Hannes Garðarsson (Hannes Boy)

Hannes Garðarsson  Fæddur á Siglufirði 1. janúar 1930 - Látinn 18. janúar 1999 –

Faðir Hannesar:  Garðar Steingrímur Friðbjörn Hannesson 1901 – 1960  - 
Garðar Hannesson var ætíð trillusjómaður, en starfaði á sumrin í Síldarverksmiðjunni Gránu, þar aðallega við síldarpressu. En þá voru í upphafi notaðar svokallaðar pokapressur, sem voru handknúnar, en Garðar var mjög vel að manni. Hann var nokkuð drykkfeldur, sem háði honum seinnihluta æfi sinnar.

Barnsmóðir Garðars var

  • Hallfríður Anna Pálsdóttir 1907 - 1989 -
    Þau áttu einnig annan son;
  • Einar Alfred Garðarsson 1931 - 1947 
    --------------------------------------------------  

Ótrúlega mikið má finna á netinu, þar sem nafn og frásagnir tengdar Hannesi finnast.

Hannes Garðarsson - (Hannes Boy)

Hannes Garðarsson - (Hannes Boy)

Byssusaga:

Guðni Gestsson sem býr í Bankok í Tælandi sendi mér eftirfarandi sögu, sem flestir eldri Siglfirðingar hafa heyrt og er skemmtilegt að rifja hér upp.

Einu sinni sem oftar voru þeir Hannes Beggólín (Hannes boy) og Bjarni Finnu sem giftur var Siggu Bjarna, að fá sér í glas, það er þeir voru á fyllirí.

Með þetta ráðabrugg var Sigga kona Bjarna, síður en svo ánægð, en hún var öllu jöfnu nokkuð ýtin við bónda sinn og vildi ráða ferðinni. Hún var síður en svo ánægð með drykkjufélagann Hannes sem var þekktur túramaður en gerði þó aldrei flugu mein frekar en Bjarni.

Hún vissi hvar þeir voru að drekka, drykkjarveisla þeirra félaga átti sér stað í skúr sem Hannes hafði til að geyma veiðarfæri ofl. tilheyrandi trillu sinni sem hann gerði út til að afla sér viðurværis og dropans, sem stundum entist honum til vikunnar. 

"En skúr/hús þetta var við Bátastöðina gömlu, hús sem í dag er horfið en í stað þess er kominn Veitingastaðurinn "Hannes Boy“  með nafn til minningar um þennan vinsæla karakter Hannes Garðarsson,Hannes Boy, góðvinur Róberts Guðfinnssonar, sem þá var ungur drengur."

Þegar drykkjan stóð sem hæðst og félagarnir orðnir vel slompaðir, er barið all harkalega að dyrnar en þeir svara ekki fyrst i stað, svo er barið aftur og nú ofsa hörð högg og kallað með grimmdartón fyrir utan.

“Ég veit að þið eruð þarna inni, og Bjarni komdu strax út og svo rek ég þig heim helvítis skepnan þín og fyllibytta”.

Þessu svarar Hannes hinn rólegasti en þó hvelli röddu.

“Helvítis kerling, ef þú andskotast þér ekki í burtu þá skýt ég þig með haglabyssunni minni, ég er að hlaða byssuna”.

Siggu líst ekki á blikuna og færir sig frá dyrunum. Hannes ryðst út með látum og haglabyssuna í höndunum, Bjarni hreifir sig ekki,  en hann heyrir að það er skotið úr byssunni, en Hannes hafði skotið upp í loftið.

Sigga tóku á rás og forðaði sér í burtu hrædd við þennan brjálæðing !

Þegar Hannes kemur glottandi til baka, spyr Bjarni Hannes með rólegri og yfirvegaðri röddu: 

“Láð hún” ?        

Guðni Gestsson
-------------------------------------------------------

Þessir tveir félagar og nánir frændur, Hannes Garðarsson og Bjarni Bjarnason voru vel þekktir og iðnir við stútinn, en gerðu aldrei neinum mein svo síður væri, Bjarni flutti seinna til Vestmannaeyja ásamt konu sinni Sigríði Bjarnadóttur. (Siggu Bjarna)

Hannes hélt sig á heimaslóðum til æviloka, utan þess sem hann stundaði sjóinn, allt frá trillu sinni til togara og eignaðist marga góða og trygga vini, bæði sér yngri og eldri.

Einn góðan veðurdag fékk Hannes sér skellinöðru, smellti saman fingrum og hætti að drekka, síðar tók hann bílpróf og fékk sér bíl.

Hannes Garðarsson lést árið 1999,  - 69 ára  
Hannes greindist með krabbamein árið 1996 (ca), 
Þá var honum ráðlagt að hætta að reykja, en hann var stórreykingamaður; einn til tveir pakkar á dag.

Hann smellt fingri og sagði. "Nú, þá hætti ég bara að reykja." Það gerði hann átakalaust þar til yfirlauk árið 1999 er hann lést

Upplýsingar:

Amma Hannesar, (Hannes Boy) sem ól hann að mestu upp hét Lilja Björg Bjarnadóttir og "þaðan" fékk Hannes viðurnefnið Beggólín, en sú gamla (einnig amma mín (sk)) var kölluð Begga.  - Lilja Björg var móðir föður míns Kiristins Guðmundssonar útvarpsvirkja.

Viðurnefnin Hannes Boy, og Boyarinn fékk hann um borði einhvejum togaranna sem hann var á. 

Bjarni Bjarnason vinur og frændi Hannesar, var aftur á móti var kallaður “Bjarni Finnu” hann var kenndur við móður sína sem kölluð var Finna; Guðfinna Bjarnadóttir. (Hannes og Bjarni voru systrabörn)  Meira um Bjarna

Steingímur Kristinsson  
-----------------------------------------

Gunnar Trausti

Valgeir Sigurðsson veitingamaður þá kokkur á Hafliða sagði mér þá sögu að einhvern tíma hefði Hannes komið upp í eldhús á útleið, mjög illa fyrirkallaður. Hann spyr Valla hvort hann eigi ekki einhverja bökunardropa? 

Valgeir þótti það ótækt að menn væru að drekka svona óþverra en fann samt handa Boyaranum karidimommuglas  handa honum, sem Hannes skellti í sig. 

-"Hvernig geturðu drukkið þennan óþverra spurði Valgeir." 

Beggólín brosti sínu sætasta:-
"Ég skal segja þér það, að það er yndislegt þegar áhrifin koma. Síðan ropar maður og þá er eins og sé heilt bakarí uppí mér!  
---------------------------------------------------- 

Mjölnir - 29.06.1949
   (Bæjapósturinn)

Hvar er lögreglan?

Þannig spyrja menn ef eitthvað ber að höndum, slys, spellvirki framin eða drukknir menn á almannafæri. Og menn spyrja vegna þess hve oft gengur seint og illa að ná í lögregluþjóna þegar slíkt ber við. Mönnum finnst, að þegar lögregluþjónar eru jafnmargir, og þeir eru nú, þá ætti einn a.m.k. að vera ávallt til taks á lögregluvarðstofunni og vita hvar hinir, sem úti eru, eru á varðgöngu d það og það skiptið.

Tilefni þess, að á þetta er minnst hér, er það, að s.l. mánudagskvöld varð ölvaður maður valdur að því að brjóta stóra rúðu í verslunarglugga hér við Aðalgötuna. Að sögn sjónarvotta hafði maður þessi verið búinn að láta ýmsum ölæðislátum um lengri tíma áður en óhappið vildi til, en lögreglan sást hvergi til að taka manninn úr umferð, og eftir að óhappið skeði leið langur tími uns hægt var að ná í lögregluna.

Eru það áreiðanlega óskir bæjarbúa, að lögreglan hagi vaktgöngum sínum og varðgæslu þannig, að henni sé auðvelt að fylgjast vel með því, sem gerist á götum bæjarins, og að auðvelt sé að ná til hennar ef þörf gerist.
--------------------------------------------------------

Mjölnir - 06. júlí 1949   (Bæjarpósturinn)

Herra ritstjóri.
Í Bæjarpósti Mjölnis 29. júlí 1949 er smágrein með fyrirsögninni: „Hvar er lögreglan", Þar sem flest í þessum greinarstúf, hvað störf lögreglunnar snertir, er ranghermt, þykir okkur rétt að gera ofurlitla athugasemd við greinina og upplýsa hið sanna í rúðubrotsmáli því, er greinin fjallar um.

Eftir að greinarkornshöfundur Bæjarpóstsins hefir á mjög óviðkunnanlegan hátt, og í gróusögustíl, farið nokkrum niðrunarorðum um starfshætti lögreglunnar, segir hann svo orðrétt:

„Tilefni þess, að á þetta er minnst hér, er það, að s.l. mánudagskvöld varð ölvaður maður valdur að því að þrjóta stóra rúðu í verslunarglugga hér við Aðalgötuna. Að sögn sjónarvotta hafði maður þessi verið búinn að láta ýmsum ölæðislátum um lengri tíma, áður en óhappið vildi til, en lögreglan sást hvergi til að taka manninn úr umferð, og eftir að óhappið skeði leið langur tími, uns hægt varað ná í lögregluna."

Sem svar við þessari klausu fer hér, á eftir frásögn Jóns Ólafssonar lögregluþjóns út af atburði þessum:

Frásögn Jóns Ólafssonar. —
Mánudaginn 27. júní 1949 var ég undirritaður lögregluþjónn á vakt frá kl. 21 til 5. Um kl. 23,20 fór ég ásamt Birni Magnússyni lögregluþjóni no. 13 í kaffi upp á Gildaskála K.B.S. Er við gengum, sem leið liggur upp Aðalgötu, fram hjá dyrum „Bíókaffi", heyrði ég þar inni hávaða nokkurn, sem ekki er nýlunda á þeim slóðum, leit ég þar inn, en sá ekkert athugavert.

Skömmu síðar, eða um kl. 23,50, þegar ég fór til baka, sá ég Hannes Garðarsson mjög ölvaðan á Aðalgötunni á móts við Aðalbúðina; í fylgd með honum voru tveir piltar á líkum aldri og hann, sýnilega allsgáðir. Kváðust þeir vera bræður Hannesar og lofuðu að koma honum heim þegar í stað. Gekk ég síðan áfram niður Aðalgötu og hugðist ná í lögreglubílinn og líta eftir því, að þetta yrði efnt.
Er ég kom á lögregluvarðstofuna var bíllinn ekki við. — (Kom síðar í ljós, að Stefán Skaftason, lögregluþjónn no. 12, sem einnig var á vakt þetta kvöld, var þá að aka heim ölvuðum manni).

Gekk ég síðan viðstöðulaust áfram upp Gránugötu og norður Norðurgötu. Er ég kom út á Aðalgötuna sá ég Hannes þar slangrandi einan úti á miðri götu, um leið kallaði til mín maður úr glugga á efri hæð pósthússins og bað mig að taka Hannes, þar sem hann væri búinn að brjóta stóra rúðu í einum glugga Aðalbúðarinnar. Fleira fólk, sem þarna var statt á götunni, tók í sama strenginn.

Leiddi ég síðan Hannes að hinni brotnu rúðu og viðurkenndi hann að hafa framið verkið. Lárus Blöndal var kominn að Aðalbúðinni og sagði ég honum, að lögreglustjóra yrði gefin skýrsla um atburð þennan. Ofangreindur Hannes var síðan færður niður á lögreglustöð og ekið þaðan heim til sín, þar veitti honum móttöku kona, er kvaðst vera honum nákomin, og tók ábyrgð á því, að hann færi þegar að sofa.

Lögregluþjónn no.,12 (Stefán Skaftason) bar kennsl á konu þessa. Skýrsla, er ég gerði um atvik þetta er- dagsett 27. 'júní 1949. Ég álít, að athuguðu máli, að tíminn, sem leið frá því að ég yfirgaf nefndan Hannes í fylgd „bræðra," sinna þar til ég hitti hann aftur einan á Aðalgötunni, hafi verið um 6-8 mínútur.

Ofanrituð orð eru lýsing á afskriftum mínum af máli því, sem gert er að umtalsefni í greininni „Hvar er lögreglan" í Bæjarpósti „Mjölnis"

29. júní 1949." Lögregluvarðstofunni 30/6 '49
Jón Ólafsson
-----------------------------
 
 Af frásögn Jóns er því ljóst, að ummæli Bæjarpóstsins í Mjölni 29. júní s.l. viðvíkjandi rúðubrotinu, hafa við lítil rök að styðjast. Okkur þótti rétt að leiðrétta hinn óviðfelldna söguburð Bæjarpóstsins, fyrst tækifæri gafst, því oft á tíðum gjósa upp hinar fáránlegustu „sögur" um lögregluna, sem illt hefir reynst að bera til baka, vegna þess að lítið hefir verið gert af því að setja þær á prent, fyrr en nú, sem von er.

Að lokum viljum við svo beina þeim tilmælum til aðstandenda Mjölnis, að næst þegar þeir telja ástæðu til að ræða lögreglumál í blaði sínu, verði þeir vandari að heimildarmönnum, og láti sér ekki nægja bæjarslúðrið eitt.

Siglufirði, 5. júlí 1949 Lögregluþjónarnir í Siglufirði.
-------------------------------------------------------------------

Ath. Bæjarpóstsins. —

Ég þakka fyrir upplýsingarnar um rúðubrotsmálið, og dreg ekki í efa, að þær séu réttar. Hinsvegar vísa ég algerlega á bug ummælum, sem eru í formála og eftirmála leiðréttingarinnar, um að ég hafi farið niðrunarorðum um lögregluna. Mér finnst. það líka koma fram, að lögregluþjónarnir álíti, að ummælin um að oft sé erfitt að ná í lögregluna, stafi af einhverri illkvittni í þeirra garð.

Svo var þó ekki, og er mér ljúft að lýsa yfir því, að persónulega hef ég ekki nema hina betu reynslu af lögregluþjónunum. Enda ber vandlæting sú, sem kemur fram í ofanskráðri athugasemd þeirra, ljósan vott um það, hvað þeim er annt um starfsheiður sinn. Hér var sem sagt ekki verið með neina illkvittni eða aðdróttanir í garð lögreglunnar að ræða, heldur aðeins skýrt frá staðreynd; þeirri staðreynd, að oft er erfitt að ná í lögregluna.

Þó að þetta sé sagt, þarf það alls ekki að stafa af því, að viðkomandi álíti, að lögreglan sé kærulaus eða slái slöku við í starfi sínu, heldur getur það stafað af öðrum ástæðum, t. d. þeirri, að lögreglan sé alltof fámenn. Það má vel vera, að ekki sé nóg, að hér séu 14-15 lögregluþjónar, eins og nú er, til þess að alltaf geti verið einn við á varðstofunni, heldur þyrftu þeir e.t.v. að vera miklu fleiri, t. d. 30—50, eða jafnvel ennþá fleiri, máske hundrað, en sé svo, ber vitanlega að sakast um það við viðkomandi yfirvöld, en ekki að nöldra við Bæjarpóstinn yfir því, að hann skýri frá staðreyndum.
---------------------------------------

Undirritaður man eftir frásögnum af þessum atburði sem getið er hér ofar, ma. frásögn annars meints "bróður" Hannesar (Gunnar Sveinbjörnsson) sem fóru með Hannes mjög drukkinn heim til sín, en Hannes hefur flogið út aftur er þeir yfirgáfu hann.

Vissulega er það eingin afsökun að segja að Hannes hafi verið drukkinn er hann braut rúðuna, sem  Gunnar sá hann gera. Engin hávaði eða bein læti áttu sér stað þarna, heldur stafaði rúðubrotið við tilraunir félaga hanns til að hvetja hann til að koma með sér heim , þar sem Hannes hefði verið óvenju mikið drukkinn.

Við þær athafnir hefði Hannes ómeðvitað slengt flösku sem hann hélt á, aftur fyrir sig,  með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði. Hann hafði staðið þétt við gluggann.

En daginn eftir fór Hannes af eigin hvötum, í Aðalbúðina og bað Lárus Þ.J. Blöndal að senda sér reikninginn, þegar ný rúða væri komin í og baðst afsökunar í leiðinni, afsökun sem fúslega var veitt.

Hannes var ekki þekktur fyrir hávaða eða læti, og lenti aldrei í slagsmálum og eða öðrum leiðindum, og var almennt vinsæll á meðal bæjarbúa, þar með unglinga, þrátt fyrir drykkjuskapinn, en því miður, þá hellti hann oft nokkuð miklu af áfengi ofan í sig.  

Einn af mörgum sem dáðu karlinn þegar hann var edrú,  var Róbert Guðfinnsson sem heiðraði minningu Hannesar síðar, með því að nota eitt af gælunöfnum Hannesar: "Hannes Boy" á veitingastað sinn á Siglufirði:.

Nokkrir krakkar áttu þó það til, að hrekkja hann þegar hann var drukkinn og rávandi um götur og bryggjur, en þar sem hann var í eðli sínu barnsgóður, þá tókst þeim ekki að reyta hann til reiði, og viðkomandi krakkar gáfust fljótt upp og breyttu sumir um skoðun á karlinum.

Steingrímur Kristinsson + Heimild: Gunnar Sveinbjörnsson.
-------------------------------------------------

Vísir - 09. apríl 1953   Frétt

Maður drukknar nyrðra

Um kl. 6 í fyrrakvöld vildi það slys til, að ungur maður drukknaði skammt undan landi við Sauðanesvita hjá Siglufirði. Atvik voru þau, að vitaverðirnir í Sauðanesvita höfðu verið á Siglufirði, en fóru svo út eftir aftur í trillubát, og voru þrír menn í bátnum auk þeirra, þeir Hannes Garðarsson, Ólafur Guðbrandsson og Pétur Þorláksson. Höfðu þeir og skektu í eftirdragi.

Er komið var út að Sauðanesvita, reru þeir Ólafur og Pétur vitavörðunum í land, og ætluðu svo aftur út í trillubátinn. Skipti það engum togum, að skektuna fyllti í ólagi, og drukknaði Pétur. Náðist hann fljótlega, en var örendur.
Pétur Þorláksson var aðeins tvítugur að aldri, sonur hjónanna Guðrúnar Jóhannsdóttur og Þorláks Guðmundssonar.
------------------------------------------------

Þjóðviljinn - 04. janúar 1959    (Frétt)

Sjómenn slasast

Tveir slasaðir togarasjómenn hafa verið lagðir í sjúkrahús Ísafjarðar undanfarna daga. Frímann Hauksson, háseti á togaranum Sléttbak var lagður inn með brotið höfuðbein, mun hafa hlotið höfuðhögg.

Hannes Garðarsson háseti á togaranum Elliða var lagður þar inn handleggsbrotinn
------------------------------------------------------------

Mjölnir - 19. maí 1982  (Frétt)

Nýr bátur

Ungir og hressir menn. þeir Stefán Birgisson. Ólafur Gunnarsson og Þormóður Birgisson hafa fest kaup a m/b. Gissuri Hvíta frá Ólafsfirði. Báturinn er um 70 tonn. hið myndarlegasta fley. Gissur Hvíti kom hingað til Siglufjarðar aðfaranótt þriðjudags 18. maí.

Þeir félagar verða við fjórða mann. Hannes Garðarsson verður í vél. Gissur hvíti fer bráðlega á rækju og mun fyrst um sinn landa á Ólafsfirði. Þegar Sigló verður tilbúin að taka á móti rækju landa þeir hér heima. Mjölnir óskar útgerðinni allra heilla.
-------------------------------------------------

Fréttir - Eyjafréttir - 22. desember 1988  

Ég Steingrímur, ætlaði í fyrstu að birta aðeins hluta þessarar greinar,  það er hlutann um Hannes, en ákvað að birta greinina alla. Því greinin í heild, er ekki aðeins fróðleg og skemmtileg, heldur einnig vel skrifuð, að mínu mati,

Lýður Ægisson skrifar: (Um Hannes Garðarsson, ofl )

VASAHNÍFALEXÍAN     Fréttir - Eyjafréttir - 22. desember 1988

Fyrsta sumarið mitt til sjós var ég 13 ára polli og réri með pabba á trillu frá Sigló.

Um haustið þegar skólinn nálgaðist sótti ég um pláss á togaranum Elliða, hjá Kidda Rögg og eftir að hafa hugsað sig um í smá tíma sagði hann. „Lýður minn, ég veit ekki hvers konar barnaheimili þetta skip er að verða en ef þú færð leyfi hjá foreldrum þínum þá skal ég taka þig með í einn túr til prufu, svo sjáum við til með framhaldið."

Ég fór heim og tilkynnti mömmu og pabba að ég væri ráðinn á togarann og að skólinn mætti bara sigla sinn sjó fyrir mér. Pabbi varð alveg vitlaus og sagði að þetta kæmi ekki til greina. „Þrettán ára gutti á ekkert erindi um borð í togara," sagði hann en mamma þekkti mig betur en svo að hún vissi að ekki myndi þýða neitt að stoppa mig af í þessu máli. Endirinn varð sá að ég hafði mitt fram og mætti til skips með pokann minn þá um kvöldið og þóttist heldur betur karl í krapinu.

Á leiðinni niður á bryggju reyndi ég að gera mig eins breiðan og ég mögulega gat, gekk útskeifur, teygði mig uppí loftið og ímyndaði mér að ég væri svaka jaxl. Síðan vippaði ég mér um borð með pokann. En á leiðinni út fjörðinn byrjaði ólgan í maganum og þá fór nú mesti ljóminn af ævintýrinu. Á fyrstu frívaktinni minni þegar ég var kominn í kojuna grét ég oní koddann minn í hljóði og óskaði þess að ég væri kominn aftur með fast land undir fót.

Við sigldum vestur með landi í norðaustan skítaveðri og við viðvaningarnir fengum að vera í koju til að byrja með. Fyrst héldum við að þetta væri vegna þess að allir vildu vera svona góðir við okkur en seinna skildum við að ástæðan var sú að kallinn vildi ekki hafa okkur ælandi og spúandi uppi í brú! Áfram var siglt, fyrir Vestfirðina og alla leið suður að Jökli og þar var byrjað að trolla í sæmilegu veðri.

Ég losnaði ekki við sjóveikina fyrr en eftir tvo daga frá því farið var frá Sigló og þá fyrst fór ég að geta fylgst með því sem var að gerast um borð. Þarna opnaðist fyrir mér alveg nýr heimur. Ég kynntist nýjum mönnum sem ég að vísu hafði séð á mínum uppvaxtarárum og ímyndað mér að væru allt öðruvísi en þeir í raun og veru voru.

Þarna um borð var maður að nafni Hannes Garðarsson. Hann hafði orðið fyrir alvarlegu slysi um borð í togaranum er „normaður," en svo nefnist stykki það sem heldur uppi togblökkunum í gálgum skipa, slitnaði með þeim afleiðingum að önnur hendi hans margbrotnaði er hún skemmdist við borðstokkinn.

Hann varð að vera með leðurhólk um slösuðu höndina alveg upp fyrir olnboga og rétt gat hreift puttana og átti í erfiðleikum með að halda á eldspýtustokk með henni. Hannes var kyndari  um borð og þegar ég sá hann fyrst ætlaði ég ekki að þekkja hann vegna þess að hann var EDRÚ.

Hannes var nefnilega fullikarlinn sem við krakkarnir eltum altaf á götunum heima og stríddum. Þannig hafði ég alltaf séð hann og þekkti hann ekki öðruvísi en fullan. Hann gekk undir tveimur gælunöfnum. Annað var „Boyarinn". Það fékk hann vegna þess að þegar hann ávarpaði fólk, hvort sem það voru karlar eða konur sagði hann: „Heyrðu boy" eða „Kondu hérna boy", eða ef hann heyrði eitthvað sem hann var hrifinn af, þá sagði hann „Boja boja boj " og setti derhúfuna alveg útá hlið á hausnum þannig að við biðum alltaf eftir því að hún dytti af en ég man þó aldrei eftir að það gerðist.

Hitt gælunafnið sem hann hafði var Beggólín. Ekki veit ég alveg hvernig á því stóð að hann fékk það nafn á sig en held að það hafi eitthvað tengst fósturmóður hanns sem kölluð var Begga. (ath. sk amma hans, Lilja Björg Bjarnadóttir)

Þegar Hannes Beggólín var edrú hélt hann sig innan dyra og þess vegna var það alveg nýtt fyrir mig að sjá hann þarna um borð í því ástandi. Ég man að mér fannst karlinn bara virkilega fallegur í framan. Hann var nýrakaður og þveginn og einhvern veginn svo sléttur í andlitinu og bjart yfir honum. Ég var honum samskipa mín fyrstu ár á sjónum þarna um borð og þar fór virkilega góður drengur.

Við sátum oft á góðu spjalli og af honum lærði ég margt um lífið og tilveruna. En hann hafði einn skrýtinn eiginleika. Hann varð alltaf veikur daginn áður en haldið var til hafnar! Andlitið krumpaðist, maginn snerist við og hann hélt engu niðri! Um leið og komið var að landi datt hann í það.

Einu sinni í miðjum túr varð Hannes veikur og enginn skildi neitt í neinu. Þetta var á laugardegi í fínasta veðri og ágætis fiskiríi á Skagagrunninu. Við vorum ekki búnir að vera nema fjóra daga á veiðum og áttum ekki að landa fyrr en þarnæsta mánudag. Hannes lá á lunningunni og gaf múkkunum hádegismatinn sinn með miklum tilbrigðum og kokhljóðum. Hann var aftur orðinn gamall í framan og rauðeygður!

Svenni Björns bátsmaður sagði ákveðinn á svip: „Ég skal hengja mig uppá það að við verðum komnir í land eftir sólarhring hvað sem hver segir". Og viti menn. Um nóttina hrundi spilið og við urðum að sigla til hafnar. Það var mikið hlegið þegar Hannesi var sagt að við værum á leið í land. Hann sagði bara: „Boja boja boj. Nú hélt ég að sá hvítskeggjaði væri að koma að sækja mig. Boja boja boj" .

Og svo setti hann derhúfuna alveg útáhlið! Þarna um borð var einnig lítill feitur og furðulegur karl sem kallaður var Smjatti. Við kölluðum hann þessu nafni af því að hann var þekktur fyrir það að bera sögur í útgerðina og upp í brú. Það var alveg sama hvað gerðist um borð í dallinum, alltaf þurfti hann að blaðra því í útgerðina um leið og komið var að landi.

Hann var þriðji vélstjóri þarna um borð og rak einnig smáverslun í klefanum sínum. Þar gátum við fengið ýmislegt keypt út í reikning. Þarna seldi hann meðal annars sjóstakka, bússur ullarbrækur, ullarvettlinga, ullarhúfur, trefla, ullarsokka, vettlinga, nærföt, sjóhatta sixpensara, skyrtur og hvítar blússur úr segli sem notaðar voru við vinnuna og aldrei mátti þvo vegna þess að eftir því sem þær voru skítugri þá var meira skjól í þeim í nepjunni. Smjatti var mjög montinn af þessari verslun sinni og kallarnir sögðu að hans stærsti draumur væri að verða einhverntíman kaupmaður.

Smjatti var allt öðruvísi týpa en Hannes. Hann vildi láta líta stórt á sig og við guttarnir fengum sko að vita að hann væri yfirmaður á skipinu og við áttum að bera virðingu fyrir honum. En einhvern veginn var það nú svo að við bárum alltaf meiri virðingu fyrir Hannesi kyndara en yfirmanni hans. Smjatti verslaði einnig með vasahnífa og á þeim hlýtur hann að hafa grætt vel því þeir voru hlutir sem skiptu ansi hratt um eigendur þarna um borð. Það giltu ákveðnar reglur á síðutogurunum um vasahnífana.

Ef einhver var svo vitlaus að skilja eftir hnífinn sinn á glámbekk var honum umsvifalaust stolið. Mér þótti alveg furðulegt að sjá hvernig mennirnir geymdu hnífana sína er þeir voru að vinna. Þeir stungu skaftinu á hnífnum uppundir sjóhattinn þannig að hnífsblaðið stóð niður á milli augnanna á þeim. Þannig gátu þeir verið með báðar hendur lausar, höfðu auga á hnífnum og gátu gripið hann á augabragði ef á þurfti að halda.

Sá sem ekki passaði sinn hníf eins og um gull væri að ræða varð bara að fara til Smjatta og kaupa sér nýjan hníf þegar hann uppgötvaði að búið var að stela hnífnum frá honum. Í fyrsta túrnum mínum þurfti ég að kaupa fjóra vasahlífa hjá Smjatta feita þar sem það tók mig smá tíma að átta mig á þessum furðulega vasahnífaleik. En með tímanum varð ég ansi laginn við að bjarga mér í þessum efnum og á tímabili átti ég þrettán vasahnífa geymda í sokk undir dýnunni minni en þar mátti alls ekki stela hnífum af félögunum.

Ef þú varst á annað borð kominn inn í klefann þinn þá voru þínar eigur öruggar, vasahnífar sem annað. Hinar óskráðu reglur voru bara svona og það hvarflaði ekki að nokkrum manni að brjóta þær. Ég hafði eitthvað verið að gorta af því í borðsalnum að ég yrði sennilega að fara að opna vasahnífaverslun bráðlega þar sem dýnan mín væri orðin hálf asnaleg í laginu og óþægilegt að sofa á henni.

Menn sögðu fátt en þegar ég kom frammí lúkar á næstu frívakt var dýnan mín slétt og liggileg, sokkurinn horfinn með öllum hnífunum. Einhver óprúttinn skipsfélagi hafði laumast frammí og stolið sokknum!!!! í það skiptið þurfti ég að kaupa mér bæði sokka og vasahníf hjá Smjatta. Honum tókst illa að leyna ánægjusvipnum á andlitinu í það skiptið kaupmanninum.

Ég var að vonum heldur aumur eftir sokka- og vasahnífatapið og sár yfir því að lúkarsfriðhelgin var rofin á þennan ósæmilega hátt en ekki gat ég ímyndað mér hver hefði framið þennan verknað. Kallarnir voru kímnir á svipinn í borðsalnum og virtist það ekki koma mikið við þá þótt kojan mín hefði verið rænd. Það fannst mér alveg furðulegt.

Daginn eftir atburðinn þurfti ég að skreppa niður til Smjatta en allir yfirmennirnir bjuggu afturí skipinu og hagaði það þannig til að stigi lá niður í smágang og þar voru fimm klefar. Þegar ég ætla að fara að banka á hjá kaupmanninum tek ég eftir skilti á hurðinni hjá bátsmanninum og fór að gá hvað þar stæði. Og þar stóð skýrum stöfum:

  • Á GLASI í KVÖLD KLUKKAN 6.30 VERÐUR HALDIN ÚTSALA  Á NOTUÐUM VASAHNÍFUM
  • 50% AFSLÁTTUR.
  • EINNIG VERÐUR SELDUR ILLA LYKTANDI SPARISOKKUR MEÐ 99% AFSLÆTTI
  • EN SALAN Á SOKKNUM VERÐUR AÐ FARA FRAM UPPÁ DEKKI
  • VEGNA SPRENGIHÆTTU AF VÖLDUM TÁFÝLU. 

MÆTIÐ STUNDVÍSLEGA.  BÁTSMAÐURINN.

Þetta orðalag - "á glasi" - var alltaf notað um vaktaskipti á togurum. Þetta var eitt af þeim orðum sem ég lærði ásamt ótal mörgum öðrum nýyrðum s tilheyrðu sjómennskunni.

Á glasi var ég mættur á uppboðið en þar var enginn nema uppboðshaldarinn. Hann stóð út við lunningu og sveiflaði sokknum mínum með hnífunum í kæruleysislega í hringi.

„Komdu hérna Lýður minn ég þarf að ræða aðeins við þig", sagði bátsmaðurinn vingjarnlega. Við settumst niður á grindina og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera þar sem bátsmaðurinn var svo undarlega alvarlegur á svipinn. Það voru nokkrir múkkar að fljúga með okkur í ætisleit svo að ég fór að glápa á þá til að gera eitthvað. Svenni hélt áfram að sveifla sokknum í hringi. Allt í einu hætti hann því og sagði:

„Ég þarf að segja þér svolítið í sambandi við vasahnífana, vinur minn. Þú ert ekki nema þrettán ára gamall gutti og það er nú heldur lágur aldur til að fara að lifa innanum harðsvíraða togarajaxla sem þekkja lífið út og inn. Ég hef tekið eftir því að þú varst ansi fljótur að læra reglurnar í sambandi við vasahnífana en þú mátt ekki misskilja tilganginn á bak við Ieikinn, vinur minn.

Það er alls ekki meiningin að fara að kenna ykkur guttunum að bjarga ykkur með því að stela hnífum og öðru smádóti. Það gæti þróast í vitlausa átt og orðið til þess að ykkur þætti bara eðlilegt að taka svona hluti traustataki í framtíðinni á leið ykkar í gegnum lífið.

Meiningin á bak við þennan leik er allt önnur og hefur mun djúpstæðari merkingu." Þarna þagnaði bátsmaðurinn og drjúga stund fylgdumst við með múkkunum sem flugu með skipinu. Ein og ein lifur rann út um lensportið og múkkarnir voru fljótir að skella sér niður og gleypa góðgætið. Ég kíkti útundan mér á Svein og mér fannst hann feikna gáfulegur á svipinn. Það var eitthvað stórkostlegt við þessa stund þarna á grindinni.

Allt í einu skildi ég að þetta samtal okkar var engin tilviljun. Á bak við þetta stóðu allir karlarnir ásamt skipstjóranum. Það var komið langt fram yfir venjulegan togtíma og ef allt hefði verið eðlilegt ættu karlarnir að vera að vinna á dekkinu en það sást ekki nokkur maður við vinnu. Tíminn virtist standa í stað. Það var blankalogn og í fjarska sást í ljós á öðrum togara sem þarna var að veiðum. Stjörnurnar virtust óvenju bjartar og lýstu upp himininn.

Nú byrjaði bátsmaðurinn að tala aftur og sveiflaði sokknum mínum um leið í hringi. Hnífarnir þrýstust fram í tána á sokknum og ég sá alveg í hendi mér að ég gæti ekki notað þennan sokk sem sparisokk í framtíðinni vegna þess að hann var orðinn helmingi lengri en hinn sokkurinn. „,Það sem þú átt að læra af leiknum með vasahnífana er það að passa vel uppá það sem þú átt. Sjómaður sem skilur eftir vasahnífinn sinn á glámbekk er hirðulaus trassi og þess vegna er það honum lexía að taka vasahnífinn hans traustataki. Þannig Iærir hann að fara vel með það sem hann á og einnig eigur annarra sem honum er treyst fyrir."

Bátsmaðurinn þagnaði smástund og hélt síðan áfram: „Um borð í svona togara eru þrjátíu og tveir menn. Þetta er lítið samfélag og þess vegna verðum við að búa okkur til reglur til að fara eftir. Hver einstaklingur hefur sínu hlutverki að gegna og til að allt fari vel og húmorinn sé í lagi verða menn oft að staldra við og athuga sinn gang. Það þarf svo lítið til að húmorinn hrynji til grunna og á þannig skipi er ekki gott að vera."

Enn kom smá þögn og saman horfðum við á fjóra múkka berjast um sömu lifrina sem hafði runnið út um Iensportið. Þegar þeim slagsmálum var lokið og sá heppni var floginn frá skipinu út í myrkrið og sást ekki lengur hélt Svenni áfram: „í hásetaklefunum búa saman sex menn og verða að deila litlu plássi saman meiri partinn af árinu úti á sjó. Hver maður hefur eina koju og einn skáp sem er ólæstur. Þess vegna er okkur svo heilagt að geta treyst því að hlutir sem við erum með á þessum stöðum fái að vera í friði.

Sá sem brýtur þessa reglu um borð í íslensku skipi er ódrengur og ætti bara að vera í landi. En eins og þú sérð þá braut ég þessa reglu á þér og rændi þessum sokk undan dýnunni þinni en það gerði ég í alveg ákveðnum tilgangi vinur minn. Nú ert þú búinn að vera með okkur í nokkra túra og mér sýnist að þú ætlir að vera áfram hér um borð. Þú ert ekki nema þrettán ára gamall strákur og ættir að vera með jafnöldrum þínum í landi að klára skyldunámið.

En þar sem þú ætlar greinilega að gefa frat í allt nám og snúa þér að sjónum Þá verður einhver hér um borð að taka það að sér að ala þig upp!!! Þetta er mikil ábyrgð sem þú leggur á okkur með því að hoppa beint úr bleyjunni hingað um borð í þennan togara en ég held að við séum menn til að ráða við þá ábyrgð. Til að byrja með ætla ég að biðja þig að gorta aldrei af því aftur að hafa náð þér í vasahníf vegna trassaskapar annars manns eins og þú gerðir í gær í borðsalnum. Þar er alveg næg refsing fyrir hann að hafa misst hnífinn.

Síðan ætla ég að biðja þig vinur minn að leita til mín ef þú átt við einhver vandamál að stríða í framtíðinni." Nú leit bátsmaðurinn á klukkuna, hristi hausinn og sagði: „Ég held að kallinn sé orðinn eitthvað skrýtinn, hann er búinn að toga í tvo og hálfann tíma og það hefur hann ekki gert síðan ég byrjaði hér um borð. " Síðan horfði hann hugsi á sokkinn með vasahnífunum í og bætti svo við. „Það virðist enginn ætla að mæta á uppboðið svo að ég sé ekki neina ástæðu til að vera að halda uppá þennan sokk." Síðan sveiflaði hann sokknum langt út í sjó með öllum hnífunum í.

Nokkrir múkkar tóku sprett á eftir sokknum en sneru fljótt aftur frá staðnum sem hann hafði lent á. Kannski þeir hafi fundið einhverja einkennilega lykt í loftinu. Það var eins og þetta hafi verið merki frá Sveini því að strax á eftir kallaði skipstjórinn „HÍFA" og karlarnir fóru að tínast fram á dekkið. Ég sá aldrei eftir þessum sokk né heldur hnífunum. Ég hafði eignast eitthvað ennþá betra þetta kvöld. -Vin fyrir lífstíð!!
------------------------------------------------------------------------

Sigurður Fanndal

Hanes Beggolín.
Fljótlega eftir að Georg frændi dó og ég tók við Veiðarfærabúðinni kom Hannes inn, hallaði sér framm á búðarborðið og hvíslaði að mér hvort ég vildi skrifa hjá sér Camelkarton, þar til ELLIÐI kæmi inn næst. Hannes var skipverji á ELLIÐA.

Eitthvað fannst mér Hannes óhrjárlegur og kuldalegur tll fótanna, svo að ég laumaði ullarsokkapari og gúmmívettlingum ofaní GULA pokann með kartoninu.

"Á ég ekki að kvitta" spurði Hannes.

Nei sagði ég.

Ég gleymi seint hvað Hannes sagði þegar hann stikaði út í stórhríðina. "Heyrðu boy. Þú ert þyngdar þinnar virði í skíragulli".

Ógleymanlegt. Búðarmaðurinn hjá mér þá, spurði mig hvort ég ætlaði virkilega að skrifa hjá öllum.
Nei sagði ég. Sástu ekki hve augun í honum voru barnslega heiðarleg.

Vart var búið binda ELLIÐA næst, þegar Hannes var mættur til að borga skuldina. Lét hann borga kartonið.

Enn sokkarnir og hanskarinir spurði Hannes. - Ég þóttist ekki heyra.

Hannes eignaðst trilluhorn sem hann erfði eftir pabba sinn (SVANUR SI ), sem færði honum ómælda ánægju.

Eftir það rofaði til hjá Hannesi. Hann var einhverju sinni staddur niður á Hafnarbryggju. Þar er Gvendur í bænumn á flottu NSU skellinöðrunni sinni og býður Hannesi að prófa.

Gekk fínt.

Þar með keypti hann sér nöðru og hætti að drekka! Síðar tók hann bílpróf og keypti sér Volkswagen.
Lánaði honum oft seinna.

Klikkaði aldrei.
SF

Frjáls verslun - 2014
Frjáls verslun - 2014
Garðar Hannesson ásamt sonum sínum; Einar Garðarsson og Hannes Garðarsson
islendingabok.is
islendingabok.is