Baldur Trausti Eiríksson og Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir

Baldur Trausti Eiríksson fæddist þann 14. júlí 1913 á Ísafirði og lést þann 13. ágúst 1998 á Siglufirði.

Baldur starfaði lengstum að sjávarútvegi á Siglufirði, en þangað fluttist hann árið 1937 eftir að hafa unnið hluta áranna 1935–36 á fiskmörkuðum í Hamburg-Altona hjá Firma Hermann Wegener og við skrifstofustörf hjá Nordsee Hochseefischerei, GmbH í Cuxhaven.

Þegar Baldur kom til Siglufjarðar tók hann við ritstjórn Siglfirðings, blaðs sjálfstæðismanna á Siglufirði. Hann var fréttaritari Vísis í mörg ár, fréttaritari ríkisútvarpsins frá 1946 til 1969. Baldur vann við verslunar- og skrifstofustörf á Siglufirði frá 1938, á skrifstofu Síldarverksmiðja ríkisins 1943–64. 

Baldur Eiríksson og Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir - Ljósm. Kristfinnur

Baldur Eiríksson og Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir - Ljósm. Kristfinnur

Á fyrstu  Siglufjarðarárunum kenndi Baldur við Iðnskólann og Gagnfræðaskólann og einnig á stýrimannanámskeiðum sem þar voru haldin. Síðar var hann prófdómari við þessa skóla í mörg ár.

Árin 1964–69 gegndi hann starfi framkvæmdastjóra hjá Útgerðarfélagi Siglufjarðar h.f. 

Baldur flutti til Akraness eftir rúmlega 30 ára veru á Siglufirði og starfaði þar sem fulltrúi hjá Sementsverksmiðju ríkisins uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Stjórnmálaáhugi Baldurs vaknaði snemma. Hann var kosinn í bæjarstjórn á Ísafirði árið 1935, aðeins 22 ára gamall og sat í nokkrum nefndum.

Baldur starfaði fyrir Sjálfstæðisflokkinn alla ævi og fram á síðustu ár. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn í bæjarmálum á Siglufirði. Hann var bæjarfulltrúi fyrir flokkinn og forseti bæjarstjórnar 1954–1966. Í bæjarráði þar, hafnarnefnd, rafveitunefnd og fyrsti formaður fræðsluráðs Siglufjarðar 1962–66.

Hann sótti fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Fjórðungssambands Norðlendinga fyrir hönd Siglfirðinga og var jafnframt formaður sambandsins um skeið. Baldur sat lengi í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra og var formaður þess 1963–64. Eftir að Baldur flutti til Akraness tók hann upp þráðinn frá Siglufirði og átti lengi sæti í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna á Akranesi, og sat auk þess í skólanefnd Akraness og í yfirkjörstjórn kaupstaðarins.

Hann sat einnig í kjördæmisráði flokks síns í Vesturlandskjördæmi. Baldur var mikill áhugamaður um félagsmál af ýmsum toga. Á Siglufirði var hann m.a formaður Stúdentafélags Siglufjarðar, Sögufélags Siglufjarðar og Norræna félagsins. Á Siglufirði gekk hann til liðs við Rotaryhreyfinguna og var ritari klúbbsins á Siglufirði 1961–63 og forseti 1964–65. Hann var gjaldkeri Rotaryklúbbs Akraness 1972–73 og forseti 1974–75. Hann var umdæmisstjóri Rotaryumdæmisins 1979–80, og sat í fulltrúaráði Rotary Norden 1983–85 sem varamaður og aðalmaður frá 1986.

Baldur var útnefndur Paul Harris félagi í Rotary International 1986, en það er æðsta iðurkenning hreyfingarinnar og ber nafn stofnanda hennar. Um langt árabil starfaði Baldur í Frímúrarahreyfingunni. Hann var formaður framkvæmdanefndar um byggingu leiguíbúða á Akranesi 1975–78 og ritari Náttúruverndarsamtaka Vesturlands 1978–80.  Eins og áður er getið var Baldur ritstjóri Siglfirðings 1937–38 og annaðist útgáfu blaðsins 1940–47. Hann var jafnframt í ritstjórn Stúdentablaðs Siglufjarðar 1939–43, ritstjóri blaðsins Snæfell 1982–84.

Hann birti greinar m.a. í Sunnudagsblaði Vísis, Morgunblaðinu, Siglfirðingi, Ársriti Garðyrkjufélags Íslands, Heima er bezt og Rotary Norden. Eftir hann liggja í handriti ógrynni af ávörpum og ræðum sem voru fluttar við margvísleg tækifæri.   

Baldur Trausti Eiríksson, f. 14. júlí 1913 á Ísafirði, d. 13. ágúst 1988 á Siglufirði. Framkvæmdastjóri á Siglufirði og síðar fulltrúi á Akranesi. –

Kona hans 14. júlí 1943, (skilin), Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir, f. 22. júlí 1911 á Hámundarstöðum í Vopnafirði, d. 19. sept. 1967.  For.: Sveinbjörn Sveinsson, f. 29. apríl 1875 í Selási, Þorkelshólshr., V-Hún., d. 25. apríl 1945. og Guðbjörg Gísladóttir, f. 20. apríl 1874 á Hafursá, Vallahr., S.-Múl., d. 13. júlí 1955. 

Börn þeirra, Baldurs og Hólmfríðar:

  • a) Birgir Baldursson, f. 31. okt. 1940, 
  • b) Daníel Pétur Baldursson, f. 3. okt. 1942, 
  • c) Kristín Guðbjörg Baldursdóttir, f. 3. okt. 1942,
  • d) Elsa Baldursdóttir (Magna), f. 30. júlí 1945, 
  • e) Drengur, f. 4. febr. 1947,
  • f) Hólmfríður Baldursson, f. 16. mars 1948, 
  • g) Anna Þóra Baldursdóttir, f. 23. júlí 1950, 
  • h) Eiríkur Brynjólfur Baldursson, f. 24. apríl 1952, 
  • i) Drengur, f. 26. febr. 1954.
    Synir Hólmfríðar: 
  • j) Júlíus Pétur Emil Eiríksson, f. 31. ágúst 1935, 
  • k) Guðmundur Eiríksson, f. 28 júní 1937 - K. 22. Júní 1965

Mjög góðar upplýsingar á vefnum: http://www.eirikur.is/nidjatalid.pdf 
----------------------------------------------  

Morgunblaðið - 23. ágúst 1988

Baldur T. Eiríksson - Minning Fæddur 14. júlí 1913-  Dáinn 13. ágúst 1988 Hinsta kveðja frá börnum, tengdabörnum og barnabörnum.

  • Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína
  • sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
  • Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,
  • sem hugsar til þín alla daga sína.

  • En meðan árin þreyta hjörtu hinna
  • sem horfðu eftir þér í sárum trega,
  • þá blómgast enn, og blómgast ævinlega ,
  • þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

(Tómas Guðmundsson)

  • Far þú í friði,
  • friður Guðs þig blessi,
  • hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdimar Briem)

Það er eitthvað táknrænt við það þegar menn deyja þá þeir eru að gegna skyldum sínum. Baldur Trausti Eiríksson var einmitt að flytja ávarp í tilefni afmælishátíðarhalda á Siglufirði þegar kallið kom og skömmu síðar var hann allur.

Baldur T. Eiríksson var fæddur á Ísafirði þann 14. júlí 1913, sonur I hjónanna Eiríks Brynjólfs Finnssonar og konu hans, Kristínar Einarsdóttur. Stúdent frá MA varð hann 1934. Eftir stúdentspróf sigldi hann til Þýskalands og starfaði hjá útgerðarfyrirtækjum þar.

Árið 1937 fluttist hann til Siglufjarðar. Þar starfaði hann að margvíslegum verkefnum, varð framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Siglufjarðar 1964 og til 1969. Auk þess kenndi hann við Gagnfræðaskólann þar og við námskeiðahald. Hann var og prófdómari. Árið 1969 flutti hann búferlum til Akraness og réðst sem fulltrúi hjá Sementverksmiðju ríkisins. Með þessu hófst nýr kafli i lífi hans og þar nutu sín sem fyrr hæfileikar hans, þekking og reynsla. Baldur var alla tíð mjög félagslyndur.

Störf hans í þágu Sjálfstæðisflokksins bera þess glöggt merki. En eins og allir bestu liðsmenn flokksins var hann alltaf sjálfum sér samkvæmur. Enginn fékk hann til að gera það, sem hann taldi sjálfur vera rangt. Hann miðlaði öðrum af reynslu sinni en var jafnan fús að hlýða á skoðanir annarra og meta reynslu þeirra. Hann hafði góða yfirsýn yfir málefni dagsins og var fljótur að koma auga á færustu leiðir. Hann var kosinn í bæjar stjórn Ísafjarðar 1935. Þegar til Siglufjarðar kom hóf hann fljótt afskipti af bæjarmálum.

Forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar var hann á árunum 1954—1966, auk þess sem hann gegndi ábyrgðarstörfum sem því tengdust. Þá var hann auk þess virkur í ýmsum félögum og menningarsamtökum. Eftir að hann kom til Akraness var honum enn trúað fyrir mikilvægum störfum bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og önnur félagasamtök og verða þau störf ekki talin upp hér.

Fyrri kona hans var Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir, ættuð úr Vopnafirði. Hún lést árið 1967. En eftirlifandi eiginkona er Aldís Dúa Þórarinsdóttir.

Börn Baldurs og Hólmfríðar eru:

  • Birgir Baldursson, verkfræðingur Kaupmannahöfn;
  • Kristín Baldursdóttir, húsfrú á Siglufirði;
  • Daníel Baldursson, framkvstj. Siglufirði;
  • Elsa Baldursdóttir, húsfrú Siglufirði;
  • Eiríkur Brynjólfur Baldursson, við fjölmiðlanám, Kópavogi;
  • Anna Þóra Baldursdóttir, húsfrú Svíþjóð.

Mikilhæfur maður er horfinn af sjónarsviði. í huga okkar vina hans ríkir nú söknuður. En minningarnar hrannast upp. Sameiginleg áhugamál, sömu markmið og samstarf. Við frímúrarar á Akranesi erum þess fullvissir að það var gæfa okkar að Baldur veitti félagi okkar forystu um skeið. Starf hans bar ávöxt, það finnum við og þarf ekki um það að ræða enda erfitt að finna orð við hæfi. Þótt vinur sé horfínn yfir mörk lífs og dauða mun starf hans í okkar þágu halda áfram að bera ávöxt og blómstra.

Við frímúrarar á Akranesi minnumst vinar með söknuði og vináttu. Starf Baldurs við stjórnvölinn varð okkur til gæfu og orð hans hafa auðgað okkur og þroskað. Við flytjum þér Dúa og öllum aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur. Við vitum að söknuðurinn er mikill, en það er líka gæfa að hafa átt góðan mann að.

Jón Eiríksson
-----------------------------------------------------

Svo örstutt er bilið milli blíðu og éls og brugðist getur lánið frá morgni til kvelds. Mér komu í hug þessar ljóðlínur Matthíasar Jochumssonar og hversu mikinn sannleik þær hafa að geyma og ganga oft eftir, þegar ég sá vin minn Baldur Eiríksson falla í ómegin mitt í frábærri ræðu, er hann flutti í afmælisfagnaði er Siglufjarðarbær efndi til í tilefni 70 ára kaupstaðarréttinda staðarins. Ræðan var hugljúfur óður til bæjarins, sem hann unni svo mjög, og snart hún alla viðstadda.

Mér og öðrum var felmt við — þegar við skömmu síðar fréttum að hann hefði látist á sjúkrahúsinu. Þessi ræða var það eftirminnileg að forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, sem heiðraði okkur Siglfirðinga með nærveru sinni þennan dag og stödd var í hófi þessu, lét í ljós þá ósk að hún vildi gjarnan fá að sjá þessa ræðu á prenti.

Baldur var hress og kátur þegar hann kom hingað fyrir nokkrum dögum ásamt eiginkonu sinni Dúu — en þau hjón voru í boði bæjarstjórnar Siglufjarðar og höfðu meðferðis bók er þau höfðu í sameiningu unnið að um langan tíma og innihélt ræður Baldurs og ávörp, er hann hafði flutt sem forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar á árunum 1954—1966. Þessa bók hugðist hann afhenda í lok ræðu sinnar í framangreindu hófi til forseta bæjarstjórnar.

En enginn ræður sínum næturstað. Bókin var að vísu afhent en ekki af Baldri — því miður. En hún er hinn mesti kjörgripur og prýðilega unnin og allur frágangur til fyrirmyndar og gefur okkur innsýn í sögu Siglufjarðar. Baldur hafði mjög gott vald á íslenskri tungu og kemur það vel fram í þessari ágætu bók. Hún getur orðið leiðarljós þeim er vilja vita nánar um þetta tímabil og önnur.

Það er ekki að efa að mikil vinna hefir legið að gerð þessarar bókar og eiga þau hjón miklar þakkir skilið. Þó Baldur hafi dvalið í 19 ár á Akranesi, þá dvínaði aldrei áhugi hans á Siglufirði og málefnum hans og vert er að minnast ræktarsemi hans og Dúu konu hans við Bókasafn Siglufjarðar. Hún var einstök.

Baldur var Ísfirðingur að ætt, fæddur 14. júlí 1913, sonur hjónanna Kristínar Einarsdóttur frá Hrísholti í Reykhólasveit og Eiríks Finnssonar verkstjóra á Flateyri. Báðar ættir Baldurs eru kunnar fyrir vestan.

Hann lauk stúdentsprófi frá MA á Akureyri 1934, með góðum vitnisburði. Fór til Þýskalands og starfaði bæði í Hamborg og Cuxhaven um tíma. Síðan lá leiðin til Ísafjarðar og þá var hann kosinn í bæjarstjórn aðeins 22 ára gamall. Ekki undi hann lengi á æskustöðvum sínum enda atvinnulíf þar fábreytt.

Hélt því til Siglufjarðar, en sá bær heillaði marga á þeim árum enda meiri atvinnumöguleikar þar en víðast hvar annars staðar á landinu og mikill ævintýraljómi yfir staðnum. Til Siglufjarðar lágu leiðir manna frá hinum ýmsu þjóðlöndum er tengdust síldariðnaðinum — hér voru margar tungur talaðar og lífið mjög fjölbreytilegt og hressandi og í þessa ólgandi iðu kom Baldur aðeins 24 ára gamall og tók strax ástfóstri við staðinn — og sú ást var fölskvalaus og djúp allt til hinstu stundar.

Baldur var góður tungumálamaður, sem kom sér vel f þessum hrærigraut tungumála er hér heyrðust á síldarárunum. Þegar hingað kom gerðist hann ritstjóri Siglfirðings um tíma, blaðs sjálfstæðismanna á staðnum og annaðist oftlega útgáfu þess jafnframt verslunar- og skrifstofustörfum. 1943 hóf hann störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins til ársins 1964.

Þá gerðist hann framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Siglufjarðar til ársins 1969 að hann flýtur til Akraness. Hann var kosinn í bæjarstjórn Siglufjarðar 1954 og forseti hannar í þrjú kjörtímabil eða til 1966 — og sýnir það hvers álits og virðingar hann naut og Baldur sýndi að hann var vandanum vaxinn. Hann rækti öll sín störf af kostgæfni í þágu bæjarfélagsins svo sómi var að.

Hann var í ótal nefndum og ráðum sem bæjarfulltrúi og var þá oftast þar í fyrirsvari. Hann var kennari um tíma og prófdómari í mörg ár við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Fyrsti formaður fræðsluráðs Siglufjarðar. Ábyrgðarmaður í Sparisjóði Siglufjarðar og einnig í stjórn hans. Formaður í ýmsum félögum hér í bæ.

Okkar kunningsskapur byrjaði í Sjálfstæðisflokknum — þar áttum við sameiginleg áhugamál og sá kunningsskapur varð enn nánari með árunum.

Baldur kvæntist 1943 Hólmfríði Sveinbjörnsdóttur frá Hámundarstöðum f Vopnafirði og áttu þau 6 börn:

  • Birgir, sem búsettur er í Kaupmannahöfn.
  • Kristín, gift Jóhannesi Friðrikssyni, búsett á Siglufirði.
  • Daníel, kvæntur Þórleifu Alexandersdóttur, búsettur á Siglufirði.
  • Elsa, gift Ólafi Matthíassyni, búsett á Siglufirði.
  • Anna Þóra, gift Magnúsi Olafssyni, búsett í Rvk.
  • Eiríkur, kvæntur Grétu Guðlaugsdóttur, búsett í Kópavogi.

Hólmfríður lést 1967. Seinni kona Baldurs er Aldís Dúa, dóttir Þórarins Dúasonar skipstjóra og hafnarstjóra og konu hans Theódóru Oddsdóttur, Rvk. Dúa á eina dóttur, Unni Sigtryggsdóttur, sem er gift Ásgrími Ingólfssyni, búsett í Hafnarfirði. Þó að Baldur virtist við fyrstu kynni þurr á manninn, þá reyndist annað er hann var tekinn tali, því hann var mjög ljúfur í umgengni, hafði víðtæka þekkingu á hinum ýmsu sviðum mannlegs lífs. Mikill bókaunnandi og átti safn góðra bóka.

Hafði yndi af tónlist enda músikalskur vel. Sjálfstæðismenn á Siglufirði þakka honum mikilvæg störf í þágu flokksins fyrr og síðar — þau voru ómetanleg. Samferðamönnunum fækkar og hún þynnist óðum sú fylking manna er hér um götur gengu og settu svip sinn á bæinn okkar fyrr á árum. Oft setur að manni angurværð að sjá ekki þennan eða hinn í því umhverfi er hann var hér í — í lifanda lífi. „En lífið yrkir endalaust og botnar aldrei braginn" kvað Davíð. Og því er ljúft að eiga minningarnar um þetta ágæta fólk.

Við hjónin sendum eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Baldurs Eiríkssonar.

ÓIi J. Blöndal
---------------------------------------------------

Andlát Baldurs Eiríkssonar kom flestum mjög á óvart. Þrátt fyrir 75 árin var hann laus við hin ytri einkenni ellinnar og var vel á sig kominn á allan hátt. Baldur flutti til Akraness 1969 og hóf strax störf í Rotaryklúbbi Akraness, þar sem hann var félagi til æviloka. Um langt skeið áður hafði hann verið félagi í Rotaryklúbbi Siglufjarðar, sem var með elstu Rotaryklúbbum landsins og starfaði af miklum myndarbrag. Baldur var því þrautreyndur Rotarymaður, er hann kom til Akraness fyrir tæpum 20 árum og leyndi það sér ekki í störfum hans.

Baldur var því fljótlega kjörinn í hinar ýmsu trúnaðarstöður í klúbbnum og var m.a. forseti hans starfsárið 1974-'75. Það fór ekkert á milli mála að Baldur var Rotary-félagi af lífi og sál. Fastmótaður af siðareglum Rotary og þeim hugsjónum sem starfið byggist á. Vel að sér í sögu Rotary-hreyfingarinnar og lagði jafnan áherslu á að full virðing væri borin fyrir þeim einföldu reglum, sem hún er grundvölluð á. Hann átti mikinn metnað fyrir störfum klúbbsins og vann að því að vegur hans og áhrif yrðu sem mest.

Hann átti einnig fulla virðingu félaga sinna, sem jafnan litu á hann sem fyrirmyndar Rótaryfélaga. Baldur Eiríksson var umdæmisstjóri íslenska Rotary-umdæmisins starfsárið 1979—80, samkvæmt tillögu Rotary-klúbbs Akraness. Hann rækti það starf af skyldurækni og myndarbrag og átti eftir það virðingu Rotary-manna almennt. Eftir það hélt hann nánu sambandi við yfirstjórn Rotary-hreyfingarinnar á Íslandi og sat í ýmsum trúnaðarstörfum á hennar vegum. Fór m.a. oft á ýmis norræn mót sem fulltrúi Íslands.

Þá gerði Rotary-klúbbur Akraness Baldur að Poul Harrys félaga fyrir nokkrum árum og þótti það vel við eiga. Af framansögðu er ljóst að síðustu 10 árin var Baldur ekki aðeins vel virtur Rotaryfélagi á Akranesi heldur í forystusveit Rotary-manna á Íslandi. Hann gekk ungur hreyfingunni á hönd og vann henni vel til æviloka. Hún átti hug hans allan. Skarð hans stendur nú opið og ófyllt. Megi Rotary-hreyfingin á hverjum tíma fá marga slíka liðsmenn.

Rotary-klúbbur Akraness þakkar Baldri Eiríkssyni gifturík störf í þágu klúbbsins frá því hann gerðist þar félagi og þann mikla sóma sem hann hefur gert klúbbnum með störfum sínum fyrir Rotary-hreyfinguna almennt. Við hörmum skyndilegt fráfall hans og sendum eiginkonu hans, börnum og öðrum vandamönnum einlægar samúðarkveðjur. Rotary-klúbbur Akraness.

Baldur Eiríksson fluttist til Siglufjarðar árið 1937, aðeins 24 ára að aldri, nýkominn frá námi heima og erlendis. Hann hafði ferskar hugmyndir í farteski og bjó þá þegar að nokkurri stjórnmála- og bæjarmálareynslu frá fyrri heimabæ sínum, Ísafirði, þar sem hann sat ungur að árum í bæjarstjórn. Hann nam land í Siglufirði, kaupstað í örum vexti, sem var miðstöð síldariðnaðar í landinu.

Siglufjörður var á þessum árum mikill athafnabær. Þar varð silfur hafsins að gulli í höndum vinnandi fólks; þar varð til drjúgur hluti þeirra verðmæta er skiluðu þjóðinni frá fátækt til bjargálna; þangað sóttu verðandi menntamenn námskostnað sinn í eigin vinnu; þar blómstraði gott mannlíf og menning óx, bæði af innlendum rótum og nánum tengslum við umheiminn, einkum Norðurlönd.

Á Siglufirði var starfsvettvangur Baldurs Eiríkssonar í rúma þrjá áratugi. Hann deildi með öðrum bæjarbúum tímunum tvennum — og raunar þrennum: fyrst síldarævintýrinu, þegar allt gekk í haginn, þá hruni síldarstofnsins, þegar stoðum var kippt undan atvinnu og afkomu bæjarbúa og bæjarfélags og loks uppbyggingunni, þegar vörn var smám saman snúið í sókn. Hann kom víða við Siglfirska sögu á þessu tímabili:

  • 1) hann var ritstjóri Siglfirðings um sinn;
  • 2) hann vann við og stóð fyrir verslunarrekstri;
  • 3) hann starfaði lengi hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, stærsta vinnuveitanda bæjarins;
  • 4) hann var framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Siglufjarðar hf. um árabil;
  • 5) hann sinnti bæjarmálapólitík sem bæjarfulltrúi, forseti bæjarstjórnar og fulltrúi í ýmsum nefndum bæjarstjórnar;
  • 6) hann starfaði að margþættum félags- og menningarmálum innan fjölda félagasamtaka: félaga sjálfstæðisfólks, Rotaryhreyfingar, sögufélags, stúdentafélags, norræna félagsins og fleiri samtaka.

Við Baldur Eiríksson störfuðum saman um árabil innan Sjálfstæðisflokksins og að bæjarmálum í Siglufirði. Hann var aðgætin, glöggur og hollráður. Hann hélt því jafnan fram að reynsla fortíðar væri traustasti grunnur góðrar framtíðar, raunar væru allar framfarir á slíkri reynslu byggðar. Þessvegna lagði hann mikla rækt við menningararfleifð þjóðarinnar og sögulegan fróðleik hverskonar.

Baldur Eiríksson varðveitti ræður sínar og erindi, sem hann flutti við margvísleg tækifæri á Siglufjarðarárunum. Það er vel. Þar er margvíslegan fróðleik og heimildir að finna, enda lagði hann mikla vinnu í texta sína. Ræðusafn sitt færði hann Siglufjarðarkaupstað að gjöf í síðustu heimsókn sinni til bæjarins, en í þeirri heimsókn var hann kallaður.

Hann lést á Siglufirði laugardaginn 13. ágúst síðastliðinn. Útför hans verður gerð frá Akraneskirkju í dag. Ræðusafn Baldurs er verðmæt gjöf Siglfirðingum. Það voru ekki síður ár þau öll, sem hann vann bæjarfélaginu af stakri trúmennsku. Á kveðjustundu þakka Siglfirðingar Baldri Eiríkssyni Siglufjarðarár hans 511 — og allt það, sem hann vann þeim og bæjarfélaginu.

Eg þakka Baldri góð kynni og gott samstarf á þessum árum — sem og síðar í sameiginlegum félagsskap. Megi hann eiga góða heimkomu í hinu eilífa austri, þar sem bróðursólin rís. Við Þorgerður sendum Dúu, börnum hans og öðrum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur.

Stefán Friðbjarnarson
----------------------------------------

Dagblaðið Vísir - DV - 14. júlí 1983

Sjötugur er i dag Baldur Eiríksson, fulltrúi i Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Hann fæddist á Ísafirði 14. júlí 1913, sonur hjónanna Kristínar S. Einarsdóttur og Eiríks B. Finnssonar. Baldur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1934, dvaldi hann síðan í tvö ár i Þýskalandi við nám og störf en fluttist til Siglufjarðar árið 1937. Fyrsta starf Baldurs á Siglufirði var ritstjórn Siglfirðings sem sjálfstæðisfélögin á staðnum gáfu út.

Hann gerðist starfsmaður á skrifstofu Síldarverksmiðju ríkisins 1943—1964. Hann var kjörinn í bæjarstjórn Siglufjarðar 1954 og sat þar þrjú kjörtímabil. Baldur er tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir sem látin er fyrir mörgum árum. Síðari kona hans er Dúa Þórarinsdóttir. Þau hjón taka á móti gestum að Stillholti 14 Akranesi í dag milli kl. 5—7.
-----------------------------

Baldur Trausti Eiríksson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar, lést laugardaginn 13. ágúst síðastliðin, 75 ára að aldri. Baldur heitinn var gestkomandi norður i Siglufirði, í tilefni af 70 ára kaupstaðarafmæli staðarins, er hann lést._ Baldur fæddist á Ísafirði 14. júlí 1913. Foreldrar hans voru hjónin Kristín S. Einarsdóttir og Eiríkur Br. Finnsson, verkstjóri.

Baldur varð stúdent frá MA 1934 og hélt þá til starfs og náms í Þýskalandi. Baldur flytist til Siglufjarðar 1937. Hann hóf þar störf sem ritstjóri Siglfirðings en vann lengst af verslunar og skrifstofustörf. Hann starfaði hjá Síldarverksmiðjum ríkisins 1943-64, var framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Siglufjarðar hf. 1964-69 og fulltrúi hjá Sementverksmiðju ríkisins á Akranesi frá 1969 uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Baldur var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrst á Ísafirði en síðan í Siglufirði, og forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar um árabil. Á hann hlóðust fjölmörg trúnaðarstörf á vegum Sjálfstæðisflokksins, Siglufjarðarkaupstaðar og ýmissa félagasamtaka. Hann var umdæmisstjóri íslenska Rótarý umdæmisins 1979-80. Fyrri kona Baldurs var Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir Sveinssonar bónda að Hámundarstöðum í Vopnafirði. Hún lést 1967. Síðari kona hans er Aldís Dúa Þórarinsdóttir Dúasonar, skipstjóra og hafnarstjóra í Siglufirði, og lifir hún mann sinn
--------------------------------------------

Baldur T. Eiríksson lést 13. ágúst. Hann var fæddur á Ísafirði þann 14. júlí 1913, sonur hjónanna Eiríks Brynjólfs Finnssonar og konu hans, Kristínar Einarsdóttur. Stúdent frá MA varð hann 1934. Eftir stúdentsprófið sigldi hann til Þýskalands og starfaði hjá útgerðarfyrirtækjum þar. Árið 1937 fluttist hann til Siglufjarðar.

Þar starfaði hann að margvíslegum verkefnum. Árið 1969 fluttist hann búferlum til Akraness og réðst sem fulltrúi hjá Sementverksmiðju ríkisins. Baldur var tvígiftur. Fyrri kona hans var Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir en hún lést árið 1967. Þau eignuðust sex börn. Eftirlifandi eiginkona hans er Aldís Dúa Þórarinsdóttir.
Útför Baldurs verður gerð frá Akraneskirkju í dag kl. 14.15