Hrefna Hermannsdóttir

Hrefna Hermannsdóttir fæddist á Ysta-Mói í Fljótum 25. júní 1918.  Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 19. desember 2008

Foreldrar hennar voru hjónin  Elín Lárusdóttir, f. 27.2. 1890, d. 1980, og  Hermann Jónsson, f. 12.12. 1891, d. 1974.

Hrefna var fimmta í röðinni af níu systkinum, þau eru: 

Halldóra Margrét Hermannsdóttir, f. 11.10. 1912, d. 2007, 

Lárus Hermannsson, f. 4.3. 1914, d. 2007, 

Níels Jón Valgarð Hermannsson, f. 27.7. 1915, d. 1997, 

Rannveig Elísabet Hermannsdóttir, f. 12.11. 1916, d. 1981, 

Hrefna Hermannsdóttir

Hrefna Hermannsdóttir

Sæmundur Árni Hermannsson, f. 11.5. 1921, d. 2005, 

Haraldur Hermannsson, f. 22.4. 1923, búsettur á Sauðárkróki, 

Georg Hermannsson, f. 24.3. 1925, d. 2009, og 

Björn Valtýr Hermannsson, f. 16.6. 1928, búsettur í Reykjavík.

Eiginmaður Hrefnu var Jónas Björnsson frá Siglufirði, f. 25.10. 1916, d. 9.9. 1993.

Þau giftu sig 31.3. 1945. 

Börn Hrefnu og Jónasar eru: 

1) Björn Jónasson, f. 4.6. 1945, fyrri maki Guðrún Margrét Ingimarsdóttir, f. 4.3. 1945, d. 30.4. 1976, barn þeirra:

Rakel Björnsdóttir, maki Thomas Fleckenstein, börn þeirra eru: 

María Lísa 

Björn. 

Seinni maki  Björns er; Ásdís Kjartansdóttir, f. 4.1. 1948 frá Bakka á Seltjarnarnesi. 

2) Guðrún Jónasdóttir, f. 25.2. 1948, barn hennar er Jóna Hrefna, sambýlismaður Böðvar Jónsson. 

3) Halldóra Ingunn Hermannsdóttir, f. 2.5. 1955, maki Gunnar Trausti Guðbjörnsson,

börn þeirra eru

a) Edda Rósa Gunnarsdóttir, maki David Jarron, synir þeirra eru:  

Adam og 

Andri. 

b) Bettý, maki Óðinn Gústafsson, dætur þeirra eru: 

Arna Mjöll, 

Freyja 

Embla. 

4) Hermann Jónsson, f. 27.5. 1957, maki Ingibjörg Halldórsdóttir, börn þeirra eru: 

a) Helga Hermannansdóttir, maki Jón Salmannsson, börn þeirra eru 

Hermann Ingi 

Rut. 

b) Halldór Hermannsson, unnusta Jóhanna Gunnarsdóttir. 

Hrefna ólst upp á Ysta-Mói og gekk í skóla í Haganesvík. Hún fór síðar í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og var eftir það í vist hjá Jóni Gunnarssyni framkvæmdastjóra og Sigurlínu Björnsdóttur. Hún minntist veru sinnar hjá þeim hjónum alla tíð með mikilli hlýju. Hrefna og Jónas bjuggu allan sinn búskap í Siglufirði, fyrst á Hvanneyrarbraut 2 og síðan Hverfisgötu 8, þar til þau fluttu í Skálarhlíð 1992.

Hrefna var það sem kallað var heimavinnandi húsmóðir, en saltaði síld öll sumur á síldarárunum. Hún var öflugur liðsmaður verkalýðshreyfingarinnar og gekk ung í Framsóknarflokkinn. Hún var varabæjarfulltrúi og sat í ýmsum nefndum fyrir flokkinn og var öflugur talsmaður hans alla tíð.

Útför Hrefnu var gerð frá Siglufjarðarkirkju.
--------------------------------------------- 

Hinn 12. desember sl. benti ekkert til annars en að Hrefna tengdamamma myndi halda sín jól í faðmi ættingjanna á Sigló.

Fjölskyldan var samankomin til að kveðja bróður hennar Georg. Kistulagning og jarðarför frá Siglufjarðarkirkju og jarðsetning á Barði í Fljótum.

Hrefna var þarna í essinu sínu umkringd ættingjum, gerði að gamni sínu og tók gullhömrum frá ungum frænkum sínum. „Við ætlum að verða eins og þú þegar við verðum gamlar. Okkur finnst þú ekkert hafa breyst frá því við sáum þig fyrst.“ „Finnst ykkur ég alltaf hafa verið svona gömul og ljót?“ Þetta var dýrðardagur og ekki skemmdi veðrið fyrir. Hrefna var eins og drottning í ríki sínu. En um kvöldið kenndi hún sér þess meins er dró hana til dauða.

Ég var 18 ára gamall slarksamur togarajaxl þegar ég hóf að draga mig eftir Dóru dóttur hennar og gerði henni barn ári seinna við lítil fagnaðarlæti húsfreyjunnar. En mér var í fyrstu tekið eins og hverju öðru hundsbiti en með dótturinni Eddu Rósu tókst mér að brjóta allar varnir á bak aftur og vinna mig að hjarta þessarar stórmerku konu og manns hennar Jónasar Björnssonar og öðlast vináttu þeirra og vonandi virðingu.

Við Hrefna háðum marga hildina í pólitísku þrasi en gátum alltaf tekist í hendur að loknum deilum. Hún hafði ríka réttlætiskennd og gat skammað sína framsóknarmenn þegar þurfa þótti í þröngum hópi þó að ekki væri það eins oft ég hefði viljað! Jónas var aftur sjálfstæðismaður af gamla skólanum og þegar eldrauður allaballinn blautur á bak við eyrun kastaði sínum sprengjum varð oft kátt í kotinu.

Þau bjuggu sér glæsilegt heimili fyrst á Hvanneyrarbraut 2 og síðar Hverfisgötu 8 og þar bjuggum við Dóra fyrsta æviár dóttur okkar.

Eftir að við fluttum frá Sigló árið 1977 styrktust böndin enn frekar og dótturdæturnar voru sendar til sumardvalar á Sigló. Í kringum Hverfisgötu 8 er alltaf sólarbirta í minningunni og margs er að minnast. Þau Jónas fluttu á Skálarhlíð árið 1992 og bjó Hrefna þar af myndarskap eftir lát bónda síns árið 1993. Ég vil nota þetta tækifæri að þakka umhyggju þeirra í garð móður minnar Binnu Jóns sem oft dvaldi hjá þeim á Hverfisgötunni.

Hrefna var félagsvera og undi sér best í glöðum hópi og var yfirleitt hrókur fagnaðarins. Henni þótti gaman að spila og er ég viss um að hennar verður sárt saknað úr bridsfélaginu á Skálarhlíð. Hún smitaði dætur okkar af spilaáhuganum sem linntu ekki látunum eftir dvölina á Sigló fyrr en við höfðum spilað við þær rommý, ólsen og vist eins og amma Hrefna.

Tengdamóðir mín vann óeigingjarnt starf fyrir Kvenfélagið Von og Slysavarnafélagið. Hún starfaði fyrir Framsóknarflokkinn á Siglufirði og var varafulltrúi hans í bæjarstjórninni og sat í nefndum á hans vegum um árabil.

Hrefna og Jónas gengu í hjónaband árið 1945 og nú 4 börnum, 6 barnabörnum og 9 barnabarnabörnum síðar er komið að kveðjustund. Ég vil þakka Hrefnu samfylgdina, tryggðina og rausnarskap í vináttu og veitingum og velgjörð við mín börn og barnabörn.

Gunnar Trausti.
----------------------------------------

Föðuramma mín Hrefna Hermannsdóttir, sterk og falleg kona, er látin. Hún var 91 árs. Amma Hrefna var alltaf svo hress að maður hafði lítið sem ekkert leitt hugann að því hvernig lífið yrði þegar hennar nyti ekki lengur við. Því kom fréttin af veikindum hennar hinn 12. desember sl. eins og reiðarslag en nú þegar hún hefur ákveðið að kveðja þennan heim þá er okkur sem eftir stöndum efst í huga þakklæti fyrir öll árin sem við fengum að vera með henni og þakklæti fyrir að hún skyldi ekki þurfa að þjást. Hjá ömmu var lífið annaðhvort „on“ eða „off“ og þannig fékk hún líka að kveðja.

Fyrstu æviár mín bjuggu amma Hrefna og afi Jónas á Hverfisgötunni á Siglufirði og ég með mömmu og pabba á Háveginum. Ég gat horft út um stofugluggann heima og fylgst með lífinu á Hverfisgötunni og ef ég hafði valfrelsi um það hvort ég vildi frekar vera þar en heima hjá mér þá var valið yfirleitt Hverfisgötunni í vil.

Fyrstu átta árin var ég eina barnabarnið og eina samkeppnin sem ég háði þá um athygli ömmu og afa var við Hermann föðurbróður minn sem var átta árum eldri en ég. Árið 1975 greindist móðir mín með krabbamein sem varð hennar banamein og amma stóð við hlið hennar og okkar pabba eins og klettur. Amma lofaði mömmu að hún myndi gæta mín og amma stóð við sín loforð. Heimili ömmu og afa varð mitt annað heimili. Amma stóð vörð um sitt fólk.

Síðasti dagurinn sem amma var keik og uppistandandi var laugardagurinn 12. desember, daginn sem hún fylgdi Georg, bróður sínum, til grafar í Fljótunum. Þennan dag, sem jafnframt var fæðingardagur pabba hennar, var hún umkringd ættmennum sínum í gullfallegu veðri í Fljótunum og hefur hlýr koss á kinn og faðmlag frá Mósurunum án efa verið henni gott veganesti inn í það sem hennar beið. Þá um kvöldið veiktist hún og viku síðar var hún öll.

Amma átti yndislegt líf og samheldna og góða fjölskyldu. Hennar verður sárt saknað og vinkonur hennar í Skálarhlíð eiga án efa eftir að sakna góðs félaga. Amma hafði það mjög gott í Skálarhlíð og var dugleg að taka þátt í öllu félagsstarfi eldri borgara, hvort sem um var að ræða vatnsleikfimi, bingó, spil eða botsía, enda konan Siglufjarðarmeistari í botsía með pomp og pragt 90 ára gömul og í framhaldinu valin „maður mánaðarins“.

Hún missti aldrei úr þátt af Leiðarljósi og fylgdist með bæjarmálum og pólitík alla tíð. Dyggari stuðningsmann Framsóknarflokksins var erfitt að finna. Landsfrægar smákökur, laufabrauð, soðið brauð, kleinur, Þorláksmessuskata, sandwich, jólaís (ekki með sérríi!), jólakisan – svo margs er að minnast. Við sem eftir stöndum reynum eftir mætti að miðla áfram til okkar barna þeim siðum ömmu sem við mátum svo mikils.

Sofðu vel, amma mín, ég veit að þú ert í góðum höndum. Ég kveð þig í dag með söknuði en fyrst og fremst þakklæti. Takk, amma mín, fyrir allt sem þú gafst mér og allt sem þú varst mér.

Rakel.
----------------------------------------

Þá er komið að kveðjustund. Amma Hrefna var sá allra mesti karakter sem ég hef komist í kynni við og er ógleymanleg. Ákveðin, vel gefin, ráðagóð, hress, skemmtileg og pólitísk eru þau orð sem lýsa henni best.

Milli okkar ömmu var ætíð sterkt og gott samband. Við áttum skap saman.

Ég var svo heppin að búa á Hverfisgötunni hjá ömmu og afa og þurfti því sjaldan að fara í leikskóla, ég gat verið með ömmu allan daginn. Morgnarnir fóru í að spila eða baka rúgbrauð, steikja kleinur og soðbrauð, sulta, gera kæfu eða vera úti í garðinum sem hún hugsaði svo vel um.

Á sumrin fórum við í veiðiferðir, tíndum egg og dún eða fórum í berjamó inn í Fljót. Mér fannst alltaf jafn gaman að vera með ömmu enda vorum við alltaf að gera eitthvað skemmtilegt.

Amma hafði mjög ákveðnar skoðanir og sterka pólitíska sýn. Framsóknarflokkurinn var flokkurinn hennar. Við amma deildum ekki sömu pólitísku skoðunum sem ég held að hafi verið henni smávonbrigði. Þegar ég kaus í fyrsta skiptið fór ég með ömmu á kjörstað. Hún var búin að segja við mig áður að ég ætti að fylgja eigin sannfæringu og kjósa það sem ég vildi en þegar við vorum búnar að fá seðlana í hendurnar og vorum að labba inn í klefa tók hún í mig og sagði: „En þú kýst auðvitað Framsóknarflokkinn“ og labbaði svo inn í kjörklefann.

Amma var alltaf svo dugleg, gafst aldrei upp. Hún hugsaði alltaf vel um heilsuna og stundaði botsía og sund af miklum krafti.

Í haust þjáðist hún af miklum verkjum og kom í ljós að hryggjarliðir höfðu fallið saman með miklum kvölum. Ég talaði við ömmu í síma stuttu seinna og spurði hvort hún lægi fyrir og slappaði af. Nei, hún hélt nú ekki hún sagðist fjölga ferðunum sem hún labbaði úti úr 6 í 10 því hún ætlaði aldeilis ekki að fá kryppu!

Í vikunni áður en hún veiktist steikti hún kleinur og bakaði nokkrar tegundir af smákökum og sagðist ætla að gera soðbrauð líka ef það yrði tími, en það var ekki tími. En dugleg var hún allt fram á síðasta dag.

Amma var alltaf svo glæsileg, hugsaði mikið um útlitið, var alltaf vel til höfð og hafði gaman af því að punta sig með fallegu skarti. Meira að segja þegar hún var komin á spítalann var hún með nýlitað hár og augabrúnir – stórglæsileg kona.

Það er stórt skarð sem amma skilur eftir sig enda var hún hrókur alls fagnaðar þar sem hún kom. Í sumar var haldið ættarmót Mósara þar sem hún mætti eins og alltaf áður og var þá sú elsta, ættarhöfðingi. Hún skemmti sér og öðrum alla helgina eins og hún gerði ævinlega.

Elsku amma mín. Ég veit að þú ert sátt við að hafa farið svona snöggt því ef það var eitthvað sem þú þoldir ekki þá var það að þurfa að liggja veik. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera hjá þér síðustu dagana þína, halda í höndina á þér og segja þér hversu mikið ég elska þig og hversu þakklát ég er fyrir þær stundir sem við áttum saman. Ég á eftir að sakna þín mikið, elsku amma mín. Ég bið guð að blessa minningu stórfenglegrar konu sem ég var svo heppin að eiga fyrir ömmu. 

Þín, Jóna Hrefna.