Hinrik Thorarensen kaupmaður

Hinrik Thorarensen jr. fæddist á Siglufirði 20. febrúar 1927. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 21. september 2010.

Foreldrar hans voru Hinrik Thorarensen læknir, f. 15.9. 1893, d. 26.12. 1986, og kona hans Svanlaug Margrét Ólafsdóttir Thorarensen, f. 19.2. 1896, d. 6.11. 1950.

Bræður Hinriks eru: 

Oddur Thorarensen lögfræðingur, f. 1920, 

Ragnar Thorarensen, doktor í rafmagnsfræði, f. 1921, búsettur í Kaliforníu, og 

Ólafur Thorarensen, viðskiptafræðingur, f. 1922. 

Faðir þeirra eignaðist einnig dótturina  Stella Thorarensen, f. 1938, búsett í Kanada.

Hinrik Thorarensen jr.

Hinrik Thorarensen jr.

Hinrik kvæntist árið 1952 Emilía Ellertsdóttir Thorarensen (Millý), f. 13.2. 1930, og eignuðust þau þrjú börn:

Hinrik, f. 11.11. 1956, 

dreng óskýrðan, f. mars 1959, d. sama dag,  

Svanlaug Dóra, f. 25.4. 1960, maki Haukur Harðarson, f. 20.3. 1952. Börn þeirra eru Haukur Örn, f. 21.6. 1981, og Sara, f. 5.5. 1986.

Hinrik ólst upp á Akureyri þar sem þeir bræður gengu í skóla en fjölskyldan dvaldist á Siglufirði á sumrin. Hann fór til náms í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk námi í viðskiptafræði frá Berkley-háskóla í Kaliforníu.

Eftir að Hinrik flutti heim árið 1950 vann hann í hagfræðideild Landsbanka Íslands í fimm ár uns Hinrik og Millý stofnuðu verslunina Tískuskemmuna á Laugaveginum árið 1953 og ráku hana í rúma fjóra áratugi. Hinrik hafði mikla ánægju af ferðalögum jafnt innanlands sem utan.

Hann hafði áhuga á útivist og fjallamennsku og ferðaðist um hálendi Íslands um árabil. Hann naut þess að ganga á fjöll og fór m.a. á Vatnajökul með Jöklarannsóknafélagi Íslands. Hann var virkur í Lionshreyfingunni og stofnaði Lionsklúbbinn Frey ásamt nokkrum félögum sínum árið 1968 og hefur klúbburinn styrkt mörg góð málefni.

Hinrik hafði mikinn áhuga á flugi og lauk einkaflugmannsprófi og einnig lærði hann að sigla. Árið 1984 byrjuðu Hinrik og Millý að gera upp gamalt hús á jörðinni Sléttu í Fljótum í Skagafirði og nutu þess að dvelja þar á hverju sumri. Í lok árs 1997 veiktist Hinrik og fékk heilablóðfall.

Það var honum mikið áfall að missa heilsuna og stóð Millý eins og klettur við hlið hans og hugsaði um hann í 12 ár, allt þar til fyrir um ári að hann fór á hjúkrunarheimilið Skjól.