Jóhann Helgi Stefánsson bólstrari

Jóhann Stefánsson ­- Fæddur 22. janúar 1909 Dáinn 25. janúar 1994

Jóhann var fæddur í Borgargerði í Flókadal, elstur 14 systkina. 

Foreldrar:  Stefán Aðalsteinsson og  Kristín Jósepsdóttir.

Jóhann fór ungur að árum að vinna fyrir sér, eins og algengt var á þessum árum. Hann lærði húsgagnabólstrun á Akureyri hjá Jakob Einarsson, bólstrari. Nokkrum árum síðar stofnaði Jóhann Dívanavinnustofa Siglufjarðar og rak hana í mörg ár ásamt verslun.

Árið 1932 gekk hann að eiga Jónína Jónsdóttir, ættaða frá Siglunesi, og fylgdi hún eiginmanni sínum fast eftir við þau störf er hann tók sér fyrir hendur hverju sinni. 

Þeim hjónum varð tveggja barna auðið,

Gréta Stefánsdóttir, sem búsett er á Sigríðarstöðum í Flókadal, maki Lúðvík Ásmundsson, og

Jóhann Stefánsson

Jóhann Stefánsson

Guðjón Stefánsson, sem lést í æsku.

Einnig áttu þau hjón Jóhann og Jónína kjörsoninn, Stefán Guðmund Jóhannsson, sem lést 26. október 1992.

Um 1940 keypti Jóhann Sigríðarstaði og síðar Sigríðarstaðakot og sameinaði jarðirnar. Hann byggði öll hús upp frá grunni á Sigríðarstöðum. Þangað fluttu foreldrar Jóhanns ásamt yngri systkinum og bjuggu þau góðu búi þar til 1946 að þau hættu búskap sökum heilsubrests Kristínar móður Jóhanns og fluttu hingað til Siglufjarðar.

Jóhann var alinn upp í stórum systkinahópi við fátækt, en braust af eigin rammleik til mennta og var vel bjargálna eins og að framan greinir. Þá stofnsetti hann Dívanavinnustofu Siglufjarðar, rak verslun, keypti jarðirnar og byggði öll hús upp á Sigríðarstöðum til að hlúa að foreldrum sínum og yngri systkinum.

Ég kynntist Jóhanni ekki fyrr en laust fyrir 1950. Þá var hann formaður Skagfirðingafélagsins hér í Siglufirði. Um svipað leyti var félaginu úthlutað land til skógræktar í Leyningslandi, sem er austasti hluti núverandi Skógræktar Siglufjarðar. Þarna var eytt mörgum kvöldum við að pota niður í moldina smáplöntum sem í dag er unaðsreitur og stolt okkar Siglfirðinga.

Þó Jóhann Þorvaldsson, fyrrverandi skólastjóri, eigi heiður og sóma af skógrækt okkar Siglfirðinga, þá má ekki gleyma þeim, sem voru í forsvari fyrir svo stór félagasamtök eins og Skagfirðingafélagið var á þeim tíma og félagarnir studdu formann sinn til allra góðra verka.

Jóhann var í Stangveiðifélagi Siglufjarðar og hafði unun af að renna fyrir lax og silung í Fljótaá. Jóhann var vel á sig kominn, meðalmaður á vöxt og snyrtimenni svo eftir var tekið. Heimili þeirra hjóna og vinnustofa báru gott vitni um reglusemi og snyrtimennsku. Það er ekki meining mín með þessum fáu kveðjuorðum að bera oflof á hinn látna félaga, það hefði hann ekki kært sig um. Jóhann var viðræðugóður og hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. 

Að leiðarlokum vil ég þakka góðum félaga fyrir allar samverustundirnar, hreinskiptni og drengskap.

Það er vissa mín að það bíði vinir í varpa nú þegar vistaskipti hafa orðið hjá Jóhanni. Ég sendi öllum vandamönnum samúðarkveðjur.

Ólafur Jóhannsson.