Hermann Einarsson bifreiðarstjóri

Hermann Einarsson Fæddur 13. ágúst 1897. Dáinn 10. júní 1950.

Fyrrv. bæjarfulltrúi, verður til moldar borinn í dag. Lézt hann 10. þ. m. eftir þunga legu, aðteins 53 ára að aldri. 

Hermann var fæddur að Reykjarhóli í Fljótum 13. ág. 1897, sonur hjónanna Einar Hermannsson og Kristín Gísladóttir. 

Lézt frú Kristín fyrir nokkrum árum, en Einar faðir Hermanns, sem er orðinn aldraður maður, er hér í Siglufirði og gengur hér teinréttur meðal okkar. þótt oft hafi hann átt um sárt að binda, sérstaklega síðustu árin.

Eitt mesta slys, sem menn muna eftir hér um slóðir, var þegar snjóskriðurnar féllu í Siglufirði og Engidal þ. 12. apríl 1919. Snjóskriða sú, sem sópaði með sér helli verksmiðju, er byggð hafði verið austan fjarðarins í Staðarhólslandi, gróf einnig Neðri-Skútu á Ráeyri og grandaði fjölda mannslífa.
Bjó þar Einar Hermannsson meðfjölskyldu sína og var Hermann sonur hans hættast kominn í þeim hildarleik. Var hann meðvitundarlaus þegar loks tókst að grafa hann upp úr margra metra þykkum snjóskaflinum og tókst með naumindum að vekja hann aftur til lífs.

Hermann Einarsson - Ljósmyndari ókunnur

Hermann Einarsson - Ljósmyndari ókunnur

Fyrir Hermanni átti eftir að liggja mikið og margþátta starf í fylkingarbroddi fyrir hagsmunamálum stéttarbræðra sinna, verkamanna og bifreiðarstjóra. Munu allir ljúka upp einum munni um það, að í þessu starfi sínu var hann heill og ósérhlífinn, þótt ef til vil kunni að deila eitthvað á um leiðirnar að setu marki.

Hermann átti þá mannkosti til að bera, sem hvern mann má prýða, en það var hreinskilni, göfugmennska og karlmennska,

Hérmann Einarsson var tvíkvæntur. Var fyrri kona hans Guðrún Ásgrímsdóttir og seinni kona hans Halldóra Bjarnadóttir. 

Eignuðust þau Halldóra einn son, sem nú er 16 ára, Einar Hermannsson að nafni.  

Halldóra stundaði mann sinn af stakri þolinmæði og hugprýði í hinum erfiðu veikindum hans og er mikill harmur kveðinn að henni, syni hennar, föður og öðrum ættingjum og vinum hins í látna, þeim sem á einn eða annan hátt áttu kost á að kynnast þessum látlausa og dagfarsprúða heiðursdreng.

S. (úr blaðinu Siglfirðingur)
----------------------------------------------

Þann 10. júní s.l. blöktu fánar í hálfa stöng yfir Siglufjarðarbæ. Harmafregn barst frá manni til manns. Dauðinn hafði verið á ferð og það alltof snemma að mannanna dómi. 

Hermann Einarsson var dáinn. Hermann heitinn var fæddur að Reykjarhóli í Austur- Fljótum 13. ágúst 1897,

Foreldrar hans voru, Einar Hermannsson og Kristín Gísladóttir.

Árið 1906 fluttust þau að Hóli, og síðar að Neðri-Skútu hér í firðinum og áttu þar heima til 1914 að snjóflóð eyddi bænum og var Hermann heitinn hætt kominn þar. Átti hann heima hér í bænum síðan. Á yngri árum stundaði Hermann heitinn sjósókn, en síðar landvinnu. Þegar verkamannasamtökin fóru að láta til sín taka, skipaði hann sér stöðu í fylkingarbrjósti þar.

Átti hann um allmörg ár sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar sem fulltrúi verkamanna, svo og í fleiri trúnaðarstöðum. Nú hin síðustu ár var hann einn af aðalmönnum í bílstjórasamtökunum. Hermann heitinn Einarsson var sjálfmenntaður maður, skapaði sér skoðanir sjálfur og var stefnufastur, þar sem hann tók sæti.

Meðal starfsfélaga var hann sérstaklega vel liðinn vegna víðsýnis og samningalipurðar, og mannlegrar tilfinningaþekkingar. Þó að trúarlegar og pólitískar skoðanir starfsfélaga og. hans færu ekki ávalt saman, þá brúuðu félagslegrar og persónulegar samvistir þann ágreining.

Hermann heitinn Einarsson var ekki ávalt sólarmegin í lífinu. — Sorg og söknuður voru hans ferða félagar. Fyrri konu sína, Guðrúnu Ásgrímsdóttur, hina ágætustu konu, missti hann eftir stutta sambúð, ásamt tveim börnum þeirra á stuttu tímabili.

Heilsuleysi átti hann við að stríða hin síðustu misseri. Allt slíkt bar hann með stillingu, viti og þreki mannsins og skilningi andans. 

Með eftirlifandi seinni konu sinni, Halldóru Bjarnadóttur, eignaðist hann einn dreng, sem nú er 16 ára, Einar Hermannsson að nafni. Hans er að taka upp merkið.

Við samstarfsmenn Hermanns heitins Einarssonar, kveðjum hann við hin miklu vegamót, með hjartans þökk fyrir sambúðina, starfið og kynninguna, og óskum ölum eftirlifandi ástvinum hans huggunar í sorg og söknuði.

Við munum taka í hönd júníblæsins sem strýkur nú yfir þá byggð, sem hann starfaði fyrir, og leiði hans og vanga ástvina, sem syrgja, og vefja síðustu hljóðu hvíluna hans í vináttu og blómahjúp minninganna. Sé sá bautasteinn vel reistur, er hann hin bezta gjöf til látins drengskaparmanns.

Hvíl í friði, Hermann. Blessuð sá minning þín.

Starfsfélagi  (þess grein bitist bæði í Einherja og í Neista)