Barði Guðmundur Ágústsson

mbl. 

Barði Ágústsson fæddist í Siglufirði hinn 18. október 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni í Fjallabyggð 8. mars 2012

Foreldrar hans voru hjónin  Steinþóra Barðadóttir, f. 14.5. 1883, d. 6.2. 1961, og Ágúst Einar Sæby, f. 9.2. 1891, d. 25.10. 1964, 

 • Barði var yngstur fimm systkina. Þau voru:
 • Aldís Björg Ágústsdóttir, f. 1912, d. 1995,
 • Guðrún Hafdís Ágústsdóttir, f. 1915, d. 2000,
 • Andreas Ágústsson, f. 1917, d. 1941, og
 • Vilhelm Ágústsson, f. 1921, d. 2003.

Barði Ágústsson sem var barnlaus, bjó alla ævi á Siglufirði. Hann vann almenn verkamannastörf bæði til sjós og lands.

Barði Ágústsson - Ljósm. mbl

Barði Ágústsson - Ljósm. mbl

Útför Barða fer fram frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 17. mars 2012 og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Barði frændi hefur kvatt, síðastur systkinanna á Lindargötu 4. Fyrstur lést faðir minn Andreas langt fyrir aldur fram en hann fórst með Hirti Péturssyni árið 1941. Frændi var mikill á velli, vann hörðum höndum í fiski meðan heilsan leyfði, reri á trillunni Þristi með afa og saman voru þeir með kindur á Lindargötunni. Bræðurnir Barði og Villi auk afa voru mér alla tíð sem feður og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Barði var fróður og hafði gaman af að segja okkur Hjalta frá liðinni tíð og samtíðarfólki sínu og tókst oft á flug. Þegar við komum til hans í haust sagði hann okkur m.a. frá hurðinni sem er fyrir fjárhúsinu á hlaðinu á Lindargötunni. Já það leita margar minningar á hugann nú þegar Barði minn er farinn.

Ég bið góðan guð að blessa minningu Barða Ágústssonar.

 • Kallið er komið,
 • komin er nú stundin,
 • vinarskilnaðar viðkvæm stund.
 • Vinirnir kveðja
 • vininn sinn látna,
 • Er sefur hér hinn síðasta blund.

(Vald. Briem)

Þín Erla María.
-------------------------------------------------

 Þá er Barði föðurbróðir minn allur, síðastur systkina úr Lindargötu 4 á Siglufirði.

 Ég mun sakna þess að tala við Barða um gamla tímann því hann mundi svo margt sem gaman var að rifja upp.

Það eru um 60 ár síðan ég flutti úr Lindargötunni þar sem við Gústi bróðir áttum heima með mömmu, pabba, afa, ömmu og Barða sem hafði herbergi í kjallaranum. Í Lindargötu 4 var töluverður sjálfsþurftarbúskapur eins og algengt var á þeirri tíð. Afi og Barði áttu kindur, fjárhúsið var á lóðinni og stendur enn, lítið sund milli íbúðarhúss og fjárhúss. Einnig sóttu þeir björg í bú á trillunni Þristi, síðan var saltað og hert og líka verkaður hákarl. Aldrei var matarlaust í Lindargötunni.

Barði hafði mikla ánægju af söng og kunni ógrynni af kvæðum, lét gjarna í sér heyra og flestir muna hann syngjandi og sönglandi. Fótbolti var einnig hans áhugamál og hann hafði mjög gaman af að horfa á og fylgjast með honum í sjónvarpinu.

Barði gerði ekki kröfur til annarra og lifði fábrotnu lífi, var heiðarlegur, vinnusamur verkamaður. Hans staður var Siglufjörður, fjöllin og fjörðurinn. Systkini hans voru honum mikils virði og var kært á milli þeirra. Barði fylgdist með börnum þeirra og fjölskyldum alla tíð. Hann fór aldrei til útlanda og ferðaðist lítið en fylgdist vel með því sem var að gerast í heiminum. Eftir að foreldrar hans féllu frá bjó hann einn í Lindargötunni allt þar til 2001 þegar hann fór á Sjúkrahús Siglufjarðar þar sem vel var hugsað um hann.

Ég kveð minn kæra frænda með þökkum fyrir allt það góða sem hann gaf mér.

Steinþóra. 
---------------------------------------

Minning um góðan mann

Smá lýsingingar á Barða Ágústssyni.

Þegar stóri jarðskjálftinn 7,1 á  á 27. mars 1963

Hann var ásamt vinnufélögum sínum, hafnarverkamenn (Stúarafélag Siglufjarðar) sem voru gangandi á leið heim eftir vinnu við kolaskip (minnir mig) og voru á Gránugötunni þegar jarðskjálftinn dundi yfir með miklum gný í fyrstu, og síðar tók jörðin að hristast undir fótum þeirra og í sama mund byrjuðu kirkjuklukkurnar að klingja af völdum skjálftans.

Þá mun Barði Ágústsson, hafa sagt eitthvað á þessa leið:

“Nú er betra að vara sig, heimsendir er kominn” Sumir segja raunar að hann hafi sagt “Nú er betra að vara sig, skrattinn er kominn”

En örugglega hefur Barði sagt eitthvað krassandi, því hann var oft fljótur til svara.
------------------------------

Þá er hér önnur saga, skrifuð eftir minni.

En þessi saga lifði lengi í minni fólks og sögð víða og svona eins og gengur; ekki ávalt nákvæmlega eins, úr hverjum munni.

Barði og móðir hans versluðu aðallega við Verslun Gests Fanndal, og var því Barði tíður gestur þá í búð.
Hann mun hafa rekið augun í Þvottavél sem Gestur hafði til sölu og spurði Gest hvað þetta eiginlega væri. Gestur lýsti gripnum eins og góðum kaupmanni, og benti á öll þægindin sem svona vé gæti veitt.
Og í leiðinni hvatti hann Barða til að kaupa þvottavélina, og minnka með því allt erfiði móður hans við alla handþvotta og nudd við þvottabrettið.

Enginn vafi var á að allt vildi Barði gera fyrir móður sína, og keypti þvotta vélina. Gestur bauðst til að keyra vélina heim til hans, en hann bjó hjá móður sinni og var ókvæntur.
Barði afþakkað það og setti þvottavélina á öxlina, og bar hana án hvíldar upp brekkuna heim til sín og inn í hús sitt við Lindargötu.

Hvað þeim bar á milli er hann sýndi móður sinni gripinn, er ekki á lausu, en nokkrum dögum síða er Barði átti erindi í verslun Gests.
Þá spurð Gestur brosandi, hvernig mömmu hans hefi litist á gripinn. Barði svaraði stuttur í spuna:

"Hún vildi ekki sjá helvítis þvottavélina, Þvottabrettið og balinn hefði dugað henni hingað til, og að hún ætlaði ekki að breyta því neitt.
Og þvottavélin væri enn  þar sem hann setti hana."

Meira vildi Barði ekki segja. Gestur bauðst til að taka við vélinni til baka, en því afþakkaði Barði, með þeim orðum að kannski snérist henni hugur síðar.
------------------------

Og enn ein saga af Barða, saga sem ég varð vitni af, en skrifa nú eftir minni.

Ég kynntist Barða lítillega er ég var um tvítugt, en oft snapaði ég mér vinnu hjá Stúurunum, sem oftast gekk þegar fleiri en eitt skip var við lestun eða losun. Verið var að lesta mjölskip út við Öldubrjót og annað nýkomið við Hafnarbryggjuna með timburfarm.

Í kaffitíma síðdegis, sat ég inni í kaffistofu/afdrepi sem Stúarararnir  höfði í Hafnarhúsinu norðanverðu. Eitthvað deiluefni um aðgerðir Bæjarstjórnar hafði um tíma verið á milli tanna almennings og upp voru komin hávær orðaskipti og rifrildi á milli vinnufélaga okkar, sem hvorugur okkar Barða tóku þátt í.
Eitt smá augnablik myndaðist eftir hvöss orð eins félaga okkar, sem hinir þurftu að íhuga aðeins. Þetta hlé notaði Barði og sagði: "Hættið þessu helvítis orðaskaki, þið ættuð að vita að þeir ráða þessu mennirnir" (þar átti hann við Bæjarstjórnina)  Ekki var minnst á deiluefnið aftur.   
Þetta er eitt af mörgu sem lýsir þessum góða og vinsæla manni, sem engum gerði mein, og vild engin læti í nálægð sinni.

Steingrímur Kristinsson