Hjörleifur Magnússon fulltrúi

Hjörleifur Magnússon, Siglufirði Fæddur 28. mars 1906 Dáinn 8. júní 1991

Einn af beitu og traustustu vinum, sem ég eignaðist, er ég bjó og starfaði á Siglufirði á árunum 1952-1966, Hjörleifur Magnússon, fv. bæjarfógetafulltrúi, Skálarhlíð, Siglufirði, andaðist á Borgarspítalanum í Reykjavík laugardaginn 8. júní 1991 á 86. aldursári.

Svo margar góðar endurminningar á ég, sem tengdar eru Hjörleifi frá samstarfsárum okkar á Siglufirði, að mér finnst ég ekki geta látið hjá líða að minnast hans með nokkrum orðum nú er hann er allur, þótt ekki væri nema til þess að þakka honum fyrir samstarfið og hin góðu kynni sem aldrei bar skugga á í gegnum árin.

Hjörleifur Magnússon var fæddur að Hærri-Saurum í Súðavíkurhreppi við Ísafjarðardjúp 28. mars 1906 og voru foreldrar hans hjónin Magnús Guðjón Guðmundsson, bóndi og sjómaður að Hærri-Saurum, og Herdís Eiríksdóttir. Þau hjón eignuðust 11 börn, en fjögur þeirra dóu í barnæsku. Var Hjörleifur sá síðasti, sem lést af þessum stóra systkinahópi.

Hjörleifur Magnússon

Hjörleifur Magnússon

Hann ólst uppá æskustöðvum sínum við Djúp allt fram á fullorðinsár og stundaði þá alla algenga vinnu, sem til féll í landi og um árabil og alltaf af og til var hann sjómaður á vélbátum, sem gerðir voru út við Djúpið. Árið 1931 hóf Hjörleifur nám í Samvinnuskólanum í Reykjavík og lauk þaðan prófi tveimur árum síðar, eða árið 1933.

Strax að námi loknu réðst Hjörleifur í þjónustu Guðmundur Pétursson útgerðarmaður á Akureyri og var skrifstofumaður hjá fyrirtæki hans í um eitt ár, en réðst að því loknu til embættis bæjarfógetans á Siglufirði og hófust þar með Siglufjarðarárin í lífi Hjörleifs, sem stóðu raunar eftir það óslitið allt til æviloka hans eða í um 57 ár.

Fljótlega eftir að Hjörleifur réðst til bæjarfógetaembættisins á Siglufirði voru honum falin þar hin margvíslegustu störf, allt frá störfum venjulegs skrifstofumanns til starfa bæjarfógeta, en hann var oft settur bæjarfógeti í forföllum og fjarveru hins reglulega fógeta meðan ekki starfaði við embættið löglærður fulltrúi.

Frá fyrstu tíð og raunar allan þann tíma sem Hjörleifur starfaði við bæjarfógetaembættið fylgdi þeim störfum, sem hann gegndi, mikið annríki, enda var það svo, að á fyrstu 10-15 árunum sem hann starfaði á Siglufirði voru þar miklir uppgangstímar og var þá Siglufjörður með stærstu og umsvifamestu útflutningshöfnum landsins.

Hjörleifur var afburða starfsmaður að hvaða störfum sem hann gekk við embættið, fær og samviskusamur svo af bar og í samskiptum við viðskiptavini embættisins var hann grandvar, hjálpsamur og í hvívetna traustur sem bjarg.

Svo sem áður segir fylgdi þeim störfum sem Hjörleifur gegndi við bæjarfógetaembættið lengst af mikið annríki, en hann var þeirrar gerðar að láta ekki þau verkefni, sem ljúka mátti að kveldi bíða til næsta dags og lagði hann ótrauður nótt við dag til þess að svo yrði ekki. Oft var hann einnig kallaður til starfa að næturlagi til að annast störf, sem ekki máttu eða gátu beðið, svo sem lögskráningu sjómanna, síðustu afgreiðslu skipa hér á landi, sem voru að halda til útlanda o.fl. o.fl.

Allt slíkt taldi Hjörleifur ekki eftir sér og taldi slíka aukavinnu og fyrirhöfn falla undir skyldur sínar sem starfsmanns embættisins. Allir þeir, sem kynni höfðu af Hjörleifi á Siglufirði og víðar og þekktu til að starfa hans á bæjarfógetaskrifstofunni þar, virtu hann að maklegheitum vegna samviskusemi hans, vinnusemi og ósérhlífni í störfum hans við embættið. Hann ætlaðist ekki til að á hann væri borið lof fyrir vel unnin störf, en þegar það var gert tók hann lofinu af lítillæti og hógværð.

Þegar erli dagsins lauk og tóm gafst til, var ánægjulegt að ræða við Hjörleif um menn og málefni líðandi stundar, sem efst voru á baugi í það og það skipti, enda var hann skemmtilegur í viðræðu, fróður og all-víðlesinn, þótt ekki muni honum á fullorðinsárum hafa gefist mikið tóm til bóklesturs. En eitt var það, sem við Hjörleifur forðuðumst að ræða í samtölum okkar, en það voru stjórnmál.

Við vissum sem var, að of mikið bar á milli í þeim efnum til að við gætum nokkru sinni orðið sammála - hann sannfærður og trúaður framsóknarmaður, en ég jafn sannfærður og trúaður sjálfstæðismaður. Það var því þegjandi samkomulag um það milli okkar, að láta ekki deilur um stjórnmál spilla vináttu okkar og gagnkvæmum trúnaði milli okkar.

Hjörleifur Magnússon varð aldrei auðugur maður af þessa heims gæðum, enda hafði hann lengst af fyrir stóru heimili að sjá og ekki voru laun hans heldur há fremur en flestra annarra opinberra starfsmanna á starfsárum hans og miðað við þá sleitulausu vinnu, sem hann innti af hendi í þágu hins opinbera. Hjörleifur gaf sig nokkuð að félagsmálum á Siglufirði, eftir því sem tími vannst til fyrir hann, störfum 

hlaðinn í opinberri þjónustu. Sat hann t.d. um áratuga skeið í stjórn Kaupfélags Siglfirðinga, í stjórn Norræna félagsins á Siglufirði og í stjórn Vestfirðingafélagsins á Siglufirði. Á þessu sviði sem öðrum reyndist Hjörleifur traustur og velmetinn liðsmaður.

Hjörleifur kvæntist 23. júní 1938  Elenóra Þorkelsdóttir hjúkrunarfræðingur, mikilli dugnaðar- og myndarkonu, sem ættuð var frá Dalvík, en flutti síðan til Siglufjarðar með foreldrum sínum, sem voru Þorkell Svarfdal Sigurðsson skipstjóri og Jóhanna Kristjánsdóttir. Eleonora Þorkelsdóttir lést 14. júní 1976. Þeim Hjörleifi og Elenóru varð 8 barna auðið, en þau eru í aldursröð:

1) Herdís Hjörleifsdóttir, húsmóðir, búsett í Keflavík, maki Stefán Ólafssin, verkstjóri, og eiga þau fjögur börn; 

2) Magnús Þorkell Hjörleifsson (Magnús Hjörleifsson), forstjóri, búsettur á Staten Island í Bandaríkjunum, kvæntur ítalskri konu og eiga þau tvo syni; 

3) Gylfi Hjörleifsson, kennari, látinn, og átti hann tvær dætur; 

4) Jóhanna Hjörleifsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Lundi í Svíþjóð, maki Geir Pétursson, verkfræðingur, og eiga þau þrjú börn; 

5) Þorkell Hjörleifsson, kaupmaður í Reykjavík, maki Stefanía Vigfúsdóttir, fulltrúi, og eiga þau þrjú börn; 

6) Edda Hjörleifsdóttir, húsmóðir á Akureyri, maki Viktor Gestsson, smiður og verkstjóri, og eiga þau fjögur börn; 

7) Guðrún Hjörleifsdóttir deildarstjóri, Keflavík, og á hún þrjú börn,

8) Kristín Hjörleifsdóttir, kennari, búsett í Svíþjóð, maki Páll Ingvarsson, læknir, og eiga þau fjögur börn á lífi.

Þegar allt er meðtalið eru afkomendur þeirra Hjörleifs og Elenóru nú 45 á lífi.

Ég sá Hjörleif, vin minn, síðast fyrir um einu og hálfu ári, er hann heimsótti mig og sat hjá mér eina kvöldstund. Líkamskraftar hans voru þá bersýnilega mjög þverrandi, en hugsunin var skýr og minni óskert. Spjölluðum við þá alllengi saman og rifjuðum upp atburði liðinna ára á Siglufirði, okkur báðum til óblandinnar ánægju.

Og nú er ekki annað eftir í þessum sundurlausu þankabrotum mínum en að kveðja vin minn Hjörleif liðinn. Ég geri mér ljóst, að ég á honum ótalmargt og mikið að þakka allt frá fyrstu kynnum okkar á samstarfsárum okkar á Siglufirði, til hins síðasta, tryggð hans og skilyrðislausa hollustu hans við mig og mína og ég kveð hann með söknuði um leið og ég bið honum fararheilla inn í heima hins eilífa lífs og ljóss. Hafi hann heila þökk mína og minna fyrir allt og allt.

Börnum Hjörleifs og öðrum ástvinum hans votta ég innilega samúð. --

Einar Ingimundarson