Split í Yugoslavíu

Á leið til Split í Yugoslavíu. --- 

Split (2018) er önnur stærsta borg Króatíu með um 180 þúsund íbúa í borginni sjálfri og 350 þúsund á stórborgarsvæðinu. Borgin er hafnarborg við Adríahafið á Dalmatíuströndinni í héraðinu Split-Dalmatíu.: h. Wikipedia

Frá Siglufirði & Seyðisfirði, til Split í Yugoslaviu. Ferðin hófst er farið var frá Siglufirði.

Hvalvíkin var hálflestuð af síldarmjöli frá S.R. verksmiðjunni á Siglufirði. Mjölið hafði verið sekkjað í 50 kg. bréfpoka, eins og þá var venjan. Það hafði tekið S.R. strákana rétt um sex klukkutíma að lesta, og leiðin lá næst til Seyðisfjarðar. Hjá S.R. á Seyðisfirði var tekið um borð svipað magn og á Siglufirði, þannig að skipið var fullfermt með um 4000 þúsund tonn, og lestunin tók nánast sama tíma þar og á Siglufirði, um sex klukkustundir. 

Næsti áfangastaður var Split í Yugoslaviu (Tilheyrir Croatiu í dag, 2018)  

Þetta var fyrsta sigling mín á úthafinu með Hvalvíkinni. Við lentum í nokkuð slæmu veðri undan strönd Portugal, þannig að mikil ágjöf gekk yfir fulllestað skipið. Ein af þeim ástæðum sem  Guðmundur vildi fá mig um borð, var til að lagfæra með logskurði og rafsuðu, lúgulokurnar sem voru í mjög slæmu ástandi. Í gegn um tíðina höfðu verið, notaðar sleggjur til að opna og loka. Fleygar voru í læsingunum, sem oft hafði greinlega verið hamrað á með meira afli en æskilegt eða þurft hefði.

Þegar siglt hafði verið í gegn um Gibraltarsund og komið inn á Miðjarðarhaf, var komin rjómablíða, hiti og sólskin. Guðmundur Arason skipstjóri hafði illan grun um að einhver sjór hefði komist ofan í einhverja lestina, þar sem lokurnar bognar og skældar, voru farnar að virka illa. Hann lét opna lestarlúgurnar, og í ljós kom að grunur hans reyndist réttur.

Nokkuð magn mjölpokanna, hafði blotnað af sjó á nokkrum stöðum.  Dreift var úr þeim pokum sem ekki höfðu blotnað það mikið að þeir tolldu saman, til þerris í heitu sólskininu. Nokkuð margir pokar tolldu ekki saman er við þá var komið. Hvað fyrri aðgerðina varðaði, voru allir sammála um að það væri þarft verk.

En þegar Guðmundur tjáði þeim að nóg væti til af tómum orginal SR-pokum og að mannskapurinn ætti að losa mjölið úr skemmdu pokunum í hrúgu, þurrka það og síðan að yfirfæra mjölið í nýja poka. Hásetunum, og raunar fleirum,  féllust hendur. Þeim leist alls ekki á Þetta og töldu svona ekki í þeirra verkahring.
Ekki var vafi á því að Guðmundur hafði gert ráð fyrir því að svona gæti komið fyrir þar sem lúgurnar væru ekki vatnsheldar, og hafði þess vegna beðið um að slatti af tómum mjölpokum væru látnir fylgja farminum.

Svo og var mannskapnum gert grein fyrir því að fyrirmæli skipstjórans væru lög og þeim yrði að hlíða. Skipshöfn bæri einnig samkvæmt lögum, skylda til að gæta farmsins og koma í veg fyrir tjón á honum. Það endaði með því að flest allir um borð tóku sig til við þetta verk, allt frá sjálfum skipstjóra og 1. stýrimanni til timburmanns, bátsmanns og háseta. Þar á meðal var einn farþeginn, fullorðinn maður að nafni Hjörtur Jónsson kaupmaður, en hann var einn af þeim ötulustu og áhugasamastur við verkið. (Eiginkona Hjartar, Þórunn Jónsdóttir var einnig um borð sem farþegi) -  Myndir frá mjölþurrkuninni HÉR

Eins og fyrr er getið, þá tók aðeins um 12 klukkustundir samtals að lesta Hvalvíkina þessum mjölfarmi, heima á Siglufirði og á Seyðisfirði. En í Splitt stoppuðum við í rúma fjórtán daga  á meðan skipið var losað. Einum mesta hægagangi og slæpingi verkafólksins, sem ég hefi orði vitni að. Yfirmenn móttökuaðilans höfðu engar áhyggjur af þessum vinnubrögðum. Þetta virtist bara vera eðlilegt vinnufyrirkomulag, ekkert lægi á í þessu þáverandi "kommúnistaríki"

Þarna var að sjá algjört jafnrétti á milli kynja, ekki á neinn hátt hægt að sjá á handbrögðum, hvort að verki var karl eða kona. Sem dæmi þá virtust hollin niðri í lest skiptast á um að raða pokunum í stroffur, þar sem fyrir kom að eingöngu konur sóttu poka og settu í stroffur, sem svo karlarnir kræktu í þegar hífað var til lands, og öfugt.

Ekki grétum við skipverjarnir vegna þessa, nema þá helst skipstjórinn sem hafði áhyggjur útgerðarinnar vegna. Veðrið allan tímann var heiðskírt með hita 30 - 35 C°, og sólskini.  Hvert tækifæri var notað til landgöngu daga og kvöld, og hjá sumum næturnar út. Fólkið var vingjarnlegt, matur og annað á veitingastöðum á þokkalegu verði.

Og svo annað um vöruverð. Ég og fleiri komum á sunnudegi að verslun þar sem stillti var út í glugga mjög miklu úrvali af allskonar rafeindabúnaði, sjónvörpum, hljómflutningstækjum og öðrum heimilistækjum. Einnig miklu úrvali myndavéla og tilheyrandi. það sem vakti mest athygli okkar, var að þarna var allt verð tilgreint í U.S.A. dollurum, og verðið var langt neðan við þau verð sem við töldum okkur þekkja frá tollvöruverslunum í Evrópuríkjum, sem og frá verðlistum og tímaritum, ásamt minni þekkingu á verði myndavéla og tilheyrandi.

Nokkrir okkar ákváðum að heimsækja verslunina daginn eftir, sem við gerðum í þeim tilgangi að versla. En vonbrigðin urðu mikil er á staðinn var komið. Það var tekið var á móti okkur með brosi á vör. En þegar sá fyrsti taldi sig hafa fundið það sem hann ætlaði að kaupa, kom babb í bátinn. Þessi verslun var eingöngu ætluð þeim einstaklingum sem hefðu sérstakt leyfi, eða skírteini. Það stóð á skilti, bæði í glugga og við dyrnar.

það var að vísu á því tungumáli sem enginn okkar gat skilið. Eftir skýringar frá verslunarstjóranum. Þá voru það eingöngu embættismenn og háttsettir flokksleiðtogar, sem þarna gátu verslað ódýrt, eftir að hafa sýnt tilskilin skírteini og kvittað fyrir. Svona var þetta í kommúnistaríki einræðisherrans Josip Broz Tito árið 1979.

En eins og fyrr segir, þá var margt annað hægt að skoða þarna í Splitt. Þar var ma. verið að byggja heilmikil mannvirki vegna væntanlegra Vetrarólympíuleika.

Einnig var víða að sjá mikil umsvif, ásamt miklum fjölda ferðamanna sem voru þarna.

Myndir HÉR