Var síldin ofveidd ?

Sumarið, fram á haust 1968 var óhemju mikil veiði af síld þarna úti í ballarhafi. Aðallega á svæðinu norðan við Jan Mayen, allt norður undan ströndum Svalbarða. Varla leið sá sólarhringur að ekki var mokveiði hjá öllum skipum. Þó komu fyrir dagpartar, jafnvel heilu dagarnir sem engin síld sást. Þá létu flest skip og bátar reka.

Mér er minnistætt, eitt sinn er ég var á vakt seinnihluta dags. Við vorum nýkomnir á miðin og lítið magn síldar komið um borð. Ég var úti á brúarvæng með sjónauka að skoða, svo og með myndavél mína með 400mm linsunni tilbúna ef eitthvað merkilegt birtist nær. Skip og bátar allt í kring þar sem við létum reka eins og flestir.
Ég sá bát í talsverðri fjarlægð, þar var eini sjáanlegi maðurinn um borð uppi í brúarkassa.

Síld: Ljósmynd fengin frá Wikipedia

Síld: Ljósmynd fengin frá Wikipedia

(Oft kallaður bassi, notað til útsýnis og leit að síld, ma.)

Sá var með sjónauka. Ég sá hann allt í einu taka viðbragð og beita sjónauka sínum, langt til hliðar við bát sinn. Ég beindi mínum sjónauka í þá átt og sá mikið fuglager. Þegar ég beindi sjónauka mínum aftur til bátsins, þá var maðurinn horfinn og báturinn stefndi á fullri ferð í áttina til fuglagersins.
Ég fylgdist með þegar þeir köstuðu nótinni, og þegar byrjað var síðar á að herpa saman. Maðurinn sem ég hafði fylgst með uppi í brúarkassanum, (Bassanum) var enginn annar en aflakóngurinn Eggert Gíslason, á Víði frá Garði. Einn af aflakóngum síldaráranna. Seinna um kvöldið losaði hann fullfermi um borð í Haförninn.

Strax þarna um kvöldið lifnaði enn einu sinni yfir veiðunum og flestir ef ekki allir sem þar voru að veiðum fengu fullfermi, en Eggert var að þessu sinni sá fyrsti sem fann síldina á þessu svæði. Þá var það algegnt að skipverjar íslensku veiðiskipanna fylgdust með hreyfingum rússnesku veiðiskipanna þegar þau létu reka þegar síldin lét ekki sjá sig þá stundina.

En þar sem rússnesku skipin voru mjög mörg, sennilega mörg hundruð og dreifð, sum ekki í sjónmáli. Þá var mjög algegnt að Rússarnir fundu gjöful síldarsvæði og létu sín skip vita. Þau sem voru fjarri settu á fulla ferð í áttina til viðkomandi síldarsvæðis, og íslensku og hinna þjóða skip þar á eftir. 

Vegna fjarægðar til Íslands, þá var mikill brestur á að hægt væri að hlusta á Ríkisútvarpið heima. En sem dæmi, þá náðist stundum vart í skiljanlegt tal frá íslenska útvarpinu á tækjabúnað Hafarnarins. En eftir að loftskeytamaðurinn tengdi norskt ferðaútvarp mitt, RadioNette við skipsloftnetið, og tengdi svo hátalarakerfi skipsins við, þá heyrðum við ágætlega í Ríkisútvarpinu. Meðal annarra frétta þaðan sem eru mér minnisstæð, voru ítrekuð viðtöl við Jakob Jakobsson fiskifræðing, sem staddur var um borð í varðskipinu Ægi sem þarna var á miðunum til halds og öryggis áhöfnum íslensku skipanna ofl.

Þar kom af stundum frá vörum Jakobs nokkuð oft. „Við fundum síldina,“ hér og þar. Þrátt fyrir að oftar en ekki var það rússneski flotinn sem fann síldina, en ekki þeir á varðskipinu Ægi.

Annað minnisstætt viðtal við fiskifræðinginn, var þegar Jakob var að lýsa hinni óskaplegu veiði sem þarna hefði verið undanfarið og stæði yfir enn. Fréttamaðurinn spurði í sakleysi sínu eitthvað á þá leið, hvort ekki væri hætta á ofveiði, þar sem svona mikið magn væri komið upp úr sjó og veiðin framundan.

Ég sá Jakob í anda þegar Jakob svaraði, breiðandi út arminn. Nei, nei, engin hætta á því, þarna er svo mikið magn í sjónum“ Kannski ekki orðrétt haft eftir, en þannig hljómar svarið í minningunni. Allir vita hver niðurstaðan varð, síldin hvarf og sást varla branda árið eftir.

Hvort það var vegna ofveiði á norðurslóðum sem síldin hvarf, eða af einhverjum öðrum sökum, um  það er ég ekki dómbær. En trú mín síðan, á þeim tölum og spám sem fiskifræðingar hafa gefið út, er ekki á háu plani. Ekki frekar en banka og Þjóðhagsstofnunar með sínar spár, sem sjaldan eða aldrei rætast. Ég hefi á tilfinningunni að búið sé til eitthvað Excel skjal á einhverri skrifstofu á „101 svæði“ í Reykjavík, með áður fyrirfram gefnum forsendum.
Síðan séu valdar einhverjar viðmiðunartölur og settar inn í skjalið, og útkoman verður: þetta magn af þessu og hinu, sem má veiða.

Ekkert tillit sé tekið til hinnar raunverulegu reynslu. Reynslu sjálfra sjómannanna sem þekkja miðin og aflabrögð. Það er eins og þeir viti ekki að fiskurinn er ekki endilega á sömu slóðum á sama tíma að ári. Fiskurinn hreifir sig eftir hafstraumum og æti, en ekki samkvæmt dagatali eða GPS hnitum fiskifræðinganna.
(Togararallið sem dæmi)  það er að minnsta kosti mín skoðun.