Ýmsar minnigar

Eftirfarandi frásögn er skrifuð og endursögð með smábreytingum á orðalagi og fleiru; eftir "hljóðbréfum“ af comact cassettu, sem ég sendi fjölskyldu minni í mars mánuði sama ár.

Haförninn hafði verið nokkra mánuði í leigu og ekki komið til Íslands frá því í nóvember minnir mig.  Nokkrum smáatriðum er þó sleppt hér ásamt persónulegum orðum til fjölskyldu.

28 janúar árið 1969 var Haförninn að koma frá Ventspils (Latvia) þá undir valdahæl Ráðstjórnar ríkjanna í Rússlandi. Við vorum með olíu sem átti að losa í Rostock í Austur þýskalandi. Við höfðum látið reka á svæði 8-10 mílur undan Rostock, á meðan beðið var eftir leyfi til að nálgast landið.

Við höfðum komið þarna nokkrum sinnum áður bæði með olíu og einnig sótt þangað olíu, svo biðin kom ekkert á óvart, en ávalt tók tíma að fá svar, og móttöku samþykki frá hafnaryfirvöldum, þó svo að ferðir okkar þangað hefðu verið skipulagðar með löngum fyrirvara.

Skriffinnskan þarna var  með eindæmum, þar sem fáir þorðu að taka á sig ábyrgð. Spyrja þurfti þá hærra settu í Austur Berlín.

Eftir drjúgan tíma fengum við að færa okkur nær landi, eða í þriggja mílna fjarlæg frá höfninni, þar sem varpað var akkeri.

Hér er ein af mörgum yfirvinnu skráningum sem ég var með flesta yfirvinnutímana.

Steingrímur timburmaður 39 tíma.
Salmann 21 tíma.
Hafþór Rósmundsson 29 tíma.
Sigurður Jónsson 17,5 tíma.
Guðmundur Björnsson (Bósi) 20 tíma.
Stefán Árnason bátsmaður 19 tíma.

Stundum var slegið á létta strengi við skráningu með smá uppnefni ef tilefni þóttu til. Pálmi 2. Stýrimaður var stundum duglegur við það, en þó ekki illa meint. Enda hlegið vel af og ekki síður af þeim sem uppnefnið fengu.

Hér er ein af mörgum yfirvinnu skráningum sem ég var með flesta yfirvinnutímana.

Steingrímur timburmaður 39 tíma.
Salmann 21 tíma.
Hafþór Rósmundsson 29 tíma.
Sigurður Jónsson 17,5 tíma.
Guðmundur Björnsson (Bósi) 20 tíma.
Stefán Árnason bátsmaður 19 tíma.

Stundum var slegið á létta strengi við skráningu með smá uppnefni ef tilefni þóttu til. Pálmi 2. Stýrimaður var stundum duglegur við það, en þó ekki illa meint. Enda hlegið vel af og ekki síður af þeim sem uppnefnið fengu.

Loks komumst við til hafnar, en það er nokkuð löng leið inn í landið eftir fljóti eð skipaskurði, þar sem skipið var losað af olíufarminum.

Fljótlega eftir losun var svo lagt af stað með tóma tanka áleiðis til Rotterdam í Hollandi. Siglt var í gegn um Kílaskurð  (Kiel-canal) í Þýskalandi. Kílaskurður er einn fjölfarnasti skipaskurður Evrópu um 61 sjómíla (um 98 km) eru á milli enda, borgarinnar Kiel og Brunsbüttel. 

Það var kominn allsnarpur vindur þegar við nálguðumst vesturenda skurðarins. Veðurspár ollu mér nokkru hugarangri. Spáð var 10 vindstigum og stórsjó á Norðursjó. Sem við tæki eftir margra mánaða rólegar öldur á Eystrasalts svæðinu, eins og getið var um hér í upphafi. Ég kveið fyrir sjóveikinni sem lengi hafði hrjáð mig, en verið svona nokkuð laus við undanfarið, þó ekki alveg.

það hafði verið mikil törn hjá skipverjum og mikil yfirtíð unnin, talsvert umstang við  tilfærslur við brottför frá Rostock. Þegar lagt var af stað þaðan kom í ljós að vatnslögn sem var undir sniglum á dekki, hafði frostsprungið, en taka þurfti niður lögnina á kafla, og gera við inni í skipinu því ekki mátti vera með rafsuðu út i á dekki vegna eldhættu.

Fullyrt er að eftir losun á svartolíuförmum skapist hættulegri aðstæður um borð heldur en þegar skip er fullfermt. þar sem eftir losun á farmi myndist própangas í tönkunum. Viðgerðin tókst vel eins og vænta mátti. Síðan var ræst með stuttum millibilum í "enda," það er skipverjar þurftu að binda og losa skipið við komu og siglingu um Kílaskurðinn, en siglingin tók um sólarhring.

Þegar komið var út á Norðursjóinn kom í ljós að veðurspáin gekk eftir, vonskuveður var komið er farið var út úr Kílaskurði. Og enn spáði Þýska veðurstofan versnandi veðri, 12 vindstigum, jafnvel þar yfir sem einnig gekk eftir, ásamt miklum sjógangi, ölduhæð og tilheyrandi veltingi skipsins.

Það kom mér verulega á óvart að ekkert bar á sjóveikinni hjá mér, nokkuð sem ég hafði nánast beðið eftir, ekki einu sinni velgja.  

Um morguninn 1. febrúar upp úr klukkan 08:00, fór ég að hjálpa Ægi bátsmanni og hásetunum við að klára að mála gangana niðri hjá hásetaíbúðunum. Ægir vildi klára verkið áður en versnaði í sjóinn, en hásetarnir höfðu unnið við málninguna daginn áður. Það tókst, þó litlu hefði munað stundum að við sjálfir (fötin okkar) værum einskonar málningarrúllur, þar sem erfitt var að fóta sig vegna veltings, og við stundum kastast á veggina nýmálaða.

Eftir það fóru flestir til koju þó dagur væri, en flestir okkar höfðu vakað mikið undanfarið og sumir eins og td. ég og bátsmaðurinn höfðu náð 16 tíma yfirtíð í törn. Þar spilaði vinnan við frostsprungna rörið inn í dæmið sem ég rafsauð, auk vökunnar í Kílaskurði. Þar fyrir utan var ekkert hægt að gera af viti vegna veltings, enda tankar tómir, aðeins hafði verið dælt sjó í botntankana, sem ballest. 

Við ræs í mat klukkan 18:00 um kvöldið var tekið duglega til matar, og matarlistin hjá mér var öllu meiri en undanfarna mánuði, á borðum var Íslenskt hangikjöt með tilheyrandi meðlæti, og indælis súpa á eftir samkvæmt spes uppskrift Sverris bryta. Félagar mínir samglöddust mér yfir því að ég væri ekki sjóveikur, en eftir því höfðu þeir tekið og spurt.

Haförninn sigldi nú beint á móti veðrinu, en þó sett hafði verið á fulla ferð var ganghraðinn ekki nema um 6-7 sjómílur í stað 11-12 eins og við eðlilegar aðstæður. Fáir voru á ferli þar sem ekki var auðvelt að fóta sig. Aftur fór ég til koju, ég fékk mér bók til að lesa þar sem ég fann ekki til syfju þá stundina. Eftir um klukkutíma lestur lagði ég frá mér bókina og fór að hugsa um hvað ylli því að ég gat ekki sofnað.

Þá mundi ég eftir því að í Kiel hafði ég skroppið í bakarí og keypt mér box með fersku krabbasalati, niðurskorið brauð, og tvær stórar rjómabollur ekki ósvipuðum íslensku rjómabollunum, en talsvert meira í þær lagt til bragðauka. Þetta var geymt inn í ísskápnum mínum.

Ég smurði mér væna samloku og skolaði niður með mjólk úr glasi. Þetta bragðaðist, með ágætum svo ég ákvað að smyrja mér aðra samloku, en mundi þá eftir rjómabollunum sem ég hafði hugsað mér að gæða mér á síðar með hléum.

Ég tók aðra þeirra og nánast sporðrenndi. Dásamlegt bragðið varð til þess, að sælkerinn í mér stóðst ekki freistinguna og hinni var því einnig sporðrennt. Svona lagað hafði ekki komið fyrir mig áður. Fyrst nærri sprunginn af ofáti við kvöldverðarborðið og síðan nokkrum stundum síðar bætt samloku, rjómabollum og mjólkurglasi við.

Stuttu síðar var ég sofnaður. Það mun svo hafa verið nokkru eftir miðnættið að ég vaknaði við það að ég var nánast i hnipri við höfðalagið í koju minni, og rétt þar á eftir var ég kominn að fótagafli. Skipið hafði breytt um stefnu og var nú kominn algjör hliðarveltingur, en koja mín sem annarra sem bjuggu á millidekki snéri þvert á skipið.  Nú átti ég og væntanlega aðrir um borð, fullt í fangi með að halda sér, og mér varð ekki um sel.

Hvað var í gangi, var allt í lagi. Alt var á fleygi ferð. Grannur spotti sem ég hafði til öryggis til að hindra að hurðin á ísskáp mínum opnaðist í veltingi, slitnaði og þung hurðin opnaðist og innhald skápsins, mjólkurflaska, tvær vínflöskur og nokkrir bjórar duttu í koju mína og á gólfið og tvær bjórflöskur brotnuðu á gólfinu.

Ég rétt náði að hindra að ísskápurinn kæmi einnig í koju mína, en hann var við að velta úr skorðum sínum. Ég setti bönd á skápinn og skorðaði flöskurnar milli veggs og dýnu í koju minni og fór svo að tína upp glerbrotin af gólfinu. Ég náði síðan í ryksugu í skáp frammi á gangi og fór á hnén með ryksugustútinn til að soga upp minni glerflísar.

Ég hafði rétt lokið við það verk er kallið kom, ég rétt náði fram á klósettið til að skila þar öllum kræsingunum sem ég hafði innbirt kvöldið áður. Ég var allt í einu orðinn sjóveikur, drullusjóveikur, andskotinn tautaði ég. Enginn var nærri, er ég hafði ælt "góðgætinu".

Enginn var á ferli. Ég fór upp í brú til að kanna ástandið, á leiðinni heyrði ég að ýmislegt var farið af stað í eldhúsinu, en skeytti því engu. Upp í brú var mér sagt að stefnunni hefði verið breytt en samhliða hefði bætt í veðrið og samkvæmt veðurlýsingu frá veðurstofu væri algjört fárviðri, mikil ölduhæð framundan, og 12-13 vindstig, en spáin siðar væri hagstæð með nánast sömu vindátt en 6-8 vindstigum og snjókomu. 

Sigurður skipstjóri sem kominn var upp í brú á "óvenjulegum tíma" spurði mig hvort ég væri aftur orðinn sjóveikur, og ég sagði honum hvað hefði skeð hjá mér, og hann hughreysti mig og sagði að ég mundi ná mér. Hann hló og sagði „Þú nærð þér aftur, ég finn sjálfur til háfgerðara ógleði og vanlíðan í þessu brjálaða veðri.“

Ég fór aftur til koju en gat þó ekki sofnað vegna látanna, skipið lék bókstaflega  á reiðiskjálfi stafna á milli, með tilheyrandi veltingi.  Þetta var löng nótt. Í eldhúsinu höfðu pottar og pönnur, stór kaffikönnuhella ásamt fleiru losnað og oltið um eldhúsgólfið innan um fleiri eldhúsáhöld. Málningardollur á lagernum fram í bakka höfðu farið úr skorðum og margar dollur tæmst, aðkoman var hræðileg eins og Siggi Jóns lýsti síðar. Margt fleira hafði farið úr skorðum.

Um morguninn þegar ég var ræstur til hefðbundinnar "vinnu" sem mér var raunar sagt að fælist að mestu í því að hreinsa upp það sem hafði farið úr skorðum um nóttina, brytinn, kokkurinn og messinn mundu sjá um eldhúsið og tilheyrandi, hitt yrðu hásetarnir fljótir að redda. Ég sagði þá hásetanum sem ræsti mig að skila til bátmannsins að ég ætlaði að vera í koju til hádegis, ég væri sjóveikur og til einskis nýtur.

Hann glotti og kom skilaboðunum á framfæri. Ég aftur á móti sofnaði stuttu síðar. Um hádegið þegar ég var ræstur í mat var ég furðuhress, aðeins smá velgja og hausverkur. Nokkuð sem ég frá fyrri tíð, var "sérfræðingur" í að takast á við.  Það var ennþá bálhvasst, en skipið komið á hálfgert lens sem hélst nánast þar til við sigldum inn á Rotterdamhöfn í Hollandi.

Þar hófst mikil vinna við það að þvo tankana, því tækifærið sem löngu hafði verið skipulagt að hefja hreinsun í hafi, hafði farið út um þúfur vegna sjólags og veðurs. Veðrið inni í höfninni var vont og hálfgerð stórhríð á tímabili, þó svo að sá snjó hafi ekki náð að festa nema í skúmaskotum í hornum og upp við veggi, en hvarf svo strax og snjókomunni slotaði.

32 tímar þann 3-4 febrúar fór í tankaþvottinn. Haförninn var svo lestaður með matar eða jurtaolíu sem lyktaði ekki ósvipað og hreint og gott lýsi. Á meðan lestað var, fengu flestir landgönguleyfi sem bæði var notað til innkaupa, svo og til að horfa á góða kvikmyndir eins og ég gerði.   Í þessari borgarferð sá ég tvær kvikmyndir, sem ekki var óvenjulegt hvað mig snerti.

Eftir að Rotterdam var yfirgefin með fullfermi af matarolíu var ferðinni heitið til Alsírborgar í Algeria við Afríkustrendur, Miðjarðarhafsmegin.  Gert var ráð fyrir að siglingin tæki um eina viku. Veðrið var enn í verra lagi, og vorum í um sólarhring á siglingu út af Biscayflóa í kolbrjáluðu veðri, nærri eins slæmt og á Norðursjó vikunni áður, en þrátt fyrir það var engin alvöru sjóveiki að hrjá mig á leiðinni. En ég var þó aldrei alveg laus við velgjuna og hausverkinn. Siglingin gekk annars snurðulaust, tíminn var víða notaður hjá mér til að tryggja ýmsar festingar um borð, sérstaklega á eldhússvæðinu, slíkt innandyra lenti í flestum tilfellum á timburmanninum sem eðlilegt var.

Þá hafði ég einnig fest ísskápinn minn rækilega með því að skrúfa hann fastann og útbjó öryggislæsingu sem tryggði að skápurinn gat ekki opnast í veltingi. Og snéri í leiðinni skápnum þannig að hurðin opnaðist ekki lengur að kojunni minni.

Gaman að geta þess að þennan 50 lítra Philips ísskáp, keypti ég í Rotterdam í febrúarbyrjun árið 1967, og var hann í herbergi mínu allt þar til ég hætti um sumarið árið 1970 - Síðar árið 1979, er ég réði mig um borð í Hvalvíkina, þá tók ég skápinn minn um borð og var hann í herbergi mínu þar þangað til ég hætti á því skipi. Síðan hefur skápurinn verið á heimili mínu og er enn í góðu lagi, þrátt fyrir að ég notaði hann í tæp tvö ár heima sem frystiskáp (°C -18) en ég hafði tekið hitastillirinn úr sambandi og mótorinn gekk því án hléa til að geta haldið því frosti, -nema, þegar þurfti að afþíða.

Og enn er þessi ,skápur nú árið 2012 í notkun, þar sem í honum er geymd mjólk ofl. drykkjarvörur -

Valbjörn sonur minn fékk skápinn til eignar, eftir að ég flutti í Skálarhlíð á Siglufirði í september 2012- Hann ætlar að nota hann í tjaldvagni sínum á ferðalögum.

Ég hafði aldrei áður komið svona sunnarlega á hnöttinn, og talsverðar breytingar varð maður var við, eins og til dæmis vindurinn var ekki eins kaldur og fyrir norðan. Svo voru það útvarpsstöðvarnar, nú á tungumálum sem maður vissi ekki hvaða landi tilheyrði. Allt frá að giskað var á potuglaskar og spænskar stöðvar og til stöðva frá arabaheiminum með tilheyrandi tónlist, sem lék hjákátlega í eyrum okkar íslendingana um borð.

Uppi á einum vegg hjá mér var platti sem var að stærð 15x22 tommur. Ég hafði límt margar litlar svarthvítar fjölskyldumyndir á plattann sem skrúfaður hafði verið þar fastur. Þennan platta tók ég eitt kvöldið niður og tók að handlita allar myndirnar, sem og ég kláraði og skrúfaði svo upp aftur, Þetta tók tæpa þrjá tíma og var ánægjuleg dægurstytting.

Annars var lítið um að vera um borð, annað en að spila, nokkuð sem ekki höfðaði til mín, horfa á sjónvarpið sem var langt frá því að vera freistandi, vegna lélegra gæða og truflana á mynd vegna fjarlægðar til lands. Veltingur skipsins bætti það ekki, auk þess sem dagskrárnar margar hverjar voru hálfgerðar sápu-froðu-óperur vegna tungumála vanþekkingar þeirra sem á horfðu um borð. Maður dundaði einnig við það að þvo fatnað sinn og gera við eftir getu. Bæði var þvottavél og saumavél var um borð, auk þess sem flestir áttu nál og spotta í fórum sínum.

Og talandi um saumaskap, þá var Guðmundur 1. stýrimaður farinn að undirbúa næstu kvöldvöku, eina í viðbót við margar fleiri slíkra uppákoma um borð. Væntanlegur söguþráður tók tillit til þess í skáldskapnum, vísaði hann til hina fornu hefð arabaríkjanna, eins þeirra er við vorum á leið til. Hann setti okkur Birgir Þórbjarnarson í það að sauma eða búa til búninga sem líktust hugmyndaflugi okkar um klæðnað ambátta og arabahöfðingja.
Við fengum góða aðstoð við þetta verk okkar, þeirra sem áttu að nota klæðnaðinn  (Man ekki hvort Birgir  Þórbjarnarson, var þá, 3. stýrimaður eða háseti)  Efniviðurinn í fatnaðinn var fenginn úr tuskuforða vélrúms og eldhúss. Þessu var að mestu tjaslað saman með nál og spotta, svo og venjulegum pappírsheftara og útkoman gerði lukku þegar þar að kom.

Ég var eiginlega orðinn laus við sjóveikina. - En eina nóttina vaknaði ég með hálsbólgu, ógleði, svima og magakveisu allt í senn. Þetta var greinlega ekki sjóveiki, (það vissi ég sem sérfræðinur þeirra fræða) svo að þegar ég var ræstur um morguninn, gerði ég boð fyrir 1. stýrimann til segja frá og vita hvort hann ætti ekki eitthvað við þessum ósköpum sem angraði mig.  - Ég hafði fram að því ýmist fengið kulda eða hitaköst og samhliða rann af mér svitinn.  Guðmundur sá strax að ekki var alt með feldu, hann gaf mér meðal annars penisilín og einhverjar aðrar töflur, sennilega verkjatöflur sem ég átti svo að taka inn reglulega. 

Hann sagði mér að mældi mig, og sagði mig vera með 39 stiga hita og ég mátti ekki fara fram úr.
Ég hafði enga matarlist, en Guðmundur lét mig drekka eitthvað sull sem ég fékk ekki einu sinni að vita hvað var.

Ég var á þriðja dag frekar slappur, og í rúminu og um tíma hálf rænulaus, utan það að skreppa á salerni, og tvisvar eða þrisvar til að sækja mér smá næringu, þó matarlistin væri ekki upp á marga fiska. En eftir tvo daga voru svita og kuldaköstin horfin, og áhyggjur um að eitthvað alvarlegt væri að mér, horfnar.  Ég stalst nokkrum sinnum út aftur á skut, til að taka myndir með aðdráttarlinsu af strönd Spánar og Portúgal, og einnig er við sigldum fram hjá Gíbraltar, en kýraugað á klefa mínum var á stjórnborða svo ég gat ekki tekið myndir þaðan af áðurnefndum ströndum, auk þess var nánast alltaf eitthvað sjórok, sérstaklega þegar siglt var framhjá Gíbraltar, en þá sást vart til lands fyrir sjóroki.

það kom að því að ég hresstist og var orðinn eldhress stuttu eftir að komið var fram hjá Gíbraltar og fékk mér drjúgan skerf af morgunverði og kaffi á eftir og fór til vinnu. Guðmundur stýrimaður skammaði mig fyrir að ég hefði sennilega farið of snemma til vinnu, en lét þar við sitja. Veður og sjór hafði aukist og var farið var að tala um að leita skjóls einhverstaðar við Afríkuströnd. Ekkert varð þó úr því þar sem veðrið gekk skyndilega niður, og stefnan endanlega tekin á höfnina við Alsírborg og þangað var komið í myrkri um klukkan 21:00.

Vel gekk að komast að bryggju og strax farið í það að tengja olíulögn til lands og dæla. Við Ægir stálumst í land um kvöldið án þess að hafa landgönguleyfi. Við röltum upp í útjaðar borgarinnar, þar var mikið mannlíf og margar „sjoppur“ opnar. Engin þeirra líktist þó þeim sjoppum sem við höfðum kynnst í Evrópu. Við fórum þó ekki neins staðar inn, rétt í andyrið sumstaðar, en keyptum okkur á götubar, matarrétt sem okkur sýnist í fljótu bragði vera girnilegur. Litlum kjötbitum var stungið upp á tein, penslað með sósu eða einhverjum lög og steikt yfir opnum eldi, og við gátum fylgst með á meðan steikingin fór fram.

Við rétt brögðuðum á þessu, sem bragðaðist öðruvísi en við áttum von á. Við nánari skoðun á þessum rétti á teinunum, komumst við að þeirri niðurstöðu, að þetta líktist rottukjöti, sem brytjuð hefði verið niður, og við laumuðum kræsingunum inn í næsta húshorn þar sem engar ruslatunnur voru sjáanlegar.  Stuttu síðar var haldið til skips aftur og á leiðinni mættum við Pálma og Lofta (Begga loftskeytamanni) og urðum þeim samferða um borð.  Nokkuð undarlegt það var að hitta á skipsfélaga sína í borg með íbúafjölda sem voru mörg hundruð þúsund.

Um morguninn sáum við að bryggjan sem við lágum við var ekki sérbyggð olíulöndunarbryggja, talsvert frábrugðin öðrum höfnum sem ég hafði komið til, og vinnuklæðnaður verkamanna talsvert frábrugðinn því sem ég hafði vanist áður að sjá, en það furðulega var að hann var alls ekki ólíkur þeim fatnaði sem við Birgir Þórbjarnar höfðum tjaslað saman fyrir væntanlega kvöldvöku.
Það var tuttugu stiga hiti um morguninn og sólskin, en smá gola. Við fengum fyrirmæli um að klára að lakka uppi á bátadekk, sem ekki hafði gefist tækifæri fyrr til að klára. Við vorum allir berir að ofan við verkið. Aröbunum sem á bryggjunni voru, til mikillar furðu, en þeir voru kappklæddir með sína hefðbundnu túrbana á höfði. 

Sama var upp á teningnum þegar við sem fengum landgönguleyfi eftir hádegið og skruppum upp í borgina.  Það sem við sáum þar var nokkuð mikið frábrugðið miðað við vestræna menningu, þó svo að talsvert væri um verslanir og fleira sem rætur áttu til Frakka, sem þarna réðu ríkjum í marga áratugi.  En það var margt skemmtilegt og minnissætt sem fyrir augu bar þarna á ferð okkar, en verður ekki tíundað frekar, að sinni amk.

Eftir þessa löngu og ströngu ferð á milli Rostock og Alsír, þar sem var á tímabili; sjóveiki, einhver veiki, velgja og hausverkur sem hrjáði mig. Þá kom langt tímabil á eftir um borð, sem aðeins velgja og hausverkur hrjáði mig.  Ekki beint slæm sjóveiki, heldur einhver óþægindi sem hurfu að mestu eftir vinnutíma, þegar slappað var af.

En sem dæmi þess að ég var ekki alltaf í koju vegna sjóveikinnar: Sú regla var viðhöfð um borð í Haferninum, að vikulega hengdi stýrimaður upp miða í messanum. (mynd hér fyrir ofan) Þar var upptalin sú yfirtíð sem hver einstakur háseti, sem og timbur og bátsmaður höfðu unnið í hverri viku.  Tilgangurinn var sá, að hásetarnir gætu fylgst með yfirtíma hvors annars, en getið var um í samningum að skipta ætti yfirtíð (allri aukavinnu) sem jafnast á milli undirmanna.