Alfons Jónsson ræðismaður

ÞANN 29. apríl s.l. barst mér sú fregn, að góðvinur minn, Alfons Jónsson, ræðismaður, í Siglufirði hefði orðið bráðkvaddur á Akureyri, er hann var á leið hingað til Reykjavíkur. Hér fór sem oftar, að enginn, má sköpum renna, og að milli vonar og dauðans er oft aðeins eitt fótmál. Í dag verður hann til moldar borinn í Siglufirði og munu margir vinir hans hér syðra senda fjölskyldunni hlýjar hugsanir og samúðarkveðjur, vegna hins óvænta fráfalls hans.

Alfons Jónsson var fæddur að Bakka í Tjörneshreppi, 26. júlí 1898. Foreldrar hans voru þau hjónin Jón Guðmundsson, síðast verslunarstjóri við Gránuverslunina í Siglufirði, en hann lést 1927 og Jóhanna Jónsdóttir, nú búsett hér í Reykjavík.

Voru þau bæði ættuð úr Þingeyjarsýslu, Jón var sonur Guðmundar bónda í Fagranesi Bjarnasonar, en Jóhanna var dóttir Jóns bónda á Jarlstöðum í Bárðardal Þorkelssonar.

Alfons fluttist ungur með foreldrum sinum til Akureyrar, þar sem faðir hans var sýsluskrifari um nokkurra ára skeið, en til Siglufjarðar fluttist hann með þeim 1910. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1918, en dvaldi síðan við verslunarnám í Kaupmannahöfn 1919-20, og lauk prófi frá Köbmandskolen. Lögfræðiprófi frá Háskóla íslands lauk hann 1926 og stundaði um nokkurra mánaðar skeið lögfræðistörf hjá Lárusi Fjeldsted, hæstaréttarlögmanni í Reykjavík.

Alfons Jónsson - Ljósmyndari ókunnur

Alfons Jónsson - Ljósmyndari ókunnur

En um haustið setti hann á stofn málaflutningsskrifstofu í Siglufirði, sem hann starfrækti, jafnan síðan.
Alfons gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í Siglufirði, var um skeið bæjarfulltrúi og starfaði í nefndum á vegum bæjarstjórnar, og tók þátt í félagsstarfi. Árið 1930 varð hann finnskur vararæðismaður í Siglufirði, og greiddi götu finnskra manna, er áttu þangað erindi á sumrum. Hlaut hann viðurkenningu finnsku stjórnarinnar fyrir þessi störf sín og var hann tvívegis sæmdur heiðursmerkjum, bæði Hvítu Rósaorðunni og Ljónsorðunni, einnig var hann sæmdur Frelsisorðu Kristjáns konungs X. Alfons hafði um skeið allumfangsmikinn atvinnurekstur, hann stofnaði skipaverslunina VÍKING og fékkst nokkuð við síldarsöltun.

Árið 1929 kvæntist hann Jenný Stefánsdóttir frá Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd og eignuðust þau tvö börnin:

  1. Guðrún Alfonsdóttir verslunarmær í Reykjavík - Fædd 22. janúar 1930 Dáin 14. janúar 1994 Guðrún Alfonsdóttir er látin. Unna, eins og hún var jafnan kölluð, ólst upp á Siglufirði, dóttir hjónanna Alfons lögfræðings og síldarútgerðarmanns á Siglufirði, Jónssonar faktors á Húsavík og Jennýar Stefánsdóttur.
    Unna gekk í gagnfræðaskólann á Siglufirði, Iðnskólann í Reykjavík í hattasaumi og síðan í Húsmæðraskólann í Reykjavík.
    Árið 1952 missti hún föður sinn og fluttist þá móðir hennar með börn sín Unnu og Jón (síðar flugumferðarstjóri) til Reykjavíkur. Þar stofnuðu þær mæðgur Hattaverslunina Jenný og unnu þær af dugnaði að rekstri hennar í mörg ár. Síðar á ævinni fór Unna til starfa hjá Landsbanka Íslands og var það henni mikið áfall eftir 19 ára farsælt starf að verða að hætta vegna fjöldauppsagna..............

  2. Jón Alfonsson, nemandi í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Jón Alfonsson var fæddur á Siglufirði 10. október 1935. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík aðfaranótt föstudags 15. júlí 1994. Foreldrar hans voru Alfons Jónsson lögfræðingur, f. 26.7. 1898, d. 29.4. 1952, og Jenny Stefánsdóttir, hattameistari og kaupmaður, f. 7.1. 1901, d. 20.4. 1987. Systir Jóns var Guðrún, f. 22.1. 1930, d. 14.1. 1994.
    Eftirlifandi eiginkona Jóns er Eyrún Sigurbjörg Eyjólfsdóttir, f. í Hafnarfirði 15.9. 1935. Þau eignuðust þrjú börn: Alfons bifvélavirkja, Aldísi hjúkrunarfræðing og Eyjólf Kristin nemanda búsettan í heimahúsum. Jón lauk prófi frá verslunardeild Verslunarskóla Íslands árið 1955, en síðar prófi í flugumferðarstjórn og starfaði sem slíkur til ársins 1984 er hann lét af störfum af heilsufarsástæðum.

Frú Jenný Stefándóttir er mikil dugnaðarkona og bjó manni sínum og börnum hið smekklegasta heimili, auk þess sem hún var í öllu samhent manni sínum og studdi hann með ráðum og dáð í störfum hans og kaupsýslu. Ég, sem þessar línur rita, hafði alináin kynni af heimili þeirra hjóna um margra ára skeið og á þaðan margar minningar um ánægjustundir.

Alfons Jónsson var að eðlisfari fremur hlédrægur maður og nokkuð seintekinn, en því trygglyndari, því betur sem menn kynntust honum. Þegar nú svo óvænt og skyndilega hefur dregið ský fyrir sól á heimili þessarar fjölskyldu, með fráfalli húsráðandans, sendi ég konu hans og börnum innilegustu samúðarkveðjur mínar, og einnig aldurhniginni móður hans og systur hér í Reykjavík. Við sem þekktum Alfons Jónsson, minnumst hans með þakklæti og virðingu og biðjum honum fararheilla og ástvinum hans og heimili blessunar.

Óskar J. Þorláksson