Indriði Pétursson bifreiðastjóri

Indriði Pétursson fæddist á Siglufirði 22. janúar 1932. Hann lést á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík 4. mars 2017.

Foreldrar hans voru Pétur Stefánsson frá Nöf við Hofsós fæddur 1898, látinn 1988, og Jónína Margrét Ásmundsdóttir frá Litla-Árskógssandi, fædd 1912, látin 1975.

Systkini Indriða eru 

Ólöf Pétursdóttir, fædd 1925, 

Guðmundur Pétursson, fæddur 1935, látinn 1999, 

Dýrleif Pétursdóttir, fædd 1941, og 

Dröfn Pétursdóttir, fædd 1946.

Indriði frændi minn fór ekki alveg þessar hefðbundnu leiðir í lífinu.

Indriði Pétursson - Ljósmynd: Kristfinnur

Indriði Pétursson - Ljósmynd: Kristfinnur

Hann kvæntist aldrei, átti engin börn og lífsgæðakapphlaupið þvældist ekki fyrir honum. 

Snemma fékk hann áhuga á bílum og stóran hluta starfsævi sinnar starfaði hann sem bílstjóri. Hann keyrði meðal annars vörubíla og tankbíla sem fluttu slor, minkafóður eða lýsi.

Ekki er hægt að segja að elskulegur frændi minn hafi verið með hreinlegustu mönnum á Íslandi. Hann angaði af atvinnu sinni og hafði ekki miklar áhyggjur af því. Þegar heimili mitt fylltist af lýsislykt svo að ég varð að galopna alla glugga þá hjúfruðu dætur mínar sig upp að honum þar sem hann sat í lýsisgallanum í fína sófanum í stofunni og spilaði á munnhörpu fyrir þær, sagði þeim brandara og lagði fyrir þær gátur.

Öll börn löðuðust að Indriða. Það var eins og hann gengi í barndóm þegar hann umgekkst þau.

Hann bar takmarkalausa virðingu fyrir æskunni og í brjósti hans sló barnshjarta.

Indriði fylgdist vel með lífinu í kringum hafnirnar í Reykjavík og á landsbyggðinni. Hann átti urmul af vinum og kunningjum víðsvegar um landið enda var hann glaðlyndur og skemmtilegur. Á ævi sinni fór hann aðeins einu sinni til útlanda og var þá kominn hátt í áttrætt. Það var á Eldingunni með Hafsteini kafara. Þeir fóru til Færeyja, Hjaltlandseyja og Noregs og var ferðin Indriða til mikillar gleði.