Hinrik Andrésson forstjóri

Hinrik Andrésson fæddist á Siglufirði 3. júní 1926. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 25. febrúar 2000. 

Foreldrar hans voru hjónin Andrés Hafliðason kaupmaður, f. 17. 8. 1891, d. 6.3. 1970, og Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 12.11 1890, d. 26.5 1961.

Hinrik átti tvö systkin: 

Hafliði Andrésson, f. 26.3. 1920, d.13.4 1970, og 

Sigríður Jóhanna Andrésson, f. 15.12. 1923.

Hinrik kvæntist 5. 10. 1957 eftirlifandi eiginkonu sinni Margrét Pétursdóttir fv. saumakonu og skrifstofukonu, f. 20.2 1923 í Tungukoti á Vatnsnesi.
Foreldrar hennar voru

Pétur Theodór Jónsson, f. 6.3. 1892, d. 21.9. 1941, bóndi í Tungukoti, og kona hans Kristín Jónsdóttir, f. 12.7. 1891, d. 31.7 1961. 

Hinrik Andrésson - Ljósmyndari ókunnur

Hinrik Andrésson - Ljósmyndari ókunnur

Börn Hinriks og Margrétar eru: 

1) Theódór Kristinn Ottósson viðskiptafræðingur, f. 25.7 1951, maki Árný Elíasdóttir fræðslustjóri, f. 14.7 1952.

Synir Theodórs eru Rúnar og Grétar Sveinn. 

2) Jón Andrjes Hinriksson umboðsmaður, f. 19.5 1958, maki Jónína Brynja Gísladóttir, f. 18.9 1947.

Sonur Jóns er Snævar Jón Jónsson. 

3) Ingibjörg Hinriksdóttir læknir, f. 6.2. 1962, maki Andrés Ragnarsson sálfræðingur, f. 7.5. 1954.

Dóttir Ingibjargar er Margrét.

Hinrik gekk í Barna- og gagnfræðaskóla Siglufjarðar og lauk síðan prófi frá Iðnskóla Siglufjarðar.

Hinrik hóf ungur störf hjá Olíuverslun Íslands og átti þar allan sinn starfsferil. Fyrst sem sumarafleysingamaður á skólaárum sínum, síðar fastráðinn sem afgreiðslumaður og 1970 tók hann við starfi föður síns sem umboðsmaður Olíuverslunar Íslands á Siglufirði og gegndi því starfi fram til ársins 1999 er hann lét af störfum vegna aldurs.

Hann var því starfsmaður Olíuverslunar Íslands í meira en hálfa öld.

Um margra ára skeið starfaði hann jafnframt sem ökukennari á Siglufirði. Hinrik gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í bæjarfélaginu. Hann var í 30 ár einn af ábyrgðarmönnum Sparisjóðs Siglufjarðar og átti sæti í stjórn sparisjóðsins í 21 ár.

Hann átti sæti í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju í 22 ár, lengst af sem gjaldkeri. Þá var hann virkur í starfi Lionshreyfingarinnar og Frímúrarareglunnar og fleiri félaga. Um nokkurra ára skeið var hann hluthafi og stjórnarmaður í Ísafold hf. sem rak samnefnt frystihús og útgerð á Siglufirði. Síðasta æviár sitt bjó Hinrik í Reykjavík.
----------------------------------------------------------------------------------

Nýlátinn er á Sjúkrahúsi Reykjavíkur náfrændi okkar og vinur, Hinrik Andrésson, umboðsmaður OLÍS í Siglufirði um áraraðir. Hann hafði um tæpra tveggja ára skeið átt í erfiðri baráttu við illkynja sjúkdóm sem síðan varð honum að aldurtila. Í öllu sínu sjúkdómsstríði sýndi hann mikið æðruleysi og kvartaði aldrei þótt sárþjáður væri. Með honum er genginn ákaflega heilsteyptur maður og drengur góður. Engin feyra í steypunni enda efnið gott.

Hinrik frændi okkar var borinn og barnfæddur Siglfirðingur. Foreldrar hans voru þau sæmdarhjón Ingibjörg Jónsdóttir, móðursystir undirritaðra, og Andrés Hafliðason, kaupmaður og forstjóri Olíuverslunar Íslands. Heimili þeirra hjóna að Aðalgötu 19 þekktu flestir Siglfirðingar af eigin raun. Heimsóknir innlendra sem erlendra gesta voru alltíðar enda áttu margir viðskiptavinir erindi við forstjórann, en á síldarárunum góðu var útibú Olíuverslunarinnar á Siglufirði það stærsta utan Reykjavíkur.

Faðir Andrésar var hinn stórmerki maður Hafliði Guðmundsson hreppstjóri, en hann og séra Bjarni Þorsteinsson tónskáld voru nánir samstarfsmenn um áratuga skeið og settu þeir tveir öðrum fremur svip á Siglufjörð þau ár sem staðurinn var í mótun og uppbyggingu, áður en hann öðlaðist kaupstaðaréttindi árið 1918. Sagt var að séra Bjarni hefði verið byggingameistarinn og komið húsunum upp, en Hafliði hreppstjóri haldið þar aga og séð um að allt færi fram eftir röð og reglu.

Hinrik var af góðu bergi brotinn. Að loknu iðnskólanámi gerðist hann fljótlega aðstoðarmaður föður síns og síðan eftirmaður og gegndi hann störfum sem umboðsmaður OLÍS í Siglufirði um áratuga skeið. Allir sem viðskipti áttu við hann luku upp einum munni um að þar færi heill maður og voru það orð að sönnu, enda var trúmennska í starfi honum eðlislæg og í blóð borin. Viðhorf hans var sem Kolskeggs forðum daga, að níðast aldrei á neinu því ætlunarverki er honum var til trúað.

Af þessum sökum var til hans leitað til ýmissa starfa. Hann var um áraraðir í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju og lét sér mjög annt um öll hennar málefni. Má þar helst nefna byggingu hins myndarlega safnaðarheimilis og ýmsar mikilvægar endurbætur á því fagra guðshúsi, bæði utan og innan. Var hann áhugasamur um hag kirkjunnar og ötull starfsmaður hennar. Hann átti og langa setu í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar, elstu núverandi peningastofnunar landsins, og fetaði þar í fótspor afa síns sem var einn af máttarstólpum hans allt frá stofnun að heita má.

Hinrik var mikill Siglfirðingur í sér og vildi hag bæjarfélagsins sem mestan í hvívetna. Hann var afar vinmargur og vinsæll og margir nutu hjálpsemi hans og gestrisni. Honum var einkar lagið að umgangast fólk og var manna kátastur á mannamótum. Öllum sem kynntust honum féll vel við hann og engum vildi hann illt gera en öllum gott. Þeir verða því margir sem harma fráfall þessa góða drengs.

Stærsta giftuspor í lífi Hinriks var er hann kvæntist konu sinni, Margréti Pétursdóttur, ættaðri úr Húnavatnssýslu, merkri konu bæði til orðs og handa, enda bjó hún honum og allri fjölskyldunni fyrirmyndarheimili í þess orðs bestu merkingu. Þar voru allir ættingjar og vinir velkomnir og þeir sem brottfluttir voru áttu þar öruggan samastað í heimsóknum á æskuslóðirnar.

Móttökurnar eru okkur ógleymanlegar en til boða stóð bæði gisting og viðurgjörningur af bestu gerð. Mikið jafnræði var milli þeirra hjóna og heimilisandinn slíkur að öllum leið vel í náveru þeirra. Í slíku umhverfi ólust upp börnin þrjú, Theodór, viðskiptafræðingur, Ingibjörg, læknir, og Jón Andrés, trésmiður og framkvæmdastjóri, öll hið mesta mannkostafólk.

Nú þegar Hinrik frændi verður lagður til hinstu hvílu í Firðinum okkar viljum við systkinin frá Nöf og fjölskyldur okkar færa bestu þakkir fyrir áratuga vináttu sem aldrei bar skugga á.

Margréti og börnum biðjum við Guðs blessunar.

Jón, Stefán, Gunnlaugur og Jóhanna.
--------------------------------------------------

Fyrir einu og hálfu ári fluttu Hinrik Andrésson og kona hans Margrét Pétursdóttir héðan frá Siglufirði og hugðust eyða efri árunum saman í öðru umhverfi eftir langt og farsælt starf hér. Eftir mikla umhugsun seldu þau húsið sitt og keyptu fallega íbúð að Sléttuvegi 15 í Reykjavík, þetta var erfið ákvörðun, þar sem vandfundinn er sá maður sem unni fæðingarstaðnum sínum eins og Hinni, það ríkti gagnkvæm virðing milli hans og samborgaranna og ekki veit ég til að hann hafi átt í útistöðum við nokkurn mann.

Hann hóf störf hjá fyrirtækinu sínu, Olíuverzlun Íslands hf., mjög ungur og starfaði þar allan sinn starfsaldur, eða yfir fimmtíu ár og efast ég um að hann hafi nokkurntíma verið á launaskrá í aðalstarfi hjá öðrum vinnuveitanda, ég segi fyrirtækinu sínu, því engan mann þekki ég sem hefur unnið jafn vel og heiðarlega á allan hátt, gagnvart sínum vinnuveitanda, og þó hann hefði átt það sjálfur.

Mig langar hér, kæri vinur minn og frændi, að þakka þér fyrir vináttu og velvilja við mig og mína fjölskyldu alla tíð. Löngu áður en ég fæddist hafði tekist vinátta með þér og föður mínum sem hefur haldist alla tíð gagnvart fjölskyldunni, þið raunar biðuð saman eftir því að frumburður pabba fæddist og varst þú spenntur um það, hvort það yrðu nákvæmlega nítján ár á milli mín og þín. Svo varð ekki, ég kom í heiminn einum degi seinna. Svo annt hefur þú látið þér um velferð mína alla tíð síðan að þú hefur fylgst með mér í leik og starfi ætíð síðan og þá hvort ég hafi verið að gera eitthvað það sem gæti orðið til þess að ég komi of seint, til að geta spjarað mig á lífsleiðinni.

Ég minnist jólapakkans sem þú hafðir alltaf laumað inn fyrir dyrnar á Hvanneyrarbrautinni á leið þinni til kirkju á aðfangadagskvöld. Fyrir allmörgum árum eignaðist ég litla mynd sem mér þykir mjög vænt um, hún er tekin á myndastofu og er af pabba, þér og mér þriggja til fjögurra ára. Þessa mynd hefur Ásdís konan mín látið stækka fyrir nokkrum árum, ég hafði sagt þér frá myndinni og taldi alltaf nægan tíma til að láta stækka aðra og gefa þér, en svo varð ekki. Tímanum er ekki úthlutað eins og við sjálf vildum, það vissir þú manna best, trúrækni þín og rækt við kirkjuna alla tíð hefur orðið til þess að þú varst eins vel undir það búinn og hægt er að kallið kæmi.

Samstarf áttum við í sparisjóðnum, þar sem þú hefur setið í stjórn þau tuttugu ár sem ég hef verið þar við stjórn, en báðir höfum við átt aðild þar að í yfir 30 ár, þú sem ábyrgðar- og stjórnarmaður, ég sem starfsmaður. Þar varst þú traustur ráðgjafi. Ég vona að ég geti þakkað þér velvild og vináttu með því að rækta samband við fjölskyldu þína.

Í mínum huga þarf ekki að skrifa langt mál til að lýsa lífshlaupi Hinriks Andréssonar, þó ég gæti líka skrifað heila bók um það, án þess að vera rithöfundur: Það er heiðarleiki gagnvart sjálfum sér, fjölskyldu og öllu öðru. Mér er ofarlega í huga það sem ég hef reynt að taka mér til fyrirmyndar, það er að: Það sem við getum sagt um annað fólk, verðum við að geta sagt við það.

Móðir mín, við Ásdís og fjölskyldan öll þökkum samfylgdina og sendum vinum okkar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu þína.

Björn Jónasson.