Áhugamál mín um borð, eitt af mörgum.

Byggt á frásögn á segulbandi. Úrdráttur frá hljóðbréfi til konu minnar, í mars 1969:

Ég keypt mér oft hljómplötur þegar ég var á Haferninum, bæði 45 og 33ja snúninga. Þetta voru plötur með þekktum hljómsveitum og söngvurum. Þessar plötur hafði ég jafnan skilið eftir heima og eða sent ásamt ýmsu sem ég hafði keypt handa krökkunum og konu minn, meðal annars ýmsum fatnaði.

En þessar hljómplötur gat ég ekki hlustað á um borð þar sem enginn plötuspilari var um borð. Í eitt sinn er ég var að huga að hljómplötum með Tom Jones, Frankie Laine og fleirum sem höfðu heillað mig, rakst ég á ódýran plötuspilara, sem gat spilað allar venjulegar 33ja, 45 og 78 snúninga plötur. Spilarann keypti ég í félagi við Ægir Björns, meðal annars með það í huga að spila "Lingaphone" sem Ægir átti, en það var enskukennsla á grammafón plötum. Og ég, hugsaði gott til glóðarinnar að hlusta á tónlist þegar um borð væri komið.

Á þessari mynd sest plötuspilarinn uppi á ísskáp mínum. Þarna hefi ég verið búinn að breyta því hvernig hurðin opnaðist, hún snéri áður inn að kojunni minni.

Á þessari mynd sest plötuspilarinn uppi á ísskáp mínum. Þarna hefi ég verið búinn að breyta því hvernig hurðin opnaðist, hún snéri áður inn að kojunni minni.

Plötuspilarinn var tekinn úr umbúðum og komið fyrir á góðum stað og tengdur við útvarpið mitt, plata með Tom Jones sett á, en............ eitthvað var söngurinn frá Tomma hjáróma, miðað við það sem ég hafði áður heyrt í honum. Ég gáði að hvort ég hefði stillt óvart á 45 snúninga, en það var rétt stillt á 33ja snúninga eins uppgefinn hraði fyrir plötuna. Ég áttaði mig loks á því eftir nokkra umhugsun og skoðun, að plötuspilarinn var eingöngu gerður fyrir 50 rið, (hz) ekki 50/60  eins og algengt er á slíkum tækjum, plötuspilurum og segulbandstækjum. Rafmagnskerfið um borð var eingöngu 60 rið, þannig að það hafði áhrif á snúningshraðann, það er spilarinn snérist of hratt miðað við það sem hraðastig gramafónsins var stillt á.  

Ég tók spilarann í sundur og skoðaði drifbúnaðinn, sem var mjög einfaldur með stóru drifhjóli áfast plötuplattanum, og keilulaga öxull eða þrepaskiptur með stöllum, (mismunandi sver) festur á mótordrifið og svo gúmmíreim sem tengdi hjólin, og armur sem færði reimina um þrepahjólið (öxulinn) í samræmi við þann hraða sem valinn var.

Ég sótti reikniformúlubók sem ég átti upp í hillu, tók þrepaöxulinn af og mældi með skíðmáli, reiknaði svo út með reiknistokk mínum, hlutföllin sem breyta þyrfti til að samræma réttan hraða miðað við 60 riðin um borð. Ég fór svo niður í vélarrúm, náði þar í koparöxulbút og renndi nýjan þrepaöxul, setti á sinn stað og skoðaði hraðamælaskífuna sem var prentuð á plattann sem plöturnar voru settar á.

Stillingin á 33ja snúningurinn sýndi nákvæman hraða, svo og 45 snúningarnir. En við stillingu 78 snúningana var hann alveg ekki réttur, munaði einhverjum snúningum, sem ekki kom að sök, þar sem slíkar plötur var hætt að framleiða á þessum tíma, og engin slík um borð. Ég varð þó að bíða þar til komið var í höfn til að njóta tónlistarinnar, titringur frá aðalvélinni skapaði titring á nálina í plötuspilaranum og átti það til að hoppa af sporinu og hætta var á að platan skemmdist.

En oft átti þessi plötuspilari og plötur sem á hann voru settar, eftir að stytta mér stundir, svo og nokkrum skipsfélögum mínum sem oft heimsóttu mig í herbergi mitt þegar dvöl í höfn var of stutt, og eða vinna hafði komið í veg fyrir það að tæki því að fara í land eftir vinnutíma. Minna fór þó fyrir enskukennslunni en fyrirhugað var.