Haraldur Sigurðsson frá Skúfsstöðum

Haraldur Sigurðsson - Fæddur 11. okt. 1909 - Dáinn 3. júní 1993 Haraldur Sigurðsson frá Skúfsstöðum í Hjaltadal í Skagafirði var jarðsunginn frá Siglufjarðarkirkju. 

Haraldur hafði átt við hjarta- og lungnasjúkdóm að stríða um nokkuð langan tíma, en hann dvaldi á Vífilsstöðum þegar andlát hans bar að.

Haraldur fæddist á Skúfsstöðum í Hjaltadal 11. október 1909. Foreldrar voru Sigurður Jónsson og Anna Sigurðardóttir sem bjuggu þar. Hann var þriðji elstur af fimm systkinum sem nú eru látin nema Þórey systir hans sem býr á Akureyri.

Haraldur ólst upp við öll venjuleg sveitastörf. Um tíma var hann á Vatni í Sléttuhlíð hjá Ingibjörgu Jónsdóttur föðursystur sinni og Þorsteini manni hennar. Veit ég að Haraldi þótti mjög vænt um þá fjölskyldu alla tíð. Var honum því mjög að skapi að frændi hans Sigurður Þorsteinsson frá Vatni tók við jörðinni, þegar faðir hans lét af búskap árið 1965.

Eftir fermingu fer Haraldur að vinna fyrir sér hjá ýmsum á sumrum og við skepnuhirðingu á veturna.

Haraldur Sigurðsson Skúfstöðum

Haraldur Sigurðsson Skúfstöðum

Hann naut almennrar barnafræðslu í æsku, en árið 1927 fór hann í skóla að Laugum í Þingeyjarsýslu, en þar hafði verið stofnaður skóli nokkrum árum áður. Eftir að námi þar lauk fór hann í Bændaskólann á Hólum og brautskráðist þaðan sem búfræðingur 1930. Þó átti ekki fyrir honum að liggja að verða bóndi. Næstu árin sem erfið voru mörgum Íslendingum vann Haraldur fyrir sér þar sem vinnu var að fá og tekjuvonin mest.

Hann kom til Siglufjarðar fyrst árið 1934 í atvinnuleit og vann þá m.a. á síldarplani hjá Ingvari Guðjónssyni og Síldarverksmiðjum ríkisins. Á þessum árum fór hann heim á haustin og dvaldist þar á veturna, en hann átti þá alltaf bæði hesta og sauðfé.

Haraldur fluttist til Siglufjarðar 1938 og bjó lengst af hjá Friðleifur Jóhannsson á Lindargötu 6b, eða í 21 ár. Hann batt mikla tryggð við Friðleif og þegar Friðleifur missti sjónina tók Haraldur við að rita dagbók, en það hafði Friðleifur gert í langan tíma.
Þessi dagbók kom sér oft vel og kom Haraldur með gagnmerkar upplýsingar úr þeim skrifum þegar við ræddum eldri tíma.

Í apríl árið 1947 er Haraldur fastráðinn hjá Rafveita Siglufjarðar, en áður hafði hann unnið hjá rafveitunni sem lausamaður af og til. Haraldur vann sem línumaður í 19 ár og sá þá um háspennulínuna frá Skeiðsfossvirkjun svo og bæjarkerfið sem var í loftlínum á þessum tíma. Mig langar til að segja frá einni viðgerð á Siglufjarðarlínu sem kom í hlut hans að framkvæma.

Skeiðsfossvirkjun var gangsett í apríl 1945, og hafði rekstur hennar gengið ágætlega. Í aprílmánuði 1947 bilaði háspennulínan í norðaustan stórhríð og ísingarveðri.
Hinn 28. apríl fór Haraldur inn í Fljót um Siglufjarðarskarð og með honum var Jónas Stefánsson sem kunnugur var á þessari leið, enda ættaður úr Fljótum.
Þegar þeir koma upp undir skarðið sjá þeir að vestasti vírinn sem liggur yfir skarðið er slitinn úr endaklemmu.

Halda þeir síðan áfram inn yfir skarðið og þiggja góðgerðir á Lambanes-Reykjum. Þegar komið er inn á Lambanesás sjá þeir að háspennulínan liggur öll niðri inn að Brúnastaðará. Viðgerðarefni var sent til Haganesvíkur á vélbátnum Villi SI 70 og þaðan voru staurar og slár dregnar á hestum að Illhugastöðum. Síðan urðu menn að draga staura með handafli því snjórinn var svo mikill og erfiður að ekki var hægt að koma hestum við.

Öll viðgerðin fór fram með handverkfærum þar sem ekki þekktust þau tæki sem notuð eru í dag við viðgerðir sem þessar. Um tuttugu menn unnu við þessa viðgerð undir stjórn Anton Kristjánsson rafveitustjóri og Haralds sem þá var nýráðinn til rafveitunnar. Viðgerðin tók tvær vikur, veðrið var gott, sólskin á daginn og hörkufrost á nóttunni.

Þegar Haraldur og Jónas fóru til Siglufjarðar til baka yfir Siglufjarðarskarð sáu þeir hvernig best yrði að gera við bilunina í sjálfu skarðinu, en þar lá niðri 800m langur, 120mm sver vír sem þurfti að festa upp. Fóru þeir til Siglufjarðar, útbjuggu sig með krafttalíur sem dregnar voru upp á hestasleða og strengdu vírinn upp. Var þá liðinn 21 dagur síðan línan bilaði.

Ég segi þessa sögu til þess að lýsa þeim aðstæðum sem starfsmenn rafveitnanna urðu að mæta við viðgerðir á bilunum sem komu fyrir á þessum tíma.
Haraldur hóf störf á skrifstofu rafveitunnar í janúar 1966 og vann þar í 15 ár, til 31. mars 1981, eða samtals vann hann í 34 ár hjá rafveitunni undir stjórn fimm rafveitustjóra.

Ég kynntist Haraldi fyrst á árunum 1949 -­54 þegar ég var við nám í rafvirkjun á Siglufirði. Mæddi þá oft mikið á starfsmönnum rafveitunnar við að halda straumi á lögnum að yfir tuttugu síldarsöltunarstöðvum með íveruaðstöðu fyrir tugi söltunarstúlkna. Á þessum árum voru allar raflagnir í loftlínum og sá Haraldur um viðhald þeirra og endurnýjun.

Seinna átti ég þess kost að vinna með honum við viðgerðir á Siglufjarðarlínu þann tíma sem Tryggvi Sigurbjarnarson var rafveitustjóri á Siglufirði. Kynntist ég Haraldi þá betur sem verkmanni og félaga, en hann var mjög útsjónarsamur og nákvæmur verkmaður. Hann hvatti mig til þess að sækja um starf rafveitustjóra þegar það losnaði og réðst ég til rafveitunnar í maí 1966.

Hann var þá byrjaður að vinna á skrifstofu rafveitunnar. Nýttust þar góðir kostir hans, en hann var mjög talnaglöggur, minnugur, og samviskusamur starfsmaður. Við unnum saman til ársins 1981, eða þar til að rafveitustofan var sameinuð bæjarskrifstofunni. Ég mat störf hans svo mikils að ég fékk hann til þess að vinna hálfan daginn síðustu fjögur árin eftir að hann fór á eftirlaun.

Haraldur var félagslyndur og starfaði m.a. af miklum krafti í Skagfirðingafélaginu í Siglufirði og var einn af stofnendum starfsmannafélags Siglufjarðarkaupstaðar.

Haraldur var alla tíð sjálfstæðismaður og var oft spjallað um stjórnmálin á kaffistofu rafveitunnar. Stóð ég oft í ströngu þegar Eyþór Hallsson var kominn í kaffisopa, en skrifstofa hans var við hliðina á okkar og þeir tóku mig báðir til bæna. Allt var þetta í góðu gert, en á þessum árum hvarf síldin frá Siglufirði með margvíslegum erfiðleikum fyrir sveitarfélagið og fyrirtæki þess.

Árið 1946 eignaðist Haraldur son, Þórleifur Haraldsson með Guðrún Kristjánsdóttir, en hún lést árið 1991.

Þórleifur Haraldsson ólst upp hjá móður sinni og Björg Þorbergsdóttir móður hennar, en árið 1968 flyst Haraldur til þeirra á Hólaveg 18, þar sem heimili þeirra hefur verið síðan. 

Morgunblaðið - Sverrir Sveinsson