Tengt Siglufirði
Hallfríður Njálsdóttir fæddist á Siglufirði hinn 4. maí 1921. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 11. október síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Johandine Amalie Sæby (Johandine Sæby), f. 10.5. 1895, d. 15.4. 1988, og Njáll Hallgrímsson, f. 4.7. 1891, d. 8.5. 1956.
Bræður hennar voru
Hinn 3. maí 1945 giftist Hallfríður Sverrir Guðmundsson frá Hólmavík, f. 17.8. 1923, d. 23.5. 1990. Þau eignuðust fimm börn:
1) Njáll Ölver Sverrisson, f. 10.8. 1945, maki Ólöf Díana Guðmundsdóttir frá Vestmannaeyjum.Hallfríður var fædd og uppalin á Siglufirði. Hún fór í Húsmæðraskólann á Ísafirði. Eftir námið vann hún á símstöðinni á Siglufirði þar til hún gekk í hjónaband.
Hún var lengstum heimavinnandi húsmóðir með stórt heimili. Þegar fækkaði í heimili hóf hún störf hjá Kaupfélaginu á Siglufirði og síðar hjá frystihúsinu Ísafold.
Útför Hallfríðar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Vertu yfir og allt um kring, með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sængin yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Á síðustu dögum hafa margar góðar minningar um ömmu Fríðu á Siglufirði sótt á hugann og mig langar að minnast ömmu minnar sem var mér einstaklega kær.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá umgangast ömmu mína og afa á Siglufirði mikið. Sem smábarn fór ég með mömmu og pabba á jólum til Siglufjarðar en ég man lítið eftir því. Það eru páskaferðirnar og sumarfríin sem standa upp úr í minningunni. Á Sigló var alltaf gaman. Þar lærði ég að synda, að standa á skíðum og fyrir nokkrum árum fór ég sem kennaranemi til Siglufjarðar og kenndi þar í gagnfræðaskólanum í þrjár vikur.
Í öllum þessum minningum er amma Fríða alltaf til staðar. Hún var fædd og uppalin á Siglufirði og bjó öll sín hjúskaparár á Hlíðarvegi 44. Þar deildi hún heimili með foreldrum sínum og ól upp fimm börn. Þar vorum við systkinin alltaf velkomin og var gott að koma á Sigló til ömmu og afa.
Sex ára gömul var ég send norður á Siglufjörð á sundnámskeið. Sundkennslan fór fram á morgnana og eftir sund gekk ég heim á Hlíðarveginn til ömmu og afa með sundpokann á bakinu. Á hverjum degi beið amma eftir mér og strax eftir sund fórum við í bíltúr í bæinn að útrétta. Við keyrðum alltaf sama rúntinn. Fyrst var farið í bakaríið á Aðalgötunni að kaupa lin horn og svo var komið við í apótekinu til að kaupa handa mér saltpillur í pakka. Eftir það var farið heim að gæða sér á góðgætunum.
Þegar ég varð eldri eignaðist afi myndbandstæki og stundum leigðum við myndbandsspólur þegar ég var í heimsókn. Mér fannst einstaklega notalegt að sitja í fínu stofunni hennar ömmu og horfa á bíómyndir með ömmu og afa og það voru nú yfirleitt dans- og söngvamyndir ef amma fékk að ráða.
Bíllinn sem amma og afi áttu var ekkert venjulegt farartæki. Þetta var heiðgulur amerískur dreki, merkisgripur, sem einungis var notaður á sumrin en annars geymdur inni í bílskúr yfir veturinn. Þessi bíll var alltaf gljáfægður og vel með farinn og amma átti hann í tæpan aldarfjórðung. Eitt af því skemmtilegasta sem mér fannst að gera á Sigló var að fara í bíltúr með ömmu á björtum sumarkvöldum. Amma keyrði alltaf "á tíu" og ef gott var í veðri fórum við tvær á rúntinn um bæinn, fram á fjörð og út að gati og var amma alltaf með flaututónlist eða annað í þeim dúr í kassettutækinu.
Amma Fríða var mikil húsmóðir í sér og hafði mikinn áhuga á að halda fallegt heimili og grípa í handavinnu. Hún prjónaði mikið og saumaði út og einnig sótti hún ýmis föndurnámskeið sér til dægrarstyttingar. Eftir hana liggur ógrynni af fallegum hlutum, útprjónuðum flíkum og útsaumi sem gaman er að varðveita.
Á síðustu árum myndaðist skemmtileg hefð á ferðalögum mínum norður á Siglufjörð. Þegar amma vissi að von væri á mér í heimsókn var hún alltaf búin að baka pönnukökur og í ísskápnum beið mín ískalt mix. Á heimilinu ríkti kyrrð og ró og það var gott að setjast í eldhúsið hjá ömmu eftir langt ferðalag, gæða sér á pönnukökum og ræða saman um hitt og þetta.
Amma eignaðist fimm börn, 13 barnabörn og nú er 13. langömmubarnið á leiðinni. Það voru henni vonbrigði að afkomendurnir skyldu ekki setjast að á Siglufirði heldur dreifðust þeir vítt og breitt um landið og einnig til útlanda. Hún lagði mikið á sig til að geta heimsótt börnin sín og barnabörn. Hún lagði land undir fót í ýmsum veðrum og flaug til Bolungarvíkur, Reykjavíkur, Vestmannaeyja og Gautaborgar til þess að geta verið viðstödd fermingarveislur barnabarnanna sinna og síðar útskriftarveislur meðan hún hafði heilsu til. Það var henni mikið áfall þegar afi lést eftir erfið veikindi fyrir 10 árum og ég veit að það hefur oft verið einmanalegt á Hlíðarveginum þessi ár sem amma bjó ein. Það var samt tómt mál að tala um að flytja frá Siglufirði. Á Siglufirði var hún fædd og uppalin, þar átti hún sitt heimili, þar hvíldi afi og þar vildi hún eyða ævikvöldinu.
Í dag, 21. október, verður amma Fríða borin til hinstu hvíldar við hlið afa Sverris á Siglufirði. Ég er þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og þær geymi ég í minningunni.
Fríða
Jónasdóttir.
-------------------------------------------------------
Hallfríður Njálsdóttir
Það var miðvikudagskvöld, við vissum að þinn tími var að koma, síðustu vikurnar voru búnar að vera þér mjög erfiðar og þú þráðir hvíldina sem dauðinn myndi veita þér. Samt fylltist ég trega þegar síminn hringdi og ég vissi að lífi þínu hér með okkur væri lokið. Þó að langt væri á milli okkar tókst þér alltaf að koma til skila væntumþykju þinni, hlýtt faðmlag og silkimjúkur vangi þinn þegar þú tókst á móti okkur eða kvaddir, fallegt jólakort, og þó að ég talaði bara við þig í gegnum símann kvaddirðu alltaf með orðunum "Megi Guð vera með ykkur."
Ég man eftir því að einu sinni varð ég eftir á Sigló þegar mamma og pabbi fóru heim, amma Fríða bakaði ekta súkkulaðiköku og bar hana á borð með ekta súkkulaði. Amma bjó líka til það besta skyr sem ég hef smakkað, hrært út með rjóma og miklum sykri, alveg eins og lítil sjö ára telpa vill hafa það. Einu sinni komuð þið afi út í Eyjar og þú settist niður með mér og hlustaðir á hvað allar dúkkurnar mínar hétu, hjálpaðir mér að greiða þeim, klæða þær í fín föt og stilla þeim svo aftur upp í herberginu mínu en eins og eigandinn þá voru þær ekki svona fínar lengi. Já, samverustundirnar voru kannski ekki eins margar og við hefðum viljað en minningarnar eru mér dýrmætar.
Nú eru þið afi saman á ný og ég trúi því að þið séuð hamingjusöm á himnum, mig langar að kveðja þig með þínum orðum og bæninni sem þú kenndir mér.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Elsku amma Fríða, megi Guð vera með þér.
Þín Herdís Rós. Fríða Jónasdóttir.