Tengt Siglufirði
Mánudaginn 3. Nóvember 1986 lést á heimili sínu æskuvinkona mín, Jóhanna Sigurðardóttir. Það er oftast erfitt að trúa staðreyndum sem þessum.
Ég varð felmtri slegin um kvöldið er mér var tilkynnt að hún væri farin, ung kona, aðeins 46 ára gömul. Það gat varla verið, hún Jóhanna sem var alltaf svo kát og hress, hrókur alls fagnaðar.
Hvað hún var búin að líða af þeim hræðilega sjúkdómi sem dró hana til dauða veit enginn, hún sagði það engum, bar það ein af tillitssemi við þá er hjarta hennar sló fyrir, vildi ekki láta þá bera kvíða í brjósti. Þannig var hún, aðrir fyrst, hún á eftir.
Jóhanna var fædd 12. ágúst 1940, yngsta barn mikilla ágætis hjóna, Guðrún Eggertsdóttir og Sigurður Oddsson.
Jóhanna var aðeins 17 ára er móðir hennar lést snögglega, var það sár harmur. En hún lét ekki bugast. Af röggsemi tók hún við stjórn á heimili föður síns og Eggerts bróður hennar, og stýrði því með sóma ásamt vinnu sinni. Það var mikið lagt á ungar herðar, en samstaðan og samvinnan góð.
Eftir að Eggert kvæntist hefur faðir hennar verið hjá henni allar götur síðan. Það kom ekkert annað til greina. Hjartað var stórt.
Árið 1966 gekk Jóhanna í hjónaband með Guðmundur Sörensen frá Eskifirði. Þau bjuggu fyrstu árin á Aðalbóli, æskuheimili hennar, þar fæddist augasteinninn þeirra allra,
Sigurður Guðmundsson.
Hugurinn stefndi hærra. Þau byggðu sér hús að Ásabraut 14. Það var fallegt heimili hjá þeim fjórum og það sem meira var, hjartahlýjan í fyrirrúmi. Þar var alltaf opið hús fyrir alla vinina og þeir voru margir.
Árið 1977 stóð okkur hjónum tilboða jólaferð til landsins helga með elsta syni okkar. En við vorum með tvö yngri börn og ekki hlaupið að því að biðja aðra fyrir þau á þessum tíma. Þá hringdi Jóhanna og sagði að auðvitað kæmu börnin til sín.
Þau voru velkomin á Ásabrautina og áttu þar ógleymanlega jólahátíð, þau sögðust meira að segja hafa fengið nýjan afa í jólagjöf.
Bræðrabörn Jóhönnu voru tíðir gestir hjá þeim og lét hún sér mjög annt um þau. Já, það var alltaf gott að koma til Jóhönnu frænku.
Árið 1981 var enn höggvið skarð í hópinn, Bjarni Sigurðsson bróðir hennar lést á besta aldri.
Bjarni var kvæntur Ósk Valdimarsdóttir, góðri konu sem stendur nú við hlið þeirra feðga sem besta dóttir og systir.
Einnig veit ég að Eggert og hans fjölskylda styðja þá.
Sigurður minn, þetta eru þung spor hjá þér þegar þú fylgir dóttur þinni síðustu sporin, en þú veist hún lét aldrei bugast, hún hugsar nú til ykkar og lítur eftir ykkur.
Guðmundur og Siggi, þið misstuð mikið en eigið hvorn annan og afa, ættingjana og vinina, ásamt gildum sjóði góðra minninga um góða sál...................
____________________________________
E.S. Jóhanna Sigurðardóttir og hennar fólk var tengt: Margrét Marsibil Eggertsdóttir maki: Friðrik Stefánsson í Bakka á Siglufirði, dætur þeirra eru
Guðný Ósk Friðriksdóttir og Guðbjörg Oddný Friðriksdóttir
(Guðný Ósk var eiginkona undirritaðs).
Steingrímur Kristinsson