Jóhann Steinþór Guðnason skipaafgreiðslumaður

Jóhann Guðnason  frá Siglufirði. -  Fæddur 12. febrúar 1919 Dáinn 24. júní 1993 

Við andlát Jóa frænda langar okkur systurnar, systurdætur hans, að minnast hans nokkrum orðum. Í æskuminningum okkar frá bernskuheimili okkar á Túngötu 18 í Siglufirði er Jói frændi ljóslifandi fyrir hugskotssjónum okkar. Túngata 18 var heimili afa og ömmu, en þau voru 

Pálína Jónsdóttir og Guðni Guðnason, sem bjuggu í Siglufirði öll sín hjúskaparár.
Afa og ömmu varð níu barna auðið og komust fimm þeirra til fullorðinsára.

Auk þess ólu þau upp eina fósturdóttur.

Jóhann var þriðji í röð systkinanna sem komust á legg. Hann gekk menntaveginn, en á fyrri hluta aldarinnar var allt annað en auðvelt fyrir alþýðufólk að setja börn sín til mennta. Jóhann hefur eflaust notið hæfileika sinna, þegar afi og amma afréðu að leyfa stráknum að læra.

Jóhann Guðnason

Jóhann Guðnason

Þegar flest var bjuggu 17 manns á Túngötu 18, þ.e. afi og amma, börn þeirra fimm, makar þeirra og barnabörn. Eflaust þætti sambýlið þröngt nú á dögum, en allt blessaðist þetta undir styrkri stjórn ömmu Pálínu.

Við litlu frænkurnar leituðum oft til Jóa frænda, enda faðir okkar langdvölum á sjó. Alltaf átti Jói tíma handa okkur hvernig sem á stóð.

Jóhann Guðnason og Una Dagný Guðmundsdóttir, kona hans, fluttust af Túngötunni um 1950 og stofnuðu sitt eigið heimili á Hólavegi 38. Samband okkar við Jóa rofnaði ekki við þessa breytingu og hélst, að vísu með hléum, vegna búsetu okkar í Reykjavík, allt til dánardægurs Jóa. Áhugi hans á börnum okkar og barnabörnum var ávallt fyrir hendi þótt samvistir yrðu stopulli vegna fjarlægðar okkar. Samband hans við móður okkar var alltaf mjög náið og kærleiksríkt.

Jói hafði mikla ánægju af mannlegum samskiptum, sérstaklega rökræðum um stjórnmál og málefni líðandi stundar. Hann átti til að slá fram einhverri skoðun, sem hann vissi, að félli kannski í grýttan jarðveg hjá viðmælendum, og verja "málstað" sinn síðan af ákafa.

Ekki er ólíklegt að sumir hafi misskilið þennan samkvæmisleik Jóa.
Samt skildu allir sáttir eftir þessi uppátæki hans, enda einungis til gamans gert.

Síðustu mánuðir Jóa frænda verða okkur minnisstæðir. Hann kom suður til Reykjavíkur til lækninga. Ávallt voru honum gamanyrði á vörum og hugurinn kominn hálfa leið heim til Siglufjarðar á fyrsta degi sjúkrahúsdvalar. Hann tók veikindunum af æðruleysi og lét ekki í ljós neinn ugg um hnignandi heilsu sína. Allir vissu hve veikindi Jóa voru alvarleg, en gátu ekki annað en dáðst að hugrekki hans. Þannig minnumst við okkar kæra frænda.

Elsku Una, Guð gefi þér og börnum ykkar og barnabörnum styrk í sorg ykkar. Við erum þess fullvissar að Jói vakir áfram yfir okkur öllum.

Brynja og Hjördís.
-----------------------------------------------------

Jóhann Steinþór Guðnason -

Til moldar borinn frá Siglufjarðarkirkju einn mætur borgari Siglufjarðar, Jóhann Guðnason, skipaafgreiðslumaður.

Hann hafði um nokkra hríð háð harða og stranga baráttu við erfiðan sjúkdóm sem margir hafa fallið fyrir. Þrátt fyrir mikinn viljastyrk og lífslöngun varð Jóhann einnig að láta undan og halda á vit hins ókunna.

Jóhann var borinn og barnfæddur á Siglufirði og þar lá allt hans lífsstarf. Á uppvaxtarárum hans var vinna og aftur vinna það eina sem komst að til að heimilin hefðu viðunandi lífsafkomu. Þá þótti hneisa að sækja um bæjarstyrk og flestum óljúft.

Foreldrar Jóhanns, þau Pálína Jónsdóttir og Guðni Guðnason, bjuggu alla sína búskapartíð á Siglufirði. Þau eignuðust níu börn, en fjögur þeirra létust í æsku.

Einnig ólu þau upp eina fósturdóttur svo að það hefur oft verið mannmargt á heimili þeirra í Túngötunni og örugglega hefur húsmóðirin þurft að vera hagsýn í hússtjórn. Nú er aðeins ein systirin og fósturdóttir þeirra eftir hérna megin tjaldsins. Jóhann byrjaði snemma að vinna, eins og títt var með unglinga í þann tíð, sem nú myndi ef til vill flokkast undir barnaþrældóm.

Níu ára gamall byrjaði Jóhann á síldarplani hjá athafnamanninum Steindór Hjaltalín.

Þá var síldarævintýrið að byrja á Siglufirði og var Jóhann þátttakandi í því eins og flestir aðrir sem voru að alast upp á Siglufirði á þessum tíma.

Á unglingsárum sínum vandist hann margvíslegri og fjölbreyttri vinnu, en flest tengdist síldinni. Með dugnaði tókst Jóhanni að vinna sér inn aura sem hann var ákveðinn í að nýta til náms og hann fór í Verslunarskólann og lauk þaðan námi 1938.

Hjá Síldarverksmiðjum ríkisins vann hann um árabil, meðal annars lengi sem bifreiðarstjóri. Lengst af starfsævi sinnar starfaði hann sjálfstætt við skipa- og vöruafgreiðslu og annaðist flest skip sem komu til Siglufjarðar allt frá árinu 1967 og til dauðadags.

Í starfi hans komu fram hans miklu mannkostir. Hann var ákaflega trúverðugur í starfi og sýndi lipurð og áreiðanleika, allt sem hann sagði stóð eins og stafur á bók. Hann kunni því illa ef hann mætti öðru frá samferðafólki sínu. Gegnum árin kynntist Jóhann mörgum af farmönnum landsins og aflaði sér mikilla vinsælda einnig meðal þeirra.

Jóhann var gæfumaður í lífi og starfi.
Hann giftist ágætri konu, heilsteyptri og duglegri, Una Dagný Guðmundsdóttir frá Ólafsfirði, hinn 10. desember 1942, og lifir hún mann sinn.
Þau eignuðust gott heimili á Hólaveginum og var þangað hlýlegt að koma.

Börn þeirra hjóna eru

  • María og 
  • Hreiðar, bæði búsett á Siglufirði, og 
  • Eiríkur sem Una átti fyrir hjónaband er búsettur á Ólafsfirði.

Öll þessi fjölskylda, auk tengdabarnanna og barnabarnanna var mjög samstillt og var þeim hjónum mjög annt um hag þeirra allra.

Nú þegar Jóhann er allur, veit ég að hann hefði óskað þess að honum hefði unnist tími til að þakka fyrir sig. Starfsfólk á Borgarspítalanum annaðist hann með miklum ágætum og til þeirra viljum við flytja þakkir hans og kveðjur.

Vafalaust hefði hann kosið að taka undir með verkamanninum sem kvað eitt sinn:

  • Þegar nálgast stundin stríð
  • stend ég fljóts á bökkum.
  • Kveðja vil ég land og lýð
  • og lífið sjálft með þökkum.

Við sem eftir stöndum þökkum Jóhanni samfylgd á lífsins vegi. Við hjónin þökkum góðum nágranna tryggð gegnum árin. Við sendum ekkju hans, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öllum vinum hans samúðarkveðjur og biðjum guð að blessa vegferð hans.

Guðrún og Skúli.

-------------------

Tilkynning:
Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓHANN STEINÞÓR GUÐNASON skipaafgreiðslumaður, Hólavegi 38, Siglufirði, lést í Borgarspítalanum hinn 24. júní. Útför hans verður gerð frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 3. júlí kl. 13.00. Una Dagný Guðmundsdóttir, Mari'a Jóhannsdóttir, Sigurður Þór Haraldsson, Hreiðar Þór Jóhannsson, Eirikur Sævaldsson, Jóna Gýgja Eiðsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn