Saltað um borð - Síldarsaltendur

Sumarið 1968 var síldin komin nokkuð djúpt út af austanverðu Norðurlandi, raunar allt að Jan Mayen. Minna var um síld til söltunar, en menn höfðu vonað.

Meðal annars sá stjórn Síldarverksmiðjanna fram á að erfitt mundi verða að skaffa niðursuðverksmiðju Síldarverksmiðjanna hráefni. Það er Sigló Síld hf. Eftir smá umræður um þau mál, datt einhverjum í hug, hvort ekki væri mögulegt að salta síld um borð í Haferninum.

Réttilega var bent á að ekki væri hægt að gefa áhöfninni fyrirmæli til slíkra verka. Auk þess sem áhöfnin hefði nóg að gera á meðan tekið væri á móti síld um borð til bræðslu. Þessi mál bárust okkur um borð til eyrna, sem hálfgert tilboð. Ef við treystum okkur til að kaupa upp á eigin reikning, síld frá veiðiskipunum og salta einhverjar tunnur.

Svona 100 tunnur eða meira. Og vinna verkið á frívakt, það er á eigin kostnað. Þá mundi útgerðin loka augunum fyrir því, þó mannskapurinn skytist til þeirrar vinnu, þegar tækifæri gæfist frá skyldustörfum. Þetta var borið undir mannskapinn. Með einróma samþykki allt frá messa til skipstjóra og 1.vélstjóra. Allir sem tækifæri hefðu mundu taka til hendinni. 

Þetta sumar var Þórður Þórðarson (Hrímni) um borð, alvanur síldarsaltandi. Þannig að tryggt var að réttar aðferðir mundu verða notaðar. Engin skoraðist undan vinnunni sem tengdist söltuninni. Síldin var hífuð spriklandi frá veiðiskipunum. Ég held að flest öll veiðiskipin hafi gefið okkur síldina þegar þeir vissu að áhöfnin stóð að þessu puði. Því vissulega var þetta bæði puð og svefnlítill tími á meðan á stóð.

Síldin hausuð og verkuð, ýmis gert að frammi á dekki eða aftur á hekki. Svo var hausskorin síldin hífuð upp á bátadekk með handafli. Þar var síldin sett ofan í tunnur og gengið  frá eins og venjulega var gert í landi. Síldin látin standa góðan tíma, og síðan bætt ofan á og tunnunum lokað. Þar á eftir var pæklað og pæklað aftur og aftur. Veltingur skipsins hjálpaði til að jafna og þrýsta pæklinum inn í síldina.
Alls urðu tunnur um 400 talsins sem við söltuðum um borð þetta sumar.

Og samkvæmt orðum Þóroddar Guðmundssonar síldarsaltanda, sem var í stjórn SR. Þá var þetta langbesta saltsíld sem hann hafði tekið til mats, en Þóroddur var alvanur síldamatsmaður og saltandi. Ekki fannst okkur slæmt að fá slíka viðurkenningu. Og heldur betra var þegar tekjurnar af þrældómnum komust í hendur okkar. Þær upphæðir voru ævintýralegar. Langt fram yfir það sem reiknimeistarar okkar höfðu áætlað.

Jafnt var skipt á milli okkar. Messinn fékk jafn mikið og skipstjórinn. Það er, tekið var með í reikninginn til frádráttar, vegna þeirra sem fóru í frí á milli og svo hlutur þeirra sem komu í staðinn til afleysingar. Þeirra sem áður höfðu skipulag sumarfrí með fjölskydum sínum, sumarfrí sem voru hjá sumum styttri en áætlað hafði verið, svo og fóru sumir alls ekki í frí á meðan söltunartímabilið stóð yfir. Tíminn sem vinnslan stóð yfir hverju  sinni var látinn ráða í skiptunum og allir sáttir.

Viðbót: 

ÞAÐ hefur verið venjan hér um borð í Haferninum, að  skipverjar salti síld í eina og eina tunnu, eða kút, til heimilisins og fyrir vini og vandamenn. En nú höfum við stofn að "Söltunarfélagið Örninn" og erum  búnir að salta í rúmlega 400 tunnur, sem Niðursuðuverksmiðju S.R. á Siglufirði kaupir af okkur.

Við vorum búnir að fara í tvær ferðir á miðin í sumar, þegar okkur datt í hug að stofna með okkur félag og hefja söltun í stórum stíl. Hugmyndin var að selja Niðursuðuverksmiðju SR á Siglufirðir (Sigló Síld) síldina og bjarga þannig góðu hráefni frá því að fara í bræðslu.

Kosin var stjórn söltunarfélagsins, sem skyldi ræða við  útgerðarstjórn Hafarnarins,  væntanlegan kaupanda og Síldarútvegsnefnd.

Sigurður Jónsson,  framkvæmdastjóra SR  og einnig útgerðar Hafarnarins, gaf fúslega leyfi til að „Söltunarfélagið  Örninn" mætti starfa   um borð í Haferninum svo framarlega sem hagur útgerðarinnar yrði ekki  skertur að neinu leyti.

Samningar tókust við Gunnlaug Briem, forstjóra Sigló-síld og frá  Síldarútvegsnefnd fékkst leyfi til söltunar um borð. Var okkur þ.á ekki lengur neitt að  vanbúnaði og tókum við, til að byrja með, 200 tunnur með okkur á miðin, en nú höfum við alls saltað í rúmlega  400 tunnur.

Að sjálfsögðu geta ekki allir unnið við söltunina í einu, því við þurfum einnig að sinna  okkar föstu störfum um borð.

Við stöndum tvær fjögurra klukkustunda vaktir á sólarhring,  þegar ekki er verið að lesta bræðslusíld, þannig að um það bil þriðjungur áhafnarinnar, eða  8 menn, geta unnið í senn. 

Eftir klukkan 5 á daginn bætast svo fjórir dagmenn í hópinn, auk  fyrsta vélstjóra, skipstjóra og loftskeytamanni. sem taka þátt í söltuninni, þegar tækifæri gefst.                 -  Steingrímur 

Myndir frá þessu og fleiru Hafarnarmyndir má skoða hérna