Ágúst Einar Sæby

Siglfirðingur - 01. desember 1964

Ágúst Sæby Hann lést á heimi Vilhelms, sonar síns, Hávegi 5 hér í bæ, aðfaranótt sunnudags 25. okt. 1964. Hann fæddist hér í bæ, 9. febr. 1891.

Foreldrar hans voru Andreas Christian Sæby, beykir frá Danmörku, er kom hingað á vegum Gránufélagsverslunarinnar og settist hér að, og konu hans. Ágúst ólst upp í foreldrahúsum í fjölmennum systkinahópi. Hugur hans hvarflaði aldrei frá æskustöðvunum. Hér ól hann allan sinn aldur, uns kallið  mikla kom, og var alltaf mikils metinn borgari þessa bæjar. Hann mun hafa verið meðal elstu innfæddra Siglfirðinga.

Árið 1911 giftist Ágúst heitmey sinni, Steinþóru Barðadóttur, mikilli atorku og dugnaðarkonu, en hún andaðist fyrir nokkrum árum. Þau eignuðust 5 börn, 2 dætur og 3 syni,
og eru þau:

Ágúst Sæby - Ljósmynd; Kristfinnur

Ágúst Sæby - Ljósmynd; Kristfinnur

  • Aldís Ágústsdóttir, maki Sumarliði Hallgrímsson vélstjóri
  • Guðrún Ágústsdóttir maki Stefán Þórarinsson
  • Vilhelm Ágústsson maki: Kristveig Skúladóttir
  • Barði Ágústsson
  • Andrés Kristján Ágústsson  sem fórst í sjóslysi fyrir 20 árum

Öll eru þessi börn mesta og besta dugnaðarfólk og góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar. Ágúst var snotur maður ásýndum, meðalmaður á vöxt, jafn vaxinn, og sómdi sér vel á velli. Hann var léttur og röskur í hreyfingum, frábitinn hangsi og sleni við vinnu. Sjálfur gekk hann með einbeittum vilja og dugnaði að öllum störfum.

Þótti það sæti vel skipað, sem hami var í hverju sinni. Jafnvígur til starfa, bæði á landi og sjó. Þegar stofnað var félagið „Losun og lestun", gerðist hann félagi þess, og var í því félagi þar til fyrir 2-3 árum. Það þótti gott að vinna með honum. Handtökin traust og verklægni góð. Ágúst var frekar ör í lund, hreingeðja, og sagði sína meiningu hispurslaust. Var hann þá hraðmáll og orðheppinn. En skapgerð hans var einnig létt og hrein, og orðasenan var senn gleymd í sátt. Útistöður við menn átti hann ekki.

Allir samverkamenn hans og kunningjar virtu hann, og vináttu þeirra átti hann. Ágúst var mikill heimilisfaðir. Heimilið var hans ríki, frjálst, fullveðja og sjálfstætt. Hann var með afbrigðum hreinn í fjármálum og viðskiptum við alla. Ekkert óheiðarlegt mátti þar nærri koma. Hugsun hans var óhagganleg alla æfi, að lifa og sjá um börn sín og bú, sem frjáls og sjálfstæður maður. Það tókst honum, í samvinnu við sína dugmiklu konu, með ágætum. Ágúst var einn þeirra manna, sem vann alla tíð sín skyldustörf fyrir bæjarfélagið og þjóðarheildina.  Hann vann að uppbyggingu þessa bæjarfélags.

Hann lagði sinn skerf fram, til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, að þær gætu lifað við betri kjör og hagkvæmara líf en hans kynslóð hafði búið við. Börn þessa dánumanns skilja vel, að kallið mikla kom á hentugum tíma fyrir hann. Þau þakka honum fyrir samverustundirnar. Hlýjar kveðjur og þakkir fylgja honum yfir landamærin frá vinum hans og vandafólki.

Blessuð sé minning hans. P.E.
-------------------------------------------------------------------

Neisti - 21. desember 1964

Ágúst Einar Sæby Fæddur 9. febrúar 1891. — Dáinn 28. okt. 1964.
Aðfaranótt sunnudagsins 28. okt. 164 lést að heimili sonar síns, Vilhelm Sæby, Hávegi 5, Ágúst Einar Sæby, 73 ára að aldri.

Hann var borinn og barnfæddur Siglfirðingur, vann hann fæddur 9. febr. 1891.

Árið 1911 giftist Ágúst, Steinþóru Barðadóttur, mikilhæfri konu, og eignuðust þau fimm börn, og eru fjögur þeirra á lífi og öll búsett hér.

Ágúst stundaði sjósókn framan af ævi og oft sem formaður, en í seinni tíð vann hann mestmegnis við höfnina. Það rúm, sem Ágúst skipaði, þótti vel skipað, hvort sem hann var á sjó eða landi — og naut hann trausts og virðingar samferðamanna í ríkum mæli. Við fráfall Ágústs má segja með réttu, að horfinn sé einn af hinum ágætu alþýðumönnum, sem helga þjóðfélaginu krafta sína hávaðalaust, en með elju og trúlyndi í starfi. Blessuð sé minning hans.

Jóhann G Möller 
-----------------------------------------------------

Ágúst Sæby f. 09-02-1891 - d. 25-10-1964 -  Aðfaranótt 25. okt. sl. lézt að heimili sonar síns hér í bæ,

Ágúst Sæby. Var hann með elztu innfæddum Siglfirðingum hér, góður og gegn maður.  (tilvitnun: blaðið Siglfirðingur)

ÞAKKARÁVARP Öllum þeim mörgu, sem auðsýndu okkur hluttekningu og margs konar aðstoð við fráfall og jarðarför eiginkonu minnar, móður okkar og tengdamóður STEINÞÓRA BARÐADÓTTIR færum við innlegasta þakklæti.
Sérstaklega þökkum við sjúkrahúslækni, Ólafi Þ. Þorsteinssyni, og starfsfólki sjúkrahússins mikilsvirta aðstoð.

Guð blessi ykkur öll. Ágúst Sæby, börn og tengdabörn.
--------------------------------------------  

Siglfirðingur - 31. október 1964

Andlátsfregn

Aðfaranótt 25. okt. sl. lést að heimili sonar síns hér í bæ, Ágúst Sæby.
Var hann með elstu innfæddum Siglfirðingum hér, góður og gegn maður.