Tengt Siglufirði
Ásgeir Björnsson fæddist 22. janúar 1925 á Siglufirði. Hann lést 24. apríl 2015 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Foreldrar hans voru Guðrún Jónasdóttir, f. 20. desember 1885 að Glaumbæjarseli í S-Þing, d. 14. október 1954, og Björn Jónasson keyrari, f. 23. júní 1886 að Ytra-Hóli, Öngulsstaðahreppi í Eyjafirði, d. 19. febrúar 1966.
Systkin Ásgeirs voru:
1) Þórhallur Björnsson kaupmaður, f. 19. nóvember 1912, d. 2. júlí 1992,
2) Svavar Bergsteinn Björnsson, f. 17. febrúar 1914, d. 13. apríl 1962,
3) Jónas Bergsteinn Björnsson vogarstjóri – Jónas Björnsson , f. 25. október 1916, d. 9. september 1993,
4) Anna Laufey Björnsdóttir, f. 3. nóvember 1923, d. 13. júní 1924.
Ásgeir kvæntist 18. júní 1946
Sigrún Ásbjarnardóttir frá Stóradal í Eyjafirði, f. 18. október 1927.
Foreldrar hennar voru:
Ásbjörn Árnason, f. 1. maí 1880, d. 12. apríl 1962, og
Gunnlaug Gestsdóttir, f. 26. nóvember 1894, d. 19. nóvember 1981.
Ásgeir var ráðsmaður á kúabúinu
að Hóli við Siglufjörð er þau Sigrún felldu hugi saman.
Síðar lá leið þeirra í Eyjafjörðinn en þar stunduðu þau búskap með systur og mági
Sigrúnar að Knarrarbergi í Kaupangssveit.
Jörðin bar ekki tvær fjölskyldur og fluttu Ásgeir og Sigrún aftur til Siglufjarðar þar sem þau byggðu sér hús á Hafnargötu 22 og bjuggu þar í tæp fjörutíu ár. Ásgeir starfaði við Verslunarfélag Siglufjarðar, fyrst sem starfsmaður en síðar sem forstöðumaður þess.
Þegar Verslunarfélagið var lagt niður um miðjan níunda áratuginn stofnaði hann, ásamt tveimur samstarfskonum sínum, Verslunarfélagið Ásgeir og ráku þau það til ársins 1999 er hann lét af störfum og þau hjónin fluttu í Lindasíðuna á Akureyri.
Ásgeir og Sigrún eiga fjögur börn.
1. Jónína Gunnlaug Ásgeirsdóttir, f. 17. febrúar 1949,
maki Magnús Guðbrandsson, f. 16. desember 1948.
Þau eiga fjögur börn:
Guðbrandur Magnússon,
maki; Katrín Bryndís Sigurjónsdóttir og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.
Ásgeir Rúnar,
barnsmóðir Hulda Ósk Ómarsdóttir, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn.
Anna Júlía
maki Sigurður Alfreðsson og eiga þau þrjú börn.
Kristinn,
barnsmóðir María Fjóla Björnsdóttir og eiga þau þrjú börn.
2. Gunnar Björn Ásgeirsson, f. 12. ágúst 1960,
maki; Ellen Hrönn Haraldsdóttir, f. 19. maí 1961.
Þau eiga tvær dætur:
Sigrún Andrea,
sambýlismaður Baldur Ingi Haraldsson og
þau eiga eitt barn.
Elín Lilja og á hún eitt barn.
3. Ásbjörn Svavar Ásgeirsson, f. 13. apríl 1963,
í sambúð með Sigríður Sunneva Pálsdóttir, f. 15. maí 1970, og eiga þau þrjú börn:
Haukur Hlíðar,
Hera Sigrúnn og
Fannar Páll.
4. Rósa Ösp Ásgeirsdóttir, f. 25. maí 1967,
maki Unnsteinn Ingason, f. 16. febrúar 1966, og eiga þau tvö börn:
Anna Karen og
Ásgeir Ingi.
Ásgeir var Lionsmaður af lífi og sál og starfaði með Lionsklúbbi Siglufjarðar allt þar til hann flutti til Akureyrar.
Ásgeir verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, 4. maí 2015, kl. 13.30.
Það er margs að minnast þegar góður faðir er kvaddur.
Sem barn minnist ég þín í Versló, að afgreiða skip á öllum tímum sólarhringsins því blessaðir sjómennirnir urðu að fá sitt. Okkur var ekki alltaf rótt þegar þú prílaðir yfir skipin sem oft lágu tvö, þrjú hvert utan á öðru, en alltaf komst þú aftur með mannskap til að handlanga kostinn um borð. Það var lífseig sagan af þér á Sigló þegar þú varst mættur á bryggjuna og ekki búið að binda skipið við bryggju þegar þú spurðir: „Strákar, er kokkurinn ekki um borð?“
En þrátt fyrir mikla vinnu voruð þið mamma dugleg að nýta þær stundir sem gáfust, henni fannst gaman að veiða og ófá kvöldin var rennt inn í Fljót og kastað fyrir silung í Miklavatni eða af bryggjunni í Haganesvík, þú lagðir þig þá bara í grasið og leyfðir okkur að hafa okkar hentisemi. En þegar kom að því að tína ber lást þú ekki á liði þínu, upp við Hamarinn og inn við Stíflu, það voru þínir staðir og þú mokaðir upp berjunum. Kartöfluræktin var mikið áhugamál og þú útbjóst þér garð á ströndinni þar sem þú ræktaðir allt fyrir heimilið.
Það var þér talsvert áfall þegar Verslunarfélag Siglufjarðar var lagt niður, en þú lést ekki deigan síga og ásamt þeim Maddý og Guðmundu stofnaðir þú Verslunarfélagið Ásgeir þar sem þú starfaðir til 74 ára aldurs er fyrirtækið var selt og þið mamma fluttuð til Akureyrar. Það var ykkar samkomulag að þegar þú hættir að vinna flyttuð þið til Akureyrar á hennar heimaslóðir. Þið settust að í Lindasíðunni og unduð hag ykkar þar vel, þú lærðir útskurð og sinntir því meðan sjónin leyfði, eins hefur þú alltaf haft gaman af spilamennsku og varst fljótur að koma þér í spilin jafnvel þótt sjónin væri farin að gefa sig. Þá tóku Ásta mágkona þín og vinkonur þínar í blokkinni þig með og það gaf þér heilmikið.
Við hér á Narfastöðum nutum starfskrafta þinna einnig seinustu 15 árin en um leið og líða fór að vori kom gamli gráni, en það kallaðir þú bílinn þinn, í hlað hjá okkur hlaðinn útsæði, jarðarberjaplöntum og rifsberjarunnum því nóg er plássið til ræktunar hér. Eljusemin og natnin við að hreinsa frá jarðarberjaplöntunum þó sjónin væri lítil var ótrúleg. En eins og þú sagðir þá þótti þér svo gaman að „dóta“ í þessu. Síðan þvoðir þú þvottinn fyrir hótelið sumar eftir sumar og við dáðumst öll að því að maður á þínum aldri væri svona natinn við þvott. Umhyggja þín gagnvart okkur systkinunum og börnunum okkar verður seint þökkuð en sjálfur sagðir þú alltaf „ef allir eru frískir og glaðir þá er allt í góðu“.
En nú er kallið komið og við þökkum fyrir allt sem þú hefur gefið okkur, pabbi minn, við eigum margar góðar myndir í hugum okkar sem við yljum okkur við. Hafðu þökk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og mínum. Elsku mamma, þinn missir er mikill en við hjálpumst að í gegnum þetta.
Rósa Ösp Ásgeirsdóttir.
=====================================
Pabbi nú er komið að kveðjustund. Ég sit hér með tár á hvörmum og rita nokkur kveðjuorð á blað. Það er margs að minnast, pabbi, þú sem varst mér svo kær og góður við okkur systkinin svo ekki sé minnst á það hvað þú reyndist konu minni og börnum vel, þú varst sannur afi. Alltaf þegar við systkinin leituðum til þín með eitthvað var reynt að uppfylla þær óskir þó svo að það væri varla hægt.
Þú varst ekki vanur að segja okkur frá afrekum þínum, helst að maður rækist á það einhvers staðar á prenti og það gerði ég núna síðast fyrir fjórum dögum hjá mömmu þegar við vorum að spjalla og rifja upp minningar. Í bókaflokknum Þrautgóðir á raunastund er minnst á björgunarafrek þegar þú bjargaðir dreng frá drukknun hinn 14. mars 1962 eftir að mamma sá kajak hvolfa í höfninni sem var beint fyrir neðan húsið okkar.
Mamma sagði mér að hún hefði kallað á þig og minnti hana jafnframt að þú hefðir ekki gefið þér tíma til að fara í skó þar sem þú hefðir bara hlaupið niðureftir og stungið þér til sunds og bjargað drengnum. Á æskuárum mínum var alltaf farið í kirkju á aðfangadag og oftar en ekki sofnaðir þú þar vegna þreytu og mamma hnippti í þig þegar þú varst farinn að hrjóta og kirkjugestirnir hættir að heyra í prestinum út af hrotunum í þér, en presturinn sagði alltaf að þetta væri merki um að manni liði vel í kirkjunni sinni ef maður sofnaði.
Eftir að þú fluttir til Akureyrar fórstu aða taka þátt í félagslífi eldri borgara og þá helst í spilum og í tréútskurði, sem þú hafðir alltaf svo gaman af. En eftir að sjónin hvarf að mestu varðstu að hætta í tréútskurðinum og þá misstir þú mikið en þú hélst áfram að spila og þá var Ásta Axelsdóttir, mágkona þín, stoð þín og stytta. Hún tók þig með í spilin og það ber að þakka, geri ég það hér með, einnig þakka ég öllum spilafélögunum. Þú notaðir spil með stórum táknum á sem þú fékkst frá blindrafélaginu en þú sást svona nokkurn veginn á þau. Enn og aftur vil ég þakka fyrir umhyggjuna í garð föður míns.
Eftir að ég eignaðist mín afabörn í sumar og við komum til ykkar með þau þá alveg yngdist þú upp, þú hafðir svo gaman af börnum. Hafðir svo gaman af að fylgjast með hvað þau döfnuðu vel, þú spurðir iðulega hvernig þau hefðu það ef við komum í heimsókn eða hringdir. Þegar þú varst á Siglufirði vannstu stundum allan sólarhringinn, það þurfti að afgreiða skip á nóttunni og aðra bæjarbúa á daginn, þetta þótti þér ekkert tiltökumál. Ég var ekki gamall þegar ég fór að vinna með þér í búðinni og vann hjá þér á sumrin og um jól og páska eða bara eftir skóla á daginn alveg þangað til ég fór að læra trésmíðar, þú kenndir mér að vinna og reikna.
Að lokum langar mig að þakka konunni minni, Ellen Hrönn, fyrir alla umhyggju og alúð í garð foreldra minna á þessum erfiðu tímum. Hún var stoð þeirra og stytta í þessum veikindum pabba og er ég þér ævinlega þakklátur og þetta segir mér hvað ég er vel giftur.
Elsku mamma, við styðjum þig í sorginni, okkar missir er mikill og stórt skarð skilur pabbi eftir sig hér.
Gunnar Björn Ásgeirsson.
---------------
Elskulegi afi minn, við kveðjum þig í dag með sárum söknuði. Þrátt fyrir að þú hafir náð góðum aldri þá er alltaf erfitt að kveðja, aldrei er maður tilbúinn til þess að kveðja þá sem manni þykir vænt um. Þegar ég hugsa um farinn veg og allar þær minningar sem við höfum búið til saman þá eru þær minningar ófáar, þessar minningar munu lifa í hjörtum okkar alla ævi.
Búðinni þinni á Siglufirði sinntir þú með bros á vör og efast ég um að einhver hefði getað sinnt henni betur en þú. Alltaf var jafn gaman að skreppa á Siglufjörð til afa og ömmu og fá að brasa ýmislegt með þér, alltaf var nóg að gera og var alltaf hægt að hafa nóg fyrir stafni með þér. Nammikassarnir niðri í kjallara voru að sjálfsögðu í miklu uppáhaldi en aldrei varstu reiður þrátt fyrir að við værum að stelast í góðgætið sem þar var að finna.
Narfastöðum unnir þú mikið á seinni árunum, þar fékkst þú að dunda og var nóg fyrir stafni fyrir þig á sumrin, sumarið sem við eyddum saman á Narfastöðum er ógleymanlegt, það er ekki á hverjum bæ sem maður getur unnið með afa sínum. Kartöflur voru efst í þínum huga, þrátt
fyrir háan aldur og sjónin ekki upp á sitt besta þá ræktaðirðu samt sem áður kartöflur með góðri hjálp þeirra á Narfastöðum.
Ég þakka þér, elsku afi, fyrir öll þau ár sem ég fékk að eyða með þér, þau eru mér mikils virði og er ég þakklát fyrir að hafa átt þig að sem afa, einnig vil ég þakka þér innilega fyrir hve yndislegur þú varst við son minn, það var alltaf jafn yndislegt að sjá ykkur saman.
Minning þín lifir í hjörtum okkar, far þú í friði, elsku afi.
Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.
En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.
(Kahlil Gibran.) Elín Lilja Gunnarsdóttir og Gunnbjörn Ingi Agnarsson.