Helgi Kristinn Sveinsson íþróttakennari

Helgi Sveinsson: Fæddur 3. júlí 1918. Dáinn 24. febrúar 1979.

Það er á brattann að sækja fyrir nútímabarn að ætla að minnast Helga Sveinssonar, en stutt er á milli lífs og dauða, og eitt sinn skal hver deyja. Lögmál lífsins breytast ekki neitt og við verðum að lúta þeim, svo miskunnarlaus sem þau eru stundum.

Helgi Kristinn Sveinsson hét hann og var fæddur á Steinaflötum í Siglufirði 3. júlí, 1918, sonur hjónanna  Sveinn Jónsson byggingameistari og konu hans  Geirlaug Sigfúsdóttir. Eru þau bæði látin fyrir mörgum árum.

Systkini Helga sem upp komust voru

Rannveig Sveinsdóttir (d. 1938), 

Óskar Sveinsson (d. 1960), 

Helgi Sveinsson

Helgi Sveinsson

Sigurjón Sveinsson (d. 1972) en hann var tvíburi Helga, 

Sigurlaug Sveinsdóttir (Silla), sem er elst og lifir hún systkinahópinn.

Einnig ólu Sveinn og Geirlaug upp Emelía dótturdóttir sína. Helgi sleit barnsskónum hér í Siglufirði og var oft gaman að hlusta á Helga lýsa lífinu í firðinum þá. Sandkassar og róluvellir þess tíma voru óspillt Hólsáin, hálffull af fiski, engjarnar og fjöllin í kringum Steinaflatir.

Það er sennilegt að þetta umhverfi hafi byggt upp í Helga þann óskapa kraft sem einkenndi allt hans líf og entist honum nánast til æviloka. Þegar skólagöngu hér lauk fór Helgi í Reykholtsskóla og þaðan í íþróttakennaraskólann sem hann brautskrifaðist úr 1941.

Þann 24. marz 1951 gekk hann að eiga eftirlifandi konu sína Steinunn Rögnvaldsdóttir. Varð þeim 2ja barna auðið:

1) Geirlaug Helgadóttir (f. 1951), maki Ægir Hallbjörnsson, og

2) Guðný Helgadóttir (f. 1961), heitb. Andrés Stefánsson.

Árið 1944 réðst Helgi íþróttakennari að skólunum hér í Siglufirði og starfaði hann við það nær óslitið til dauðadags. Þeir sem ekki hrifust af hressileika Helga í leikfimitímunum fyrstu ár sín í barnaskólanum, það voru sannkölluð dauðyfli. Og þegar hópurinn gekk í takt í gamla leikfimisalnum og Helgi söng með sinni eftirminnilegu raust „Öxar við ána".

Það þurfi ekki að biðja guttana að taka undir, og allir vildu blístra eins og Helgi, mikið var reynt. Það var eftir því tekið hve Helgi var einkar fljótur og laginn við að koma nemendum sínum á flot í sundlauginni, því þar sem annarsstaðar sem Helgi var þýddi ekkert hags. Var sundkunnáttu sigfirskra ungmenna viðbrugðið og eiga margir líf sitt því að launa.

 Í mörg ár tók Helgi þátt í og þjálfaði sýningaflokk í áhaldaleikfimi sem fór vítt um og sýndi við þann orðstír að fáir munu betrumbæta. Sjálfsagt mætti skrifa margar opnur í mörg blöð um íþróttaferil Helga og afskipti hans af íþróttamálum, en ég vona að aðrir sjái sér fært að gera það, en verðlauna- og viðurkenningargripi, bikara, skildi og merki átti hann í haugum. M.a. sæmdi Íþróttasamband íslands Helga æðsta heiðursmerki sínu árið 1968, á fimmtugsafmælinu.

Helgi átti einkar létt með að kynnast fólki og naut þess ætíð að blanda geði við stóran vinahóp sinn, en „gervivinum" hélt hann í fjarska. Eðli hans var þannig að kunna að gleðjast með glöðum, en um leið næmur á að skilja hlutina, og skipti þá aldursmunur ekki máli. Það fengu margir að reyna. Helgi lagði sig fram um að létta undir með þeim sem í vanda voru eða sátu í skugga þessa lífs. Hjálpsemin var svo einlæg. Það var árið 1964 sem undirritaður tengdist Steinaflatafjölskyldunni, en vegna fjarlægðar urðu kynni okkar Helga ekki mikil fyrr en eftir árið 1970.

Helgi var sérstakur höfðingi heim að sækja og gestrisni þeirra hjónanna við- brugðið. Þeim virtist oft líða best þegar heimili þeirra að Hverfisgötu 34 var fullt af fólki og strengjaglymur og mannasöngvar fylltu útí alla veggi.

Það lék allt í höndum Helga, hvort sem hann kenndi ungum drengjum handavinnu, en það hafði hann gert nú í nokkur ár með íþróttakennslunni, eða að byggja, en Hverfisgata 34 hér í bæ hefur sjálfsagt þótt stórhýsi á þeirra tíma mælikvarða (1947) og hefur þurft töluverðan kjark og áræði á tímum skömmtunar, þegar lítið sem ekkert fékkst til húsbygginga, að ráðast í slíka hluti.

Þann 29. desember 1955 gekk Helgi í Lionsklúbb Siglufjarðar, og skipaði sá félagsskapur alla tíð síðan stóran sess í huga Helga. Var þeim báðum, klúbbnum og Helga, mikill fengur hvorum að öðrum. Voru Helga falin öll þau störf innan Lion sem fáum mun treyst til, sat oft í stjórn klúbbsins, þ.á m. tvisvar formaður hans. Þá var hann umdæmisstjóri umdæmis 109 B á íslandi veturinn 1975—76. Spannar það umdæmi yfir Norðurland, Vestfirði og nyrsta hluta Austfjarða.

En þá um sumarið höfðu þau hjónin „skotist" til Dallas í Texas þar sem allir umdæmisstjórar heimsins voru samankomnir á einum stað. Á þessum harða vetri 75—76 heimsótti Helgi 38 Lionsklúbba og ferðaðist þúsundir kílómetra í „Bronconum" oftast aleinn og iðulega í myrkri og stórhríðum. Það hafa margir klúbbfélagar sem hann heimsótti þá minnst á það síðan hvílíkur baráttumaður þetta hafi verið sem við sendum, fítonsandinn og krafturinn hafi geislað svo af honum að áhugalitlir félagar hafi fyllst eldmóði til starfa.

Meðan Helgi var í þessu umdæmisstjórastarfi brýndi hann félaga sérstaklega á 4. greininni í „markmið og leiðir Lions": að tengja meðlimina böndum vináttu, góðs félagsanda og gagnkvæms skilnings. Eitt síðasta verk Helga í þessum veraldlega heimi var táknrænt fyrir Lionsstarf hans, að selja blóm, ytra tákn ástúðar og vináttu.

Ekki verður svo skilið við minningu Helga á Steinaflötum að ekki sé minnst á útiveru og veiðiskap. Dýrðlegar voru honum stundirnar við íslands fossa og ár með veiðistöngina og ekki skemmdu nú fjallaferðirnar. Þá leið Helga vel. Trilluhorn átti Helgi, fyrst með öðrum, en síðan einn. Og á sumrum þegar leyfi gafst frá kennslunni naut hann þeirrar heilsulindar eins og hann kallaði það að „róa til fiskjar".

Ekki held ég að á neinn sé hallað þó Helgi sé hér nefndur aflakló, en veiðieðlið og glöggskyggnin í sambandi við það var svo sterkur þáttur í lífi hans, og kom þá líka keppnisskap íþróttamannsins svo vel í ljós. Það var ekkert verið að hangsa eða drolla við hlutina frekar en fyrri daginn.

Nú fer hinn hressandi stormsveipur Helga ekki lengur um heimili okkar og hans er saknað. Minningarnar eru áleitnar. Börn okkar hjónanna voru alla tíð mjög hænd að Helga, og við lá að þau lærðu að segja „Helgi frændi" á undan pabbi og mamma. Um leið og ég kveð þennan stórgerða persónuleika með söknuði þakka ég honum fyrir allt. Kæra Steinunn og dæturnar. Missir ykkar er þó mestur og við hjónin sendum ykkur dýpstu samúðarkveðjur. Far þú í friði og minningin lifir um ókomin ár.

Sigurður Fanndal 

Fleiri minningargreinar má finna hérna frá tenglinum hér fyrir neðan: 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=117409&pageId=1510413&lang=is