Hedvig Hulda Andersen (Didda)

Morgunblaðið 04.01.1992

Hulda Andersen, Siglufirði ­ Fædd 9. maí 1914 Dáin 29. desember 1991

Árið 1920, þegar síldarævintýrið var að setja svip sinn á íslenzkt samfélag, sezt danskur vélsmiður, Georg Ágúst Andersen, fæddur í Kaupmannahöfn árið 1886, að í Siglufirði.

Þar ól hann síðan aldur sinn meðan ævin entist honum; þar lézt hann árið 1970; þar hvílir hann í kirkjugarðinum undir fjallsrótunum ásamt fjölmörgum öðrum gengnum heiðursmönnum, sem settu svip sinn á Siglufjörð meðan vegur hans var hvað mestur. Andersen var sérstæður og skemmtilegur persónuleiki og hann var góður Íslendingur og sannur Siglfirðingur. Frá honum er kominn traustur ættbogi sem teygir sig vítt um land.

Hulda Andersen

Hulda Andersen

Laugardaginn 4. janúar, var til grafar borin norður í Siglufirði dóttir þeirra, Georg Andersen og fyrri konu hans, Kristín Kristinsdóttir frá Grænhól í Kræklingahlíð, 

Hulda Hedvig Andersen, fædd 5. maí 1914, dáin 29. desember 1991. 

Eftir lifir eitt alsystkina hennar og fimm hálfsystkina frá síðara hjónabandi Georgs Andersen.

Fyrri maki Hedvigar Huldu var Karl Stefánsson, vélsmiður, fóstursonur þeirra merkishjóna Önnu Jóhannesdóttir og Stefán Ólafsson, sem kennd voru við Hlíðarhús í Siglufirði. 

Karl var lengi starfsmaður Síldarverksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar, Rauðku, en forstjóri hennar í áratugi var Snorri Stefánsson, Hlíðarhúsum. Karl lést árið 1955.

Börn þeirra, Hedvigar Huldu og Karls voru: 

, maki
Kristján Sigurvinsson
, framkvæmdastjóri, Kópavogi. Þau eiga eina dóttur:
2) Hersteinn Karlsson
, vélsmiður í Siglufirði, maki
María Karlsdóttir
. Þau eiga tvö börn;
  • Haukur Georg Karlsson, sjómaður í Sandgerði, maki Anna Aðalsteindóttir. Þau eiga tvo drengi.

Síðari maki Hedvigar Huldu var Árni Árnason, lengi starfsmaður Siglufjarðarkaupstaðar. Hann lést árið 1983.

Hulda Hedvig Andersen var kona hógvær og hlédræg, en harðdugleg, heiðarleg og vel látin. Hún var þeirrar gerðar sem hreykir sér ekki hátt í samfélaginu en skilar sínu dagsverki og ævistarfi af vandvirkni og samvizkusemi. 

Ævi hennar var ekki alltaf dans á rósum, en hún bar hlutskipti sitt með reisn og myndugleika. Það kom bezt í ljós síðustu misserin þegar hún háði baráttu við erfiðan sjúkdóm, sem sýnt var að ekki yrði yfir unninn.

Ævisól Hedvigar Huldu sígur í djúp eilífðarinnar á vetrarsólhvörfum, þegar íslenzka skammdegið umvefur Siglufjörð og aðrar byggðir landsins. En þegar myrkrið er mest er ljósið skærast. Á vetrarsólhvörfum hefst árvisst kraftaverk, þegar sólin og birtan varða veg til nýs vors og nýs gróanda. Megi rísandi sól náttlausa sumars, sem fyrirheitin boða, mæta Huldu Hedvigu á nýjum leiðum 

Við Gerða sendum vinkonu okkar, Önnu og öðrum aðstandendum Hedvigar Huldu innilegar samúðarkveðjur.

Stefán Friðbjarnarson
--------------------------------------------------

Minning -- Hedvig Hulda Andersen, Siglufirði -  Fædd 9. maí 1914 Dáin 29. desember 1991 I dag er til moldar borin elskuleg amma mín, Hedvig Hulda Andersen, eða Didda eins og hún var kölluð af vinum og vandamönnum. Hún andaðist í sjúkrahúsi Siglufjarðar 29. desember 1991. Var hún búin að berjast í tíu ár hetjulegri baráttu við alvarlegan sjúkdóm sem veikti stöðugt lúinn líkama hennar. Amma fæddist á Akureyri 9. maí 1914. Hún var dóttir hjónanna Kristínar Kristinsdóttur og Georgs Andersen sem kom hingað til lands frá Danmörku árið 1906.

Alsystkinin voru fjögur sem lifðu og er aðeins einn þeirra eftir á lífi en það er Ingvald, sem býr í Vestmannaeyjum. Hálfsystkinin urðu sex. Árið 1920 flutti fjölskyldan til Siglufjarðar og starfaði Andersen langafi minn þar sem vélsmiður. Heimili Diddu ömmu var þar æ síðan.

Fyrri maður ömmu var afi minn, Karl Vilhelm Stefánsson og eignuðust þau fimm börn en tvö þeirra, tvíburar, fæddust andvana.
Eftirlifandi börn þeirra eru

  • Anna Stefanía, gift Kristjáni Sigurvinssyni og er undirrituð þeirra eina barn;
  • Hersteinn Þráinn, kvæntur Maríu Karlsdóttur og eiga þau tvö börn, Karl og Huldu. Yngstur er
  • Haukur Georg, sambýliskona hans er Anna Aðalsteinsdóttir. Eiga þau tvo drengi, Hauk Svein og Gísla.

Í tuttugu og sex ár var ég eina barnabarn ömmu og dvaldist ég oft hjá henni á sumrin með móður minni. En þrátt fyrir það finnst mér ég ekki hafa kynnst henni eins náið og síðustu tíu árin, en þá dvaldist hún mikið hér fyrir sunnan hjá móður minni í sambandi við sín veikindi. Amma var dul kona og sagði ekki mikið en hugsaði sitt. Aldrei heyrðum við hana kvarta þótt líf hennar væri oft og tíðum ekki auðvelt.

Afa missti hún árið 1955 á eins árs afmælisdegi Hauks, yngsta sonarins. Hún var ekki rík af veraldlegum auði og vann alla tíð hörðum höndum til að framfleyta sér og sínum^ Seinni maður hennar var Árni Árnason en . hann lést árið 1983. Eftir að Steini gifti sig og flutti í Suðurgötuna gerði hann alltaf ráð fyrir að amma flytti til þeirra hjóna þegar hún væri orðin ein og þannig var það líka eftir að Árni dó, flutti hún í kjallaraíbúð í húsi þeirra að Suðurgötu 52 og átti þar heimili til dauðadags.

Síðan í maí hafði hún dvalist hér fyrir sunnan og gengist undir erfiða aðgerð og síðan eftirmeðferð sem lauk 19. desember en hugur hennar var heima, því hún þráði að fá að halda jól heima. Hún var glöð að koma heim þótt þróttlítil væri og sagði við Mæju, tengdadóttur sína: „Það er gott að vera komin heim. Nú get ég hvílt mig." Nú hefur hún fengið hvíldina og mun sofa uns okkar himneski faðir minnist hennar í upprisunni á hinum efsta degi.

Ég veit að amma hefði viljað þakka öllum þeim sem sýndu henni umhyggju í lífinu. Þar vil ég fyrst nefna Steina og konu hans, sem höfðu hana á heimilinu þar til yfir lauk og ekki síst foreldrum mínum sem gerðu allt sem í þeirra valdi var til að henni mætti líða sem best þegar hún dvaldist hér fyrir sunnan. Á Siglufirði átti hún góða að, væri of langt mál að telja alla upp sem reyndust henni vel en vil ég samt nefna hálfsystur hennar, Soffíu, sem var alltaf tilbúin að veita aðstoð ef mikið lá á og nú síðustu árin bróðurdóttir hennar, Kristín Jónsdóttir og hennar maður, Þórarinn, sem voru ömmu mjög góð.

Einn maður átti stórt rúm í hjarta ömmu síðustu árin og þeim manni færum við aðstandendur Huldu Andersen okkar innilegustu þakkir fyrir góðvild hans og umhyggju en það er Þórarinn Sveinsson, yfirlæknir krabbameinsdeildar Landspítalans. Einnig fær starfsfólk deildar 11 E á Landspítalanum okkar bestu þakkir. Að lokum vil ég kveðja elskulega ömmu mína með þeim orðum sem standa í Opinberunarbókinni, kafla 21, vers, 3 og 4. Þar stendur: Sjá tjaldbúð guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, Guð þeirra.

Og hann mun þerra hvert tár af hvörmum þeirra og dauðinn mun ekki framar til vera hvorki harmur né vein né kvöl er framar til, hið fyrra er farið.' Með þessum fátæklegu orðum viljum við, ég og fjölskylda mín, kveðja elsku Diddu ömmu. Minning um góða konu lifir. Helga Kristjánsdóttir Þegar hringt var til mín um morguninn 29. desember og mér sagt frá láti Diddu mágkonu, kom mér það ekki á óvart. Hún var búin að berjast lengi við þann sjúkdóm sem loks fór með sigur af hólmi þó hún hefði stundum betur.

Hún hét Hedvig Hulda, en flestir kölluðu hana Diddu. Hún var lengi mágkona mín, og við bjuggum í sama húsi um tíma. Þó að aðstæður breyttust var Didda alltaf sama góða vinkonan. Svo einkennilega vildi til, að hún átti eftir að tengjast mínu fólki aftur, þegar Hersteinn, sonur hennar, kvæntist Maríu, bróðurdóttur minni.

Didda kom oftast í heimsókn til mín á hverju ári og gisti oft. Ég man hve faðir minn, sem var hjá mér háaldraður, hlakkaði til, þegar Didda kæmi. Hún var svo glögg og  minnug á það sem gerðist á Siglufirði að hún gat sagt honum frá mörgum börnum sem hann kenndi þar, nú fullorðnum, hvar þau ættu heima og við hvað þau störfuðu og margt fleira sem hann 'angaði til að vita frá Siglufirði. Maður Diddu hét Karl Stefánsson.

Þau áttu þrjú börn, eina stúlku, Önnu, og tvo drengi, Herstein og Hauk. Einnig tvíbura sem dóu í fæðingu. Það var mikil reynsla. Karl dó á besta aldri. Þá var yngri drengurinn kornungur og ólust börnin upp hjá móður sinni. Anna dóttir þeirra settist að fyrir sunnan, Haukur fluttist líka burtu. Hersteinn var alltaf heima hjá móður sinni. Ég hef aldrei þekkt ungan mann sem hefur gert eins mikið fyrir móður sína og verið henni eins góður og Steini var móður sinni allt frá því að hann gat nokkuð gert.

Didda átti um tíma góðan vin sem bjó hjá henni. Hann varð bráðkvaddur. Fljótlega eftir það fluttist hún í íbúð í húsi Hersteins og Maríu og átti þar heima og stundum verið í heimili með þeim. í seinni tíð hefur Didda verið í lengri eða skemmri tíma hjá Önnu dóttur sinni í Kópavogi. Oft í sambandi við lækningar.

En alltaf þráði hún að komast aftur til Siglufjarðar. Núna kom hún 2-3 dögum fyrir jól. í raun bara til þess að fá að deyja heima á Siglufirði. Didda vildi öllum gott gera og hjálpa þar sem þess var þörf. Hún stóð sig eins og hetja í lífsbaráttunni og erfiðleikum sem steðjuðu að henni, eins og mörgum öðrum.
Blessuð sé minning hennar.

Magna Sæmundsdóttir