Haraldur Árnason, SHELL

Haraldur Árnason fæddist í Lambanesi í Fljótum 4. maí 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 29. desember 2010. 

Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir f. 3.10. 1898, d. 1983 og Árni Kristjánsson skipstjóri á Siglufirði f. 29.9. 1891, d. 1969.

Systir Haralds er 

Foreldrar Haralds fluttust til Siglufjarðar þegar hann var barn að aldri og þar ólst hann upp. 

Eiginkona Haralds er Karólína Friðrika Hallgrímsdóttir f. 26.7. 1921. Þau giftust 28.10. 1944. 

Foreldrar Karólínu voru Ragnheiður Söebech kaupmaður f. 10.3. 1894, d. 1977 og Hallgrímur Þorvaldsson ökumaður á Akureyri f. 27.9. 1893, d. 1925, og fósturforeldrar Ólöf Jónsdóttir f. 16.5. 1900, d. 1984 og Eyþór Hallsson skipstjóri á Siglufirði f. 4.8. 1903, d. 1988. 

Haraldur Árnason, SHELL

Haraldur Árnason, SHELL

Börn Karólínu og Haralds eru 

1) Ólöf Þórey Haraldsdóttir
f. 21.6. 1943, maki Ásgeir Sigurðsson, f. 1937. 
2) Helga  Haraldsdóttir
þeirra dætur
f. 12.4. 1951, maki Erlingur Björnsson f. 1944,
 • Íris Rut f. 1972, maki Kristján Fr. Kristjánsson og eiga þau þrjú börn, 
 • Helga María, 
 • Kristján Benóný 
 • Brynhildi Lilju,  
 • Karólína f. 1977. 
3) Ragnheiður Haraldsdóttir
f. 6.12. 1956, sonur hennar og Guðmundur Þorsteinsson f. 1954 er
 • Árni Þór f. 1975, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa. 
4) Árni Haraldsson
f. 11.1. 1959, maki Ragnheiður Árnadóttir f. 1963, þeirra börn
 • Selma f. 1994 og
 • Andri f. 1998 
5) Eyþór Haraldsson
f. 1960. 

Haraldur lauk gagnfræðaprófi og vann í verslun Gests Fanndals, á bílastöðinni, var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Siglfirðinga 1944-1958, rak eigin verslun, Ísbarinn, 1957-1967 og starfaði hjá Skeljungi (SHELL)1967-2002, umboðsmaður frá 1988.

Haraldur var mikill útivistar- og veiðimaður, stundaði laxveiði og skotveiðar á sjó og landi. Hann var einn af stofnendum Stangveiðifélags Siglufjarðar og heiðursfélagi þar og sat í stjórn klakstöðvar félagsins.

Hann var félagi í Bridsfélagi Siglufjarðar um áratugaskeið og tók þátt í mörgum mótum og náði þar oft ágætum árangri enda góður bridsspilari. Haraldur gekk ungur til liðs við Alþýðuflokkinn og fylgdi honum að málum alla tíð og seinna Samfylkingunni, og var virkur á fundum og í starfi í ýmsum nefndum.
-------------------------------------------------------

26. janúar 2010 | Minningargrein á mbl.is  

Haraldur Árnason fæddist í Lambanesi í Fljótum 4. maí 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 29. desember sl.

Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir f. 3.10. 1898, d. 1983 og Árni Kristjánsson skipstjóri á Siglufirði f. 29.9. 1891, d. 1969.Systir Haralds er:

 • Freyja f. 28.10. 1926 og fósturbróðir 
 • Pétur Pétursson f. 14.6. 1936, d. 1987.

Foreldrar Haralds fluttust til Siglufjarðar þegar hann var barn að aldri og þar ólst hann upp. Eiginkona Haralds er Karólína Friðrika Hallgrímsdóttir f. 26.7. 1921. Þau giftust 28.10. 1944. Foreldrar Karólínu voru Ragnheiður Söebech kaupmaður f. 10.3. 1894, d. 1977 og Hallgrímur Þorvaldsson ökumaður á Akureyri f. 27.9. 1893, d. 1925, og fósturforeldrar Ólöf Jónsdóttir f. 16.5. 1900, d. 1984 og Eyþór Hallsson skipstjóri á Siglufirði f. 4.8. 1903, d. 1988.

Börn Karólínu og Haralds eru

 • 1) Ólöf Þórey Haraldsadóttir f. 21.6. 1943, maki Ásgeir Sigurðsson, f. 1937.
 • 2) Helga  Haralaldsdóttir f. 12.4. 1951, maki Erlingur Björnsson f. 1944, þeirra dætur Íris Rut f. 1972, maki Kristján Fr. Kristjánsson og eiga þau þrjú börn, Helgu Maríu, Kristján Benóný og Brynhildi Lilju, og Karólína f. 1977.
 • 3) Ragnheiður Haealdsdóttir f. 6.12. 1956, sonur hennar og Guðmundar Þorsteinssonar f. 1954 er Árni Þór f. 1975, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa.
 • 4) Árni Haraldsson f. 11.1. 1959, maki Ragnheiður Árnadóttir f. 1963, þeirra börn Selma f. 1994 og Andri f. 1998 
 • 5) Eyþór Haraldsson f. 1960. 

Haraldur lauk gagnfræðaprófi og vann í verslun Gests Fanndals, á bílastöðinni, var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Siglfirðinga 1944-1958, rak eigin verslun, Ísbarinn, 1957-1967 og starfaði hjá Skeljungi 1967-2002, umboðsmaður frá 1988.

Haraldur var mikill útivistar- og veiðimaður, stundaði laxveiði og skotveiðar á sjó og landi. Hann var einn af stofnendum Stangveiðifélags Siglufjarðar og heiðursfélagi þar og sat í stjórn klakstöðvar félagsins. Hann var félagi í Bridsfélagi Siglufjarðar um áratugaskeið og tók þátt í mörgum mótum og náði þar oft ágætum árangri enda góður bridsspilari. Haraldur gekk ungur til liðs við Alþýðuflokkinn og fylgdi honum að málum alla tíð og seinna Samfylkingunni, og var virkur á fundum og í starfi í ýmsum nefndum. Útför Haralds fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, laugardaginn 9. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Ekkert stöðvar tímans tönn. Allt tekur einhvern tímann enda. Dag einn situr maður við eldhúsborðið og les dánartilkynningu um einhvern sem var manni kær og átti stóran þátt í að gleðja líf lítils barns fyrir 40 árum síðan. Ég man ekki hvenær ég kynntist Halla Árna fyrst, en lítill og ungur var ég. Minningar mínar um hann og þær stundir sem ég átti með honum í olíubílnum eru mér afskaplega kærar. Halli var mikil barnagæla og mér alltaf góður. Hann var bæði hlýr og skemmtilegur. Ég man eiginlega aldrei eftir Halla öðru vísi en kátum og brosandi. Alltaf í góðu skapi.

Ferðir mínar með honum í olíubílnum urðu margar í alls kyns veðrum bæði sumar og vetur. Oft var barist í gegnum skafrenning og skafla en aldrei þurfti ég að fara út í kófið. Ég sat bara inni í hlýjunni á meðan Halli fór út í óveðrið og dældi olíu á tanka heimilanna á Siglufirði. Í þá daga voru öll heimili kynt með olíu. Fyrir unga stráka er fátt skemmtilegra en að sitja í stórum bílum og horfa yfir allt og alla.

Olíubíllinn hans Halla var flottasti bíllinn í bænum og enginn bíll dreif eins mikið í snjónum og hans. Ég man þegar Halli fékk nýjan olíubíl. Það var Benz eins og sá gamli nema hvað sá nýi hafi þrjár rúðuþurrkur! Þetta var það alflottasta sem til var. Enginn annar bíll í bænum hafðir þrjár rúðuþurrkur. Maður var ekki lítið montinn að sitja í þessum bíl.

Halli og pabbi voru góðir vinir. Þeir voru jafnaldrar og saman í briddsspilaklúbbi. Þær eru margar sögurnar sem ég hef heyrt af þeim góða klúbbi. Ein stendur þó uppúr. Stundum var það þannig að þeir félagar spiluðu upp á peninga. Í eitt skiptið var Halli vel við skál og vildi að vel yrði lagt í pottinn. Pabbi var þessu mótfallinn en varð að gefa eftir fyrir vilja Halla og Ármanns Jakobssonar bankastjóra.

Ármann var að sögn pabba enn kenndari en Halli. Nú leikar fóru þannig að pabbi græddi mest, enda edrú, en Ármann tapaði langmestu, enda varla í spilahæfu ástandi. Ármann tók upp tékkheftið og skrifaði ávísun fyrir skuld sinni við pabba. Daginn eftir hringdi Halli í pabba til að gefa honum góð ráð.

Hann sagði pabba að fara strax og eyða ávísuninni áður en rynni af Ármanni og hann stöðvaði hana. Ávísunin var mjög stór á þess tíma mælikvarða, enda keypti pabbi 20 viskíflöskur fyrir hana í ríkinu á Sigló. Pabbi geymdi svo viskíið og beið þess hvort ríkið gæti innleyst ávísunina í bankanum. Í þetta sinn stöðvaði Ármann ekki ávísunina og pabbi gaf Halla 3 viskíflöskur fyrir heilræðið.

Nú er Halli farinn yfir móðuna miklu. Ég er nokkuð viss um að þar sé hann hrókur alls fagnaðar og ekur um á stærsta og flottasta bílnum. Þar dælir hann eldsneyti á heimili þeirra fyrir handan og ég veit að hann gerir það með sínum alkunna léttleika og brosi á vör. Flestir spilafélagarnir eru líka komnir yfir, aðeins pabbi eftir. Ég er viss um að hann fær sæti við spilaborðið þegar hans tími er kominn. Þá verður aftur kátt á hjalla.

Ég sendi að lokum öllum aðstandendum Halla Árna mínar innilegustu samúðarkveðjur. Góður maður er genginn.

Ragnar Thorarensen.
------------------------------------------------

4. maí 2002 | Minningargreinar mbl.is

Haraldur Árnason

Móðurbróðir minn og vinur, Haraldur Árnason á Siglufirði, er áttræður í dag. Það er erfitt að trúa þessu því ekki ber hann það með sér - en svona er það nú samt.

Þegar afi hans, Kristján Jónsson í Lambanesi, hélt upp á 100 ára afmæli sitt var mikil veisla og sú saga gekk að þegar gleðskapurinn var kominn vel af stað hafi gestir tekið eftir því að afmælisbarnið var ekki á staðnum. "Hvar er hann Kristján?" var spurt. Og þá segir sagan að bræðurnir í Lambanesi, þeir Valli og Laugi, hafi svarað því til að hann hefði skotist til rjúpna en von væri á honum á hverri stundu.

Ég þurfti að hafa samband við Harald síðastliðið haust og hringdi. Karolína svaraði: "Því miður, hann er ekki heima, hann fór inn á Lágheiði til rjúpna."

Þetta er rifjað hér upp til gamans og einnig til að sýna fram á sérstakan sameiginlegan eiginleika þeirra, Kristjáns langafa míns og Halla frænda, að eldast. Það er varla hægt að sjá mun á honum Haraldi frá því ég fluttist frá Siglufirði fyrir 35 árum nema að lokkarnir eru ef til vill aðeins ljósari.

Margt kemur upp í hugann þegar litið er til baka. Margir voru vísindaleiðangrar okkar inn í Fljót og þá gjarnan komið við hjá Pétri á Hraunum og auðvitað í Lambanesi.

Ég man sjoppurnar; bæði þá á torginu og var Sumarliði skóari í hinum endanum. Og svo líka þá nýrri þar sem Verslunarfélagið er nú til húsa. Ég man Gísla Vill skorða sig af í einu horninu og Halla á fullu í sérstöku tilraunaeldhúsi sínu á bakvið þar sem margt var reynt og Gísla þótti gott.

Svo og Henning Henriksen sem var einnig fastagestur. Þarna var bæði spilað og kokkað og stundum tekið að halla að morgni þegar upp var staðið.

Ég man marga veiðitúrana. Eins og þegar við fengum 211/2 punda laxinn í Bakkahyl á rauðan Frances; stærsta flugulaxinn í Fljótaá það sumarið. Einn af mörgum stórum sem hann hefur fengið í gegn um tíðina hvort sem er á flugu eða maðk.

Þau eru ófá sumrin sem hann hefur bæði fengið þá stærstu og flesta laxana í Fljótaá. Og ekki má heldur gleyma skurðinum góða á Hraunum...

Og allar skotveiðiferðirnar. En það er nú önnur saga.

Kæri vinur og frændi. Ég leyfi mér, fyrir hönd okkar allra sem hafa orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að vera þér samferða í gegnum lífið, að óska þér innilega til hamingju með daginn.

Ottó Jörgensen. 

---------------------------------------------------

9. janúar 2010 | Minningargreinar mbl.is

Haraldur Árnason fæddist í Lambanesi í Fljótum 4. maí 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 29. desember sl.

Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir f. 3.10. 1898, d. 1983 og Árni Kristjánsson skipstjóri á Siglufirði f. 29.9. 1891, d. 1969. Systir Haralds er Freyja f. 28.10. 1926 og fósturbróðir Pétur Pétursson f. 14.6. 1936, d. 1987. Foreldrar Haralds fluttust til Siglufjarðar þegar hann var barn að aldri og þar ólst hann upp.

Eiginkona Haralds er Karólína Friðrika Hallgrímsdóttir f. 26.7. 1921. Þau giftust 28.10. 1944. Foreldrar Karólínu voru Ragnheiður Söebech kaupmaður f. 10.3. 1894, d. 1977 og Hallgrímur Þorvaldsson ökumaður á Akureyri f. 27.9. 1893, d. 1925, og fósturforeldrar Ólöf Jónsdóttir f. 16.5. 1900, d. 1984 og Eyþór Hallsson skipstjóri á Siglufirði f. 4.8. 1903, d. 1988.

Börn Karólínu og Haralds eru 1) Ólöf Þórey f. 21.6. 1943, maki Ásgeir Sigurðsson, f. 1937. 2) Helga f. 12.4. 1951, maki Erlingur Björnsson f. 1944, þeirra dætur Íris Rut f. 1972, maki Kristján Fr. Kristjánsson og eiga þau þrjú börn, Helgu Maríu, Kristján Benóný og Brynhildi Lilju, og Karólína f. 1977. 3) Ragnheiður f. 6.12. 1956, sonur hennar og Guðmundar Þorsteinssonar f. 1954 er Árni Þór f. 1975, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa. 4) Árni f. 11.1. 1959, maki Ragnheiður Árnadóttir f. 1963, þeirra börn Selma f. 1994 og Andri f. 1998 5) Eyþór f. 1960.

Haraldur lauk gagnfræðaprófi og vann í verslun Gests Fanndals, á bílastöðinni, var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Siglfirðinga 1944-1958, rak eigin verslun, Ísbarinn, 1957-1967 og starfaði hjá Skeljungi 1967-2002, umboðsmaður frá 1988.

Haraldur var mikill útivistar- og veiðimaður, stundaði laxveiði og skotveiðar á sjó og landi. Hann var einn af stofnendum Stangveiðifélags Siglufjarðar og heiðursfélagi þar og sat í stjórn klakstöðvar félagsins. Hann var félagi í Bridsfélagi Siglufjarðar um áratugaskeið og tók þátt í mörgum mótum og náði þar oft ágætum árangri enda góður bridsspilari. Haraldur gekk ungur til liðs við Alþýðuflokkinn og fylgdi honum að málum alla tíð og seinna Samfylkingunni, og var virkur á fundum og í starfi í ýmsum nefndum.

Útför Haralds fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, laugardaginn 9. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Ég ætla að setja hér niður nokkra sundurlausa punkta um Harald föður minn. Pabba leið hvergi betur en við veiðar inni í Fljótum. Hann var sling skytta og fór síðast fyrir fjórum mánuðum á hreindýraveiðar austur á land með besta vini sínum, barnabarninu Árna Þór. Þá kemur í hug tófusagan: Eitt sinn veiddi pabbi tófu sem ég, fjögurra ára gömul, dró á eftir mér á skottinu um hverfið og hrópaði bara „Hún er dauð, hún er dauð!“ þegar krakkarnir hlupu í burtu í ofboði. Og þá spurði ég einhvern tímann í matarboði: „Hvenær á að elda tófuna?“

Pabbi var stangveiðimaður mikill. Og oft sendi hann okkur alls slags kjöt, nýveiddan fisk og reyktan lax. Í fyrra sumar þegar við Erlingur fórum frá honum suður smurði hann handa okkur fullan kassa af fínasta brauði til ferðarinnar, því engan lét hann svangan frá sér fara. Í upphafi hjónabands lærði pabbi að matbúa af mömmu og var snillingur í matargerð, sem kom sér vel þegar hún var komin á spítala og hann orðinn einn í kotinu. Hann var einstaklega barngóður og natinn og lunkinn við að lækna sár sem ekki greru, og hann var viðstaddur fæðingu okkar systkinanna sem þá var ekki algengt.

Við systkinin vorum aldrei skömmuð, hvorki af honum né mömmu, en mikið var lagt upp úr því að kenna okkur mannasiði, ekki síst góða borðsiði, og kurteisi en einkum þó að tala gott mál. Eina sem okkur greindi á um var að hann var heldur mikið hallur að flöskunni. Þá tók hann utan um mig og sagði: „Helga mín, þú ert fallegust.“

Hann hafði gott geðslag og lifði í núinu, unni sígildri tónlist og ljóðum, var viðkvæmur og næmur en flíkaði ekki tilfinningum sínum frekar en hans kynslóð yfirleitt. Í eðli sínu var pabbi töluvert „jólabarn“ að því leytinu að um jólin skreytti hann húsið hátt og lágt, úti jafnt sem inni. Og þegar jólaljósin voru komin í alla glugga var gott að koma heim. Ungur að árum lærði hann útskurð hjá Soffíu Hjaltalín, sem hafði þau orð um nemandann að strákurinn væri bráðflinkur.

Hann hafði ágæta kímnigáfa og sérlega skemmtilega frásagnargáfu. Að sönnu má ef til vill tala um „Haraldarheilkennið“, hann gat verið mjög óþolinmóður og tók þó út yfir þegar illa gekk og verk annarra gengu ekki sem skyldi að hans dómi. Og reyndar var hann að mörgu leyti hörkutól og vissi ekkert verra en að láta vorkenna sér. Kom það vel fram nú í sjúkrahúsvist hans en hún varð sem betur fór aðeins sjö dagar.

Helga Haraldsdóttir.
------------------------------------------

Margar góðar minningar koma upp í huga mér þegar ég minnist Haraldar Árnasonar tengdaföður míns sem lést milli jóla og nýárs eftir stutt veikindi.

Ég kynntist Haraldi fyrir tæpum sautján árum þegar við Árni sonur hans rugluðum saman reytum. Þá var Haraldur orðinn sjötugur og í raun kominn í hóp þeirra sem oft eru farnir að hægja aðeins á. Ég upplifði slíkt ekki hjá honum, enda var hann önnum kafinn maður, hvort heldur við vinnu sína sem umboðsmaður Skeljungs á Siglufirði eða við ástundun áhugamála.

Haraldur spilaði reglulega brids, en veiðar áttu líka hug hans. Það má segja að allan ársins hring hafi hann stundað veiðar með einum eða öðrum hætti, hvort heldur voru skotveiðar eða veiðar úr ám eða sjó. Haraldur var veiðimaður af lífi og sál. Hann bar mikla virðingu fyrir bráðinni og hafði ótrúlega þekkingu á hegðun hennar og aðstæðum. Í skúr niðri við sjó hafði Haraldur komið sér upp afdrepi þar sem öll tæki og tól voru til veiða og vinnslu.

Það var ómissandi þáttur í ferðum okkar Árna til Siglufjarðar að verða við óskum afabarnanna, Selmu og Andra, að fara með afa þangað. Þar var margt að sjá og skoða.

Matarborðið hjá Karólínu og Haraldi á Laugarveginum bar þessa líka merki. Á borðum var oftar en ekki fiskur og kjöt úr matarkistunni sem var úti í skúr. Síðastliðið sumar fórum við fjölskyldan einu sinni sem oftar að veiða og náðist nokkuð vænn silungur úr sjónum. Haraldur steikti silunginn upp úr góðum skammti af „vagnáburði“ en það orð notaði hann yfir íslenska smjörið. Silungurinn bragðaðist vel eins og oft áður á Laugarveginum. Hreindýrabollurnar sem hann matreiddi í sömu ferð voru ekki af verri endanum, en í haust sem leið fór hann á sínar síðustu hreindýraveiðar með Árna Þór dóttursyni sínum.

Haraldur fylgdist vel með þjóðmálum og bæjarlífinu á Siglufirði enda þekkti hann og umgekkst fjölda Siglfirðinga á öllum aldri.

Hljómmikil rödd hans þegar hann talaði fór ekki fram hjá neinum. Hann hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Það var ekkert hér um bil í hans huga. Haraldur var með fallegt bros sem náði til augnanna og hann varð oft skemmtilega kankvís á svipinn þegar honum var skemmt.

Hann var einstaklega hrifinn af barnabörnunum sínum og naut stundanna með þeim. Við Haraldur náðum líka vel saman og alla tíð fann ég fyrir hlýhug hans í minn garð. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Haraldi Árnasyni tengdaföður mínum og votta Karólínu tengdamóður minni, börnum Haraldar, Freyju systur hans og öðrum ættingjum og vinum samúð mína.

Blessuð sé minning hans.

Ragnheiður Árnadóttir.
------------------------------------------

Mér finnst það mjög skrítið að sitja hérna og skrifa minningargrein um hann afa minn. Hann var alltaf svo hraustur og í mínum augum fannst mér eins og að hann myndi aldrei deyja. Ég man þegar við fórum einu sinni að veiða og ég veiddi ekki neitt í langan tíma. Þá kom afi og spurði hvort hann mætti aðeins prufa og sagði svo við mig eftir eina mínútu að öngullinn væri fastur í botninum.

Þá tók ég stöngina og ætlaði að reyna að ná önglinum úr botninum, en þá var kominn fiskur á og afi stóð við hliðina á mér glottandi. Afi vissi alltaf hvenær var flóð og fjara og hvenær það væri best að fara að veiða. Þegar við fjölskyldan drifum okkur út að veiða keyrði hann með okkur og sýndi okkur hvar væri best að fá einhverja fiska. Síðan settist hann inn í bílinn og brosti eða hló í hvert skipti sem við fengum fisk. Þegar ég og Andri komum til ömmu og afa á Siglufirði gaf afi okkur karamellur og fór með okkur að kaupa ís og laumaði síðan súkkulaði til okkar þegar mamma sá ekki til.

Þegar við komum til Siglufjarðar fór afi alltaf með okkur í skúrinn til sín og leyfði okkur að prufa hlaupabrettið sitt og skoða bátana og veiðistangirnar, en skúrinn var fullur af allskonar veiðidóti. Seinast þegar við vorum á Siglufirði bauð afi okkur í mat og eldaði fisk. Það var í fyrsta skiptið sem mér fannst fiskur virkilega góður og hef sjaldan borðað jafn mikið. Afi var alltaf góður við okkur Andra og gerði allt fyrir okkur á meðan við vorum hjá honum og ömmu.

Að koma á Siglufjörð til þeirra var alltaf svo notalegt eftir að maður var búinn að keyra í langan tíma frá Kópavogi. Á Laugarveginum var alltaf vel tekið á móti manni og þar var nóg að gera. Afi fór stundum með okkur systkinin í bíltúr og stundum fórum við saman í búðina til að kaupa í matinn.

Mér finnst svo skrítið að hann er farinn og ég á eftir að sakna hans mjög mikið. Það á eftir að verða tómlegt að koma á Laugarveginn þegar hann er farinn.

Selma.
----------------------------------------------

Faðir minn fæddist í Lambanesi í Fljótum 5. maí 1912. Réttum 10 árum síðar, eða 4. maí 1922, kom Halli frændi í heiminn í sama rúmi í Lambanesi. Þetta var því mikið gæðarúm sem sá heiminum fyrir sómakörlum í háum gæðaflokki á 10 ára fresti. Langlífi er nokkuð viðtekin venja hjá Lambanesættinni. Metið á auðvitað langafi, Kristján í Lambanesi, en hann varð 104 ára og eftir því sem Halli sagði sjálfur frá, fékk hann sér sundsprett í Miklavatni fram á síðasta dag, auk þess sem hann átti sér lífselexír undir koddanum alla jafna.

Halli flutti ungur með foreldrum sínum, þeim Guðbjörgu ömmu ljósu og Árna Shell, til Siglufjarðar þar sem hann ólst upp ásamt systur sinni, Freyju, í litla húsinu við Túngötuna.

Þrautseigja, bjartsýni og lífsgleði voru einkennandi fyrir allt þetta fólk og var Halli frændi gæddur þessum eiginleikum. Ungur að árum var hann orðinn deildarstjóri matvörudeildar kaupfélagsins, nokkru seinna stofnaði hann sína eigin verslun og enn seinna tók hann við af föður sínum sem umboðsmaður Skeljungs á Siglufirði.

Halli átti fallega konu. Það var skemmtilegur samhljómur í nöfnum þeirra, því Karólína var alltaf kölluð Kalla. Halli og Kalla áttu sér fallegt heimili, fyrst við Hverfisgötu og síðan í mörg ár við Laugarveginn þar sem þau bjuggu með litlu stelpunum sínum Ólöfu Þóreyju, Helgu og Ragnheiði.

Enginn var meiri veiðimaður en Halli. Hann veiddi bókstaflega allt sem hægt var að veiða. Ef maður ók með honum upp í sveitir fylgdist hann með hverjum einasta fugli og sá þá oftast löngu á undan öllum öðrum. Hann var einnig stórtækur í lax- og silungaveiði og gjörþekkti allar helstu veiðiár. Þegar mér þótti leggjast lítið fyrir snillinginn er ég frétti að hann væri nýkominn úr veiðitúr úr gruggugu jökulvatni Blöndu þar sem ég áleit að menn stæðu bara í húkki, þá svaraði hann kankvís: „Já, það er rétt. Þeir taka stundum svolítið aftarlega.“ Seinustu árin var Halli farinn að fá áhuga á hreindýraveiði og það var síðast í sumar sem hann lagði myndarlegan tarf að velli í félagi við Árna Þór, dótturson sinn.

Það var ekki bara að Halli færði björg í bú á þennan máta heldur var enginn snjallari að matreiða hinar ljúffengustu villikrásir úr veiðinni. Henning, mágur minn og mikill vinur Halla, naut þess oft að snæða ljúfmetið sem hann bar á borð.

Bridge var mikið áhugamál Halla og af mörgum snjöllum leikmönnum á því sviði var hann með í fremstu röð í Bridgefélagi Siglufjarðar. Leikfléttur, sagnakerfi og upprifjun á spilum var ótæmandi efni í langar og skemmtilegar umræður, eins og reyndar svo margt annað.

Þegar ég kveð þennan síunga en aldraða frænda minn og sendi samúðarkveðjur til Köllu og dætranna frá okkur Biggu, þá er það ekki með trega og sorg í hjarta. Halli skilur eftir gleði og hlýju.

Jón Sæmundur Sigurjónsson.
--------------------------------------------------

Látinn er á Siglufirði mikill og góður vinur minn og flokksfélagi Haraldur Árnason, Halli Árna eins og hann var alltaf kallaður.

Ég kynntist Halla fyrst sem gutti á Siglufirði þegar hann keyrði olíubílinn um allan bæinn og sá um að fylla á olíutankana hjá heimilum og fyrirtækjum í þá gömlu góðu daga þegar slíkt kerfi var við lýði.

Halli á olíubílnum bjó við sömu götu og ég, Laugarveginn, og því lágu leiðir okkar oft saman. Upphaf kynnanna er ekki til eftirbreytni en þau voru þannig að við krakkarnir stunduðum það oft á veturna að hlaupa á eftir bílum, hanga aftan í þeim og fá þannig far, ef svo má að orði komast.

Við Laugarvegsbúarnir nutum ákveðinna forréttinda hjá Halla á þessu sviði því hann skildi þessa þörf, sem má kalla fífldirfsku í dag, sló af á olíubílnum og fór mun hægar en ella svo að við strákarnir næðum taki á afturstuðaranum eða hreinlega næðum að standa aftan á bílnum, svipað og við höfðum séð slökkviliðsmenn gera í amerískum kvikmyndum. Sem betur fer hefur þessi siður lagst af hjá krökkum nú til dags.

Þegar ég var orðinn virkur í bæjarpólitíkinni kynntist ég Halla ennþá betur á þeim vettvangi en hann var jafnaðarmaður eða, eins og við segjum stundum, eðalkrati af guðs náð. Hann mætti á nær alla flokksfundi svo lengi sem ég man eftir mér bæði á vettvangi Alþýðuflokksins og síðar Samfylkingarinnar.

Sem bæjarstjórnarmanni fannst mér alltaf gott að þiggja góð ráð hjá honum og skiptast á skoðunum við hann um málefni bæjarfélagsins sem voru honum mjög hugleikin. Hann hafði ótrúlega yfirsýn á þau efni og setti skoðanir sínar fram af röksnilld og miklum krafti og oftast voru þetta góð ráð sem fylgt var eftir. Þessa yfirsýn hafði Halli auðvitað vegna þess hvað hann fór vítt yfir á Siglufirði, þekkti alla og var því ávallt með púlsinn á öllum málum.

Ég hef notið þess í stjórnmálastússi mínu og framboðum að hafa Halla sem ötulan stuðningsmann og mér til halds og trausts. Hann var öflugur í málefnum bæjarins en ekki síður var hann öflugur kosningasmali eins og við köllum það þegar atkvæðum er safnað fyrir kosningar.

Halla vil ég því þakka hans mikla stuðning við mig persónulega en ekki síður vil ég þakka honum fyrir hans miklu og góðu störf fyrir okkur jafnaðarmenn.

Góður maður og mikill höfðingi er fallinn frá. Ég minnist hans með hlýhug og sendi fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Kristján L. Möller.
-------------------------------------------------

Harald Árnason hef ég þekkt frá því að ég man eftir mér, en hann var besti vinur föður míns. Í öllum fríum dvaldi pabbi á Siglufirði og það fyrsta sem gera þurfti eftir að komið var í bæinn var að finna Halla eða Sjellarann eins og hann var einnig iðulega kallaður. Hann var þá yfirleitt á olíubílnum niðri á höfn eða í skúrnum sínum, Altarinu, svokallaða. Halli var heilsteyptur maður og kom til dyranna eins og hann var klæddur. Þá var hann sérstaklega barngóður og átti hann alltaf eitthvert góðgæti handa okkur.

Mikill heiður fannst mér að því að fá að fara með pabba og Halla út á Siglunes, þetta eru minnisstæðar ferðir enda sérstaklega skemmtilegar þar sem þeir félagar voru þá alltaf í sínu besta formi. Lagt var á ráðin um hvernig best væri að ná tófunni, mikið veitt af fiski og spjallað fram á nótt.

Þegar ég var unglingur langaði mig að vinna í frystihúsi á Siglufirði og þá voru Kalla og Halli svo elskuleg að bjóða mér að búa hjá sér. Dvölin hjá þeim hjónum var ánægjuleg þrátt fyrir að ég hafi vart náð að ljúka heilli setningu án þess að annað hvort þeirra leiðrétti málfar mitt. Seinna meir skildi ég að með þessu höfðu þau kennt mér að bera tilhlýðilega virðingu fyrir tungumálinu og hversu mikilvægt það er að tala rétt mál.

Þegar pabbi veiktist kom í ljós hversu nánir hann og Halli voru og hvað Halli var tilbúinn að leggja á sig fyrir vin sinn. Hann var stoð og stytta pabba. Þegar pabbi dvaldi á Siglufirði sótti Halli hann á hverjum degi heim á Suðurgötuna og þeir fóru saman á rúntinn. Halli keyrði pabba einnig til Akureyrar í lyfjameðferðir og til baka aftur. Þeir voru eins og Kalla orðaði það svo skemmtilega „alltaf eins og nýtrúlofaðir“.

Eftir að ég flutti ásamt fjölskyldu minni til Siglufjarðar nutum við öll nærveru Halla og vinskapar. Til að byrja með leist honum ekkert á eiginmann minn og fannst hann hálfgerður galgopi. Eitt kvöldið kom hann í „kaffi“ og sat lengi, næsta dag kom hann aftur og tilkynnti að Kalli væri sko enginn helvítis aumingi og væri nú vinur sinn. Ætti hann núna að koma með sér og „vera tekinn til altaris“.

Eftir það naut Kalli þess að fara með honum á rúntinn og „taka“ einn og einn fótboltaleik. Halli sýndi börnunum okkar, Hafsteini og Marlís, sérstaka umhyggju og þau þekktu bílinn hans langar leiðir. Í hvert sinn sem þau bönkuðu upp á hjá honum átti hann eitthvert góðgæti til að gefa þeim. Þau eiga bæði eftir að sakna Halla en gleðjast þó yfir því að hann sé nú með afa Hafsteini á himnum. Við eigum öll eftir að sakna Halla en þakklæti fyrir vináttu og væntumþykju hans er okkur þó efst í huga á þessari stundu. Við sendum öllum ættingjum og vinum Halla okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir og Karl Guðmundsson.