Hvalvíkin þversum í Kílaskurði

Við Vorum á leið frá Svíþjóð með fullfermi af pappír og timbri, eins og fyrr er nefnt. Þennan varning átti að losa við nokkrar hafnir í Grikklandi, Tyrklandi og síðast í Beirút í Líbanon.

Ákveðið var að stytta sér leið og sigla um Kílaskurðinn (Kiel Canal) í Þýskalandi. Guðmundur skipstjóri hafði brugðið sér í frí og Magnús Gunnarsson stýrimaður, tekið við skipstjórninni.
Ég hafði oft áður siglt þessa leið með Haferninum. - Þennan dag var glaða sólskin og logn, og var gaman að fylgjast með fólki á bakka skurðarins. Þaðan sem ég hvíldi arma mína við borðstokkinn uppi á miðþilfari, rétt við herbergisglugga minn. Þarna voru bæði, skokkarar, hjólreiðafólk og fólk á göngu uppi á og niðri við bakka skurðarins.

Hafþór Sigurbjörnsson 2. stýrimaður metur botnfestuna, þversum í skurðinum með stefnið fast upp í bakkann

Hafþór Sigurbjörnsson 2. stýrimaður metur botnfestuna, þversum í skurðinum með stefnið fast upp í bakkann

Taktfastur gangur véla skipsins hljómaði sem tónlist í eyrum mér. Allt í einu breyttist það hljóð. Ekki áttaði ég mig alveg á hvernig. Aðalvélin var jú á fullu, en eitthvað annað hljóð hvarf.  Í ljós kom að það var ljósavél skipsins sem hafði stöðvast. Á sama augnabliki beygði skipið hart á bakborða. Aðalvélin var sett á fulla ferð afturábak, en of seint.  

Hvalvíkin var þversum í skurðinum með stefnið fast upp á landi við bakkann. Skip sem kom á eftir þurfti að setja á fulla ferð afturábak til að forða árekstri. Þetta ástand var háalvarlegt. Öll umferð um Kílaskurðinn stöðvaðist við þetta.
Ljósavélin sem hafði verið í gangi, hafði stöðvast vegna óhreininda í olíu sem tekinn hafði verið um borð í borginni Kiel, við norðurhluta skurðarins. Olíusigti höfðu því stíflast og vélin stöðvast. Allt rafmagn fór af skipinu og af ókunnum ástæðum, snéri stýrisvélin skipinu hart á bakborða með fyrrgreindum afleiðingum.

Lóðsinn var þrútinn af reiði, og Maggi skipstjóri ein taugahrúga sem von var. Einhverjar tafir við lagfæringu og ef til vill óðagot, hefur orðið niðri í vélarrúminu við þessa óvæntu uppákomu. Nokkurn tíma tók að manni fannst, að koma hinni ljósavélinni í gang, en tvær jafnstórar voru um borð. Loks þegar rafmagnið kom, var sett á fulla ferð afturábak og skipið losnaði af sjálfdáðum og ferðinni haldið áfram.  
Hverjir eftirmálar urðu vegna þessa atviks, þekki ég ekki. En jafnan liggja við hár sektir vegna álíka atvika, ef skip truflar umferð um skipaskurði, oft tryggingamál og sjóréttur. Einhverjar ákúrur mun vélastjóraliðið hafa fengið. En allir tóku þó gleði sína aftur og atvikið fljótlaga gleymt !

Þversum í Kílarskurði

Þversum í Kílarskurði

Þversum í Kílarskurði - Sigurður Þorgeirsson háseti