Haukur Kristjánsson sjómaður

Haukur Kristjánsson á Kambi fæddist á Siglufirði 1. mars 1928. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 7. janúar 1997.

Foreldrar hans voru Guðrún Sigurðardóttir, f. 28. júlí 1897, d. 1988, og Kristján Ásgrímsson, skipstjóri, útgerðarmaður og síldarverkandi á Kambi í Siglufirði, f. 4. júlí 1894, d. 7. mars 1974. Systkini Hauks eru:

  • Bára Kristjánsdóttir, f. 7. nóvember 1916, dáin, ógift;

  • Ásgrímur Kristjánsson, f. 18. september 1918, búsettur í Hafnarfirði, maki Sigríður Lúðvíksdóttir; Ólafur Kristjánsson, f 1920, drukknaði 1950; 

  • Ólöf Kristjánsdóttir, f. 21. júlí 1921, búsett í Hafnarfirði, maki Guðmundur Atlason, dáinn; 

  • Sigurður Kristjánsson, f. 14. desember 1924, d. 1987; 

  • Ægir Kristjánsson rakari, f. 10. júlí 1926, látinn, maki Ágústa Engilbertsdóttir, búsett í Reykjavík; 

  • Guðrún Kristjánsdóttir, f. 5. maí 1931, ógift, búsett á Siglufirði; 

  • Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 27. júní 1933, búsett í Hafnarfirði, maki Sigurður Sigurðsson. 
Haukur Kristjánsson sjómaður- Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Haukur Kristjánsson sjómaður- Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Hinn 16. júní 1951 gekk Haukur að eiga Guðný Friðfinnsdóttir, f. 8. október 1932, núverandi starfsmann á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.
Foreldrar hennar voru þau

Jóný Þorsteinsdóttir og Friðfinnur Níelsson á Siglufirði. 

Haukur og Guðný eignuðust sjö börn sem eru:

  • 1) Kristján Ólafur Hauksson trésmiður í Reykjavík, f. 20. apríl 1950, kona hans er Erla Björnsdóttir og eiga þau tvær dætur og tvö barnabörn; 

  • 2) Hanna Jonna Hauksdóttir, verslunarkona í Reykjavík, f. 14. maí 1951, maki Ingvar Lúðvíksson stýrimaður og eiga þau tvö börn; 

  • Guðrún Anna Hauksdóttir, tónlistarmaður í Svíþjóð, f. 15. apríl 1953, ógift en á eina dóttur,

  • Alla Hjördís, húsmóðir í Reykjavík, f. 25. október 1954, maki Hinrik Olsen prentari og á hún tvö börn og eitt barnabarn; 

  • Sigurður Friðfinnur Hauksson, verkstjóri á Siglufirði, f. 20. október 1957,sambýliskona hans er Sigurbjörg Elíasdóttir verkakona, þau eiga þrjú börn;
     
  • Selma Hauksdóttir verkakona í Reykjavík, f. 13. apríl 1963, hún á 3 börn; 

  • Sigurjóna Bára Hauksdóttir, verkakona í Reykjavík, f. 1. janúar 1966, maki Sveinn Ó. Þorsteinsson og eiga þau eitt barn.

Útför Hauks fór fram frá Siglufjarðarkirkju. -  
----------------------------------------------------------------- 

Það var langt liðið á þriðjudagskvöldið 7. janúar sl. er mér barst sú harmafregn að vinur minn Haukur á Kambi væri látinn. Mér féllust gjörsamlega hendur og það sem eftir lifði kvöldsins ráfaði ég um og gat ekki fest hugann við nokkurn hlut. Ég vissi svo sem að hann hafði verið fluttur á sjúkrahúsið rétt eftir áramótin og að hann hafði verið töluvert veikur, en Haukur frá Kambi hafði svo oft áður, hin síðari ár, verið lagður inn á sjúkrahús og tekist á við mikil veikindi.

Þrisvar sinnum hafði þessi gamla trollarakempa fengið slag en alltaf tekist með þrautseigju og bjartsýni að sleppa frá manninum með ljáinn. Auðvitað láta menn á sjá eftir slík áföll en baráttan og bjartsýnin í Hauki var slík að maður átti eiginlega á öllu öðru von en því að hann biði ósigur í baráttunni við þennan ókunna sláttumann. Haukur á Kambi hóf sjómennsku sína ungur að árum á smábátum með föður sínum Kristjáni Ásgrímssyni, skipstjóra, útgerðarmanni og síldarsaltanda á Siglufirði.

Þegar unglingsárunum sleppti og ævintýraþráin var orðin svo mögnuð að honum héldu engin bönd hélt hann á vertíð í Vestmannaeyjum og þar var hann nokkrar vertíðir á bátum með ýmis veiðarfæri. 1945 ræður hann sig hjá Sigurjóni Einarssyni skipstjóra sem þá var með togarann Faxa frá Hafnarfirði. Þar með var teningunum kastað og troll og togveiðar voru hans ær og kýr upp frá því. Haukur var á ýmsum togurum og togbátum. M.a. var hann á b/v Elliða þegar hann sökk 10 febrúar 1962.

Síðustu ár sín á sjó var Haukur á Sigluvík SI. Leiðir okkar Hauks á sjónum lágu saman á Siglfirðingi SI 150, fyrsta skuttogara íslendinga. Á þessum árum kunni ég ekki mikið fyrir mér í trollum en Haukur var allur af vilja gerður að kenna mér og öðrum. Hann var okkar alfræðibók um troll og viðgerðir á þeim. Hann hafði ímigust á hroðvirkni og var sífellt að brýna það fyrir mönnum að vanda vinnuna við trollin; það ætti eftir að skila sér.

Þegar ég var með honum á sjó fannst mér þetta stundum óttalegt tuð í honum og jafnvel óþarfi að leggja meiri vinnu í að gera við rifið trollið en nauðsynlegt sýndist vera hverju sinni; þetta myndi hvort sem er rifna aftur, en seinna meir lærði maður að meta vandvirkni hans. Hún er erfið sjómennskan og menn slitna fyrr í þeirri atvinnugrein en nokkurri annarri og þrátt fyrir velgengni og góðar tekjur dreymir alla sjómenn um góða vinnu í landi.

Og það er ekki fyrr en menn eru búnir að koma sér vel fyrir og ala upp börnin sem þeir leyfa sér slíkan munað eins og að fara alfarið í land og 1982 hætti Haukur á sjónum og setti á stofn fyrirtæki ásamt öðrum á Siglufirði og auðvitað netaverkstæði, hvað annað. Það er hin æðsta sæla togarakarla, sem eru búnir að vera með netanálina í annarri hendi og spannann í hinni í 40-50 ár, þegar þeir fara í land; að vera áfram tengdir sjónum og halda áfram því eina starfi sem þeir kunna og unna.

Veiðarfæri frá Hauki og félögum hans voru vönduð og samviskusamlega unnin eins og öll verk Hauks við troll í gegnum tíðina og þegar vel gekk að fiska í troll sem hann hafði sett upp eða gert við ljómaði hann af föðurlegu stolti. Og enn skýrari ljóma mátti sjá á honum þegar börnin hans bárust í tal. Hver lítill sem stór áfangi í þeirra lífi var honum sem ljós í lífinu og ekki var minni ánægjan með tengdabörnin og barnabörnin.

En það var með Hauk eins og svo marga aðra sjómenn; seltan og návígið við náttúruöflin gerir þá hrjúfa á yfirborðinu og þeim er oft gjarnara að tala um sína nánustu en við þá, en þegar skelinni hefur verið flett af eru sjómenn eflaust með meyrari mönnum, þannig maður fannst mér Haukur vera; harður í horn að taka en ljúfmenni hið innra. Heimili þeirra Hauks og Guðnýjar stóð manni alltaf opið, alþýðlegt og innilegt viðmót þeirra hjóna yljaði manni alltaf um hjartaræturnar.

Allt vildu þau fyrir mann gera, ég minnist þess sérstaklega þegar við Kristján Ólafur vorum á bítlaárunum að stofna hljómsveit, eins og allflestir unglingar á þeim árum, og vantaði húsnæði til æfinga, að þá þótti Guðnýju ekkert sjálfsagðara en að við æfðum í saumaherbergi hennar, dúndrandi hávaði með viðhlítandi öskrum og ópum virtust bara skemmta henni, hefðu án efa farið í taugarnar á öðrum mæðrum þessa tíma. Það var sama hvenær komið var á heimili þeirra, alltaf voru þau boðin og búin að láta manni líða vel og það fór ekki hjá því að þannig liði manni í návist þeirra.

Kunningsskapur hefur alltaf verið mikill milli þeirra hjóna og foreldra minna. Haukur og faðir minn voru samskipa á sjónum í mörg ár og börn Hauks og Guðnýjar eru á svipuðum aldri og við systkinin. Ekki minnkaði kunningsskapurinn og samskiptin milli fjölskyldnanna við það að yngri sonur þeirra og yngsta systir mín hófu að búa saman, alltaf sama hlýja viðmótið og samhjálpin. Með Hauki á Kambi gengnum er horfinn af sjónarsviðinu enn einn af gömlu togarakörlunum, þessum körlum sem af harðfylgi og dugnaði við erfiðar aðstæður á síðutogurunum, gerðu sjómennskuna að listgrein.

A Sjómannadaginn 1993 var Haukur heiðraður fyrir störf sín sem sjómaður og þannig vildum við siglfirskir sjómenn þakka honum brautryðjendastörf sem gera okkur nútímasjómönnum sjómennskuna auðveldari. Fyrir hönd fjölskyldu minnar sendi ég eftirlifandi eiginkonu Hauks á Kambi, Guðnýju Friðfinnsdóttur, börnum þeirra hjóna, tengdabörnum og barnabörnum mínar dýpstu samúðarkveðjur. Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást, að hugir í gegn um dauðann sjást. -

  • Vér hverfum og höldum víðar, en hittumst þó aftur - síðar.

(Jóhannes úr Kötlum)

Hvíl þú í friði, Haukur á Kambi, - vinur minn. Kristján Elíasson.
-----------------------------------------------------------------------------

Á kyrrum og björtum vetrardegi, eins og þeir gerast fegurstir nú rétt eftir áramótin, þegar dag var örlítið farið að lengja, barst mér sú fregn að gamall vinur minn, Haukur Kristjánsson, sem löngum var kenndur við Kamb á Siglufirði, hefði kvatt þetta líf og lagt upp í þá ferð sem allra bíður.

Ekki gerði ég því skóna síðast þegar ég hitti Hauk að hið hlýja handtak þegar við kvöddumst yrði það síðasta og ég gladdist yfir því hvað hann var hress, spjallaði og gerði að gamni sínu, eins og honum var einum lagið, því að ég vissi að heilsa þessarar miklu hvunndagshetju var verulega farin að dvína.

Haukur á Kambi bjó yfir þeim góða eiginleika að geta hrifið menn með sér, hvort heldur sem var í leik eða starfi. Ég var einn af þeim mörgu drengjum sem lögðu sjómennsku fyrir sig og höfðu Hauk fyrir lærimeistara. Ég get trúlega fyrir munn okkar allra sagt með sanni að það sem við sem með þér rerum á þínum langa og farsæla sjómannsferli lærðum í verklegri sjómennsku var okkur mikilvægt veganesti. Með þessum fátæklegum orðum kveð ég þig, kæri vinur, með orðum skáldsins:

  • Lífsfley nálgast æviós.
  • Áfram tifar vísir.
  • Sumir eiga innra ljós
  • sem öllum skín og lýsir.
  • Gleður þeirra létta lund
  • og lífgar gráa daga.
  • Ljómandi um langa stund
  • lifir þeirra saga.

Alltaf birtir til að nýju, eins og brælurnar víkja fyrir blíðu. 

Guðnýju og fjölskyldunni allri sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sævar Björnsson.