Hólm Dýrfjörð

mbl..is 1. september 2015

Hólm Dýrfjörð
var fæddur 21. febrúar 1914 að Fremri Bakka í Langadal í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 19. ágúst 2015.

Foreldrar hans voru Kristján Markús Dýrfjörð, f. 22.6. 1892, d. 16.8. 1976, og Anna Halldóra Óladóttir, f. 21.6. 1891, d. 5.4. 1967.

Hólm ólst upp hjá föðursystur sinni, Aðalheiði Kr. Dýrfjörð, og manni hennar, Sigurði Bjarnasyni, á Ísafirði.

Hálfbræður Hólms, samfeðra, eru: 

  • Bragi Dýrfjörð, f. 27.1. 1929, d. 20.3. 2004, 
  • Jón Dýrfjörð, f. 16.1. 1931 og 
  • Birgir Dýrfjörð, f. 26.10. 1935.
Hólm Dýrfjörð

Hólm Dýrfjörð

Þann 2.,apríl 1937 giftist Hólm Sigurrós Sigmundsdóttir, f. 22.8. 1915, d. 23.2. 1999, frá Hofsósi. Foreldrar hennar voru

Sigmundur Sigmundsson, f. 3.9. 1885, d. 15.2. 1958 og Sigurrós Guðmundsdóttir, f. 8.6. 1885, d. 10.5. 1977.

Börn Hólms og Sigurrósar eru: 

1) Birna Hólm, f. 26.10. 1935.
Sonur hennar og Svavar Benediktsson er
Guðmundur Hólm. Eiginmaður Birnu var Þorleifur Jónsson (látinn) og börn þeirra eru: 
  • Edda, 
  • Birgir Freyr 
  • Eyrún Helga. 

2) Anna Jóhanna Hólm, f. 20.11. 1937. Eiginmaður hennar er Skúli Sigurðsson og börn þeirra eru:
  • Málfríður Stella, 
  • Skúli 
  • Signý Sigurrós. 
3) Erla Hólm, f. 19.3. 1939. Eiginmaður hennar var  Þórarinn Björnsson (látinn) og börn þeirra eru
  • Sigurrós, 
  • Margrét, Ólöf, 
  • Björn Hólm, 
  • Anna Jóhanna, 
  • Sigþór, 
  • Rúnar. 
4) Guðmunda Hólm, f. 20.11. 1944. Eiginmaður hennar er Birgir Vilhelmsson og börn þeirra eru
  • Margrét
  • Bragi. 
5) Kristján Oddur Hólm, f. 10.2. 1948. Synir hans
  • Sigríður Sigurðardóttir (látin) 
  • Haukur Örn Kristjánsson. 
6) Ragnheiður Ingibjörg Hólm, f. 25.7. 1949. Börn hennar og fyrrv. eiginmanns hennar, Björn Sigurðsson, eru
  • Sigurður Gísli og 
  • Vilborg Eva.
Eiginmaður Ragnheiðar er Finnur Jóhannsson. 
7) Sigmundur Hólm, f. 13.4. 1956. Eiginkona hans er Berglind Guðbrandsdóttir og dætur þeirra eru
  • Kristín María 
  • Sunna Rós Hólm. 

Afkomendur Hólms og Sigurrósar eru orðnir 91 og eru allir á lífi.

Hólm fluttist ungur til Siglufjarðar, nam þar rafvirkjun og stundaði störf henni tengd í síldarverksmiðjum fyrstu árin. Hann vann síðar við ýmis störf á Siglufirði ásamt því að vera með hænsna- og sauðfjárbúskap.

Lengst af starfaði hann þó sem vörubifreiðastjóri og vélgæslumaður í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum víða um land. Hann gaf sig talsvert að félagsmálum og var meðal annars í stjórn Bílstjórafélagsins um árabil og gjaldkeri Verkamannafélagsins Þróttar.

Hólm og Sigurrós fluttust til Hafnarfjarðar 1972 og bjuggu þar uns Sigurrós lést 1999, en þá fluttist Hólm á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund. Hólm hafði gaman af ferðalögum og ferðaðist víða um heim fram á tíræðisaldur. 
-------------------------------------------------------- 

15. september 2015 | Minningargreinar | 1640 orð | 1 mynd

Hólm Dýrfjörð fæddist 21. febrúar 1914. Hann lést 19. ágúst 2015. Útför Hólms fór fram 1. september 2015.

Afi minn var mikill karakter, skemmtilegur og fyndinn. Hann var mjög duglegur og vinnusamur, einstaklega fróður og ráðagóður. Ef eitthvað var ekki til þá var það búið til. Sem dæmi þá bjó hann til sinn eigin blindrastaf sem hann vafði með gulu límbandi, endurskinsmerkjum og límmiðum. Hann sveiflaði stafnum óspart til að stoppa umferðina svo hann kæmist leiðar sinnar eða til að kanna umhverfið.

Það var alltaf svo gaman að fá að gista hjá ömmu og afa því þar var alltaf eitthvað sniðugt upp á teningnum. Mér eru minnisstæðar þær ótal stundir hjá þeim þegar ég var lítil og afi spilaði alltaf við mig spil sem hann kenndi mér og hét Marías. Það var ekki auðvelt að vinna hann afa því hann gaf ekkert eftir. Þau amma og afi tóku líka Mána, fuglinn minn, í fóstur í dágóðan tíma og þar fékk hann að fljúga frjáls og drekka með þeim kaffi og fá með því. Afi átti það til að blanda saman hinum ýmsa mat sem passaði engan veginn saman, sagði svo við mig þegar ég var alveg gáttuð á honum, „hvað er að þér krakki, þetta blandast allt saman í maganum hvort sem er“.

Það eru forréttindi að hafa fengið að vinna með afa sínum en við afi pökkuðum saman tei lengi vel og þá kenndi hann mér ýmsar kúnstir við það hvernig væri best að athafna sig, eins og til dæmis að opna alla pokana fyrirfram með sérlegu heimagerðu priki til að vera sneggri að setja te í næsta poka. Hann mætti oft óumbeðinn í vinnuna til mömmu og pabba í Hafnarfjörðinn.

Oftast kom hann á gömlu hjóli með tvo gyllta kaffipoka á stýrinu sem endurskinsmerki, en hann vildi alltaf taka þátt í að hjálpa öllum langt fram yfir nírætt.

Það vafðist ekkert fyrir honum afa og eitt dæmi um það er dósahristarinn sem hann útbjó fyrir ömmu þegar hún var orðin of máttfarin til að fara fram úr rúminu. Hann var þá farinn að heyra illa og datt í hug að festa dósir í band sem náði fram í stofu. Amma gat þá togað í bandið svo hann heyrði þegar hún þurfti á honum að halda. Það má segja að afi hafi verið mikill uppfinningamaður þegar kom að því að finna lausnir á vandamálum.

Oft var erfitt að tjónka við hann afa því hann fór sínar eigin leiðir á svo margan hátt. En það var líka það sem gerði hann svo sérstakan.

Eitt getum við öll lært af honum afa, sem lýsir honum kannski best, og það er nægjusemin. Hann bjó í 16 ár á dvalarheimilinu Grund, eða hótel Grund eins og hann kallaði það. Þar leið honum alltaf vel og var þakklátur öllum þeim sem önnuðust hann þar. Afi var stálminnugur og fylgdist vel með öllu sem var að gerast í þjóðfélagsmálunum sem og öllu sínu fólki.

Afi, ég er glöð í hjartanu að hafa átt svo margar stundir með þér og síðustu jólin með 100 ára gömlum afa mínum, sem lifði tímana tvenna, verða mér minnisstæð. Afi, þú hefur kennt mér margt á lífsleið minni sem ég mun aldrei gleyma. Nú er kominn tími fyrir ykkur ömmu að dansa saman í sumarlandinu.

Afi skilur eftir sig 91 afkomanda og ég er númer 44.

  • Sól úti, sól inni.
  • Sól í hjarta, sól í sinni.
  • Sól, bara sól.

Ég elska þig afi, hvíldu í friði.

Þín, Sunna Rós Dýrfjörð.
-------------------------------------------------

Afi Holli var alveg magnaður karakter. Hann var eiginlega eins og klipptur út úr kvikmynd, nema betri. Furðulegur í háttum, fyndinn og skemmtilegur. Ég var mikið hjá ömmu og afa í Skúlaskeiði þegar ég var lítil og er mér minnisstæðast hversu natinn afi var að spila við mig, hann kenndi mér ógrynnin öll af spilum sem báru mörg hver hin undarlegustu nöfn. Hann söng mikið, dansaði og spilaði á munnhörpuna sína fram á síðasta dag. Mér þykir einstaklega vænt um ljóðið sem hann söng til okkar Dóra fyrir fullum sal af fólki á brúðkaupsdegi okkar fyrir tæplega ári síðan, þá 100 ára gamall.

Honum fannst svo gaman að vera miðpunktur athyglinnar. Í ófá skipti fór afi til blómasalans og keypti marga tugi rósa til að gefa konunum á Grundinni eða okkur konunum í stórfjölskyldunni, hvort sem það var konudagur eða annað tilefni. Hann var glaðastur þegar hann gladdi aðra eða skemmti öðrum. Næstum blindur og heyrnarlaus tók hann þátt í öllum golfmótum á Grund og öðrum uppákomum og gerði sér svo lítið fyrir og vann einhver þeirra, hringdi svo hlæjandi í okkur með fréttirnar. Alltaf sá maður afa bregða fyrir í fréttum og fjölmiðlum þegar sýnt var frá lífinu á Grund í leik, dansi eða söng.

Hann var einstaklega sparsamur og nýtinn, hjálpsamur og úrræðagóður en hann henti aldrei neinu og lagaði alltaf allt. Það er til orðatiltæki í fjölskyldunni en það er að þegar einhver þykir sýna afatakta þá sé það „hollískt“ eða að það sé pínu Holli í viðkomandi. Hann byggði t.d. handa okkur systrum flottasta kofann í bænum úr allskyns afgangsspýtum og málaði hann bláan í stíl við húsið okkar með rauðu þaki og fallegum, hvítum gluggum. Mamma og pabbi fóru stundum á skíði þegar ég var lítil og afa fannst ég líka þurfa að eignast skíði. Hann sagaði því aftan af gömlum fullorðins-skíðum og negldi gamla bítlaskó af mömmu sem hann fann úti í skúr á þau. Málið leyst.

Eftir að afi varð gamall og kominn inn á Hótel Grund, eins og hann kallaði dvalarheimilið Grund, var aðdáunarvert hversu ótrúlega nægjusamur og jákvæður hann var. Þá fannst honum gaman að geta gengið í bæinn, farið niður á Alþingi eða heimsótt Hjálpræðisherinn eða kaffihúsin. Oft kom hann með strætó eða leigubíl í vinnuna til mömmu og pabba til að hjálpa til. Alltaf vildi hann létta undir.

Ég kveð þig með orðunum sem þú söngst svo oft, elsku afi, og minna mig alltaf á þig.

  • Sól úti, sól inni,
  • sól í hjarta, sól í sinni,
  • sól – bara sól !

Kristín María Dýrfjörð
--------------------------------------------------

Ég ætla nú í nokkrum orðum að minnast allra besta afa míns Hólms Dýrfjörð, sem lést á 102. aldursári. Ég vil trúa því að hann hafi farið í 100 ára afmælisveislu ömmu minnar, sem hefði orðið 22. ágúst hefði hún lifað. Ég er þess fullviss að vel hefur verið tekið á móti honum fyrir handan með brúntertu og rjóma að ógleymdri sólskinskökunni. Ég naut þess alltaf að vera fyrsta barnabarnið þeirra. Alls átti afi 91 afkomenda og eru allir á lífi sem er einsdæmi á Íslandi.

Mín fyrsta minning um afa er þegar hann var að vinna á rauða vörubílnum í síldinni. Hann var að gæta okkar Sigmundar (sonar hans). Afi hafði gefið okkur kókflösku sem við fórum að rífast um. Endaði það með því að afturrúðan í bílnum brotnaði og þá sá ég hvað hann varð alvörugefinn. Okkur var hent út úr bílnum út á plan þar sem við máttum húka góða stund. Eftir þetta bar ég óttablandna virðingu fyrir honum þegar ég var lítill.

Seinna komst þú í sveitina á vörubílnum þar sem þú lánaðir okkur Sigmundi bílinn á rúntinn. Það hefðu eflaust ekki margir lánað 10-12 ára guttum bíl en svona varst þú. Ég man síðan sérstaklega eftir að frá Svíþjóð sendir þú mér 12 ára gömlum dökkbrúnar leðurbuxur sem mér þótti vænt um að fá. Ég var nú aldeilis töffari í þeim.

Eftir að ég fullorðnaðist áttir þú afi þá hugmynd að ég yrði sjálfstæður og sagðir mér að fara í útgerð sem ég gerði og hef starfað við alla tíð síðan. Þú hjálpaðir mér eins og þú gast og studdir mig á allan hátt. Þú hvattir mig til að flytja til Ólafsvíkur með útgerðina sem ég gerði. Þú og amma komuð nokkrum sinnum í heimsókn þangað, fóruð í berjamó á nesið og voruð hjá mér. Þú komst líka stundum einn með rútunni og varst í nokkra daga. Þá var hægt að ræða saman og fara yfir hlutina. Alltaf hvattir þú mig áfram í öllum mínum gjörðum en albesta ráðið sem ég fékk frá þér var: „Fyrsta hugsunin er alltaf best.“

Að öðrum tíma ólöstuðum var besti tíminn sem við áttum þegar Sólfarinn var í slipp á Akranesi 1988. Þú varst hættur að vinna launavinnu en varst því meira í sjálfboðavinnu fyrir fólkið þitt. Þarna vorum við í fjórar vikur og bjuggum um borð því þú tókst ekki annað í mál þó svo að báturinn væri fullur af iðnaðarmönnum. Þarna gafst okkur tími til að kynnast upp á nýtt, ég orðinn fullorðinn og þú 73 ára og í fullri vinnu hjá mér við að taka til, ryðverja og mála.

Eitt kvöldið ræddir þú barnæsku þína og ég sá að þú fórst í annað hlutverk þegar þú talaðir um þetta en vildir segja mér frá því. Þú varst alltaf nægjusamur á alla hluti og fórst vel með allt sem þú áttir. Í þetta skiptið gafstu mér stóru sleggjuna sem þú áttir frá vörubílaútgerðinni. Hún var notuð til að affelga og gera við dekkin úti á vegum. Ég reyndi mikið til að sveifla henni þegar ég var lítill en gat ekki. Ég horfði með aðdáun á þig sveifla henni eins og hamar væri. Þessa sleggju á ég enn, fimm skipum seinna og hlýtur að vera einstakt happ yfir henni.

Það var þér mikið áfall þegar amma dó 1999 enda búin að vera saman í 65 ár og eignast sjö börn og fjölda barnabarna. Ég fór að gantast með það fyrir ca. 20 árum að þú yrðir 100 ára. Þú hlóst að því en síðustu fimm árin þín varstu ákveðinn að ná 100 árunum. Það var svo eftir þann áfanga að draga fór af þér. Það var gaman að hitta þig hressan í apríl sl. og fyrir utan Grund náðum við að tala saman á meðan þú drakkst í þig sólina.

Guðmundur Hólm Svavarsson.