Tengt Siglufirði
Á leiðinni frá Beirut til Spánar, var tíminn notaður til að þrífa lestarnar og bronsa þær síðan. En næsti farmur var salt, sem dreifa átti til hafna heima á Íslandi.
Torrevieja var þá um 5-6 þúsund manna byggðarlag, sem verið var að byggja upp sem ferðamannsvæði, en á sumrin tvöfaldaðist íbúafjöldinn, sögðu
heimamenn. Það minnti óhjákvæmilega á síldartímabilið heima á Sigló, þegar fólksfjöldinn þar margfaldaðist, á meðan síldarvertíðirnar
stóðu sem hæst.
Árið 2011, var íbúafjöldinn í Torrevieja kominn vel yfir 100 þúsund, samkvæmt heimildum Wikipedia vefsins, nær eingöngu vegna ferðamannastraumsins
þangað.
Og enn vex þeim í Torrevieja ásmegin í samkeppninni um þá sóldýrkendur sem Spán heimsækja.
Annars var aðalatvinna þeirra í Torrevieja saltvinnsla.
Þar upp á er stórt vatn nokkru ofan við bæinn, það er unnið salt með aðstoð sólarinnar sem hita vatnið og eftir verður salt á svæðinu, sem flutt er út til margra
landa. Aðferðin við saltvinnsluna var nokkuð gamaldags að sjá árið 1979, gamall og lúinn vélbúnaður. En í dag 2018 hefur orðið mikil breyting á vinnslu og búnaði.
Saltið frá saltnámu var sett á litla járnbrautarvagna og flutt þannig niður að höfninni.
Þar var saltið flutt með færibandi í trekt sem féll niður í langt
rör, þar sem rafknúinn dreifari kom saltinu fyrir í lestum skipsins. Hvernig það fer fram í dag 2018, veit ég ekki.
Verkið gekk nokkuð vel þegar allt var í lagi, en tafðist verulega þegar rafmagn fór af borginni vegna þrumuveðurs. Þó svo að rafmagn hefði komið aftur eftir nokkra klukkutíma, þá bilaði eitthvað í rafkerfi saltlestunar, þannig að nokkurra daga töf varð við lestunina.
Ég hafði áður en ofannefnt þrumuveður skall á, verið uppi í bænum á reiðhjóli mínu. (sem ég hafði keypt
í Svíþjóð og var með um borð) Það hafði verið glampa sólskin. Skyndilega dró fyrir sólu og ofan úr skýjunum kom haglél með miklum látum,
það dundi á húsum, bílum, og götum með hávaðasömum smellum. þetta voru högl um 1,5 sm. í þvermál.
Ég hafði bundið skyrtu mína um mittið og
var því ber að ofan, berleggjaður og í stuttbuxum. Mig sárkenndi til þegar höglin dundu á skrokk mínum og leitaði skjóls eins og allir aðrir sem voru utandyra.
Þessi hagléljadrífa, með þessum stóru höglum stóð yfir í einar 3-4 mínútur. haglstærðin minnkaði svo eftir það niður í 5-6mm. Þá lagði ég af stað til skips, þar sem stutt var til hafnarinnar. Mig sárkenndi í hausinn undan haglélinu, þrátt fyrir að höglin minnkuðu, sem og þegar þau skullu á bera fætur mínar. Ég hafði klætt mig í skyrtuna svo þar urðu verkirnir undan haglélinu minni. Áður en ég náði til skips, var komin helli rigningardemba ásamt þrumum og eldingum. Stuttu síðar, fór allt rafmagn af bænum eins og fyrr segir.
Mikið var um nýjar byggingar í smíðum á svæði bæjarins. Meðal annars hótelbyggingar sem ég mundi ekki þora að
kaupa mér gistingu hjá. Byggingamátinn var frumlegur, vægt til orða tekið að mér fannst. Miðað við það sem ég hafði sjálfur unnið við heima á fróni.
- En til fróðleiks; Árið 1829 var bænum algerlega eytt af jarðskjálfta.
Nokkrir venjulegir byggingakranar voru víða, en einnig voru í notkun frumlegir lyftibúnaðir, allt frá handknúnum
til lítilla vélknúinna bómukrana sem staðsettir voru uppi á byggingunum. Búnaður sem vart hefði getað lyft meir en 50-100 kg. í senn.
Nokkrar myndir af byggingum og fleiru.
Ég gerði mér ferð upp til saltnámanna. Þær voru nokkru ofar við bæinn eins og fyrr er nefnt, þar var salt í stórum haugum. Vagna röð sem var á járnbrautarteinum, samanstóð af 10-15 litlum vögnum sem hver rúmaði 2-3 tonn. En ég hafði fengið far með einni lestinni. þetta var nokkuð merkileg ferð og nýstárleg í mínum augum. Ég stoppað í þarna á meðan næstu 30-40 tonn voru lestuð í vagnana.
Í ljós kom að alvarlegar bilanir höfðu orðið á rafbúnaði saltvinnslunnar af völdum einhvers skammhlaups, tengdum áður nefndum eldingum á svæðinu. Þannig að allt svæði saltvinnslunnar var án rafmagns. Fyrir séð var, að tvo til þrjá daga tæki að fá varahluti og tíma til viðgerða. Þetta var okkur sagt.
Í framhaldi af rafmagnsleysinu ákváðu nokkrir skipverja að skreppa alla leið norður til Benidorm og
gista þar eina til tvær nætur og skemmta sér.
Ekki var ferð allra skipverjanna sem skruppu til Benidorm bein gleðiferð. Sumum varð það á að hella ógætilega í sig
og sumir komust við illan leik heim um borð eftir fyrri nóttina, peningalitlir og eitthvað marðir.
Þar með einn skipverjinn, sem hafði verið rændur rúmlega 12 þúsund pesetum. Slagsmál og brotin húsgögn höfðu og einnig sett strik í reikninginn. "Okkar" menn áttu þó ekki upptökin, en orðið þó að hluta til að blæða fyrir. Um þetta var talað um borð, eftir á.
En sá hluti áhafnar sem stillt hafði samskiptum við Bakkus í hóf, nutu ferðarinnar betur. Þar hittu þeir meðal annarra hóp Siglfirðinga, sem báðu
fyrir kveðju til mín og kona í hópnum skrifaði kveðju á servéttu.
Þessi vinkona mín gleymdi þó að setja nafn sitt á servéttuna. En lýsingin sem fylgdi,
gat vel átt við Birgittu Páls og mann hennar Þórð Andersen. -
Ein konan þarna í Siglfirðingahópnum gat eftir lýsingu að dæma, verið Inga á Eyri og ef til vill
Jón bóndi hennar. Hefi ekki fengið neitt af þessu staðfest. Gleymt að spyrja.
Ekki lét ég freistast til að skreppa til Benidorm, enda þá sýnt að stutt væri í
að lestun lyki, þar sem rafmagnið var komið og rétt um 400 tonn ókomin um borð.