Baldvina Marsibil Jóhannsdóttir

Baldvina Jóhannsdóttir - Fædd 12. september 1908 á Siglufirði lést þann 23. október 1986. á Siglufirði. 

Baldvina var , dóttir hjónanna  Marsibil Herdís Baldvinsdóttir og Jóhann Jóhannsson.

Börn þeirra hjóna voru sjö og eru þrjú þeirra enn á lífi, búsett á Siglufirði.

Móðir Baldvinu lést árið 1923 frá barnahópnum sem þurfti þá að koma í fóstur. 

Baldvina ólst upp hjá þekktum merkishjónum, Guðrún Björnsdóttir og Þormóður Eyjólfsson, búsettum á Siglufirði. Minntist Baldvina þessara fósturforeldra með virðingu og hlýhug.

Það var á haustdögum fyrir tæpum 55 árum að ég fór í mína fyrstu kaupstaðarferð til Siglufjarðar, þá á tíunda ári. Á Siglufirði áttu heima margir af mínum nánustu ættingjum þar á meðal amma og afi og föðursystkini. Það var í þessari ferð sem ég sá hana Baldvinu í fyrsta sinn, en þá var hún nýlega gift Friðvin Jóakimsson, móðurbróður mínum.

Baldvina Jóhannsdóttir  Ljósmynd: Kristfinnur

Baldvina Jóhannsdóttir Ljósmynd: Kristfinnur

Þessi kaupstaðarferð er mér fersk í minni og yfir henni hvílir ævintýraljómi barnsins sem ólst upp við fábreytileika sveitalífsins. Fyrsta stórundrið birtist þegar ég var staddur í Siglufjarðarskarði og við blasti ljósum prýdd byggðin í kvöldrökkrinu, líkt og allar stjörnur himinsins hefðu safnast saman á þennan eina stað. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá rafljós.

Það var fleira framandi sem fyrir augu og eyru bar þegar niður í byggðina kom. Baldvina og Friðvin bjuggu í lítilli íbúð á fyrstu hæð í stóru húsi. Fyrir mig sveitasnáðann var þetta litla heimili ævintýraheimur út af fyrir sig. Þar var allt fágað og fínt og margt að sjá sem ég hafði aldrei áður augum litið. Mér eru ekki síður minnisstæðar móttökurnar sem þessi unga, broshýra kona veitti mér er hún tók mig í faðm sér og bauð mig velkominn.

En þetta var aðeins upphafið að okkar samskiptum sem hafa haldist, með nokkrum hléum þó eftir að ég fluttist til Reykjavíkur. Ég minnist þess hvað hún tók miklu ástfóstri við Guðný Kjartansdóttir dóttur mína eftir að hún hafði dvalist að sumri til hjá henni á Siglufirði þegar hún var smástelpa.
Ég minnist einnig heimsókna hennar á okkar heimili því henni fylgdi ætíð ferskur andblær og gleði.

Þessir skapgerðareiginleikar hafakomið sér vel í hennar lífi sem ekki var alltaf dans á rósum. Friðvin átti við langvarandi veikindi að stríða og lengst af rúmliggjandi á sínu heimili.  Þá kom það í hlut hennar að vera fyrirvinna heimilis og jafnframt að veita sjúkum eiginmanni aðhlynningu og hjúkrun.

Þetta hlutverk rækti hún svo vel að undrun sætti og án þess að kvarta yfir sínu hlutskipti, ljósu hliðarnar á lífinu var það sem hún beindi huganum að. Þau Friðvin og Baldvina áttu engin börn saman en Baldvina átti son áður en hún giftist, Þór Herbertsson, og bjuggu þau mæðginin saman á Siglufirði eftir að Friðvin dó í ágúst 1969.

Þótt Baldvina væri lítil vexti stafaði frá henni virðuleika. Hún var kvik í hreyfingum og létt á fæti, beinvaxin og kvenleg í útliti og fasi, þessum eðliseinkennum hélt hún til dauðadags. Hún var smekkleg og myndvirk um það vitnuðu öll hennar verk og þá ekki síst heimilið. Henni var lagið að framkalla fegurðina án íburðar, það var hennar lífsstíll. Hún var félagslynd og lét að sér kveða á þeim vettvangi eftir því sem aðstæður leyfðu. Hún las mikið og hafði næman smekk fyrir bundnu máli.

Ég og fjölskylda mín minnumst hennar Baldvinu með söknuði. Viðvorum farin að hlakka til að fá hana í heimsókn næsta sumar. En það er lögmál lífsins að leiðir skiljast án fyrirvara.

Ég og fjölskylda mín sendum nánustu ættingjum og vinum Baldvinu samúðarkveðjur.

Hjálmar Jónsson.
---------------------------------------------------------

Baldvina M. Jóhannsdóttir, Siglufirði Fædd 12. september 1908 Dáin 23. október 1986 Baldvina frænka mín er dáin. Erfitt var að trúa því að morgni 23. október. Kvöldið áður höfðum við átt svo langt og gott samtal. Eitt samtalið af svo mörgum.

Baldvina var fædd í Siglufirði 12. september 1908. 

Foreldrar hennar voru Marsibil Herdís Baldvinsdóttir, Jóhannssonar, útvegsbónda á Siglunesi og Jóhanns Jóhannssonar frá Engidal.

Þau hjón eignuðust sjö börn:

Jóhann,

Baldvina,

Kristrún,

Marta,

Halla,

Oddur Guðmund (lést í æsku) og

Gunndóra.

Jóhann, Marta og Gunndóra eru á lífi, búsett á Siglufirði.

Móðir þeirra, Marsibil Herdís, átti við mikil veikindi að stríða og lést ung 1923, aðeins 39 ára gömul. Var barnahópnum komið í fóstur og Baldvinu komið fyrir hjá þeim merkis hjónum Þormóði Eyjólfssyni og Guðrúnu Björnsdóttur frá Kornsá. Baldvina var þá 11 ára. Var hún þeim hjónum ætíð þakklát fyrir hve vel þau reyndust henni.

Baldvina eignaðist son, Þór Herbertsson, og bjuggu þau saman að Norðurgötu 4. Baldvina giftist Friðvin Jóakimsson, sem átti ættir að rekja í Fljótin. Bjuggu þau allan sinn dag á Siglufirði. Friðvin átti við mikla vanheilsu að stríða og var rúmliggjandi síðustu árin. Annaðist þá Baldvina hann af einstakri alúð og umhyggju.
T.d. man ég að oft vakti hún langt fram á nætur við saumaskap til að sjá þeim farborða. Friðvin andaðist í ágúst 1969.

Baldvina var greind kona og fróð og kunni skil á mörgu og hún var með afbrigðum minnug 

Hún tók þátt í ýmsum félagsstörfum, var virkur félagi í Systrafélagi Siglufjarðarkirkju, Félagi eldri borgara og ekki síst Sjálfstæðisfélaganna á Siglufirði. Fór áhugi hennar ekki dvínandi nema síður væri, og alltaf var hún tilbúin til starfa.

Baldvina hafði mikla ánægju af að spila á spil og þótti henni góð skemmtun að taka í spil með kunningjunum. Gestrisin var hún og höfðingi heim að sækja. Gekk ætíð heil og ötul að hverju verki, jafnt innanhúss sem utan og má segja að sjaldan félli henni verk úr hendi.

Dætur mínar kölluðu hana ömmu og mér var hún sem besta móðir. Til hennar gat ég leitað með mín vandamál. Elsku frænka mín. Ég man eftir mér sem lítilli stelpu heima hjá henni og Friðvini og hvernig þau léku við mig. Sú saga endurtók sig með mínar dætur og svo dótturbörn.

Allt þetta viljum við þakka og eins hvernig hún var foreldrum mínum í þeirra veikindastríði.

Nú, þegar frænka mín er öll, eru mér þakkir efstar í huga og óskir um góða heimkomu á landi lifenda.

Þór, frænda mínum, og aðstandendum öllum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Brynja Stefánsdóttir.