Tengt Siglufirði
Ásgrímur Einarsson, ávallt kallaður Bóbó, fæddist 7. nóvember 1929 á Siglufirði.
Hann lést á heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði, 19. maí 2010. Hann var sonur hjónanna Dórótea Sigurlaugar Einarsdóttir, f. 6. maí 1904, d. 24. mars 2001, og Einar Ásgrímsson, f. 6. nóvember 1896 d. 5. október 1979.
Hann og systkin:
Hálfbróðir Ásgríms samfeðra er Eysteinn Óskar Einarsson, f. 18. maí 1923, maki Sigríður Valdís Sörensdóttir.
Flest ár ævi sinnar bjó Ásgrímur að Grundargötu 9, Siglufirði, með foreldrum sínum og þar af seinustu 16 árin einn. Hann kvæntist aldrei, en segja má að hann hafi eignast hvert bein í börnum systkina sinna og barnabörnum, enda barngóður mjög.
Hann var heilsuhraustur alla tíð og þurfti ekki að sækja lækningu fyrr en komið var á níræðisaldurinn, og rómaði mjög þá aðhlynningu sem hann hlaut hjá starfsfólki heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði. Ásgrímur vann alla almenna vinnu, og fyrstu árin var hann sendill hjá verslun Sveins Hjartar, og þeyttist um á svarta sendilshjólinu.
Hann var í síld hjá Óla Henriksen og vann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Síðast vann hann í frystihúsi Þormóðs ramma á Siglufirði. Bóbó eins og Ásgrímur var kallaður hafði mikinn áhuga á fótbolta, var heiðursfélagi í Knattspyrnufélagi Siglufjarðar, KS, og var flinkur fótboltamaður.
----------------------------------------------------------
Föstudagur, 28. maí 2010
Ásgrímur Guðmundur Einarsson, ávallt kallaður Bóbó, fæddist 7. nóvember 1929 á Siglufirði. Hann lést á heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði, 19. maí 2010.
Hann var sonur hjónanna Dóróteu Sigurlaugar Einarsdóttur, f. 6. maí 1904, d. 24. mars 2001, og Einars
Ásgrímssonar, f. 6. nóvember 1896 d. 5. október 1979.
Systkin hins látna voru:
Flest ár ævi sinnar bjó Ásgrímur að Grundargötu 9, Siglufirði, með foreldrum sínum og þar af seinustu 16 árin einn. Hann kvæntist aldrei, en segja má að hann hafi eignast hvert bein í börnum systkina sinna og barnabörnum, enda barngóður mjög. Hann var heilsuhraustur alla tíð og þurfti ekki að sækja lækningu fyrr en komið var á níræðisaldurinn, og rómaði mjög þá aðhlynningu sem hann hlaut hjá starfsfólki heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði.
Ásgrímur vann alla almenna vinnu, og fyrstu árin var hann sendill hjá verslun Sveins Hjartar, og þeyttist um á svarta sendilshjólinu. Hann var í síld hjá Óla Henriksen og vann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Síðast vann hann í frystihúsi Þormóðs ramma á Siglufirði. Bóbó eins og Ásgrímur var kallaður hafði mikinn áhuga á fótbolta, var heiðursfélagi í Knattspyrnufélagi Siglufjarðar, KS, og var flinkur fótboltamaður. Útför Ásgríms fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 28. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 14.
Hann Bóbó vinur minn er allur. Ekki datt mér í hug þegar ég hitti Bóbó á sjúkradeildinni á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar hér á Siglufirði um daginn að þetta yrði síðasta skipti sem ég sæi hann. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að kynnast Bóbó þegar ég fór að vinna sem unglingur í frystihúsinu hér á Siglufirði. Þetta var í Ríkinu seinna „gamla Rammanum“ eins og við köllum frystihúsið í dag.
Það var ómetanlegt fyrir ungling eins og mig að fá að kynnast Bóbó og „körlunum“ sem unnu í tækjasalnum. Tækjasalurinn var niðri í frystihúsinu og snyrtisalurinn uppi. Ásamt Bóbó unnu líka í tækjasalnum Mikki, Jói á Nesi og Sveinn Björns (hennar Hansínu), allt öðlingar. Oft voru líka strákar sem unnu með þeim og man ég þá eftir Ragga Mikk og Bigga Dísu.
Strákarnir voru nú oft að hrekkja okkur stelpurnar. Ég vann í frystihúsinu á sumrin við snyrtingu og svo seinna í stimpilkompunni. Þá hafði ég einmitt mikil samskipti við Bóbó og samstarfsmenn hans. Ég bjó sem sagt til kassana fyrir fiskinn, sá um að líma þá og merkja. Í stimpilkompunni var stórt gat á gólfinu sem járnhleri lá yfir og þann hlera opnaði ég og henti niður kössunum fyrir þau tæki sem þeir voru að slá úr.
Í minningunni var Bóbó alltaf í góðu skapi, alltaf að gantast og svo var hann bara svo góður við mig. Ýmislegt var nú brallað t.d. vatn fryst í smokkum, svo var smokkurinn tekinn af og klakinn eins og hann var nú í laginu látinn renna inn á færibandinu með fiskinum í vinnslusalnum uppi. Það kom nú á sumar konurnar en oftast var mikið hlegið að þessu öllu saman. Það var innangengt niður í tækjasal svo að oft fór maður aðeins í heimsókn til „karlanna“ eins og maður kallaði þá og alltaf var tekið vel á móti manni.
Þeir kunnu líka fullt af bröndurum sem margir voru fremur svæsnir fyrir ungling eins og mig. Þeir hlógu alveg ógurlega þegar ég roðnaði eða varð vandræðaleg. Það var líka hægt að spjalla við þá um heima og geima og kunnu þeir fullt af sögum. Á síðasta dagi vinnuvikunnar hvort sem það var föstudagur eða laugardagur þá þurftum við að vinna lengur, því að það þurfti að klára að slá úr tækjunum. Þegar ég var búin að klára að búa til kassana fyrir fiskinn sagði Bóbó oft að ég mætti fara heim.
Hann skyldi bara fara upp og henda niður kössunum. Þá þurfti ég að fara í gegnum vinnslusalinn (í myrkri), niður í gegnum salinn þar sem básarnir fyrir fötin voru (líka í myrkri) til að komast út því allir aðrir voru löngu farnir heim. Ég var að sjálfsögðu alveg skíthrædd. Strákarnir sem líka unnu í tækjasalnum voru eins og áður er sagt hrekkjóttir og áttu það til að hrekkja mig.
Þar var Raggi Mikk fremstur í flokki. Hann kom skyndilega stökkvandi út undan einhverju borðinu í vinnslusalnum eða út úr einhverjum fatabásnum, bara til að gera mér illt við. Mér brá alltaf jafn mikið og öskraði af öllum lífs og sálar kröftum. Þetta klagaði ég svo í Bóbó næsta mánudag og fyrir rest sagðist ég ekki fara þessa leið lengur.
Þá sagði Bóbó: „Komdu bara niður stigann á bakvið og svo út um gluggann“, og ég gerði það. Þetta höfðu Raggi Mikk og félagar líka heyrt og þá lágu þeir bara í leyni þar, til að gera mér illt við. Að lokum sagði ég við Bóbó: „Nú fer ég hvoruga leiðina, ég kem bara í gegnum gatið, getið þið Mikki ekki bara gripið mig?“ „Jú, jú“ sagði Bóbó og ég lét mig bara detta niður í gegnum gatið og þeir gripu mig.
Ég treysti þeim 100%. Eftir það fór ég alltaf þessa leið heim. Það var samt ekki þannig að ég væri eitthvað reið út í strákana, heldur var þetta bara fyndið, þ.e. að þeim skyldi alltaf takast að gera mér illt við, þó svo að ég væri á varðbergi. Bóbó hló líka að þessu og hláturinn hans var óviðjafnanlegur, það ískraði í honum, þegar hann sagði: „Þeir náðu þér eina ferðina enn“.
Oft vorum við unglingarnir að ærslast í eltingaleikjum og vatnsslag en þegar Bóbó og félagar sögðu að nú væri nóg komið þá hættum við um leið. Seinna þegar ég var orðin fullorðin og hitti Bóbó á förnum vegi, rifjuðum við oft upp gamlar minningar frá frystihúsárunum. Þá sagði hann alltaf við mig: „Manstu þegar þú lést þig detta niður í gegnum gatið?
Manstu þegar þú sagðist ekkert skilja í því að þú værir búin með alla peningana þína, í búðinni hjá Önnu Láru?“ (sú saga verður reyndar ekki sögð hér) og fleira og fleira var rifjað upp. Svo var hlegið. Eitt er alveg víst að fyrir ungling eins og mig þá var alveg ómetanlegt að fá að kynnast Bóbó og hefur mér einfaldlega alltaf þótt vænt um hann síðan. Hann var það sem maður kallar traustur vinur. Ég á eftir að sakna hans mikið, en minningarnar á ég og þær lifa áfram. Ég votta aðstandendum Bóbós samúð mína.
Með samúðarkveðju, Maddý Þórðar