Tengt Siglufirði
ÞANN 29. apríl s.l. barst mér sú fregn, að góðvinur minn, Alfons Jónsson, ræðismaður, í Siglufirði hefði orðið bráðkvaddur á Akureyri, er hann var á leið hingað til Reykjavíkur. Hér fór sem oftar, að enginn, má sköpum renna, og að milli vonar og dauðans er oft aðeins eitt fótmál. Í dag verður hann til moldar borinn í Siglufirði og munu margir vinir hans hér syðra senda fjölskyldunni hlýjar hugsanir og samúðarkveðjur, vegna hins óvænta fráfalls hans.
Alfons Jónsson var fæddur að Bakka í Tjörneshreppi, 26. júlí 1898. Foreldrar hans voru þau hjónin Jón Guðmundsson, síðast verslunarstjóri við Gránuverslunina í Siglufirði, en hann lést 1927 og Jóhanna Jónsdóttir, nú búsett hér í Reykjavík.
Voru þau bæði ættuð úr Þingeyjarsýslu, Jón var sonur Guðmundar bónda í Fagranesi Bjarnasonar, en Jóhanna var dóttir Jóns bónda á Jarlstöðum í Bárðardal Þorkelssonar.
Alfons fluttist ungur með foreldrum sinum til Akureyrar, þar sem faðir hans var sýsluskrifari um nokkurra ára skeið, en til Siglufjarðar fluttist hann með þeim 1910. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1918, en dvaldi síðan við verslunarnám í Kaupmannahöfn 1919-20, og lauk prófi frá Köbmandskolen. Lögfræðiprófi frá Háskóla íslands lauk hann 1926 og stundaði um nokkurra mánaðar skeið lögfræðistörf hjá Lárusi Fjeldsted, hæstaréttarlögmanni í Reykjavík.
En um haustið setti hann á stofn málaflutningsskrifstofu í Siglufirði,
sem hann starfrækti, jafnan síðan.
Alfons gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í Siglufirði, var um skeið bæjarfulltrúi og starfaði í nefndum á vegum bæjarstjórnar,
og tók þátt í félagsstarfi. Árið 1930 varð hann finnskur vararæðismaður í Siglufirði, og greiddi götu finnskra manna, er áttu þangað erindi á sumrum. Hlaut
hann viðurkenningu finnsku stjórnarinnar fyrir þessi störf sín og var hann tvívegis sæmdur heiðursmerkjum, bæði Hvítu Rósaorðunni og Ljónsorðunni, einnig var hann sæmdur
Frelsisorðu Kristjáns konungs X. Alfons hafði um skeið allumfangsmikinn atvinnurekstur, hann stofnaði skipaverslunina VÍKING og fékkst nokkuð við síldarsöltun.
Árið 1929
kvæntist hann Jenný Stefánsdóttir frá Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd og eignuðust þau tvö börnin:
Frú Jenný Stefándóttir er mikil dugnaðarkona og bjó manni sínum og börnum hið smekklegasta heimili, auk þess sem hún var í öllu samhent manni sínum og studdi hann með ráðum og dáð í störfum hans og kaupsýslu. Ég, sem þessar línur rita, hafði alináin kynni af heimili þeirra hjóna um margra ára skeið og á þaðan margar minningar um ánægjustundir.
Alfons Jónsson var að eðlisfari fremur hlédrægur maður og nokkuð seintekinn, en því trygglyndari, því betur sem menn kynntust honum. Þegar nú svo óvænt og skyndilega hefur dregið ský fyrir sól á heimili þessarar fjölskyldu, með fráfalli húsráðandans, sendi ég konu hans og börnum innilegustu samúðarkveðjur mínar, og einnig aldurhniginni móður hans og systur hér í Reykjavík. Við sem þekktum Alfons Jónsson, minnumst hans með þakklæti og virðingu og biðjum honum fararheilla og ástvinum hans og heimili blessunar.
Óskar J. Þorláksson