Margrét Vernharðsdóttir

Minning: Margrét Vernharðsdóttir frá Siglufirði Fædd 20. maí 1926 Dáin 21. september 1990

  • Kallið er komið, komin er nú stundin,
  • vinaskilnaðar viðkvæm stund.
  • Vinirnir kveðja vininn sinn látna,
  • er sefur hér hinn síðsta blund. (Vald. Briem)

Haustið er komið, laufin falla af trjánum og kólna tekur í veðri. Einmitt á þessum árstíma var Magga vön að koma til okkar á Hjallaveg inn. En skjótt skipast veður í lofti, og víst er um það að enginn veit hvenær kallið að handan kemur. Ekki óraði mig fyrir því þegar ég kvaddi Möggu á Laugavegi 5 í lok ágúst að ég myndi ekki sjá hana aftur. Þá spurði hún mig brosandi hvort hún mætti koma til okkar í haust.

Magga þurfti ekki að spyrja að því, hún var alltaf velkomin til okkar. Margs er að minnast þegar hugsað er til baka, en allar minningarnar eiga það sameiginlegt að vera góðar og bjartar. Magga var alveg einstök kona, hún var félagi allra sem hana þekktu á hvaða aldursskeiði sem fólk var. Ævinlega var hún brosandi og kát, aldrei eitt æðruorð þrátt fyrir stöðuga verki sökum liðagigtar sem hún var heltekin af.

Í hennar augum áttu alltaf aðrir meira bágt en hún. Væri hún óvenju slæm, hló hún létt og sagði ég er eitthvað hálf leiðinleg núna. Án þess að vita það sjálf kenndi Magga okkur svo ótalmargt. Ekki með því að prédika um rétt og rangt, það gerði hún aldrei. Heldur með því að spjalla við okkur um lífið og tilveruna, fordæma aldrei og vera sífellt með gamanyrði á vörum hvernig sem líðan hennar var. Í sumar auðnaðist henni að dvelja í íbúð sinni á Siglufirði. Það var henni dýrmætt.

Þegar ég komtil hennar í lok ágúst sagði hún mér frá liðnu sumri og gleðin og ánægjan yfir því að geta verið heima var ólýsanleg. Er hún stóð við glugga er sneri í norður í íbúð sinni sagði hún: "Geturðu ímyndað þér að það sé nokkurstaðar fallegra?" Já, Siglufjörður var hennar paradís. Við töluðum oft um líf eftir þetta líf og hún trúði því að er hennar jarðvist lyki fengi hún aftur að vera hjá Bjarka sínum.

Ég efa það ekki að nú dvelja þau saman á ný glöð og sæl. Minningarnar um Möggu tekur enginn frá okkur og þær eru dýrmætari en nokkurt gull. Börnum hennar og öllum aðstandendum votta ég samúð mína. Möggu kveð ég með sárum söknuði og bið algóðan Guð að blessa hana.

"Far þú í friði,  friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt." (Vald. Briem)

Signý Sigtryggsdóttir