Tengt Siglufirði
það var mikill munur á að því að vera á Haferninum, þegar við vorum að sækja síld frá veiðiskipunum norður í höfum til flutninga heim á Sigló eða til Seyðisfjarðar, og því að flytja blandaðar tegundir af olíum. Eftir losun á hverjum farmi síldar höfðu starfsmenn verksmiðjanna hreinsað allar "hillur" og skúmaskot af síldarúrgangi í tönkunum. Við svo á leiðinni út á miðin létum nægja að slaka niður 3ja" gúmmíslöngum með áföstum Butterworth spúlstút, stundum 2-3 í einu, stútum sem snérist í allar áttir upp og niður og skolaði niður alla veggi, loft og gólf tankanna.
Notaður var 90 gráðu heitur sjór með 20 kg. þrýstingi, og síldarsoranum var síðan dælt beint í sjóinn og var í raun ágætis fugla og fiskifæða. Frekar létt verk sem dælumaðurinn og einn af hásetunum sáu yfirleitt einir um.
Þegar við hófum flutning á lýsi frá Íslandi voru tankarnir spúlaðir talsvert lengur en áður, raunar tvisvar ef þurfa þótti, eftir að stýrimaður og dælumaður höfðu farið í alla tankana, og skoðað, og fundið eitthvað, sem betur mætti gera. Íslenskir afgreiðslumenn sem komu við sögu, létu í flestum tilfellum fullyrðingar stýrimanns duga til undirskriftar, áður en lýsi var dælt frá landi.
Tvöfalt sýnishorn frá lýsislögn til skipsins var tekið með jöfnu millibili, skrásett og kvittað fyrir á báða bóga og varðveitt, annað geymt um borð en hitt hjá afgreiðslumanni í landi. Sami háttur var hafður á vegna annarra vökva sem um borð komu heima og erlendis.
Erlendis var þetta talsvert strangara, en misjafnt á milli landa og hafna, jafnvel manna í sumum höfnum, þeirra sem önnuðust afgreiðslu um borð. Einnig stundum furðulegum aðgerðum og beiðnum sem stundum fylgdu vegna móttöku á förmum, um borð.
Svípun
Þegar lýsi hefur verið dælt til lands, eins miklu og dælur næðu til, verður ávalt eftir talsvert magn af lýsi, bæði á hillum (styrktarböndum inni í tönkunum) og á veggjum og skotum. Frá þessu hefur áður verið sagt. Lýsi og þykk svartolía, þegar slík olía er flutt, var skafin af veggjum og gólfi og sópað í svelginn þar sem dæluopin voru. Þetta var mjög erfitt verk og óþrifalegt, sérstaklega hvað þykka svartolíu snerti, en þá var loftslagið ekki heilsusamlegt og þarfnaðist mikillar loftræstingar.
Í fyrstu ferðum okkar sem voru aðallega til Svíþjóðar voru sérstakir svíparar fengnir til verka. Menn sem
höfðu af því mjög góðar tekjur, enda gerðu þeir ekkert annað, var okkur sagt.
En eftir nokkrar ferðir, þá tókum við skipverjarnir, að hvatningu skipstjórans þessi
verk alfarið á okkar könnu. Vinna sem var ekki borguð af útgerðinni, heldur kaupanda farmsins, og í beinum gjaldeyri hverrar þjóðar.
Þessi fengur fór framhjá íslenska
skattkerfinu, þó svo að bókhaldið hafi farið um skrifstofu S.R. á Siglufirði, en var svo gjaldfellt til baka, sem kostnaður útgerðarinnar vegna losunar. Það er kaupandi farmsins greiddi S.R.
á Íslandi, sem skipstjórinn greiddi síðan "verktaka" fyrir svípunina. .........................
En launin til okkar sem unnum verkin voru um það bil þreföld miðað við það
sem við hefðum fengið fyrir hefðbundna yfirtíð um borð og allir ánægðir með þessa skattlausu aukatekjur í beinum gjaldeyri. Að auki voru hin hefðbundnu laun okkar ekki skert.
Eins og áður segir voru aðferðir eftirlitsmanna misjafnar. Stundum þurfti að þvo tankana aftur eftir að skoðunarmaður hafði farið niður í alla tanka, þó svo að ekkert rusl eða óhreinindi færi að finna, heldur fundu þeir einhverja lykt sem þeir sögðu að ætti ekki heima með farminum sem flytja átti.
Sérstaklega var slík hegðun áberandi eftir að fyrsti lýsisfarmurinn frá Íslandi hafði verið losaður. Við fundum lyktina þrátt fyrir rækilegan þvott en vorum þó vissir um að það mundi ekki skaða væntanlega farma sem mundi yfirgnæfa lýsislyktina með sterkari olíulykt eða af bensíni. Sumir létu segjast eftir skýringu, en aðrir voru algjörir þverhausar.
Olíutankarnir voru einnig eftirlætisstaðir tollvarða til að heimsækja. Það þóttu í mörgum höfnum grunsamlegir felustaðir til að fela smyglgóss, en það þori ég þó að fullyrða að sá vettvangur um borð í Haferninum hafi aldrei verið notaður til slíkra verka.
Sápuþvottur
Sérstaklega man ég eftir tilfelli sem keyrði um þverbak. Við höfðum losað svartolíufarm í Rotterdam, og vorum komnir til Andvarpen í Belgíu og áttum að taka þar farm af hágæða matarolíu og fara með til Þýskalands. Bæði fulltrúi kaupanda og afgreiðslumaður fóru niður í tankana efir óvenju vandaðan þvott okkar úti á sjó á leiðinni til hafnar. Þeir fundu einhver sandkorn í skoti, og kvörtuðu yfir einhverri lykt sem þeir sögðu vera sambland af lýsis og svartolíulykt. Aftur var farið niður í tankana og sópað og síðan voru tankarnir þvegnir aftur. En nú var spanderað 90 gráðu heitu fersku Íslensku vatni, í bland við sterkan sápulög. Ekki þótti ráðlegt að nota sjóinn úr höfninni, og sápan átti að eyða lyktinni sem skoðunarmenn töldu sig finna.
Aftur skoðuðu mennirnir tankana og sögðu lyktina jafnvel meira áberandi en áður. Skipstjórinn var síður en svo hress yfir úrskurði þeirra og var lengi að reyna að fá þá til að samþykja lestun en allt sat við það sama, þvo yrði tankana betur, annars yrði fengið annað skip. Í samráði við umboðsmann skipsins í Andvarpen, voru pantaðar fjórar 200 lítra tunnur af lyktarsterkum sápulegi. Aftur var íslenska vatninu dælt með þrýstingi og hita, blönduðum þessum lyktarsterka sápulegi og allir tankar rækilega spúlaðir.
Nú ljómuðu skoðunarmennirnir, það var eins og að koma inn í baðherbergi kvikmyndastjörnu svo vel lyktuðu tankarnir. Við hristum hausinn, og höfðum á orði okkar á milli, hvort þessi sterki ilmur sem vissulega var notalegur, mundi ekki hafa áhrif á þessa hágæða matarolíu, sem ekkert máti menga. - Ekki bárust þó nein viðbrögð móttökuaðila matarolíunnar um óvenjulegan þef í farminum er komið var til Þýskalans.
Síðari hluti þessa þvottatímabils hafði verið framkvæmdur að nóttu til. Fyrir mistök var skolvatninu, sem átti að geyma í botntanka til síðari tíma, dælt úr botntankinum út í sjóinn í höfninni. Dælumaðurinn hafði vart fengið svefn frá upphafi þessa tímabils, frekar en við hinir sem hjálpuðu til, fæstir okkar höfðu farið í koju lengi, heldur lagt sig þar sem ylur var í dælurúmi. Dælumaður hafði beint sápuvatninu í höfnina fyrir mistök.
Og þegar birti fór allt á annan endann hjá hafnaryfirvöldum. Sjórinn við höfnina var þakinn þykku lagi af hvítri sápufroðu, og nálægt hafnarsvæði ilmaði af hinni ljúfu lykt, en logn var. Skipstjórinn var tekinn á teppið hjá hafnarverði, samhliða því að lögregla og slökkvilið var kallað á vettvang. En sem betur fór var öll froðan og ummerki um "umhverfisslys" hjöðnuð og horfin þegar lögregla og slökkvilið kom á staðinn til mengunaraðgerða, ef undan er skilin ilmurinn sem enn angaði í lofti.
Ekki urðu frekari eftirmálar vegna þessara þvottamála hjá hafnaryfirvöldum. En þegar reikningurinn fyrir hinum lyktarmikla sápulegi barst til Skrifstofu SR, var skipstjórinn ávítaður af framkvæmdastjóra S.R. fyrir að hafa ekki kannað verðið á sápuvökvanum áður en hann fól umboðsmanninum að kaupa tunnurnar. Þetta reyndist hafa verið rándýrt hráefni sem eingöngu var ætlað við framleiðslu ýmissa snyrtivara fyrir kvenþjóðina.