Tengt Siglufirði
Við komum til hafnar í borg sem heitir Prevezo, í ágústlok árið 1979. Þar var mjög heitt 30-40 °C yfir daginn og kyrrt veður, raunar eins og allan þann tíma er við vorum þarna á siglingu og í höfnum á Tyrklandi og Grikklandi.
Hún var nokkuð spaugleg siglingin inn höfnina í Prevezo. Þegar lagst hafði verið við anker á ytri höfninni að fyrirmælum hafnarstjórnar. Þar kom hrörleg trilla að Hvalvíkinni, það brakaði í gír bátsins þegar hann lagði að leiðaranum og frá borði trillunnar kom hrörlegur karl með flotta einkennishúfu. Þetta reyndist vera lóðsinn, og í ljós kom að hann var að eigin sögn 82ja ára.
Lóðsinn var bæði valtur og skjálfhentur, titraði allur. Maður hafði á tilfinningunni að hann væri kominn á síðustu snúningana og vel það, en virtist þó hinn hressasti. Hann var þó alls ekki drukkinn, þáði aðeins svart kaffi sem honum var fært, og saup vel á, og naut kaffisopans greinilega. Ekki auðvelt að skilja lóðsinn þar sem hann talað aðeins grísku, ásamt handapati. Hann gat aðeins tjáð sig með einstaka orði á enska tungu, án samhengis.
Maggi skipstjóri vissi ekki hvernig hann ætti að taka á málinu, en það endaði með því að hann giskaði á hvaða bryggja það væri sem karlinn benti á, og tók yfir stjórnina að manni fannst án þess að lóðsinn gerði sér grein fyrir því, eða gerði athugasemdir. Sami lóðs "sigldi" Hvalvíkinni úr höfn þrem dögum síðar, í sama ástandi.
Í Prevezo kynntist ég dýralífinu örlítið, eða öllu heldur skordýralífi, maurum sem athöfnuðu sig í margra metra langri "hergöngu." Fylkingarnar voru með allskonar rusl á bakinu allt frá laufblöðum til einhvers sem ekki var auðvelt að greina frá götuljósum, en þetta var um kvöld. En þarna mættust tvær fylkingar, þar sem þær fóru í gagnstæða átt, önnur án byrgðar, greinilega að sækja sér "herfang".
Einnig elti ég eitt kvöldið uppi tístandi hljóð sem minnti á fuglasöng, en kom frá einhverri bjöllu sem var með búk um 1,2 sm. að lengd elipse löguð um 1 sm. á breidd, með 8 brúna fætur. Fjórir aftari fæturnir voru mun sverari eða vöðvameiri. Bjallan var með svartan haus, gul drapplitaður búkurinn eða skel séð ofan frá, neðri búkurinn var allur brúnn. Á bjöllunni voru vængir sem hreyfðust með miklum hraða og mynduðu þetta skrítna háværa tíst, í takt við vængjahreyfingarnar. Ég hafði oft áður heyrt svona hljóð, en án þess að vita hvaða dýr þar væri um að ræða.
Slík hljóð hafði ég aðeins heyrt eftir að
myrkur var skollið á. Að þessu sinni tók ég hljóð bjöllunnar upp á segulband, og leitaði uppi þar til ég fann kvikindið inni í enda á timburstafla við höfnina
í Prevezo. Ég lýsti útliti hennar við sama tækifæri. En við ofanritaða lýsingu er stuðst við þær upptökur.
Næst var siglt til hafnarborgarinnar Patras í
Grikklandi. Þar fór ég í eitt furðulegasta kvikmynda"hús" sem ég hafði áður sótt. Þar var bíóið undir berum stjörnubjörtum himni. Stórt afgirt svæði
sem rúmaði 300-400 manns í sæti, með trjágróður á þrjá vegu.
Þetta var þó nokkuð fullkomið bíó, góður hljómburður á milli trjánna og björt og skörp mynd á stóru sýningartjaldi. (breið tjald) Myndin hét: "The People That Time Forgot" Myndin var þokkaleg afþreying og ég naut veru minnar þarna þrátt fyrir að sætin (klappsæti) hefðu mátt vera betri.
Þessi borg var mjög lífleg, verslanir opnar til klukkan 21 á kvöldin og veitingastaðir og sjoppur opnar svo lengi sem einhver vildi kaupa veitingar. Ég heimsótti að venju nokkra veitingastaði í Patras til að smakka "þjóðarrétti" og fleira sem maður sér ekki daglega. Gríska músíkin náði vel til mín og gott að borða með þeim tónum í bakgrunni, ekta dinner músík, ekki hávær eins og vill koma fyrir á Sigló.
Margir þessara veitingastaða, "diskóteka" og sjoppa voru innan girðinga og þar innan við umlugt háum trjám. Og ekki var tónlistin verri á börunum á kvöldin, svo og víða á götum úti þegar haldið var til skips, eftir nokkra bjóra. En hitinn kom í veg fyrir að maður fyndi á sér, þar sem útgufun frá líkamanum fór fram jöfnum höndum (?)
Eitt kvöldið fór ég í land með Magga skipstjóra. Við komum á stóran veitingastað eða dansstað undir beru lofti umleikin háum trjágróðri. Þar voru tvö dansgólf, og nánast troðfullt svæðið. Mikið var þar af fólki sem dansaði "ekta" gríska dansa við mikil hróp í takt við tónlistina. Gaman var að fylgjast með þessu, samhliða því að njóta matarins og á eftir auðvitað, ásamt góðum bjór.
Einnig má segja frá því, að vöruúrval í verslunum í Patras var með eindæmum gott, og vart hægt að finna annað en gæðavöru, hvort heldur voru verkfæri allskonar, heimilistæki og tilheyrandi búsáhöld og fatnaður. Þessar vöru voru flestar merktar heimsþekktum gæðamerkjum.
Annað sem var nokkuð áberandi, bæði í Grikklandi og Tyrklandi, það var veiðiáhugi landsmanna. Hafnarsvæðin og fjörur voru ávalt þakinn áhugaveiðifólki á öllum aldri, einnig um kvöld og um næturnar. Aflinn var af talsvert fjölbreyttari en íslendingar eiga að venjast, bæði hvað fjölda tegunda og stærðir. En margir fiskarnir náðu vart 5sm. lengd og fáir fiskar lengri en 20sm. Margir voru ánægðir þegar 10sm. fiskur beit á krókinn.
Mér datt oft í hug "máltæki" um laxveiðimenn heima á fróni, varðandi veiðistöng. Það er "Ánamaðkur var á öðrum endanum og hálfviti á hinum." En þetta var smitandi, og varð til þess að ég keypti mér veiðistöng og renndi fyrir fisk.
Árangurinn varð lítill, sennileg vegna rangrar beitu, en ég prófaði beikon, kjötagnir og jafnvel ost. Maðka eða pöddur hafði ég ekki, eins og margir veiðimennirnir í landi beittu með. Annarri veiðiaðferð kynntist ég einnig þarna, ég prófaði þó ekki, en fylgdist með neðansjávar.
Margir krakkarnir sem þarna voru við leik, köfuðu við höfnina í tærum sjónum með litla háfa og fönguðu fiskana smáu. Ég fór oft í kaf með krökkunum til að sjá þessa veiðiaðferð þeirra, sem var frekar skemmtun hjá þeim en þörf. En aflanum laumuðu flestir krakkarnir í fötur nálægra veiðimanna uppi á bryggjunum. Það var gaman að kafa þarna og fylgjast með þegar þau voru að veiða, aðallega strákar, en þó ein og ein stelpa, gjarnan þá tvær þrjár í hóp. Öll voru þau flugsynt, og þau gátu verið talsvert lengur neðansjávar en ég.