Tengt Siglufirði
Frú Ingrid fæddist á Siglufirði, dóttir hjónanna Kaju Skoglund frá Melöj í Norður-Noregi og Kristjáns Hallgrímssonar.
Árið 1947 giftist hún eftirlifandi eiginmanni sínum Þóri Jónasi Dagbjartssyni fiðluleikara. Þeim varð þriggja barna auðið, en þau eru:
Linda, gift Guðmundi Þórðarsyni,
Kristín, gift Karli Jóhannesi Karlssyni pípulagningamanni og
Jónas Þórir organleikari, kvæntur Ásu Elísu Einarsdóttur læknanema.
Barnabörnin eru orðin 8 talsins.
Systur tvær átti Ingrid, og eru þær Jenfrid Wheeler, búsett í Bandaríkjunum og Kristjana, gift Guðna Kristni Sigurðssyni bifvélavirkja, Garðabæ.
Í dag, þriðjudaginn 23. maí, 1989 fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík útför Ingridar. Ingrid fæddist á Siglufirði 5. maí 1926 og lést 13. maí sl. á Hvolsvelli.
Faðir Ingridar, Kristján Hallgrímsson var sjómaður og síldarmatsmaður. Í lok fyrri heimsstyrjaldar fór að veiðast mikil síld fyrir norðurlandi og hélt þá Kristján til Noregs í þeim tilgangi að kynna sér síldvarverkun þar í landi, því Norðmenn voru okkur miklu fremri í þeirri grein, í þann tíð.
Eftir nokkra dvöl þar, festir hann ráð sitt og kvænist ungri þarlendri konu, Kaju Skoglund frá Melöj.
Þau eignuðust þrjár dætur og var Ingrid önnur í röðinni. Sú elsta;
Jenfrid, fæddist í Noregi.
Hinar tvær, Ingrid og Kristjana, fæddust á Siglufirði, eftir að þau hjónin fluttust heim tilÍslands. Þær voru aðeins smástelpur systurnar þegar farðir þeirra Kristján drukknaði úti fyrir norðurlandi. Var þá sár harmur kveðinn að fjölskyldunni. Nú stóð Kaja uppi með dæturnar þrjár, fyrirvinnulaus.
Allt bjargaðist þó einhvern veginn með eljusemi móðurinnar sem nú varð að vinna hörðum höndum fyrir heimilinu við ýmis störf. Mikil búbót varð á sumrum, þegar Sigló varð að mesta síldarplássi landsins. Bærinn margfaldaðist að mannfjölda og fjörðurinn varð iðulega, í landlegum, sem skógur yfir að líta vegna siglutoppa síldarskipanna.
Kaja var alltaf tilbúin til að kverka og salta á nóttu sem degi þegar "ræsari" hrópaði síld, síld, fyrir utan gluggann hjá henni. Þessir tímar björguðu oft miklu fjárhagslega. Af öllu landinu streymdi fólk í atvinnuleit og um margskonar störf var að ræða. Þessa minnist nú undirritaður er hann kom til Sigló sumarið 1935, þá ungur maður í atvinnuleit. Vinnan fékkst og með henni herbergi til að sofa í, en það herbergi var einmitt í húsinu hjá Kaju og dætrunum þrem. 8 ára aldursmunur var á okkur Ingrid og var sá munur mikill á þessum árum, allt að helmings aldursmunur.
Þá þekkti ég Ingrid sem litla sæta telpu og óraði ekki fyrir að sú litla ætti síðar eftir að verða eiginkona eins besta vinar míns og samstarfsmanns Jónasar Þ. Dagbjartssonar. Á Sigló átti Ingrid unaðslega æsku við skólagöngu og leik. Á vetrum var kyrrlátt og fagurt mannlíf í þessum litlabæ, en á sumrum ævintýrablær og iðandi mannlíf með athafnasemi og erlendu ívafi. Þetta hygg ég að hafi átt sinn þátt í að móta viðhorf hennar seinna í lífinu. Hún var kona víðsýn en fremur dul og sagði fáum hug sinn allan.
Hún gekk í reglu Cofrímúrara og hafði miklar mætur á þeirra fræðum. Þá hneigðist hún snemma að tónlist og lék ágætlega á píanó. Ingrid var mikil og góð móðir, húsmóðir og amma. Enda var fjölskyldan tíðum að koma til ömmu og afa á þeirra fagra heimili sem þau voru svo samhent að gera að miðstöð gleði og kærleika.
Við þrír félagar þeirra hjóna, höfum á undanförnum árum æft upp lúðrakvartett. Af því tilefni lékum við saman á ýmsum stöðum og nú um hvítasunnuhátíðina ætluðum viðað leika þriðja árið í röð í hótelinu á Hvolsvelli og einnig á öðrum stöðum þar í sveitinni. Ingrid var alltaf með og tók þá oft lagið með manni sínum. Við hittumst þar eins og áætlað var laugardaginn 13. maí. Lúðrakvartettinn hóf leik á ljúfum ættjarðarlögum í andyri hótelsins, þar til gestgjafar kölluðu til kvöld varðar. Öll vorum við hress og glöð þegar gengið var í salinn. Ingrid og Jónas léku nú eitt lag fyrir gestina. Að því loknu gekk hún glæsilega til sætis síns, undir dynjandi lófataki.
Mér varð að orði að þau yrðu að taka eitt lag í viðbót. Ekki stóð á því fremur en vant var. Þegar því lagi var að ljúka kom óhugnanleg þögn og Ingrid féll niður. Þar endaði hennar ævidagur. Svo skyndilega hvarf hún frá okkur að erfitt var að átta sig á því sem skeð hafði. Heilablóðfall, hefur nú verið staðfest af læknum. Þetta gefur okkur eftirlifendum áminningu um hve þakklátir menn mega vera guði sínum fyrir hverja lifandi stund hér á jörð, en oft vill það þó gleymast.
Seint mun ég fá fullþakkað þeim Jónasi og Ingrid mikla vináttu sem þau sýndu mér er ég, fyrir 23 árum, missti fyrri konu mína. Stuðningur þeirra var ómetanlegur. Ekki má heldur gleyma að þakka þeim fyrir hinar fjölmörgu ánægjustundir sem ég og fjölmargir vinir fjölskyldunnar hafa notið með þeim í gegnum árin.
Við Jóhanna og sameiginlegur vinahópur okkar og Jónasar vottum honum og ástvinum hans öllum innilega hluttekningu og samúð á þessari stund sorgar. Biðjum við þeim öllum Guðs blessunar og kveðjum Ingrid með lotningu og þökk.
Þorvaldur Steingrímsson