Haraldur Gunnlaugsson síldarmatsmaður

Haraldur Gunnlaugsson ­- Fæddur 4. desember 1898 Dáinn 1. mars 1992

Hinn 1. mars sl. lést í Kópavogi Haraldur Gunnlaugsson, síðast starfsmaður Síldarútvegsnefndar, Siglufirði. Útför hans fór fram frá Kópavogskirkju. Haraldur var Húnvetningur í báðar ættir, fæddur 4. desember 1898 á Stóru-Borg í Þverárhreppi.
Foreldrar hans voru

Gunnlaugur Sigurðsson, sjómaður og járnsmiður, og kona hans Þuríður Bjarnadóttir, bæði húnvensk að uppruna.

Fjölskyldan Haraldar fluttist 1902 til Eyjafjarðar, fyrst að Dálksstöðum en síðar að Eyrarbakka á Svalbarðsströnd. Kona Haraldar var

Guðný Guðlaug Jónsdóttir, f. 21. júlí 1894, d. 11. janúar 1977, ættuð af Fljótsdalshéraði.
Foreldrar hennar voru

Haraldur Gunnlaugsson - Ljósm. Kristfinnur

Haraldur Gunnlaugsson - Ljósm. Kristfinnur

Jón Eyjólfsson, f. 1867 í Fossgerði í Eiðaþinghá, síðar bóndi í Gilsárteigshjáleigu og á Selsstöðum við Seyðisfjörð, og kona hans Guðrún Björg Jónsdóttir, f. á Skjögrastöðum á Völlum.

Guðný og Haraldur fluttust til Reykjavíkur frá Siglufirði árið 1958, og 1962 í Kópavog.
Þegar Guðný lést fluttist Haraldur til Herdísar dóttur sinnar í Skjólbraut 4.

En síðustu þrjú árin dvaldist hann í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi.
Börn Guðnýjar og Haraldar eru

  • Hörður Gunnlaugsson, verkamaður í Reykjavík, f. 1921,
  • Unnur Gunnlaugsdóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 1923,
  • Þuríður Gunnlaugsdóttir, húsmóðir á Siglufirði, f. 1924,
  • Ágústa Gunnlaugsdóttir, húsmóðir í Hafnarfirði, f. 1927,
  • Gunnlaugur Haraldsson, síldarmatsmaður á Siglufirði, f. 1928,
  • Lóreley Gunnlaugsdóttir, sjúkraliði í Reykjavík, f. 1932, og
  • Herdís Gunnlaugsdóttir, sérkennari í Kópavogi, f. 1938.

Öll hafa þau gifst og eignast börn. Átti Haraldur stóran hóp afkomenda er hann andaðist.

Haraldur lauk námi í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, nam síðan skipasmíði hjá Gunnar Jónsson skipasmiður þar og varð meistari í iðninni.

Til Siglufjarðar fluttist hann 1936 og réðst til starfa við Slippinn, sem Ólafur Ragnars keypti það ár af áðurnefndum Gunnari Jónssyni.
Aðalstarf hans eftir það varð þó á vettvangi síldarframleiðslunnar.

Hann hefur vafalítið verið í fyrsta hópnum sem lauk prófi í síldarmati, árið 1937, fór síðan að starfa í þeirri grein, varð verkstjóri í söltunarstöð og loks starfsmaður Síldarútvegsnefndar; verkstjóri, birgðavörður og síldareftirlitsmaður. Ennfremur hélt hann á hennar vegum námskeið um meðferð síldar og síldarmat víða um land og flutti fyrirlestra um sama efni í Fiskvinnsluskólanum.

Hann var einkar útsjónarsamur við öll störf, meðal annars bráðslyngur að skipuleggja vinnu. Minnist undirritaður þess ekki að hafa unnið hjá verkstjóra sem var jafnsnjall að fylgjast með vinnu á mörgum stöðum í einu, sjá um að öll aðstaða væri fullnýtt og hvergi of margir né of fáir starfsmenn við verk.

Eins og vænta mátti um jafn greindan og starfshæfan mann komst Haraldur ekki hjá þátttöku í félagsmálum. En hann var ekki fæddur inn í neina þá félagshreyfingu sem mest hafa sett svip á öldina. Hann var eldri en þær flestar.

Í bernsku hans og æsku voru sjónarmið bændaþjóðfélagsins enn allsráðandi og meira en helmingur þjóðarinnar búsettur í sveitum. Þegar elstu starfandi stjórnmálaflokkar landsins og Alþýðusambandið komust á fót var hann að verða fullorðinn og þegar Ísland fékk fullveldi 1. desember 1918 skorti hann aðeins þrjá daga í tvítugt. Helstu félagshreyfingar aldarinnar komu fram á sjónarsviðið eftir að hann var kominn til þroska. Hann gat því lagt á þær og þróun þeirra kalt og raunsætt mat fullþroska manns, án þeirrar tilfinningablöndnu og fyrirfram ákvörðuðu fylgispektar sem oft mótar og setur svip á félagslega afstöðu þeirra er alast upp við ákveðna félagslega hugmyndafræði.

Eðlilegasti félagsvettvangurinn fyrir snauðan mann sem stofnaði heimili og settist á mölinni upp úr fyrra stríðinu var verkalýðshreyfingin. Í sjávarplássunum ríkti þá víðast alræði örfárra kaupmanna og útvegsmanna. Þessir valdamenn höfðu mikið vald en litla ábyrgð gagnvart vinnulýðnum sem streymdi á mölina úr fullsetnum sveitunum.

Einhvern tíma á þessu skeiði mun Haraldur hafa gengið til liðs við Alþýðuflokkinn og starfaði síðan allmikið á hans vegum fram á sjötta áratug aldarinnar, var m.a. bæjarfulltrúi fyrir hann á Siglufirði 1950-1954. Þá sat hann í stjórn Kaupfélags Siglfirðinga um árabil.

Haraldur var einn af stofnendum Landssambands síldverkunarmanna og sat í stjórn þess meirihlutann af starfstíma þess, þar af formaður í fjögur ár. Þá var hann framkvæmdastjóri Samvinnufélags sjómanna, sem stofnað var á Akureyri um eða skömmu fyrir 1930, en stofnun þess var ein af þeim tilraunum sem verkalýðshreyfingin gerði á því áraskeiði til að leysa atvinnu- og afkomuvanda fólksins í sjávarbyggðunum, sem ráðastéttin og stjórnvöld hennar töldu ekki koma sér við. En kreppan var aðgangshörð og kom þessu félagi fljótlega á kné, eins og mörgum öðrum fyrirtækjum sem stofnuð voru í sama tilgangi.

Ég kynntist Haraldi töluvert síðustu árin sem hann bjó á Siglufirði. Þau kynni voru öll góð. Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur urðu samfundir fáir, en alltaf kom ég af þeim nokkru fróðari en áður, ekki síst um menn og málefni liðins tíma, bæði á Siglufirði og á Akureyri á kreppuárunum.

Nú hefur þessi aldni heiðursmaður lokið langri lífsgöngu. Hvíli hann í friði.

Benedikt Sigurðsson.