Loksins heim til Íslands + Áhafnarlisti

Loks, um seinnipart fimmtudagsins 13. september, var lagt frá bryggju frá Torrevieja.

Daginn eftir vorum við komnir út á Atlandhafið með stefnu meðfram ströndum Spánar og Portugal. Fljótlega eftir að stefnan var tekin á Ísland fór að bera á norðan kalda og svalara lofti en við höfðum vanist undanfarna mánuði.

Gert var ráð fyrir að siglingin heim tæki rúma viku. Það færi þó eftir veðri og vindum. Fyrsta höfn á Íslandi sem komið skyldi til, var í Vestmannaeyjum. Á hluta leiðarinnar lentum við í þungri undiröldu sem skall skáhalt á stjórnborða, og menn höfðu á tilfinningunni að skipið svignaði undan ölduganginum. það brakaði og brast í innviðum skipsins.
Ég gat, í herbergi mínu séð hreyfingu við loftlista í einu horni þess, nokkuð sem ég hafði ekki tekið eftir áður.

Lítill vindur fylgdi þessum undarlegu hreyfingum skipsins sem varaði í um 6 tíma. En öldurnar breyttust þá þannig að þær komu beint á hlið og gerði hliðarvelting í staðinn. Ég varð drullu sjóveikur eins og svo oft áður. En ég var orðinn sérfræðingur í sjóveiki, svo það kom mér ekki á óvart.
Á siglingunni heim lagði ég nýjar gólfflísar á alla gangana á milliþilfari, en skipstjórinn lagði áherslu á að ég kláraði það verk áður en ég hætti um borð. Flísarnar hafði ég keypt í Torrevieja. Hásetarnir höfðu áður rifið upp gamlan og snjáðan gólfdúkinn, og grunað steingólfið með sérstakri fljótharðnandi málningu.

Við þurftum er að Vestmannaeyjum kom, að doka við eftir háflóði til að komast þar inn. Lóðsinn var kominn um borð. Biðin tók um tvo til þrjá klukkutíma. Einn af fossum Eimskipafélagsin var meðal annars við bryggju í  höfninni. Þegar við renndum að bryggju, sáum við eina 12 tollverði koma niður landgang frá skipinu.
Ekki var laust við að sumir félaga minna frammi á bakka, þar sem við vorum tilbúnir að kasta spotta í land, væru með kvíða þar sem ég vissi að margir þeirra höfðu keypt nokkuð meira af áfengi, (til eigin nota) en gera mátti ráð fyrir að fengist "stimplað"

Þeir höfðu einnig á orði að ég ætti ekki von á góðu. En ég hafði, án þess að vera nokkuð að fela, borið ýmsan varning upp í herbergi mitt, muni og dót sem ég hafði geymt niðri í klefa sem ég hafði til umráða fyrir smíðadót mitt og fleira sem tilheyrði skipinu sem geymsla. Þessu dóti mínu, átta bjórkössum af Michelob bjór, (minn uppáhalds bjór) sem ég hafði keypt í New Orleans, fjórum kössum af góðum spænskum bjór, sex léttvínsflöskur í skrítnum umbúðum, fjórar viskíflöskur, tvær dýrar koníakflöskur, ásamt þvottadufti og fleiru. 

Margt fleira var þarna sem ég hafði keypt, fatnaður og fleira sem kona mín hafði keypt er hún var með mér um borð eins og komið hefur fram, en gat ekki tekið með sér sem farangur með lítilli einkaflugvél til Íslands. Áður er getið um ferð hennar.  Þessu öllu raðaði ég uppi í koju mína og staflaði á gólfið svo að auðvelt væri að skrá það. Það hafði ég sjálfur gert áður skilmerkilega á þar til gerð tollskilaeyðublöð sem afhent höfðu verið af stýrimanni fyrr um morguninn, eins og lög gera ráð fyrir.
Að auki voru nokkrar dósir af Michelob bjór, og áteknar vínflöskur í ísskáp mínum. Flestir um borð höfðu fengið fregnir af þessu uppátæki mínu, og flestir hrist höfuðið samfærðir um að allt þetta yrði gert upptækt. Ég aftur á móti fullyrti að ég ætlaði bara að flytja þetta inn á löglegan hátt og borga uppsettan toll, að minnsta kosti að láta á það reyna.

Þegar búið var að binda Hvalvíkina og landgangur kominn. Komu aðeins þrír tollverðir um borð, hinir sem komu frá borði fossins, reyndust vera frá Reykjavík báðu fyrir kveðju til skipstjórans.

Ég hafði verið sendur upp í kranahús til að kenna mönnum úr landi á græjurnar og dvaldi þar um stund. En kallað var á mig nokkru síðar og sagt að tollverðirnir biðu eftir því að komast inn í læst herbergi mitt.
Þeir höfðu lokið við hefðbundna tollskoðun, þó ekki leitað neitt.  það eina sem þeir vildu útiloka, var hvort um borð væru sjónvarpstæki sem skipverjar hefðu keypt. Þar sem sérstök beiðni um slíka athugun hefði komið frá fjármálaráðuneytinu. Ekki mátti svíkjast undan greiðslu sjónvarpsgjalda til Ríkisútvarpsins.

Og svo höfðu þeir greinilega áhuga á, sagði stýrimaður mér síðar, að skoða þær vörubirgðir sem voru inni í herbergi mínu, samkvæmt þeim lista sem ég hafði gert og afhent stýrimanni, og hann tollvörðum ásamt öðrum tollskýrslum áhafnar ofl..

Ég opnaði dyrnar á herbergi mínu og bauð þeim inn. Einn þeirra hafði á orði í undrunartón. "Vá, þetta er eins og magasín" Ég opnaði einnig ísskápinn minn og sagði þeim að fá sér bjór, á meðan ætlaði ég að þvo á mér hendurnar, í vaskinum sem var inni í herbergi mínu. Ég heyrði enn upphrópun "Vá, Michelob, uppáhalds bjórinn minn. Voruð þið líka í Bandaríkjunum?"

Því svaraði ég játandi, og hengdi upp handklæðið mitt eftir að hafa þurrkað hendur mínar. 

Sá sem var elstur í hópnum brosti, og rétti mér nánast tómt tolleyðublað og sagði góðlátlega. "Mig langar til að biðja þig að skrifa undir þessa skýrslu".

þetta var samskonar eyðublað og ég hafði áður fyllt út skilmerkilega, nema á þessu eyðublað sem tollarinn rétti mér stóð aðeins: "Ýmislegt til heimilisþarfa" + 2 kassar af bjór og tvær vinflöskur.

Ég horfði á þá félaga til skiptist. Allir brostu, og hinn gamli sagði eitthvað á þá leið að hann ætlaði eftir áratuga starf, ljúka ferli sínum með stæl.
Hann væri kominn á aldur og þetta væri síðasta tollskoðun sem hann sinnti á ferlinum. Þeir væru allir sannfærðir um að enginn smyglvarningur væri um borð. Ekki í þeirri merkingu sem fannst um borð í fossinum fyrrnefnda amk sagði hann.

Félagar hans sem tyllt höfðu sér á brún koju minnar brostu breiðu brosi, en sögðu ekkert. Ég endurtók boð um drykk úr ísskápnum. Sá gamli tók þaðan þrjár Michelob og rétti félögum sínum sitt hvora og opanað sína. Hann settist í eina stólinn í herberginu, um leið og hann fékk sér sopa.  "Það er rétt hjá þér, þetta er góður bjór" hann beindi orðum sínum að öðrum félaga sínum. Hinir stungu bjórdollum sínum í vasa sína og sögðust ætla að njóta hans í  ró heima og þökkuð fyrir.

Þeir dvöldu nokkuð lengi inni hjá mér. Þar sem umræðuefnið var gömlu góðu síldarárin, en allir höfðu þeir kynnst Siglufirði. Sá gamli oft sem tollvörur á sumrin, en hinir sem sjómenn á síðustu árum síldarævintýrisins.

Ég glotti þegar ég sá skipsfélaga mína, sem höfðu beðið með eftirvæntingu eftir að tollþjónarnir yfirgæfu herbergi mitt. Og ekki síður er ég sá undrunarsvip þeirra þegar tollararnir kvöddu mig hlæjandi með handabandi er þeir yfirgáfu skipið.
Það kom í ljós síðar, að félagar mínir höfðu verið búnir að reikna það út miðað við tímann sem tollararnir voru inni hjá mér, að verið væri að gera vörulager minn upptækan.

Þeir spurðu svo eftir á hvort ég hefði þekkt þá persónulega. Því svaraði ég auðvitað neitandi. Ég sagði þeim að við hefðum bara verið að spjalla um gamla góða daga heima á Siglufirði.
Þeir áttu ekki orð, en fóru að hugsa þegar ég spurði þá hvort eitthvað hefði verið leitað hjá þeim, eða gert upptækt hjá þeim.
Engin leit hafði farið fram, aðeins stimplaðir bjórkassar og vínflöskur sem sýndar höfðu verið. Ekki einu sinni farið niður í vélarrúm, né önnur svæði, sem ekki tilheyrðu skipverjum persónulega.

Þegar losun af hluta farmsins var lokið í Vestmannaeyjum, var haldið austur með landinu og komið við á tveim þrem höfnum en farið framhjá Siglufirði til Sauðárkróks. Þar sem ég kom mínu hafurtaski í land, kvaddi félaga mína og yfirgaf skipið.
Allir voru þá vinir mínir - þó svo að ég hafi haft á tilfinningunni að hjá sumum, ætti ég ekki alvöru vinar von, vonandi hefur það verið ímyndun. En það er nú annað mál, en þó höfuðástæðan fyrir því að ég hætti á Hvalvíkinni.

Ég fékk þó þau bestu skriflegu meðmæli sem mér hefur hlotnast á ferlinum, frá Magnúsi stýrimanni / skipstjóra.
Ég bað hann um meðmælabréf, á þeirri forsendu að ef tilvill mundi ég einhvern tíma síðar leita í annað skipsrúm. Það var þó alls ekki ætlun mín, heldur vegna einskonar forvitni um hvernig hann brygðist við.
En eins og fram hefur komið var ég ekki í hávegum hafður fyrstu vikurnar amk., um borð í Hvalvíkinni. Það fór vel á milli okkar Magnúsar, eftir að hann fékk vitneskju um að ég hafði verið áður til sjós og kunni til verka, við meira að segja höfðum farið saman í land erlendis, fengið okkur að borða saman og fleira.

Ég var aðeins nokkra daga "án atvinnu" heima á Siglufirði, er mér bauðst fljótlega staf aftur á SR- Vélaverkstæði, sem ég þáði.
----------------------------------------------- 

Nafaskrá skipverja á Hvalvík sem sjá má hér neðar, eru fleiri nöfn en þeirra sem voru mér samskipa, sumir aðeins "einn túr" eða svo.  En talsverð mannaskipti og frí áttu sér stað, svo og fyrir og eftir mína brottför. Ég var þarna skráður í alls 230 daga samfellt, án þess að taka mér frí.

(Neðanritað er tekið frá afriti skipaskráninga, frá sýslumanni, þar voru þó fleiri upplýsingar.)

Áhöfnin á hverjum tíma var 14 manns

Áhafnarlist Hvalvíkur

Áhafnarlist Hvalvíkur