úr. Þar var hann meðal annars spurður um hvaða laun hann hefði um borð sem kyndari, heimilisaðstæður, hve mörg börn hann ætti og fleira og fleira. Þegar þeir áttuðu sig á að laun hans voru hungurlaun miðað við sambærileg sænsk laun, og að hann ætti 7 börn (sem var satt) þá urðu miklar umræður á meðal nærstaddra, nokkuð sem sökudólgurinn áttaði sig ekki alveg á þar sem þeir töluðu hratt.

En seint um kvöldið sama dag var honum sleppt eftir að hann skrifaði undir samsvarandi skjal og áður hefur verið nefnt, og borgað 100kr. sænskar í sekt. Það væri ekki nema von að hann reyndi að drýgja tekjur sínar með jafnþungt heimili og hann, með konu og 7 börn á framfæri.  Þeir vissu þó ekki að þessi 7 börn voru á þeim tíma öll uppkomin, og farin að heiman, þekktir og mætir borgarar.

Honum var svo keyrt um borð. Jafnframt voru skipstjóra borin þau boð að mál mitt yrði tekið fyrir síðar, og Haferninum frjálst að sigla úr höfn.

Haförninn kom nokkrum sinnum til sænskra hafna eftir þetta, og ávalt eftir að gengið hafði verið frá landfestum kom óeinkennisklæddur embættismaður, mjög kurteis og spurði eftir timburmanninum herra Kristinssyni. Erindið var ítrekað, að biðja mig um undirskrift á margnefndu skjali frá því í Uddevalla. Undirskrift var að sjálfsögðu hafnað með brosi á vör og hristum hausi. Svo hættu þessar heimsóknir, um ástæðuna  vissi ég ekki fyrr en mörgum mánuðum eftir að ég var kominn í land heima á Íslandi, en þá rakst ég á kvittun heima frá bæjarfógetaskrifstofunni á Siglufirði upp á rúmar 700kr. íslenskar, sem var greiðsla til sænska ríkisins vegna sektar sem ég hefði átt að greiða í Svíþjóð fyrri hluta ársins.

Þetta hafði kona mín verið rukkuð um og hún ekki þorað annað en að greiða, þar sem kröfunni fylgdi munnlega þegar hún leitaði frekari skýringa hjá frá helvítis fógetanum, að ef þetta yrði ekki greitt yrði mér stungið í fangelsi í Svíþjóð. Hann var heppinn þessi fógetadruslu skratti, að hann var hættur í embætti á Sigló þegar ég komst að þessu, annars er ég ekki viss um að hann hefði gengið heill til skógar eftir heimsókn mína, ekki vegna skitinna 700 króna heldur fyrir að hræða konu mína til að greiða þessa meintu skuld, án þess að nokkur lagaheimild væri innheimtunni til málsbótar, þar sem engin viðurkenning né dómur hefði fallið í málinu.