Tengt Siglufirði
Haraldur Sveinsson fæddist á Siglufirði 3. október 1926. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík 18. desember 2003 og var útför hans gerð frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði 27. desember.
Afi okkar, Haraldur Sveinsson, fæddist á Siglufirði 3. október 1926 og lést 18. desember sl. á 77. aldursári. Móðir hans var
Guðbjörg Björnsdóttir er fæddist 12. júlí 1899 á Róðhóli í Sléttuhlíð í Skagafirði, en faðir hans var Sveinn Jóhannesson er fæddist 22. mars 1887 á Heiði í Sléttuhlíð.
Afi ólst upp á heimili móður sinnar og móðurforeldra á Siglufirði og hlaut þar hefðbundna skólagöngu.
Þá var Siglufjörður miðstöð síldveiða á Íslandi og skapaði það gróskumikið mannlíf og félagslíf á Siglufirði á árunum þegar afi var að alast upp. Á sumrin var það síldin og allt er henni fylgdi. Á veturna var rólegra í bænum og þá var það snjórinn, vetraríþróttirnar og félagslífið. Allt þetta mótaði æsku- og uppvaxtarár afa. Hann hafði unun af íþróttum og þótti góður íþróttamaður.
Hann stundaði skíðamennsku, sund, frjálsar íþróttir og knattspyrnu á uppvaxtar- og unglingsárum sínum á Siglufirði. Tónlist og söngur skipaði einnig háan sess í lífi afa þegar á æskuárunum. Um miðjan fimmta áratuginn stundaði hann gagnfræðanám við Héraðsskólann á Reykholti í Borgarfirði ásamt hópi knárra Siglfirðinga.
Um 1950 flutti afi suður og kynntist eftirlifandi eiginkonu sinn, Sigurbjörg Guðmundsdóttir frá Bala á Stafnesi í Miðneshreppi, en hún fæddist 24. ágúst 1934.
Þau Búbbi afi og Stella amma hófu sambúð í Sandgerði 1952 og varð þeim fimm barna auðið. Elstur er
Guðmundur Gunnar Haraldsson, faðir okkar,
Guðbjörg Haraldsdóttir,
Sigrún Hjördís Haraldsdóttir,
Haraldur Birgir Haraldsson,
Helgi Haraldsson.
Þau byggðu sér einbýlishús að Vallagötu 13 í Sandgerði þar sem fjölskyldan bjó í um tuttugu ár. Þá fluttu þau sig um set að Hlíðargötu 39 í Sandgerði þar sem amma og afi voru búsett þegar afi lést. Barnabörnin eru nú 14 talsins og eitt barnabarnabarn bættist nýverið í afkomendahópinn. Afi fékkst framan af við ýmis störf er tengdust fiskveiðum og fiskvinnslu og starfaði að mestu leyti í landi. Hann þótti hörkuduglegur til vinnu, samviskusamur og ósérhlífinn enda mesta hreystimenni. Um fertugsaldurinn gaf bakið sig og neyddist afi þá til að breyta starfsháttum sínum og taka að sér öllu rólegri störf. Seinustu starfsárin starfaði hann við Íþróttamiðstöðina í Sandgerði.
Afi var alla starfsævi sína mjög heilsuhraustur að undanskilinni bakveikinni og var honum mjög sjaldan misdægurt. Afi hafði alla tíð brennandi áhuga á íþróttum, einkum þó knattspyrnunni.
Hann hafði spilað með Knattspyrnufélagi Siglufjarðar þegar hann bjó á Siglufirði og með Reyni í Sandgerði eftir að hann flutti suður. Hann var ákafur stuðningsmaður allra aldursflokka í Reyni og tíður gestur á vellinum og lét hátt í sér heyra. Afi var mjög tónelskur og hafði ágæta og hljómmikla tenórrödd. Hann söng mikið á Siglufirði, m.a. með Karlakórnum Vísi, og áfram þegar hann flutti til Sandgerðis með Karlakór Miðnesinga, Karlakór Keflavíkur og síðan Kór eldri borgara á Suðurnesjum. Lengst söng hann þó í Kirkjukór Hvalsneskirkju eða samfleytt í um 40 ár.
Afi var einstaklega trygglyndur maður, samviskusamur, strangheiðarlegur, sanngjarn, traustur og áreiðanlegur. Hann var glaðsinna og átti það til að gantast, en þó aldrei á kostnað annarra. Til þess var hann einfaldlega of tillitssamur, enda vildi hann engum neitt illt. Trygglyndi afa kom oft fram og er hægt að nefna mörg dæmi um það. Hann hringdi t.d. reglubundið, nærfellt á hverjum degi, um árabil, í tengdaföður sinn og langafa okkar, Guðmund á Bala, þegar hann var orðinn fullorðinn og fundum við það á langafa að honum þótti afar vænt um þá umhyggju og kunni hana vel að meta.
Afi var einstaklega nærgætinn og vinsamlegur við gamalt fólk og náði prýðilegu sambandi við þá eldri. ..............................
María, Haraldur Gunnar og Hjálmar.
-------------------------------------------------------------
Haraldur Sveinsson fæddist á Siglufirði 3. október 1926. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík 18. desember síðastliðinn.
Móðir hans var Guðbjörg Björnsdóttir, f. á Róðhóli í Sléttuhlíð í Skagafirði 12. júlí 1899. Hún var önnur í röð fjögurra
barna þeirra hjóna Þórey Sigurðardóttir frá Garðshorni á Höfðaströnd, f. 1872, d. 1947, og Björn Sigmundur Pétursson frá Fjalli í Sléttuhlíð, f.
1863, d. 1938.
Faðir Haraldar var
Sveinn Jóhannesson, f. á Heiði í Sléttuhlíð í Skagafirði. Hann var einn af átta börnum hjónanna Dórothea Sigurlaug Mikaelsdóttir frá Hraunum í Fljótum, f. 1851, d. 1904, og Jóhannes Finnbogason, hákarlaskipstjóri og bónda á Heiði í Sléttuhlíð frá Steinhóli í Flókadal, f. 1838, d. 1898.
Guðbjörg og Sveinn giftust hvorki né hófu sambúð.
Haraldur ólst upp hjá móður sinni á heimili móðurforeldra sinna við Suðurgötuna á Siglufirði. Á sínum yngri árum á Siglufirði stundaði Haraldur margvíslegar íþróttir, m.a. skíðamennsku, sund, hlaup, frjálsar íþróttir og knattspyrnu. Um miðbik 5. áratugarins stundaði hann gagnfræðanám við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði.
Um 1950 fluttist Haraldur suður og 1952 hóf hann búskap með eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurbjörg Guðmundsdóttir frá Bala á Stafnesi, f. 24. ágúst 1934.
Hún er dóttir hjónanna Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1902, d. 1987, og Guðmundur Guðmundsson, f. 1902, d. 1999 á Bala. Þau Sigurbjörg og Haraldur settust að í Sandgerði og bjuggu þar þegar Haraldur lést.
Þeim Haraldi og Sigurbjörgu varð fimm barna auðið. Þau eru
Guðmundur Gunnar, prófessor við HÍ, f. 1953, búsettur í Reykjavík, kvæntur May-Britt Haraldsson frá Suðurey í Færeyjum og eiga þau þrjú börn,
María, f. 1977,
Haraldur Gunnar, f. 1987, og
Hjálmar, f. 1989;
Guðbjörg, er starfar við rannsóknarstöðina Botndýr á Íslandsmiðum í Sandgerði, f. 1954, búsett í Sandgerði, maki Skúli Guðmundsson frá Sandgerði, og eiga þau tvö börn,
Guðmund, f. 1973 og
Hjördísi, f. 1983;
Sigrún Hjördís, er einnig starfar við rannsóknarstöðina Botndýr á Íslandsmiðum í Sandgerði, f. 1955, búsett í Sandgerði, maki Hjálmar Georgsson frá Vopnafirði, og eiga þau þrjú börn,
Sigurbjörg, f. 1979,
Daggrós, f. 1984 og
Sigmar Þór, f. 1987;
Haraldur Birgir blikksmiður, f. 1965, búsettur í Sandgerði, maki Anna Steinunn Árnadóttir úr Njarðvík, og eiga þau þrjú börn,
Steinunn Ýr, f. 1989,
Harpa, f. 1994 og
Haraldur Árni, f. 1996;
Helgi, starfsmaður Flugmálastjórnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, f. 1967, búsettur í Sandgerði, maki Helga Sigurðardóttir úr Garðinum, og eiga þau þrjár dætur,
Ásdís, f. 1990 og
tvíburana
Agnes og
Elín, f. 1992.
Fyrir rúmu hálfu ári fæddist síðan fyrsta barnabarnabarn þeirra hjóna, Skúli Guðmundsson, sonur Guðmundar Skúlasonar og unnustu hans, Lóa Bjarga Gestsdóttir, en hún á fyrir soninn
Gest Leó, f. 1998.
Haraldur fékkst framan af við ýmis störf er tengdust fiskveiðum og fiskvinnslu og starfaði að mestu leyti í landi. Seinustu starfsárin starfaði hann við Íþróttamiðstöðina í Sandgerði. Tónlistin skipaði háan sess í lífi Haraldar. Hann söng mikið á Siglufirði, m.a. með Karlakórnum Vísi og áfram þegar hann flutti til Sandgerðis með Karlakór Miðnesinga, þar sem hann var m.a. formaður, Karlakór Keflavíkur og síðan Kór eldri borgara á Suðurnesjum. Lengst söng hann þó í Kirkjukór Hvalsneskirkju eða samfleytt hátt í um 40 ár. Verkalýðsmál og verkalýðsbarátta voru honum einnig hugleikin og var hann m.a. í stjórn og trúnaðarráði Verkalýðs- og sjómannafélagi Miðneshrepps.
Útför Haraldar verður gerð frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Þegar ég kveð æskuvin minn Harald Sveinsson hinstu kveðju, með þessum fáu orðum, þjóta minningarnar frá æskuárum okkar í Siglufirði upp í hugann hver af annarri. Allar eru þær hugljúfar og sveipaðar þeirri rómantík sem lék um athafnabæinn Siglufjörð á síldarárum fjórða áratugarins. Þar gerðust ævintýrin og settu svip sinn á bæjarfélagið og íbúa þess. Við Búbbi, en svo var Haraldur jafnan nefndur af vinum og kunningjum, vorum jafnaldrar og bjuggum saman á Nöfinni alllengi, þar sem hann var lengst af með móður sinni og móðurömmu. Við vorum því nánir leikfélagar og brölluðum margt að hætti tápmikilla stráka.
Það var sama hvaða árstími var, alltaf var nóg að gera í leik og starfi. Á vorin var unnið að undirbúningi komandi síldarvertíðar og leikinn fótbolti á bryggjunum. Á sumrin var unnið í síldinni eins og kraftar leyfðu og á vetrum og hausti voru það skólinn og skíðin sem áttu hugi okkar.
Margs er að minnast frá þessum árum. Ég minnist þess sérstaklega, að við færðum í eitt skipti upp leikritið Sigríður Eyjafjarðarsól,
eftir einn kennara skólans, Sigurð Björgúlfsson. Ég lék þar hlutverk og átti m.a. að syngja fallegt lag sitjandi á steini. Á annarri sýningu gerðist það óvænta
að ég sprakk á laginu og þá voru góð ráð dýr. En Búbbi bjargaði með því að syngja baksviðs, á meðan ég hreyfði varirnar. Fróðir
menn sögðu að það ólíklega hefði gerst að ég hefði farið í mútur á þessum óheppilega tíma.
Fyrir þessa björgun var ég Búbba mjög
þakklátur.
Það gladdi mig líka mikið og vakti upp góðar minningar þegar við Stefán bróðir og Búbbi sungum saman í sjötugsafmæli Búbba, lög úr leikritum frá skólaárunum, alveg undirbúningslaust, og mundum bæði ljóð og lag eftir meira en 50 ár.
Máltækið segir að enginn megi sköpum renna og svo fór fyrir okkur að við fluttum úr firðinum fagra og til suðvesturhornsins, Búbbi til Sandgerðis og ég til höfuðborgarinnar. Ekki var þó lengra í milli okkar en svo að tækifæru gáfust til að hittast og rifja upp minningar að norðan. Höfðu báðir gaman af.
Nú þegar Búbbi er farinn í síðustu ferðina héðan, eins og allir gera fyrr eða síðar, vil ég kveðja hann með þessum orðum Valdimars Briem:
Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Eftirlifandi eiginkonu, Sigurbjörgu Guðmundsdóttur, börnum þeirra og barnabörnum sendum við systkinin frá Nöf ásamt fjölskyldum hlýjar samúðarkveðjur.
Jón Skaftason.