Tengt Siglufirði
Ekki man ég fyrir víst hvaða ár eða í hvaða mánuði þessi frásögn hér neðar átti sér stað. Það var er Haförninn var að koma með olíu til Belgíu, sennilega þó seinnipartinn árið 1967.
Við sigldum upp skipaskurð eða fljót til olíuhafnar. Það var komið undir miðnætti og því svarta myrkur. það
var svo mikil rigning að illa sást fram fyrir skipið, né í ljósin frá byggðinni beggja megin fljótsins, sem hefðu átt að sjást vel, nánast hurfu annað slagið. Lóðsinn
sem var um borð bað skipstjórann að senda mann fram á bakka og láta vita ef skip kæmi á móti.
Radarinn var gagnslaus vegna truflana sem stöfuðu af stöðugum eldingum sem laust niður
allt í kringum skipið, en nokkuð vel sást þó annað slagið í bjarmanum sem lýsti upp svæðið augnablik ef eldingum laust niður nærri.
Ég hafði aldrei séð eða heyrt þvílíkar eldingar og þrumur, það sama höfðu einhverjir skipsfélagar mínir á orði. Vakthafandi stýrimaður kom niður í messa þar sem við nokkrir skipsfélagar voru. Stýrimaður kallaði á mig og sagði mér að fara í regngalla og fara fram í bakka, tengja þar kallkerfið og hafa samband við brú.
Mér krossbrá
við þessi fyrirmæli en reyndi að bera mig karlmannlega og hlýddi. Ég var með lífið í lúkunum á leiðinni fram eftir dekkinu og ekki minnkaði óttinn þegar upp á
bakkann var komið.
Skipstjórinn sagði mér að radarinn virkaði ekki vel og ég þyrfti að vera á útkíkti og reyna að sjá ef fljótabátur eða skip kæmi
á móti.
Ég sá ekki mikið framfyrir skipið vegna rigningarinnar, en við glampana frá eldingunum sást annað slagið grilla í bakka fljótsins beggja megin og eitthvað svart framundan.
Ég var í orðsins fyllstu merkingu skíthræddur, þorði ekki að snerta neitt og hélt mig beint undir vantinum sem lá frá mastri fram í stefni.
Ég gat þó ekki annað
undir niðri, en dáðst af þessu náttúrufyrirbæri, eldingunum, ljósaganginum og hávaðanum sem eldingunum fylgdi. Ég rýndi þó reglulega fram fyrir skipið. Við
mættum nokkrum fljótaprömmum og lét vita af þeim jafnóðum og þeir komi í ljós.
Allt í einu kallaði skipstjórinn til mín í gegn um kalltækið og sagði
mér að líta upp aftur eftir skipinu. Það gerði ég og var nær dottinn af undrum, og af blandinni hræðslu, en jafnaði mig þó fljótt því um svona fyrirbæri sem þarna
blasti við mér hafði ég lesið, bæði í fræðiritum og í skáldsögum, en aldrei á ævinni upplifað fyrr, raunar aldrei síðan heldur.
Skipsmöstrin þrjú og loftnetin þar á milli, loguðu. Þetta voru hrævareldar sem orsökuðust af rafmögnuðu og röku loftslagi. Skipstjórinn sagði mér að lóðsinn hefði sagt að ég ætti að halda mig undir vantinum eins og ég hefði gert. Hræfareldarnir stóðu yfir í nokkrar mínútur án þess að valda neinum skaða, ekki einu sinni á lofskeytatækjunum, sennilega hefur loftskeytamaðurinn verið búin að aftengja þau eins og oft er gert í þrumuveðrum.
Það var svo nokkrum mínútum síðar sem skyndilega stytti upp, Og stuttu síðar var kallað í enda. Ekki kom dropi úr lofti þar næstu daga á þessu svæði.