Izmir, Tyrkland

Borgin Izmir er talsvert frábrugðin fyrrnefndum borgum, þar voru bæði nýtísku byggingar af ýmsum stærðum með miklum vestrænum blæ.

Þar var meðal annars mikil starfsemi Atlandshafsbandalagsins, sem og þjóðfáni Bandaríkjanna áberandi. 

Á láglendi borgarinnar voru nokkuð blönduð hverfi ríkra og meðaltekjufólks að ætla mætti.

Sölutorg voru þar nokkuð mörg og eitt þeirra vakti sérstaka athygli mína.  En þar fór fram slátrun á suðfé með nokkuð ólíkri aðferð en ég hafði áður séð, þar voru kindurnar hausskornar, ekki skotnar eða rotaðar.

Þarna horfi ég yfir borgina Izmir

Þarna horfi ég yfir borgina Izmir

Ég sá velhlaðin söluborð með afurðunum, aðallega innmat. Ég náði þar að taka tvær ljósmyndir án þess að neinn gerði við það athugasemd.

En þegar ég hafði smellt af þriðju myndinni af húðflettum kindahausum, alþökkum flugum, og var að gera mig kláran til að taka mynd þar sem verið var að blóðga og afhausa eina rolluna, þá varð allt vitlaust.

Sá með afhausunarsveðjuna rauk í átt til mín með hausa sveðjuna á lofti og öskraði eitthvað sem ég skildi auðvitað ekki. En svipur og athöfnin leyndi sér ekki svo ég forðaði mér. Og þegar fleiri hlupu í átt til mín með hnefa á lofti og öskruðu eitthvað svipað og sveðjugaurinn, þá tók ég til fótanna. 

Ég átti fótum fjör að launa í bókstaflegri merkingu, en hópurinn elti mig í um það bil 50-60 metra í burt frá slátursvæðinu. Myndirnar tvær sem ég náði, eru hér á fyrri síðu. (þriðja var hreyfð og óskýr)

Allt annar heimur var ofar í borginni, Þar voru gamlar byggingar með þröngum stígum á milli, þar sem venjulegar bifreiðar gátu ekki ekið um.

Þar var nokkuð áberandi umferð vélknúinna þríhjóla og skellinaðra.  Flutningar aðfanga til verslana fóru fram með vélknúnum þríhjólum sem á var um fermetri pallur að stærð.

Einnig var mikið um mjög bratta stíga með yfir 45° halla, og tröppur á leið minni þarna í gegn upp á hæsta svæði borgarinnar. Þaðan sem var gott útsýni var allra átta.

Þarna var eins og fyrr segir á leið minni margar litlar verslanir sem aðallega versluðu með matvörur.

Nokkrir veitingastaðir, það er te og bjórsölur. Engir matsölustaðir urðu þarna á leið minni, en fólk var við veitingastaði, bæði að drekka kaffi eða te ásamt nokkrum sem kældu sig á bjór, sennilega óáfengir ?.

Ég keypti mér þrjár bjórflöskur í nesti á göngu minni, ætlaðar til að svala þorsta mínum. Innihaldið fannst mér ódrekkandi sull, en náði þó að drekka niður í hálfa flösku.  Ég helti því restinni niður og skildi hinar eftir í skugga svo einhver annar gæti gætt sér á innihaldinu. En þarna var fullorðinn karlmaður sem sá til mín og hirti flöskunnar ánægður á svip, er hann sá mig brosa.

Áfram hélt ég upp brattar tröppur, þar til ég kom á áfangastað og naut þaðan útsýnis um góða stund.

Nokkru síðar lagði ég af stað niður til baka, en nú eftir öðrum álíka stígum sem stefndu átt til miðborgarinnar.

Þaðan fór ég niður undir sjó, ekki þó við höfnina, heldur var löng og breið gata meðfram sjóinn á aðra hönd en húsaþyrpingu á hina. Þar á meðal við götuna, aðalstöðvar NATO í Tyrklandi, þær upplýsingar komu síðar, en þar voru við hún allir þjóðfánarnir, þar meðtalinn sá Íslenski. Farið var að nálgast kvöld og sólin við að setjast er þarna var komið.

Áfram hélt ég göngu minni í þá átt, er ég taldi höfnina vera en rakst þá óvænt á heljarmikla alþjóðlega vörusýningu sem var inni á svæði skemmtigarðs, einskonar tívolí.

Þangað inn fór ég auðvitað, en aðgangur þangað má heita að hafi verið til málamynda. Samsvaraði verði á einni bjórflösku. þarna var mikið að sjá og greinilegt að sýningarsvæðið var nýopnað, en svæði sumra þjóðanna voru lokuð í bili vegna kampavínsveisla og ræðuhalda.

Meðal annars var þarna stórt svæði Rússa, þar sem sást úr fjarlægð til skriðdreka, fallbyssa og fleiri stórra vopna í ljósglampanum. En einnig mátti greina nafnið Yuri Gagarin og gervihnatta plaköt. það var komið kvöld og því myrkur á þessum slóðum, utan missterkra rafljósa. 

Ég stoppaði ekki lengi þarna að þessu sinni, enda átti ég að mæta á vakt um borð nokkru síðar, en ákvað að skreppa þangað kvöldið eftir en þá átti ég frí. Þennan dag tel ég, eftir að hafa skoðað kort, að ég hafi gengið að minnsta kosti 30 km. Góður megrunargöngutúr það, í um 35-40 °C hita í forsælu.

Ég var mættur á sýningarsvæðið aftur rétt upp úr klukkan 6 kvöldið eftir.

Og þarna var mikið að sjá, meðal annars fyrrgreinda vopnasýningu og líkön af Sputnik og einhverju öðru gervitungli og fleiru tengt geimferðum. Einnig heilmikill texti og myndir tengt Gagarin. Svo og auðvitað fleiri Sovéskum hetjunum. 

Þarna var  mikill mannfjöldi, en það leit út fyrir að myndavélar væru ekki kærkomnar á svæðinu. Og hermannaklæddur varðmaður á rússneska svæðinu benti mér með góðlátlegu brosi og handahreyfingu að þar væru ljósmyndatökur ekki leyfðar, svo ekki varð mikið úr myndatökum í návígi.

En ég svindlaði þó með eina af geimfara búningi sem skoða má hér á síðunni, ásamt fleiru.

Hommaútlit ?

Ég var nærri búinn að gleyma mér þarna inni á svæðinu. Ég var orðinn glorsoltinn. þar sem ég var ekki með næga peninga fyrir mat þá ákvað ég að koma mér um borð. Ég fór framhjá veitingastað sem var undir beru lofti eins og svo margir fleiri staðir.

Ég hægði á mér og virti fyrir mér mannlífið þarna um stund. þar á meðal annars, sá ég að uppi á sumum borðum var um 60-70 sentímeter hátt "verkfæri"  Í glerhluta neðst er vatn, en reykur frá sterku tóbaki er sogaður í gegn um vatnið. (lýsing fengin árum síðar á netin)

Mér sýndist að það hafi verið sett tóbak í efri hlutann og að er virtist glóandi steinn eða eitthvað álíka sem kveikti í tóbakinu.

Þessar pípur hafa verið nefndar á íslensu, vatnspípur. Einnig eru til frásagnir um að einhver önnur og sterkari efni hafi einnig verið notuð í slíkum pípum.  En svona pípur eru algengar á meðal arabaþjóða. Ég hafði aldrei skoðað svona í nálægð, og fór þarna inn fyrir og settist við borð, skammt frá þar sem tveir menn deildu svona pípu. Ég sá að þarna var einnig einhver drykkur á boðstólnum, sem ég giskaði á að væri te. En af lýsingu sem einn skipsfélagi minn hafði gefið mér, þá ákvað ég að prófa drykkinn, eftir að ég hafði talið smámyntina sem ég hafði í vasanum, fullviss um að eiga fyrir tesopa.

Þjónn kom fljótt að borðinu, ávarpaði mig á tyrknesku. (?) Ég giskaði á að hann vildi vita um hvað mætti bjóða mér. Ég svaraði stutt og laggott "Tea, Please"  

Þjónninn skildi mig og kom fljótlega með á bakka;  þar var lítið ílát með telaufum, glas á undirskál og tveir molar og að auki kanna með sjóðheitu vatni.

Ég horfði vandræðalega á það sem þjónninn lagði fyrir mig, hann tautaði eitthvað á grísku, sem ég ekki skildi, en sótti þá smápeninga sem eftir voru í vasa mínum setti í lófa minn.

Hann tók það sem teið kostaði, en það var minna en ég hafði þorað að vona, því þetta voru síðustu "aurar mínir" og svo yfirgaf hann mig.

Ég leit í kring um mig til að athuga hvort einhver væri með samskonar skammt, til að læra hvernig ég ætti að bera mig að, en var í því truflaður af vinalegri rödd sem spurði mig á ensku hvort hann mætti aðstoða mig. Maðurinn sem þarna kom, spurði jafnframt hvort þetta væri í fyrsta sinn sem ég pantaði tyrkneskt te á veitingastað. Ég játaði því. Þetta var maður um þrítugt, myndarlegur og broshýr, en greinilega Tyrki.

Hann helti sjóðandi vatninu yfir telaufin í litla ílátinu, og sagði að þar þyrfti það að liggja í um tíu mínútur á meðan heita vatnið gegnsýrði laufin. Síðan ætti að setja telaufin í sigti sem þarna hafði komið með og hella svo heitu vatninu yfir og í glasið, alveg eins og venjulegt te.

Ég spurði hvort ég mætti bjóða honum te, en hann afþakkaði og fór að spyrja mig um uppruna og fleira. Hann talað mun betri ensku en ég og ég átti auðvelt með að skilja hann þegar hann sagði lauslega frá sjálfum sér.  Tíu mínúturnar liðu og ég smakkaði á teinu. Mér til undrunar, þá var þetta bara ágætur drykkur og ég brosti til "aðstoðarmannsins" og lét ánægju mína í ljós yfir bragðinu.

En augnabliki síðar brá mér heldur betur. Þá áttaði ég mig á því að hann var hommi, hann lét hendi sína hvíla lauslega á öðru læri mínu innanverðu undir borðinu.  Ég var fljótur að leggja frá mér tebollann og gerði honum kurteislega þó, en á þann hátt að ekki var misskilið. Að ég hefði ekki áhuga á slíkum atlotum. Aumingja maðurinn varð óttasleginn og leit í báðar áttir, sennilega af ótta við að viðstaddir tækju eftir þessum viðbrögðum mínum.

Ég sá greinlegan ótta á andliti hans og ákvað að gera ekki meira úr málinu. Ósjálfrátt til að vernda mann greyið, því ég gerði ráð fyrir að ástæða þessara þreifinga hafi stafað af grun hans um að ég væri tilkippilegur. Ég stóð upp og gaf honum merki um að sitja áfram, en yfirgaf svæðið án þess að líta til baka.

Ég hló svo og sagði við sjálfan mig. "Andskotinn, ekki vissi ég að ég væri svona hommalegur"

Það skal þó tekið fram að ég hefi ekkert á móti hommum eða lesbíum, síður en svo. Kynhneigð fólks er "val" hvers og eins, nokkuð sem mér kemur ekki við.  En ég vil ekki blanda slíkri gleði með karlmanni. Þó er einn hommi (í dag árið 2018) sem ég er hrifinn af, ekki vegna kynhneigðar hans heldur söng og framkomu. Það er Páll Óskar, en það er annað mál.

Komið var svarta myrkur. Ég afréð að stytta mér leið til bryggjunnar sem Hvalvíkin lá við, eins og fyrr segir þá var nánast blankur svo ég átti ekki nóg fyrir leigubíl.  Ég var rétt kominn frá vel upplýstri umferðargötu og stefnt inn í nánast óupplýst svæði sem ég ætlaði að nota til að stytta mér leið.

Ég var kominn inn í myrkrið, er skyndilega var þrifið í myndavélina mína, sem ég hafði sem betur fer sett yfir höfuð yfir á gagnstæða öxl, þannig að maðurinn sem ætlaði að nappa myndavél mína náði ekki að slíta ólina.

Ég hrifsaði vélina úr hönum hans og hörfaði, en þá réðist hann að mér og ætlaði að slá mig.

Ég brá mér undan og eiginlega ómeðvitað, þá sló ég á móti og hitti gaurinn beint á vangann og hann féll í götuna öskrandi. þá birtist félagi hans sem ég hafði ekki tekið eftir fyrr og hjálpaði vini sínum upp. Við stóðum kyrrir um stund móti hvor öðrum tilbúnir til átaka og þeir ruku öskrandi á mig. 

Í þann mund sem félagarnir réðust til atlögu heyrðist flaut, og ég sá tvo lögreglumenn með vasaljós koma hlaupandi og ég slapp með skrekkinn, í bili. Lögreglan hefur sennilega spurt hvað væri í gangi, en félagarnir urðu fyrir svörum.  Önnur löggan snéri sér að mér og sagði eitthvað sem ég skildi ekki og í ljós kom að hvorugur lögregluþjónanna talaði ensku. En á öllu skvaldrinu og bendingum frá félögunum mátti ætla, að þeir segðu mig hafa stolið myndavélinni af þeim. Lögreglan gerði mér skiljanlegt að þeir vildu sjá skilríki mín. Þá kom babb í bátinn.

Ég var ekki einu sinni með veskið mitt með mér hvað þá annað. Enn hélt löggan áfram að segja eitthvað, en nú með hörkulegum tón. Þá datt mér í hug kvittunin sem ég hafði í rassvasanum frá deginum áður, frá bankanum þar sem ég hafði látið skipta sterlingspundum yfir í tyrkneska mynt, sótti hana og sýndi lögregluþjóninum.  Um leið reyndi ég að gera þeim skiljanlegt að annar þeirra hafi ætlað að stela myndavél minni.
Eftir lestur bankakvittunarinnar snéri lögreglumaðurinn sér að mér og sagði eitthvað með gjörbreyttum tón og benti mér á að fara, sem ég gerði. Ég sá svo að félagarnir tveir voru settir í járn og farið með þá í gagnstæða átt.

Ég slapp með skrekkinn í annað sinn og náði til skips stuttu síðar. Ég útbjó mér þykka samloku og fór inn í herbergi mitt.  Þar var 35 stiga hiti inni. Ég var á báðum áttum um hvort ég ætti að opna klefagluggann, eða hafa hann lokaðan. Ég opnaði og á móti mér kom léttur vindblær, aðeins svalari en hitamollan inni. 

Ég kláraði samlokuna og kyngdi niður með ísköldum Carlsberg. Ég kveið fyrir nóttinni í þessari hitamollu, en var fljótur að sofna þrátt fyrir það, en þreytan eftir göngutúrana þann daginn hafa hjálpað til, og ég datt fljótt út af. Ég var svo vakinn með látum um miðnættið af vakthafandi háseta Rúnari Jónssyni. En erindið var það að loka glugganum hjá mér, skipið væri að fyllast af flugum. Ég var fljótur til, en mundi svo eftir flugnaneti sem var í kojuskúffunni minni og var sérstaklega útbúið til að setja fyrir gluggana.

Eitthvað af þessum flugu tussum höfðu þó komist inn hjá mér, því um morguninn var ég allur flekkóttur og bólguhnoðrar um allan skrokk, handleggjum og fótum eftir bit þeirra. Ég sem hafði aldrei orðið fyrir ágengi flugna áður. þeim hefur sennilega fundist blóð mitt ljúffengt og ég of þreyttur til að vakna við bitin. Nokkrir aðrir skipverjar urðu fyrir biti, þó mismikið og þar á meðal Rúnar sem var á vaktinni. 

Daginn eftir var lagt af stað til Beirut í Libanon.  Myndir tengdar þessum kafla Myndir frá Izmir