Jóhann Kristinn Kristjánsson verkstjóri

Jóhann Kristjánsson andaðist í Sjúkrahúsi Siglufjarðar 23. október 1991 og var útför hans gerð frá Siglufjarðarkirkju.

Foreldrar Jóhanns voru Björg Þorbergsdóttir og Kristján Björnsson.

Hann ólst upp hjá Jóhanna Þorbergsdóttir móðursystur sinni og manni hennar, Helgi Helgason, sem bjuggu á Hringveri í Skagafirði.

Jóhann Kristjánsson ólst upp við öll venjuleg sveitastörf og man ég eftir því að móðir mín sagði mér að þau hefðu verið samtímis á Hólum í Hjaltadal þar sem hann var við tamningar. Á þessum árum var Jóhann vinnumaður á ýmsum bæjum í Skagafirði. Átti Jóhann þá mjög góða hesta enda viðurkenndur hesta- og tamningamaður.

Jóhann flyst til Siglufjarðar 1933 og vinnur hann þá alla venjulega verkamannavinnu.

Hann hefur störf hjá Rafveitu Siglufjarðar um 1940 og er fastráðinn verkstjóri hjá rafveitunni 1944, þegar byrjað er á byggingu Skeiðsfossvirkjunar.

Jóhann Kristjánsson - Ljósmynd Kristfinnur

Jóhann Kristjánsson - Ljósmynd Kristfinnur

Hann tók þátt í að leggja háspennukerfið á Siglufirði ásamt því breyta öllu dreifikerfi Rafveitu Siglufjarðar úr loftlínum í jarðstrengi. Jóhann gerþekkti því allar götulagnir og kom sú vitneskja hans oft að góðum notum þegar um viðgerðir í götum var að ræða.

Einnig var það mikils virði þegar dreifikerfi rafveitunnar var kortlagt að geta stuðst við þekkingu hans.

Jóhann vann með fimm rafveitustjórum og með undirrituðum í 15 ár. 

Jóhann slasaðist mikið árið 1967, þegar hann varð undir þungum stafla af spónaplötum á verkstæði rafveitunnar. Var hann lengi frá vinnu og gekk undir margar erfiðar skurðaðgerðir, sýndi hann fádæma hörku og dugnað á þessu tímabili, en til vinnu kom hann aftur og hætti ekki fyrr en fullum starfsaldri var náð.

Á þessu erfiða tímabili kom í ljós hvað Jóhann átti einstaklega rólega skaphöfn og dáðist ég að honum fyrir hvað hann tók þessum erfiðleikum með mikilli karlmennsku.

Jóhann hóf sambúð með María Benediktsdóttir árið 1947, ættaðri úr Þingeyjarsýslu, eignuðust þau tvö börn: 

1) Jóhanna Jóhannsdóttir , og 

2) Sigurbjörn Jóhannsson. 

María átti dóttur áður, 

Una Ásgeirsdóttir. Þau eru öll gift og barnabörnin eru orðin 11 og barnabarnabörnin einnig 11.

Jóhanni var mjög umhugað um fjölskylduna og gekk hann Unu í föðurstað og voru barnabörnin hans mesta yndi.

María og Jóhann gerðu upp íbúðarhúsið í Haganesi í Fljótum þar sem fjölskyldan átti athvarf og stundaði Jóhann gjarna veiði í Miklavatni á sumrin og naut verunnar þar mikið 

Ég minnist hans með miklu þakklæti fyrir þann tíma sem við unnum saman, hann var duglegur, samviskusamur og trúr starfsmaður og hafði sem verkstjóri rafveitunnar oft mikil mannafáráð. Hann hafði sérstakt lag á með sínu rólega fasi að ná miklum árangri við oft erfiðar aðstæður.

Að leiðarlokum vil ég þakka samstarf sem aldrei bar skugga á, og votta Maríu og börnunum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson – 1991
---------------------

2. nóvember 1991

Minning: Jóhann K. Kristjánsson - Siglufirði 

Fæddur 4. september 1910 Dáinn 23.

Minning: Jóhann K. Kristjánsson - Siglufirði Fæddur 4. september 1910 Dáinn 23. október 1991 Hann afi okkar er dáinn, hann afi sem alltaf var svo stór hluti af lífi okkar. Hann afi sem var okkur alltaf svo góður og kenndi okkur svo margt.

Ekki er það ætlun okkar hér að greina frá lífshlaupi afa en okkur langar að minnast hans eins og hann er og verður alltaf í okkar huga.

Afi okkar er fæddur á Siglufirði en ólst upp frá unga aldri hjá móðursystur sinni í Skagafirðinum. Hann hafði ætíð mikinn áhuga á hestum og starfaði meðal annars við tamningar á yngri árum. Hann flutti til Siglufjarðar og starfaði hjá Rafveitu Siglufjarðar í um 40 ár og þar af verkstjóri til margra ára.

Afi og amma, María Benediktsdóttir, hófu búskap á Siglufirði 1947 og eignuðust þau tvö börn, Sigurbjörn og Jóhönnu Björgu. Fyrir átti amma eina dóttur, Unu, sem afi gekk í föðurstað og aldrei munum við eftir öðru en að hún væri eitt barnið hans afa. Una er gift Einari Einarssyni og eiga þau þrjú börn, Maríu Mörtu, Kristínu og Jón Ásgeir. Sigurbjörn er giftur Ásu Jónsdóttur og eiga þau einnig þrjú börn, Maríu Elínu, Jón Heimi og Jóhann Má. Yngst er svo mamma okkar, Jóhanna, sem gift er Guðmundi H. Hagalín og synirnir eru fimm, Jóhann, Egill Rúnar, Hjörtur, Helgi Pétur og Grétar. Barnabarnabörnin þeirra ömmu og afa eru nú orðin 11.

Þegar litið er til baka er erfitt að gera upp á milli allra þeirra góðu stunda er við áttum hjá afa og ömmu á Siglufirði. Og ekki fer minna fyrir minningunum úr Haganesi II í Fljótum, ættarsetrinu hennar ömmu og systkina hennar, en þar áttum við hamingjuríkar stundir við leik og störf.

Í Miklavatn lagði afi oft mörg net, sem vitjað var um eldsnemma á morgnana. Litlir drengir máttu ekki missa af svo stórum stundum og hætt er við að peysa hafi snúið öfugt endrum og sinnum þegar pottormarnir hálfsofandi þeyttust í fötin kl. sex á morgnanna til að fara með afa að vitja um. Þá voru líka veiðistengurnar teknar með og óþrjótandi var þolinmæðin hans afa þegar greiða þurfti úr flækjum eða losa spúninn þegar hann sat fastur á botninum, þegar við drógum ekki nógu hratt inn línuna. Afi brosti þá að öllu saman og sagði að óþarfi væri nú að veiða allt landið. Afi var bjargvætturinn sem leysti öll 

vandamál í þessum veiðitúrum og þegar enginn fiskur fékkst hughreysti hann okkur og sagði að það gengi bara betur næst.

En oft var veiðin mikil og fiskurinn stór og þóttust þá litlir pollar miklir menn þegar þeir roguðust með veiðina heim í Haganes til ömmu, því auðvitað þurftu þeir að bera veiðina. Þá tók við vinnan, því gera þurfti að og undirbúa fyrir pottinn eða fletja fyrir reykingu og hengja svo upp í reykingakofann. Og mikill var spenningurinn þegar fiskurinn var tilbúinn, því að reykti fiskurinn hans afa var hreinasta sælgæti.

En veiðiskapurinn var ekki það eina sem var heillandi við Haganesið. Kvöldin voru ógleymanleg er við áttum þar með afa og ömmu, ekki síst þegar tók að skyggja, þá kynnti amma kolavélina og svo var spilað við ljósin frá olíulömpunum.

Það var einmitt mikið áhugamál hjá afa að spila á spil og aldrei var langt í spilastokkinn hvar sem hann var og margar ógleymanlegar stundir áttum við þar sem spilin áttu í hlut. Þar lærðum við það að vinna var ekki alltaf aðalatriðið, heldur það að vera með og hafa gaman af.

Þegar afi var 57 ára varð hann fyrir slysi sem setti mark á hann alla tíð eftir það, en aldrei heyrðist kvörtun eða kvein frá afa. Hann tók öllu með þvílíku jafnaðargeði að undrun sætti. Eitt merki sem hann bar eftir þetta slys var það að annar fótur hans varð styttri en hinn og af því leiddi að hann gekk örlítið haltur. Því var það að þegar við fengum að fara með afa að versla, sem ekki var svo sjaldan, reyndum við oft að herma eftir honum Okkur er sagt af áhorfendum að þessu uppátæki, að það hafi verið stórkostleg sjón, að sjá afa ganga eftir götunni með barnabörnin, stundum 3 eða 4 á eftir sér í halarófu og öll reyndu þau að ganga eins og afi. En auðvitað vissi hann af þessu og skemmti sér hið besta.

Allt tekur enda og barnæskan líka, en alltaf var jafngott að koma til afa og ömmu. Þegar ungir menn komu til Siglufjarðar, búnir að ráða sig á skip í sumarafleysingar, stóð heimili afa og ömmu opið sem okkar annað heimili, amma þvoði af okkur og hugsaði um okkur eins og börnin sín og afi, sem þá var hættur að vinna sökum aldurs, keypti inn svo dóttursynirnir hefðu nú nóg að borða meðan stoppað var í landi. Já, einmitt svona var alltaf hjá afa og ömmu, alltaf ást og innileiki.

Við gætum haldið áfram svona endalaust, en einhvers staðar verður að stoppa. Afi unni okkur mikið, það fundum við í öllu hans atlæti þó hann væri ekki maður margra orða. Og þær tilfinningar sem við berum til hans komast aldrei fullkomlega til skila með orðum einum.

Elsku amma, guð geymi þig og leiði um ókomin ár.

Jóhann og Egill Rúnar