Jóhann Sævaldur Sigurðsson

Jóhann Sigurðsson fæddist í Dæli í Fljótum, Skagafirði, 10. október 1922. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 25. september 1998. 

Foreldrar hans voru  Sigurður Ásgrímsson, f. 26.6. 1883, d. 1936, og Jóhanna Lovísa Gísladóttir, f. 21.8. 1881, d. 2.1. 1973.

Eiginkona Jóhanns var Sigurlaug Jónsdóttir, f. 16.5. 1927, Siglufirði.

Synir þeirra eru: 

1) Njörður S. Jóhannsson, f. 4.4. 1945, Njörður Jóhannsson 

2) Kristján Jóhannsson, f. 21.5. 1949, og 

3) Viðar Bergþór Jóhannsson.  Viðar Jóhannsson

Jóhann Sigurðsson

Jóhann Sigurðsson

Jóhann Sigurðsson -  Ég var staddur á vinnustað hér á Siglufirði þegar það spurðist að Jóhann Sigurðsson væri dáinn. Menn setti hljóða og svo var farið að tala um það hve mikill sjónarsviptir væri að honum.

Jói hafði margsinnis staðið við dauðans dyr undanfarin tuttugu ár eftir að hann kenndi hjartabilunar. Hann var orðinn aldraður, sjötíu og fimm ára, þessi öðlingur sem við sjáum svo eftir. Þúsund þjala smiður, hagur á tré og málma, orðhagur og einstaklega hagur í samskiptum við fólk.

Kunnátta hans kom eflaust best í ljós í þau ótal skipti þegar tæki bilaði eða áhald brotnaði hjá einhverjum hinna mörgu nágranna í gegnum tíðina. Þá leysti Jói hvers manns vanda með þessari alúð og elskusemi sem gerði í raun alla í bænum að nágrönnum hans og góðum kunningjum. Einhverju sinni datt mér í hug að Jói gæti hafa verið einn af postulum Krists með þetta háa og bjarta enni og þýða viðmót.

En vitundin um prakkaraleg uppátæki hans og vísur hans, sumar tvíræðar, sem oft urðu fleygar, héldu náttúrlega helgimyndinni hóflega fjarri. 

Jói starfaði áður sem vélvirki til sjós við margs konar veiðar og millilandasiglingar og í síldarbræðslum í landi. Margar góðar sögur hef ég heyrt af honum frá þessum árum sem fyrst og fremst bera vott um dirfsku hans, hugvit og húmor. Nokkrar sögur bar ég undir hann sem hann staðfesti að væru réttar eða svona hér um bil og ekki urðu þær síðri af vörum hans sjálfs ­ svona ögn leiðréttar.

Jói var einn af mörgum áhugamönnum sem hafa lagt hönd á plóg við uppbyggingu Síldarminjasafnsins.

Sérstaklega eru minnisstæð sumarkvöldin mörgu '85 þegar Jói og Lóa kona hans komu til fyrstu aðgerða í björgun Róaldsbrakka.

Ástand brakkans var þá mjög bágborið og því skiljanlegt að flestir vildu að þessi ómynd viki. En þau hjón voru svo sannarlega tilbúin að fórna einhverju fyrir betri framtíð þessa húss og eins og gamansamur nágranni orðaði það, þau þurftu hvorki skyggnishúfur né barðastóra hatta til að skýla andlitum sínum í heldur óvinsælu verki.

Hinn iðni og eljusami maður var ekki af baki dottinn þótt heilsan brysti og hann yrði að láta af störfum. Alltaf á ferðinni út í litla verkstæðið í bílskúrnum eitthvað að sýsla. Þar smíðuðu þeir feðgarnir Njörður og hann t.d. heila trillu. Og með eigin höndum byggði hann sumarbústað á Lambanesási í Fljótum þar sem þau Lóa áttu margar góðar stundir í kvöldsólinni við vatnið.

Með þessum fáu orðum vil ég kveðja gamlan vin og hjálparhellu og votta um leið Lóu og sonum þeirra samúð mína.  

Örlygur Kristfinnsson. 
------------------------------------------------------

SK: Myndin hér fyrir neðan er af rörbút af randsoðnu 3“ "gufuröri". (randsoðin rör eru þó almennt ekki notuð sem gufurör) En þetta rör entist þó í um 35 ár hjá SR á Siglufirði en sprakk að lokum eins og myndin sýnir.  

Jóhann Sigurðsson „allt mögulegt maður“  vann við það að endurnýja þessa gufulögn á sínum tíma (árið 1980) hann sagaði bútinn sem myndin er af og snyrti.

Síðan orti hann neðanritaða vísu, skrifaði á blað og setti inn í opið á rörbútnum.  Lengi var þessi bútur varðveittur í kaffistofu SR-Vélaverkstæðis, og er þar ef til vill enn. Hér er vísan:  --- SK

Að mér sækir ellin grimm
opnast víða sárin
þrjátíu og þessi fimm
þraukað hefi ég árin.

Mínum sporum margur í
mundi eflaust segja
að ég gangi út frá því
ég er nú að deyja.

Þessi rörbótur var síðast er ég vissi, á stalli í kaffistofu SR-Vélaverkstæðis á Siglufirði.